Malaví

Land í Suðaustur-Afríku

Malaví er landlukt land í Suðaustur-Afríku sem liggur á milli Mósambík, Sambíu og Tansaníu. Helsta einkenni Malaví er Malaví-vatn sem nær yfir tæplega fimmtung landsins, en samtals er flatarmál Malaví 120 þús. ferkílómetrar.

Republic of Malawi
Dziko la Malaŵi
Fáni Malaví Skjaldarmerki Malaví
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Unity and freedom (enska)
Samheldni og frelsi
Þjóðsöngur:
Mlungu dalitsani Malaŵi
Staðsetning Malaví
Höfuðborg Lílongve
Opinbert tungumál Enska,chichewa
Stjórnarfar Forsetaræði

Forseti Lazarus Chakwera
Sjálfstæði frá Bretlandi
 • Yfirlýst 6. júlí 1964 
 • Lýðveldi 6. júlí 1966 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
98. sæti
118.484 km²
20,6
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar
62. sæti
19.129.952
153,1/km²
VLF (KMJ) áætl. 2019
 • Samtals 25,037 millj. dala (148. sæti)
 • Á mann 1.234 dalir (185. sæti)
VÞL (2019) 0.483 (174. sæti)
Gjaldmiðill kvatsja (MWK)
Tímabelti UTC+2
Þjóðarlén .mw
Landsnúmer +265

Malaví er eitt af þéttbýlustu löndum í Afríku og búa þar alls 11 milljónir manna. Fólkið lifir helst á landbúnaði og fiskveiðum í Malaví-vatni. Mikil fátækt ríkir í landinu en ríkari lönd keppast við að hjálpa Malavíbúum með því að kenna þeim arðbærari vinnubrögð í landbúnaði og fiskveiðum, ásamt fullorðinsfræðslu.

Saga breyta

Mannvistarleifar sem fundist hafa í Malaví eru taldar vera frá að minnsta kosti 8.000 f. Kr. en þær sýna að ættbálkarnir líktust nokkuð því fólki sem býr á Sómalíuskaga á okkar dögum. Einnig hafa fundist mannvistarleifar og hellaristur frá því um 1.500 f. Kr. sem sýna að þar voru Búskmenn.

Á 15. öld var Maravi-veldið stofnað við suðvesturströnd Malaví-vatns og fór þar Amaravi-þjóðin (seinna þekkt sem Chewa-fólkið) sem flúði frá því svæði sem nú er Vestur-Kongó. Maravi-veldið stækkaði og náði yfir bæði Mósambík og Sambíu en leið loks undir lok á 18. öld vegna þess að þrælasala og átök meðal æðstu manna veiktu veldið.

Orðið Maravi er talið þýða ljósgeislar, en þjóðin vann mikið járn og lýstu járnbræðsluofnarnir upp næturhimininn — af því er nafnið dregið. Í strandhéruðunum þar sem nú er Sambía verslaði Maravi-fólkið við evrópska sæfara, sérstaklega Portúgala en einnig við Araba. Helst seldu Maravar járn, fílabein og þræla, en þeir ræktuðu einnig hirsi og kartöflur.

Portúgalar juku verslun sína á 16. öld og komu nú í hafnarborgina Tete. Þeir fluttu maís til landsins og við það breyttist mataræði Marava. Maravar seldu Portúgölum þræla sem sendir voru á plantekrur í Mósambík og Brasilíu.

Á 17. öld réðst Angoni-þjóðflokkurinn inn í Maravi-veldið en hann var á flótta undan Zulu-ættbálkinum, undir stjórn Shaka. Einnig flutti Yao-þjóðflokkurinn sig inn á svæðið til að forðast Makua-ættbálkinn sem var að sölsa undir sig Norður-Mósambík. Yao-menn skiptu um trú eftir að hafa kynnst arabískum verslunarmönnum og tóku upp íslam árið 1870, með tilheyrandi höfðingjaræði og moskum. Frá bænum Nkhotakota, sem er við vesturströnd Malaví-vatns, fluttu Arabarnir á milli 5 og 20 þúsund þræla ár hvert frá 1840.

Milli Yao og Angoni þjóðflokkanna ríkti stanslaust stríð, en hvorugri fylkingunni tókst að ná völdum yfir svæðinu. Marövum fækkaði og veldið þurrkaðist loks út, eftir að hafa háð baráttu við báðar fylkingarnar.

Bresk nýlenda breyta

Skotinn David Livingstone kom til Malaví árið 1859 og settist að við Malaví-vatn. Hann lét byggja öldungakirkjur og stuðlaði að trúboði. Eitt af markmiðum kirkjunnar manna var að stöðva þrælasöluna við Persaflóa en hún tíðkaðist allt fram að lokum 19. aldar. Árið 1878 stofnuðu skoskir verslunarmenn, flestir frá Glasgow, verslunarbandalagið African Lakes Company sem átti að útvega trúboðunum vistir og þjónustu.

Bretar gerðu Malaví að verndarsvæði sínu árið 1891 og nýlenduna Nýasaland (Nyasa þýðir stöðuvatn á Yao-máli) stofnuðu þeir árið 1907. Þetta var því mjög síðbúin nýlenda. Bretar héldu völdum á fyrri helmingi aldarinnar þrátt fyrir uppreisnir Malava. Þó stækkaði sá hópur íbúanna sem höfðu menntað sig í Bandaríkjunum og Evrópu. Þessi hópur sameinaðist og stofanði Nyasaland African Congress (NAC) árið 1944.

1953 gengu Nýasaland, Norður-Ródesía (nú Sambía) og Suður-Ródesía (nú Simbabve) í ríkjasamband (Sambandsríki Ródesíu og Nýasalands) fyrir tilstilli Breta.

Sjálfstæðisbaráttan breyta

Árið 1958 kom Dr. Hastings Kamuzu Banda aftur til heimalands síns eftir að hafa verið við nám í Bretlandi og við störf í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Strax við komuna á flugvöllinn eignaðist hann marga áhangendur sem sáu ekki sólina fyrir honum og héldu fram að hann væri frelsari landsins. Banda var einkar laginn stjórnmálamaður og komst til valda sem forseti Nyasaland African Congress, sem átti eftir að verða flokkur hans til dánardags. Nafnið breyttist fljótlega í Malawi Congress Party (MCP). Banda var handtekinn 1959 fyrir stjórnmálaskoðanir og uppsteyt og færður í fangelsi, en var látinn laus árið eftir til að geta verið við fund í London um sjálfstæði Malaví.

MCP vann stórsigur í kosningum til nýs löggjafarþings árið 1961. Hastings Banda settist í stól forsætisráðherra 1. febrúar 1963 og sambandsríkið leið undir lok 31. desember sama ár.

Malaví varð sjálfstætt land í breska samveldinu 6. júlí 1964 og lýðveldi tveimur árum seinna. Banda settist nú í stól forseta og jafnframt var því lýst yfir að einungis einn flokkur stýrði landinu.

Árið 1970 lýsti MCP því yfir að Banda yrði forseti landsins til dauðadags og ríkið sjálft gerði hið sama árið eftir. Ríkti hann síðan í þrjá áratugi, eða til ársins 1997.

Ýmsar fylkingar stjórna breyta

Auknar óeirðir og þrýstingur frá malavískum kirkjum og öðrum þjóðum urðu til að þess að árið 1993 var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort ríkistjórnin ætti að vera samsett úr einum flokki eða fleirum og féllu úrslit á þann veg að fólkið vildi sjá fleiri flokka við stjórnartaumana. Frjálsar kosningar voru haldnar 17. maí 1994. United Democratic Front (UDF) hlaut 82 af 177 sætum löggjafarþingsins og forseti flokksins, Bakili Muluzi var valinn forseti landsins. UDF og Alliance for Democracy (AFORD) mynduðu ríkisstjórn en hún rann út í sandinn 1996 – þó héldu nokkrir meðlimir hennar áfram sæti í stjórn. Stjórnarskrá Malaví, sem var samþykkt 1995, svipti MCP þeirri forréttindastöðu sem flokkurinn hafði og nú fór hagsældarboltinn að rúlla – með tilkomu nýrra stjórnarhátta.

15. júní 1999 voru á ný haldnar frjálsar þingkosningar. Muluzi var endurkosinn forseti landsins, þrátt fyrir að bandalagi MCP og AFORD væri telft fram gegn UDF.

Í maí 2004 voru á ný haldnar kosningar og bar Bingu wa Mutharika sigurorð af þeim John Tembo og Gwanda Chakuamba í forsetakosningunum. UDF náði hins vegar ekki meirihluta þingsæta eins og í tveimur fyrri kosningum. Flokkurinn gat myndað ríkisstjórn með þingflokksformönnnum og nýkjörnum forseta landsins. Hinn síðastnefndi yfirgaf þó flokkinn þann 5. febrúar 2005 og stofnaði eigin flokk; Democratic Progressive Party (DPP).

Landfræði breyta

 
Mulanje-fjall

Sigdalurinn mikli liggur eftir Malaví endilöngu frá norðri til suðurs og er Malavívatn meðal annars ofan í þessum sigdal. Beggja vegna við sigdalinn eru hásléttur sem eru að mestu leyti í 900 til 1.200 metra yfir sjó. Hæst teygir Nyika-hálendið í norðri sig upp í 2.600 metra hæð og sunnan við Malaví-vatn er Shire-hálendið sem er í 600 til 1.600 metra hæð. Þar er líka að finna Zomba-fjall og Mulanje-fjall sem eru 2.130 og 3.048 metra há. Alveg syðst í landinu er láglendi, hæð yfir sjó aðeins 60 til 90 metrar. Vegna þessa hæðarmunar getur hitastig verið nokkuð misjafnt í landinu. Jarðvegur er yfirleitt frjósamur en ræktunarskilyrði eru þó háð úrkomu.

Helst er ræktað te og kaffi á plantekrum, en einnig hrísgrjón, maís, kartöflur, sykurreyr og bómull.

Fátt er um stór spendýr í landinu vegna mannmergðar. Helst ber þó að nefna ljón en engir fílar eru þar lengur. Stór svæði í landinu eru afgirtir þjóðgarðar, en vegna fátæktar stelur fólk girðingahlutum svo dýrin sleppa oftar en ekki út. Af búfé rækta Malavar einna mest nautgripi og geitur[1].

Í Malaví eru 5 þjóðgarðar:

Malaví-vatn breyta

 
Malaví-vatn séð úr geimnum

Malaví-vatn er alls 29 þús. ferkílómetrar að stærð og er þar með þriðja stærsta stöðuvatn Afríku. Vatnið er talið hafa myndast í sigdalnum mikla fyrir um 40 þúsund árum síðan. Í vatninu og við strendur þess er mikið líf og er byggðin þéttust á bökkum þess. Þar eru mörg þorp og bæir, þeirra á meðal Monkey Bay sem er við suðurenda þess.

Að vatninu liggja þrjú lönd, auk Malaví eru það Mósambík og Tansanía. Í vatninu eru nokkrar eyjar, flestar við austurbakka þess. Einungis tvær þeirra eru byggðar, Likoma og Chizumulu, sem eru hólmlendur Malaví, þótt þær séu í mósambíska hluta vatnsins. Eyjaskeggjar lifa á að rækta banana og mangó auk þess sem þeir veiða í vatninu. Í báðum eyjunum er rafmagn en það er aftengt eftir klukkan 11 á kvöldin til að spara rafalaeldsneyti.

Við suðurenda vatnsins rennur Shire-áin úr vatninu en hún er ein af þverám Zambezi-fljótsins.

Menn hafa haft miklar áhyggjur af fiskistofnum í vatninu, vegna þess að veiðimenn veiddu helst á eintrjáningum á grunnsævi en ekkert lengra úti á vatninu. Talið var að grunnsævisfiskar ættu undir högg að sækja en úr því hefur verið bætt með því að koma stórvirkari fiskibátum, sem jafnast á við íslenska báta, til veiða á meira dýpi. Slippstöðin á Akureyri hefur hjálpað heimamönnum við þetta og var skip frá henni afhent Malövum árið 1993. Einnig hefur Landhelgisgæslan hjálpað þeim við kortlagningu á botni vatnsins á árabilinu 2000 til 2004.

Veðurfar og loftslag breyta

Loftslag í Malaví telst vera heittemprað og er regntíminn frá nóvember til apríl en þess á milli er lítil sem engin úrkoma í landinu. Við strendur Malaví-vatns og í Shire-dalnum er heitt og rakt á regntímabilinu. Í Lilongwe er því einnig þannig háttað, en þar er loftrakinn ekki eins mikill. Frá júní til ágúst er þægilega hlýtt við vatnið en í öðrum hlutum landsins getur næturkuldinn farið niður í 5° til 14 °C.

Í mars 2006 misstu um 8 þúsund manns heimili sín í mið- og suðurhluta landsins vegna flóða og vatnsveðurs.[2]

Stjórnmál breyta

Frá 1994 hefur stjórnarfar í Malaví verið lýðræðislegt. Eftir stjórnarskrársamþykktina 1995 er forsetinn bæði þjóðhöfðingi og höfuð ríkisstjórnarinnar. Forseti er kosinn í almennum kosningum á 5 ára fresti. Um leið er kosinn varaforseti. Aðstoðarvaraforseta má forsetinn velja sjálfur en sá má ekki vera samflokksmaður forsetans. Forsetinn velur jafnframt ráðherra ríkisstjórnarinnar af löggjafarþingi landsins eða utan þess. Löggjafarþingið sitja 193 þingmenn sem eru kjörnir í frjálsum kosningum til 5 ára í senn. Stjórnarskráin gerir ráð fyrir að þingið sitji í tveimur deildum, öldungadeild með 80 sætum og neðri deild. Öldungadeildin hefur þó aldrei komið saman en er hugsuð til þess að hinir ýmsu hópar þjóðfélagsins geti komið baráttumálum sínum á framfæri.

Stjórnarskráin gerir ráð fyrir óháðu réttarkerfi. Dómstólar Malaví byggja á enskri fyrirmynd og skiptast í þrjú stig; lægri dómstóla, hærra dómstig og áfrýjunardómstól.

Malaví er skipt niður í þrjá landshluta, eða stærri stjórnsýslueiningar, og skipar ríkisstjórnin æðstu yfirmenn þeirra. Þeir skiptast síðan í 27 héruð og eru stjórnir héraðanna kosnar í almennum kosningum á 5 ára fresti. Fyrstu kosningar innan stjórnarsvæðanna 27 voru 21. nóvember 2004 og hlaut UDF-flokkurinn 70% fulltrúa.

Þriðju kosningarnar eftir að ríkið fékk fjölflokkastjórn áttu að vera 18. maí 2004 en var frestað um tvo daga eftir að uppreisnarbandalagið Mgwirizano (eining) áfrýjaði kvörtun um ólöglegar kjörskrár til hærra dómstigs. Kosningaeftirlitsmenn frá ESB og breska samveldinu sögðu þó að kosningarnar hefðu farið friðsamlega fram.

Utanríkismál breyta

Malaví rekur enn þá utanríkisstefnu sem Banda mótaði í stjórnartíð sinni. Landið hefur góð sambönd við mikilvæg vesturlönd. Náið samband Malaví við Suður-Afríku aðskilnaðarstefnunnar (apartheid) hafði slæm áhrif á samband landsins við önnur ríki Afríku en það lagaðist þó við endalok apartheid árið 1994.

Frá 1985 til 1995 tók landið við meira en einni milljón flóttamanna frá Mósambík. Þetta hafði mikil áhrif á hagkerfi Malaví en ýtti þó undir alþjóðlegan stuðning. Árið 1996 sótti fjöldi Rúanda- og Kongómanna um landvistarleyfi. Ríkisstjórnin hafnaði leyfunum ekki alfarið en notaði þó hugtakið „hæli í fyrsta landi“ sem átti að þýða að ef fólk hafði leitað hælis í öðru landi fyrst fengi það ekki leyfi.

Mikilvæg lönd sem veita fjár til Malaví eru meðal annars Bandaríkin, Kanada, Líbýa, Þýskaland, Ísland, Japan, Holland, Noregur, Finnland, Svíþjóð, Tævan og Bretland. Einnig eru það Alþjóðabankinn, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, ESB og Sameinuðu þjóðirnar. Í október 2006 var tilkynnt að söngkonan Madonna væri í Malaví til að sinna munaðarlausum börnum.[3]

Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ) hefur meðal annars byggt framhaldsskóla[4] í landinu en auk þess hafa sjálfboðaliðar og hjúkrunarfræðinemar frá unnið í landinu. Skemmst er þess að minnast þegar landlæknir[5] fór til starfa í landinu til eins árs.

Stjórnsýslueiningar breyta

 

Malaví skiptist í 27 svæði innan þriggja landshluta:

Nr Svæði Flatarmál í km² Íbúar Íbúar á km²
Central Region 35.592 4.066.340 114,2
1 Dedza 3.624 486.682 134,3
2 Dowa 3.041 411.387 135,3
3 Kasungu 7.878 480.659 61,0
4 Lilongwe 6.159 1.346.360 218,6
5 Mchinji 3.356 324.941 96,8
6 Nkhotakota 4.259 229.460 53,9
7 Ntcheu 3.424 370.757 108,3
8 Ntchisi 1.655 167.880 101,4
9 Salima 2.196 248.214 113,0
Northern Region 26.931 1.233.560 45,8
10 Chitipa 4.288 126.799 29,6
11 Karonga 3.355 194.572 58,0
12 Likoma 18 8.074 448,6
13 Mzimba 10.430 610.994 59,1
14 Nkhata Bay 4.071 164.761 40,5
15 Rumphi 4.769 128.360 26,9
Southern Region 31.754 4.633.968 145,9
16 Balaka 2.193 253.098 115,4
17 Blantyre 2.012 809.397 402,3
18 Chikwawa 4.755 356.682 75,0
19 Chiradzulu 767 236.050 307,8
20 Machinga 3.771 369.614 98,0
21 Mangochi 6.273 610.239 97,3
22 Mulanje 2.056 428.322 208,3
23 Mwanza 826 94.476 114,3
24 Nsanje 1.942 194.924 100,4
25 Thyolo 1.715 458.976 267,6
26 Phalombe 1.394 231.990 166,4
27 Zomba 2.580 546.661 211,9
28 Neno 1.469 108.897 74,1
Malaví alls 94.276 9.933.868 105,4

(Tölurnar eru úr manntalinu í september 1998[6])

Íbúar breyta

 
Upplýsingarit sem sýnir fólksfjölgun í þúsundum frá 1961 til 2003

Malavar eru af Marövum komnir en þeir skiptust í tvær greinar þegar þeir komu á svæðið fyrir um 600 árum síðan. Forfeður Chewa-fólksins tóku sér bólfestu við vesturströnd Malaví-vatns en forfeður Nyajan-fólksisns settust að við austurströnd þess. Chewarnir eru 90% þeirra sem búa í miðhluta landsins (Central Region) en Nyajan-menn ríkja í suðurhlutanum og Tumbuka-fólkið í norðurhlutanum. Í landinu búa einnig Evrópu- og Asíubúar sem komu til landsins til starfa við trúboð. Evrópubúarnir eru flestir Bretar eða þá Portúgalar sem komu frá Mósambík en Asíubúarnir eru flestir Indverjar.

Meðallífslíkur Malava eru í dag aðeins 36,5 ár, 5 árum lægri en fyrir 50 árum síðan. Þetta mikla fall á sér ýmsar ástæður og eru þessar helstar:

 • lág laun (meðaldaglaun eru undir $1)
 • næringarskortur
 • lélegt heilbrigðiskerfi
 • lélegt menntakerfi
 • útbreiðsla HIV/alnæmis
 • hagkerfishömlur ríkisstjórnarinnar

Heilsa breyta

Barnadauði er nú 103 börn á hverja 1000 fæðingu. Yfir ein milljón barna eru munaðarlaus, þar af hafa 700 þúsund þeirra misst foreldra sína úr alnæmi. Samkvæmt útreikningum ríkisstjórnarinnar eru 12,4% íbúa landsins HIV-smitaðir og 90 þúsund þeirra sem létust árið 2003 dóu úr alnæmi[7]

Mataræði breyta

Undirstaða mataræðis er maís en undanfarin ár hefur uppskerubrestur verið árviss. Neyðin var þó hvað verst árið 2002 þegar uppskeran reyndist tæp hjá þriðjungi íbúanna. Árið eftir var hún knöpp hjá 30% íbúanna.

Endurteknar hungursneyðir stafa af mismunandi ástæðum, s.s.:

 • of einhæfri ræktun
 • lélegri dreifingu áburðar
 • þurrki
 • útbreiðslu alnæmis
 • malaríu
 • spillingu í stjórnkerfi landsins

Hjálparstofnanir hjálpa landsmönnum með því að dreifa matvælum og nauðsynjavöru. Ríkisstjórnin hefur einnig ýtt úr vör verkefni sem á að hjálpa fólki af stað með ræktun með því að dreifa maísfræjum og áburði, en verkefnið hefur verið misnotað og varningurinn ekki komist í hendur þeirra sem áttu að fá hann. Bingu wa Mutharika-stjórnin lagði þessu verkefni með því að draga úr dreifingu áburðar til bænda. Árið 2005 lýsti forsetinn því yfir að í landinu ríkti „þjóðarvá vegna matarskorts“.[8]

Trúarbrögð breyta

 
Manndómsvígsla í Yao-ættbálknum

Flestir Malavar eru kristnir og eru 55 af hundraði þeirra mótmælendur, 20% rómversk-kaþólskir. Kristninni er blandað saman við gamlar hefðir sem innibera meðal annars dansa og grímur. Fimmtungur íbúa eru múslimar og búa þeir flestir við strendur Malaví-vatns. Um 5% íbúa hafa önnur trúarbrögð og stunda dansa og aðra helgisiði.

Menning breyta

Tónlist breyta

 
Maður í Malaví spilar á tréspil

Frá gamalli tíð hafa Malavar verið farandfólk og þess vegna hefur tónlist þeirra dreifst um alla sunnanverða Afríku. Fáir malavískir tónlistarmenn hafa hlotið frægð í útlöndum. Eitt af því sem ýtti undir að erlend tónlist ruddi sér rúms var að hermenn í seinni heimsstyrjöld tóku hana með sér til landsins. Undir lok stríðsins var banjó- og gítartónlist vinsælasta danstónlistin.

Á 7. áratug síðustu aldar var afríska kwela-tónlistin hvað vinsælust og stærstu stjörnurnar voru Daniel Kachamba & His Kwela Band. Malavískur djass ruddi sér einnig til rúms með hljómsveitum á borð við Jazz Giants, Linengwe River Band, Mulanje Mountain Band og Chimvu Jazz. Tónlistin líktist þó ekki bandaríska frænda sínum. Í byrjun 8. áratugarins kom rafmagnsgítarinn til landsins og hafði þar með áhrif á tónlistarlíf landans. Inn ruddist bandarískt rokk og ról, sálartónlist og fönk.

Á 9. áratugnum barst keimur af sokous-tónlist frá Austur-Kongó og breyttist í malavísku útgáfuna kwasa kwasa. Á þessum tíma var trúartónlist (gospel) einnig vinsæl en vinsældir hennar jukust mjög á 10. áratugnum og sérstaklega eftir heimsókn páfans árið 1998. Trúartónlistin varð huggun í fátækt landsins. Reggítónlist varð einnig vinsæl, sérstaklega við strendur Malaví-vatns.

Íþróttir breyta

Vinsælustu íþróttirnar í Malaví eru knattspyrna en einnig þær íþróttir sem hvað mest voru stundaðar í breska heimsveldinu. Knattspyrnan er stunduð á nýplægðum ökrum í sveitum landsins og heldur landið úti knattspyrnulandsliði karla. Konur stunda meira netbolta. Eftir nýlendutíð landsins hafa borist þangað nýjar íþróttir á borð við blak og körfuknattleik.

Frjálsar íþróttir og víðavangshlaup hafa þróast eftir að landið varð óháð Bretum. Frumkvöðull í því var dr. Harold Salmon, trúboði sem starfaði í Malaví á árunum 1966 til 1968. Þekktasta frjálsíþróttakempa Malaví er Catherine Chikwakwa sem nú býr og æfir í Þýskalandi. Við háskólann í Malaví eru einnig íþróttamenn og uppgangur er nú í íþróttum í landinu.

Aðrar íþróttir á borð við tennis og veggtennis eru einnig stundaðar, þó í minna mæli. Áhrifin koma úr sjónvarpi og hlaut veggtennislandsliðið þátttökurétt á Samveldisleikunum 2006.

Tilvísanir breyta

 1. Auður H. Ingólfsdóttir (1999). „Smárit ÞSSÍ, nr.1 – Malaví“ (PDF). Þróunarsamvinnustofnun Íslands, Reykjavík. Sótt 3. apríl 2007.
 2. „8.000 manns nú talin hafa misst heimili sín í flóðum á Malaví“. Sótt 3. mars 2006.
 3. „Madonna ætlar að hjálpa afrískum börnum“. Sótt 4. október 2006.
 4. „Þróunarsamvinnustofnun byggir framhaldsskóla í Malaví“. Sótt 3. október 2006.
 5. „Landlæknir og framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja til starfa í Malaví“. Sótt 25. ágúst 2006.
 6. „Malawi Districts“. Sótt 18. mars 2007.
 7. „CIA - The World Factbook -- Malawi“. Sótt 28. júlí 2007.
 8. „Forseti Malaví lýsir yfir þjóðarhörmungum vegna matarskorts“. Sótt 15. október 2006.

Heimildir breyta

 • Kalinga, Owen J. M. og Crosby, Cynthia A. Historical Dictionary of Malawi, 3. útg. (Scarecrow Press, 2001) ISBN 0-8108-3481-2
 • Mitchell, Maura. „Living Our Faith“: The Lenten Pastoral Letter of the Bishops of Malawi and the Shift to Multiparty Democracy, 1992–1993. Journal for the Scientific Study of Religion. Mars 2002; 41(1):bls. 5–18.
 • „CIA - The World Factbook -- Malawi“. Sótt 30. desember 2006.
 • Fyrirmynd greinarinnar var „Malawi“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 30. september 2006.
 • Fyrirmynd greinarinnar var „Malawi“ á norsku útgáfu Wikipedia. Sótt 9. desember 2006.

Tenglar breyta

Ríkisstjórn
Fréttir
Yfirlit
Skrár
Greinar