Lýðstjórnarlýðveldið Kongó

land í Mið-Afríku
(Endurbeint frá Austur-Kongó)

Lýðstjórnarlýðveldið Kongó (franska: République Démocratique du Congo) eða einfaldlega Kongó, eða Austur-Kongó til aðgreiningar frá Lýðveldinu Kongó, er land í Mið-Afríku og þriðja stærsta land álfunnar. Það hefur áður heitið Belgíska Kongó, Kongó-Kinsasa og Saír (til 1997). Það á landamæri að Lýðveldinu Kongó í vestri, Mið-Afríkulýðveldinu og Suður-Súdan í norðri, Úganda, Rúanda, Búrúndí og Tansaníu í austri, og Sambíu og Angóla í suðri. Aðgangur að sjó er um 40 km breiða ræmu við Gíneuflóa.

Lýðstjórnarlýðveldið Kongó
République Démocratique du Congo
Fáni Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó Skjaldarmerki Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Démocratie - Justice - Unité (franska)
Lýðræði - Réttlæti - Sameining
Þjóðsöngur:
Debout Congolais
Staðsetning Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó
Höfuðborg Kinsasa
Opinbert tungumál franska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Félix Tshisekedi
Forsætisráðherra Judith Suminwa
Sjálfstæði frá Belgíu
 • Dagur 30. júní, 1960 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
11. sæti
2.345.409 km²
3,32%
Mannfjöldi
 • Samtals (2021)
 • Þéttleiki byggðar
15. sæti
92.377.393
39,4/km²
VLF (KMJ) áætl. 2019
 • Samtals 77,486 millj. dala (94. sæti)
 • Á mann 843 dalir (222. sæti)
VÞL (2019) 0.480 (175. sæti)
Gjaldmiðill kongóskur franki
Tímabelti UTC+1 til +2
Þjóðarlén .cd
Landsnúmer +243

Elstu mannvistarleifar í Kongó eru um 80.000 ára gamlar. Þar risu ríki eins og Lundaríkið, Lubaveldið og Konungsríkið Kongó við ósa Kongófljóts. Fyrsti Vesturlandabúinn sem kannaði vatnasvið Kongófljóts var Henry Morton Stanley sem síðar aðstoðaði Leópold 2. konung Belgíu við að gera landið að einkanýlendu sinni sem hann kallaði Fríríkið Kongó. Leópold kom á gúmmíplantekrum og stýrði nýlendunni af mikilli grimmd sem hneykslaði alþjóðasamfélagið. Að lokum féllst Belgíustjórn á að taka stjórn nýlendunnar yfir vegna þrýstings frá öðrum Evrópuríkjum. Kongó fékk sjálfstæði árið 1960 og fyrsti forsætisráðherra landsins var Patrice Lumumba. Árið 1965 leiddi Joseph Mobutu herforingjabyltingu gegn honum. Árið 1971 breytti hann nafni landsins í Saír. Mobutu var einræðisherra og nýtti aðstöðu sína til að hagnast persónulega á auðlindum landsins. Í kjölfar borgarastyrjaldarinnar í Rúanda braust borgarastyrjöld út í austurhluta landsins sem lyktaði með því að Mobutu flúði land og nafni landsins var aftur breytt. Önnur styrjöldin í Kongó hófst árið 1998 og stóð til 2003. Eftir að stríðinu lauk hafa reglulega blossað upp staðbundin átök í landinu. Kynferðisofbeldi er útbreitt, og sjúkdómar og hungursneyðir herja á íbúana.[1]

Íbúar Kongó eru yfir 90 milljónir talsins. Landið er fimmtánda fjölmennasta land heims og það fjórða fjölmennasta í Afríku. Í landinu búa um 200 þjóðarbrot sem flest tala bantúmál. Frumbyggjar landsins eru pygmíar sem eru aðeins um 600.000. Um 95% íbúa landsins eru kristnir, þar af um helmingur rómversk-kaþólskir. Landið á miklar náttúruauðlindir og er stærsti kóbaltframleiðandi heims en langvinnur ófriður hefur orðið til þess að íbúar landsins eru með einar lægstu meðaltekjur í heimi. Árið 2018 höfðu um 600.000 íbúar landsins flúið vegna átaka í mið- og austurhluta landsins.[2] Bardagar hafa hrakið 4,5 milljónir á flótta og tvær milljónir barna eiga á hættu að deyja vegna vannæringar.[3]

Landfræði

breyta
 
Nyiragongo-fjall sem gaus síðast 2021.
 
Salonga-þjóðgarðurinn.
 
Masisiland.

Lýðstjórnarlýðveldið Kongó er í miðri Afríku sunnan Sahara, með landamæri að Lýðveldinu Kongó í norðvestri, Mið-Afríkulýðveldinu í norðri, Suður-Súdan í norðaustri, Úganda, Rúanda, Búrúndí, og Tansaníu (handan Tanganjikavatns) í austri, Sambíu í suðri og suðaustri, Angóla í suðvestri; og strönd að Atlantshafi í vestri. Landið á líka landamæri að angólsku útlendunni Cabinda. Landið er milli 6. og 14. breiddargráðu norður, og 12. og 32. lengdargráðu austur. Það liggur á miðbaug, með einn þriðja norðan hans og tvo þriðju sunnan hans. Landið er 2.345.408 km2 að stærð, sem er aðeins stærra en Spánn, Frakkland, Þýskaland, Svíþjóð og Noregur samanlagt. Landið er annað stærsta Afríkulandið, á eftir Alsír.

Vegna staðsetningar landsins við miðbaug er mikil úrkoma í landinu og mest tíðni þrumuveðurs í heimi. Ársúrkoma getur verið allt að 2.000 mm sum staðar. Í landinu er Kongóskógurinn sem er annar stærsti regnskógur heims á eftir Amasónskóginum. Stór hluti af vatnasviði Kongófljóts á láglendinu sem hallar í átt að Atlantshafinu, er þakinn þéttum frumskógi. Umhverfis þetta svæði eru hásléttur sem renna saman við gresjur í suðri og suðvestri, fjalllendi í vestri og þétt graslendi í norðri. Austast í landinu eru Rwenzori-fjöll, há og snævi þakin fjöll.

Hitabeltisloftslagið mótast líka af Kongófljóti og þverám þess sem eru helstu einkenni svæðisins auk regnskóganna sem það rennur um. Landið dregur nafn sitt af fljótinu. Vatnasviðið nær yfir næstum allt landið. Fljótið og þverár þess mynda undirstöðu efnahagslífs og vöruflutninga í Kongó. Helstu þverárnar eru Kasai-á, Sangha-á, Ubangi-á, Ruzizi-á, Aruwimi og Lulonga-á.

Upptök Kongófljóts eru í Albertsdal sem er vesturendi Sigdalsins mikla, auk Tanganjikavatns og Mweru-vatns. Fljótið rennur í vesturátt frá Kisangani rétt eftir Boyoma-fossa en sveigist síðan hægt í suðvestur, framhjá Mbandaka þar sem Ubangi-á rennur í það, og þaðan í Malebovatn (Stanleyvatn). Kinsasa og Brazzaville standa á sitt hvorum bakka fljótsins við vatnið. Eftir það mjókkar fljótið og rennur um nokkrar flúðir í djúpum gjám sem eru þekktar sem Livingstone-fossar, og framhjá Boma út í Atlantshafið. Fljótið er annað vatnsmesta fljót og með annað stærsta vatnasviðið í heimi (á eftir Amasónfljóti). Áin og aðeins 37 km strönd á norðurbakka hennar eru eini aðgangur landsins að sjó.

Albertsdalur á stóran þátt í mótun landslags Kongó. Þar er landið mun fjalllendara auk þess sem þar er eldvirkni sem hefur stundum kostað mannslíf. Stóru vötnin í Afríku mynduðust líka þar. Fjögur þeirra liggja við austurlandamæri Kongó: Albertsvatn, Kivuvatn, Játvarðsvatn og Tanganjikavatn. Semliki-á liggur milli Játvarðsvatns og Albertsvatns.

Í kringum Sigdalinn mikla er mjög mikið af verðmætum jarðefnum að finna sem eru unnin með námavinnslu í suður- og austurhluta landsins. Helstu auðlindir landsins eru kóbalt, kopar, kadmín, demantar, gull, silfur, sink, mangan, tin, german, úran, radín, báxít, járngrýti og kol. Öll þessi efni er að finna í miklum mæli í landinu, sérstaklega í héraðinu Katanga.[4]

Þann 17. janúar 2002 gaust Nyiragongo-fjall í Kongó og úr því runnu þrír hraunstraumar á miklum hraða gegnum borgina Goma með þeim afleiðingum að 45 létust og 120.000 misstu heimili sín. 400.000 manns voru fluttir frá borginni í kjölfar eldgossins. Hraunið eitraði Kivuvatn og drap fiska. Tvær flugvélar tóku á loft frá flugvellinum þar sem óttast var að hraunið ylli sprengingu í eldsneyti. Hraunið fór framhjá flugvellinum en eyðilagði flugbrautina og lokaði nokkrar flugvélar inni. Hálfu ári eftir eldgosið gaus nærliggjandi Nyamuragira-fjall líka. Það fjall gaus síðan aftur 2006 og 2010.[5]

Þjóðgarðar skráðir sem heimsminjar í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó: Virunga-þjóðgarðurinn (1979), Garamba-þjóðgarðurinn (1980), Kahuzi-Biega-þjóðgarðurinn (1980), Salonga-þjóðgarðurinn (1984) og Okapi-friðlandið (1996).

Stjórnmál

breyta

Héruð

breyta
 
1. Kinshasa 14. Ituri Province
2. Kongo Central 15. Haut-Uele
3. Kwango 16. Tshopo
4. Kwilu-hérað 17. Bas-Uele
5. Mai-Ndombe-hérað 18. Nord-Ubangi
6. Kasaï-hérað 19. Mongala
7. Kasaï-Central 20. Sud-Ubangi
8. Kasaï-Oriental 21. Équateur
9. Lomami-hérað 22. Tshuapa
10. Sankuru 23. Tanganyika Province
11. Maniema 24. Haut-Lomami
12. Suður-Kivu 25. Lualaba-hérað
13. Norður-Kivu 26. Haut-Katanga-hérað

Íbúar

breyta

Tungumál

breyta
 
Landfræðileg útbreiðsla helstu bantúmálanna í Kongó.

Opinbert tungumál í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó er franska. Franska er líka notuð almennt sem lingua franca eða samskiptamál milli hinna ólíku þjóðarbrota sem búa í landinu. Samkvæmt skýrslu frá Samtökum frönskumælandi ríkja frá 2014 gátu 33 milljónir landsmanna (47% íbúa) skrifað og lesið frönsku.[6] Í höfuðborginni, Kinsasa, gátu 67% íbúa talað og skrifað frönsku, og 68,5% töluðu og skildu frönsku.[7]

Um 242 tungumál eru töluð í landinu. Fjögur þeirra hafa stöðu þjóðtungu: kitubamál (kikongo), lingalamál, tshiluba-mál og svahílí. Sumir íbúar tala þessi mál sem móðurmál, en langflestir íbúar læra þau sem annað mál, eftir því máli sem talað er af því þjóðarbroti sem þau tilheyra. Lingala var opinbert mál nýlenduhersins, Force Publique, á tímum belgísku nýlendustjórnarinnar og er enn í dag ríkjandi tungumál innan hersins. Eftir uppreisnir síðustu ára notar hluti hersins í austurhéruðunum líka svahílí þar sem hún er ráðandi.

Á tímum nýlendustjórnarinnar var komið á kennslu í þjóðtungunum fjórum í grunnskólum, sem var eitt af fáum dæmum um kennslu á Afríkumálum á nýlendutímanum. Þetta lagðist af eftir að landið fékk sjálfstæði og franska varð eina kennslumálið á öllum skólastigum.[8] Frá 1975 hafa þjóðtungurnar fjórar aftur verið teknar upp fyrstu tvö ár grunnskólans en franska eftir það, en í reynd er franska oft eina kennslumálið í þéttbýlinu öll árin.[8] Portúgalska er kennd sem annað mál og þykir auðlærð vegna líkinda við frönsku. Flestir portúgölskumælandi íbúar Kongó eru innflytjendur frá Angóla og Mósambík.

Tilvísanir

breyta
  1. „Democratic Republic of Congo in Crisis | Human Rights Watch“.
  2. Samir Tounsi (6. júní 2018). „DR Congo crisis stirs concerns in central Africa“. AFP. Afrit af uppruna á 13. júní 2018. Sótt 6. júní 2018.
  3. Robyn Dixon (12. apríl 2018). „Violence is roiling the Democratic Republic of Congo. Some say it's a strategy to keep the president in power“. Los Angeles Times. Afrit af uppruna á 8. júní 2018. Sótt 8. júní 2018.
  4. „About Katanga | Pamoja Tujenge“. pamojasolutions.org (bandarísk enska). Afrit af uppruna á 29. október 2017. Sótt 29. október 2017.
  5. „Nyamuragira Volcano, Democratic Republic of Congo | John Seach“. Volcanolive.com. Afrit af uppruna á 14. nóvember 2017. Sótt 29. nóvember 2017.
  6. Organisation internationale de la Francophonie (2014). La langue française dans le monde 2014. Paris: Éditions Nathan. bls. 17. ISBN 978-2-09-882654-0. Afrit af upprunalegu geymt þann 2. júlí 2015. Sótt 16. maí 2015.
  7. Organisation internationale de la Francophonie (2014). La langue française dans le monde 2014. Paris: Éditions Nathan. bls. 30. ISBN 978-2-09-882654-0. Afrit af upprunalegu geymt þann 2. júlí 2015. Sótt 16. maí 2015.
  8. 8,0 8,1 Organisation internationale de la Francophonie (2014). La langue française dans le monde 2014. Paris: Éditions Nathan. bls. 117. ISBN 978-2-09-882654-0. Afrit af upprunalegu geymt þann 2. júlí 2015. Sótt 16. maí 2015.