Rétttrúnaðarkirkjan

Rétttrúnaðarkirkjan, einnig verið kölluð Austurkirkjan, er kristið samfélag sem telur sig vera runnið beint frá fyrsta kristna söfnuðinum, sem stofnaður var af Jesú og postulunum, og hafa varðveitt órofið samband milli embættismanna kirkjunnar og postulanna gegnum postullegu erfðakenninguna. Hún telur sig einnig hafa best varðveitt siði og hefðir fyrsta safnaðarins og fylgja nánast þeim kennisetningum sem samþykktar voru á fyrstu sjö kirkjuþingunum sem haldin voru á tímanum frá 4. til 8. aldar. Rétttrúnaðarkirkjan er ekki miðstýrð eins og sú kaþólska, heldur eru kirkjudeildirnar sjálfstæðar þjóðkirkjur. Yfir hverri kirkjudeild er patríarki og nýtur patríarkinn í Konstantínópel af hefð meiri virðingar en hinir en er þó einungis álitinn vera „fremstur meðal jafningja“. Á flestum málum er kirkjan kölluð orþodox, en það er orð sem kemur úr grísku orðunum ορθός „rétt“ og δόξα „trú“, það er að segja „hin rétta kenning“.

Kristur hinn almáttugi, Kristos Pantokrator. Íkon frá Klaustri heilagrar Katarínu á Sínaí-skaga, frá 6. eða 7. öld

Saga breyta

Kristni náði fyrst fótfestu í austurhluta rómaveldis þar sem gríska var aðal samskiptatungumálið. Páll postuli og postularnir tólf ferðuðust víða um Rómaveldi og stofnuðu söfnuði. Þeir fyrstu í Antiokkíu, Alexandríu og Jerúsalem og fljótlega einnig í pólitísku aðalstöðunum Róm og Konstantínópel. Með stofnun þessara safnaða skapaðist hinn postullegi arfur en þessi hugmynd hefur skipt meginmáli í sjálfsímynd kirkjunnar sem verndara hinar réttu trúar. Ofsóknir gagnvart kristnum mönnum hættu árið 313 þegar Konstantín mikli veitti þeim trúarfrelsi. Konstantín flutti höfuðborg Rómaveldis frá Róm til Konstantínópel 330. Frá stjórnartíma Theodosiusar I (379 – 395) fóru keisarar Austrómverska ríkisins í vaxandi mæli að ráðskast með málefni kirkjunnar þó þeir væru ekki formlegir yfirmenn.

Rétttrúnaðarkirkjan viðurkennir einungis þessi sjö kirkjuþing:

  1. Fyrsta kirkjuþingið sem kallað var saman af Konstantín keisara í Níkeu í Litlu-Asíu árið 325. Þar var kenningu Aríusar um að Jesús væri aðeins sköpuð vera, æðst slíkra og að Kristur væri önnur himnesk vera ótengd Jesú hafnað. Var þar Jesús Kristur viðurkenndur sonur Guðs, jafn Guði föður að eðli til og ætti að tilbiðja hann sem slíkan.
  2. Annað kirkjuþingið sem var haldið í Konstantínópel árið 381 sem staðfesti Níkeujátninguna. Aðalmál þingsins var að skilgreina Heilagan anda sem jafnan hinum tveimur í Heilagri þrenningu sem hafði verið umdeilt.
  3. Þriðja kirkjuþingið í Efesos árið 431 samþykkti að María mey væri „móðir Guðs“ (sem á grísku er nefnt Theotokos), andstætt kenningum Nestoriusar.
  4. Fjórða kirkjuþingið sem haldið var í Kalkedon árið 451 sem ályktaði að eðli Jesú væri samtímis guð og maður án þess að það blandaðist saman andstætt kenningum eineðlissinna (mónófýsíta).
  5. Fimmta kirkjuþingið í Konstantínópel árið 553 staðfesti og skilgreindi nánar Kalkadon-þingsins um tvíeðli Jesú og afneitaði kenningum Origenesar um líf sálarinnar fyrir fæðingu.
  6. Sjötta kirkjuþingið sem haldið var í Konstantínópel árið 681 lýsti því yfir að Kristur hefði tvo vilja tengda tvíeðli hans, andstætt kenningum eineðlissinna (mónófýsíta).
  7. Sjöunda kirkjuþingið árið 787 sem þekktara er sem Annað Níkeu-þingið. Þar var samþykkt að það væri rétt sýna trúarlegum myndum (íkonum) virðingu en bannaði samtímis gerð þrívídda mynda og dýrkun mynd.

Klofningur Rómaríkis í Austrómverska og Vestrómverska ríkið á 5. öld leiddi meðal annars af sér að kirkjan skiptist í austur og vesturhluta. Biskupinn í Róm hafði aukið völd sín smám saman og varð embætti hans að því sem kallað er páfaveldi. Páfinn krafðist þess að allar kristnar kirkjur viðurkenndu embætti hans sem leiðtoga og yfirmann kristni. Austurkirkjurnar neituðu að sætta sig við það og ákærðu latnesku kirkjuna um rangtúlkanir á ýmsum trúaratriðum. Klofningurinn varð algjör árið 1054 þegar sendimaður páfa skildi eftir bannlýsingu á patríarkanum í Konstantínópel á altarinu í Hagia Sofia kirkjunni. Enn verra verð sambandið þegar krossfarar í fjórðu krossförinni árið 1204 rændu og rupluðu Konstantínópel. Allt frá þeim tíma hafa kaþólska kirkjan og rétttrúnaðarkirkjan verið aðskildar þó samtöl og samskipti milli þeirra hafi verið tekin upp á nýtt á síðustu áratugum.

Árið 1453 féll Kostantínópel, síðasta vígi Býsansríkisins, í hendur Ottómana. Þegar þetta gerðist hafði stærsti hluti þess svæðis í Asíu og Norður-Afríku sem áður hafði fylgt rétttrúnaðarkirkjunni snúist að mestu til íslam, meðal annars Egyptaland. Kristnar kirkjudeildir héldust þó við sem minnihlutahópar og hafa gert allt fram á vora daga í miðausturlöndum. Gríska rétttrúnaðarkirkjan undir stjórn partíarkans í Konstantínópel fékk sérstöðu í Ottómanska veldinu sem sérstakt millet (trúfélag).

 
Rétttrúnaðarkirkja í Ulan Ude, Rússlandi

Á 9. og 10. öld stundaði rétttrúnaðarkirkjan mikið trúboð í Austur-Evrópu og hafði mikinn framgang. Andstætt kaþólsku kirkjunni notuðu trúboðarnir og hinir nýju söfnuðir tungumál innfæddra við helgigerðir og þýddu fljótlega helgiritin. Kirkjurnar urðu sjálfstæðar einingar, nánast þjóðkirkjur þó tunga og ekki ríkismörk settu mörkin.

Fyrir Októberbyltinguna hafði rétttrúnaðarkirkjan sérstöðu í rússneska keisaradæminu. Hún var hluti af ríkisvaldinu með sérstakt ráðuneyti sem kallað var Heilaga synódan sem heyrði beint undir keisarann sjálfan. Í upphafi sovéttímans var kirkjan hins vegar ofsótt og Stalín lét meðal annars byggja um margar kirkjur sem gripahús og geymslur. Eftir því sem tíminn leið fékk kirkjan meira svigrúm þó svo að stjórnvöld litu hana hornauga og sérlega allt samband við kristna erlendis.

Eftir fall kommúnistastjórnanna í Austur-Evrópu og sérlega í Rússlandi hefur rétttrúnaðarkirkjan endurheimt mikið af fornri stöðu í þjóðfélaginu. Rússneska kirkjan er stærsta kirkjudeild rétttrúnaðarkirkjunnar.

Árið 2018 klauf úkraínska rétttrúnaðarkirkjan sig frá þeirri rússnesku vegna spennu milli veraldlegra stjórnvalda Rússlands og Úkraínu. Bartólómeus patríarki í Konstantínópel hafði gefið Úkraínumönnum leyfi til þess að stofna sjálfstæða kirkjudeild í október sama ár. Kírill, patríarki rétttrúnaðarkirkjunnar í Moskvu, brást við með því að slíta tengslum kirkju sinnar við patríarkann í Konstantínópel.[1][2]

Trú breyta

Rómversk-kaþólska kirkjan og rétttrúnaðarkirkjan álíta sig vera, hver um sig, hin „eina, heilaga, almenna og postullega kirkja“ sem nefnd er í Níkeujátningunni,[3] það er alþjóðakirkjan („hin almenna kirkja“ heitir á grísku kaþolikē ekklēsia). Deilumál milli þessara kirkjudeilda hafa verið fjölmörg, meðal annars hvort altarisbrauðið eigi að vera gerjað (rétttrúnaðarkirkjan) eða ógerjað (kaþólska kirkjan og mótmælendakirkjurnar) og eins hvort Heilagur andi gangi einungis út frá Föðurnum (rétttrúnaðarkirkjan) eða bæði Föðurnum og Syninum (kaþólska kirkjan). Rétttrúnaðarkirkjan leyfir giftum mönnum að vera prestar en það bannar kaþólska kirkjan.

Rétttrúnaðarkirkjan álýtur sig varðveita sömu trú og fyrsta kristna kirkjan og leggur þess vegna mikla áherslu á að viðhalda helgihaldi óbreyttu. Á sama hátt og kaþólska kirkjan leggur rétttrúnaðarkirkjan mikla áherslu á helgi og rétt postullegu erfðakenningarinnar.

Það er einungis hægt að skilja Biblíuna, sem er þungamiðja í trúarkenningunni, í samhengi við Hina heilögu hefð. Rétttrúnaðarkirkjan álítur, andstætt mótmælendakirkjunum, að lestur og íhugun á Biblíunni einni og sér á parti, hið svo nefnda sola scriptura, taki hana úr samhengi við þann heim sem hún skapaðist í og geri hana óskiljanlega. Það er því einungis hægt að skilja ritninguna á réttan hátt innan rétttrúnaðarkirkjunnar.[4] Þar sem aðrir hafa fundið mótsagnir í frásögum Biblíunnar álítur rétttrúnaðarkirkjan að báðar frásagnir séu jafn sannar og séu jafn mikilvægar. „Mótsagnirnar“ eru heilög dulúð sem menn geta ekki skilið.

Altarisganga er einn mikilvægasti þátturinn í trúarlífinu og ganga flestir til altaris ekki sjaldnar en einu sinni í mánuði. Þegar sá sem gengur til altaris bergir brauðið og víninu við altarisgöngu verður brauðið bókstaflega að holdi og vínið að blóði Krists gegnum Heilagan anda. Rétttrúnaðarkirkjan hefur aldrei gert tilraun til að útsýra nánar hverning þetta gerist.[5]

Ætíð er fastað fyrir altarisgöngu en það er misjafnt hversu löng fastan er eða allt frá nokkrum klukkustundum (í grísku rétttrúnaðarkirkjunni) upp í tvo daga, það er frá og með föstudegi til sunnudags (í rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni). Börn, hafandi konur og sjúklingar eru undanþegnir föstu. Fasta þýðir hér að þeir sem fast borða hvorki kjötmjólkurafurðir meðan á föstu stendur. Kirkjan hafur gefið út ákveðnar reglur um föstu en það er val einstaklingsins hvort hann fastar eða ekki.

Á sama hátt og kaþólikkar, en andstætt mótmælendum, álíta rétttrúarsinnar að dýrlingar, píslarvættir og sérlega guðrækið fólk, geti verið milligöngumenn milli Guðs og manna.

Íkonar breyta

 
Guðsmóðirin frá Vladimir, Theotokos frá Vladimir eða Vladimirskaya er einn af virtustu íkonunum frá 1131

Íkonar eru helgimyndir, oftast málaðar á tréplötur. Á þeim eru myndir af Jesú, Maríu mey, postulunum og dýrlingum eða sögur úr Biblíunni. Algengastir eru íkonar sem sýna Maríu Guðsmóður. Gerð íkona eru háð ströngum myndbyggingarlegum reglum og hafa aldrei verið ætlað að vera raunsæisverk. Hver íkoni er meira og minna nákvæm eftirmynd þekktrar fyrirmyndar. Þessi hefð helgast af því myndirnar eru taldar búa yfir kynngi og kraftaverkamætti. Íkonar eru mikilvægur þáttur í öllum guðshúsum réttrúarkirkna en þeir eru einnig algengir á heimilum. Mörg kraftaverk eru rakin til áhrifamáttar íkona og sumir þeirra hafa orðið víðfrægir.

Heitið íkon kemur af gríska nafnorðinu εἰκών „eikon“ sem þýðir mynd og sagnorðinu „eikenai“, að líkjast. Íkon er ekki mynd „af“ einhverju heldur er raunveruleiki, andlegur gluggi. Sá sem horfir á það er talinn vera viðstaddur atburðina. Íkoninn á því rétt á sömu virðingu og er heiðraður á sama hátt og persónurnar sem eru á honum.[6]

Krossinn breyta

 
Venjulegasta krossgerð rétttrúnaðarkirkjunnar

Rétttrúnaðarkirkjan notar margar gerðir af krossum, ein sú algengasta er þriggja þversláakrossinn sem sjá má á mynd hér til hliðar. Efsta þversláin táknar merki það sem Pontíus Pílatus lét negla fyrir ofan höfuð Jesú en í stað latnesku skammstöfunarinnar INRI (Iesus Nazarenus Rex Iudaeorum, það er „Jesús frá Nasaret, Konungur gyðinga“) þá er notuð gríska INBI eða slavneska samsvörunin ІНЦІ. Neðsta þversláin, sem ekki finnst á svo kölluðum latnesku krossum, hallar ætíð. Sögulegar og biblíulegar heimildir eru fyrir því að slík þverslá hafi verið notuð við krossfestingar í Rómarveldi til að taka þunga af handleggjunum og þar með lengja dauðastríðið. Ástæðan fyrir því að krossgerðin sýnir alltaf að sláin hallar er annars vegar til að sýna píningu Jesú og hins vegar táknrænt að þjófurinn á hægri hönd Jesú kaus réttu leiðina og sá á vinstri hönd gerði það ekki.

Skipulag breyta

Rétttrúnaðarkirkjan er skipulögð að mestu sem þjóðkirkjur. Patríarkinn í Konstatntínópel er viðurkenndur sem fremstur meðal jafningja og hefur úrskurðarvald í ýmsum málum. Yfir hverri þjóðkirkju er patríark, erkibiskup eða metrópólít.

Sjálfstæðar kirkjudeildir réttrúnaðarkirkjunnar:

Prestar í rétttrúnaðarkirkjunni geta verið giftir hins vegar verða munkar að stunda skírlífi. Einungis munkar geta orðið biskupar og patríarkar.

Rétttrúnaðarkirkjan á Íslandi breyta

Tveir söfnuðir á Íslandi tilheyra rétttrúnaðarkirkjunni, Söfnuður heilags Nikulásar úr Moskvupatríarkatinu í Reykjavík ( Rússneska Rétttrúnaðarkirkjan á Íslandi )með 144 safnaðarmeðlimum og Fæðing Heilagrar Guðsmóður (serbneska rétttrúnaðarkirkjan) með 163 safnaðarmeðlimum.

Heimildir breyta

  1. Vera Illugadóttir (15. desember 2018). „Úkraínumenn stofna sjálfstæða kirkju“. RÚV. Sótt 29. janúar 2019.
  2. Anna Kristín Jónsdóttir (11. desember 2018). „Hin þriðja Róm fallin“. RÚV. Sótt 29. janúar 2019.
  3. Níkeujátningin á vef Þjóðkirkjunnar.
  4. Ware, Timothy. The Orthodox Church. (Penguin Books, 1997): Blaðsíður 199-200.
  5. Ware, Timothy. The Orthodox Church. (Penguin Books, 1997): Blaðsíður 283-285.
  6. Ólafur H. Torfason. Íkon - og býsanska arfleifðin að fornu og nýju, á Íslandi og annars staðar. (Reykjavík, 1998).

Almennar heimildir breyta

  • Harakas, Stanley H. The Orthodox Church; 455 Questions and Answers. (Light and Life Publishing Company, 1988). ISBN 0-937032-56-5
  • Jaroslav, Pelikan. The Spirit of Eastern Christendom (University of Chicago Press, 1974). ISBN 0-226-65373-0
  • Oeldemann, Johannes. Die Kirchen des christlichen Ostens (2006). ISBN 3-7867-8577-5
  • Ware, Timothy. The Orthodox Church (Penguin Books, 1997). ISBN 0-14-014656-3

Tenglar breyta