Tansanía

ríki í Austur-Afríku

Tansanía (svahílí: Jamhuri ya Muungano wa Tanzania) er land í Austur-Afríku með landamæri að Kenía og Úganda í norðri, Rúanda, Búrúndí og Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó í vestri, og Sambíu, Malaví og Mósambík í suðri. Í austri á það strönd að Indlandshafi þar sem liggja eyjarnar Sansibar, Mafia og Pemba. Áður hafði landsvæðið fengið sjálfstæði frá Bretum 1960 sem Tanganjika, en 1963 sameinaðist það Sansibar og Tansanía varð til. Nafnið er myndað úr fyrstu stöfunum í nöfnum aðildarríkjanna tveggja. Til 1996 var höfuðborgin stærsta borg Tansaníu, Dar es Salaam, en þá var þjóðþingið flutt til Dódómu sem er nú formlega höfuðborg.

Sambandslýðveldið Tansanía
Jamhuri ya Muungano wa Tanzania
United Republic of Tanzania
Fáni Tansaníu Skjaldarmerki Tansaníu
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Uhuru na Umoja
(svahílí: „Frelsi og eining“)
Þjóðsöngur:
Mungu ibariki Afrika
Staðsetning Tansaníu
Höfuðborg Dódóma
Opinbert tungumál svahílí,Enska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti
Forsætisráðherra
Samia Suluhu
Kassim Majaliwa
Sjálfstæði frá Bretlandi
 • Tanganjika 9. desember 1961 
 • Sansibar 12. janúar 1964 
 • Sameining 26. apríl 1964 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
31. sæti
947.303 km²
6,4
Mannfjöldi
 • Samtals (2014)
 • Þéttleiki byggðar
29. sæti
47.400.000
43,4/km²
VLF (KMJ) áætl. 2014
 • Samtals 86,4 millj. dala (83. sæti)
 • Á mann 1.813 dalir (164. sæti)
VÞL (2013) 0.488 (159. sæti)
Gjaldmiðill tansanískur skildingur
Tímabelti Austur-Afríkutími (UTC+3)
Þjóðarlén .tz
Landsnúmer +255

Í Tansaníu er að finna einhver elstu merki um menn og Olduvaigjáin í norðurhluta landsins er stundum kölluð „vagga mannkyns“. Í Tansaníu hafa fundist steingerðar leifar eftir Paranthropus og Australopithecus. Laetolisporin sem talin eru elstu þekktu merki um menn, fundust í Tansaníu árið 1978.

Fyrir um 10.000 árum er talið að í Tansaníu hafi búið samfélög veiðimanna og safnara sem töluðu kojsan-mál. Fyrir 5-3000 árum er talið að fólk sem talaði kúsmál hafi flust þangað úr norðri og flutt með sér tækni til landbúnaðar; kvikfjárrækt og akuryrkju. Fyrir um 2000 árum hófst flutningur bantúmanna til Tansaníu. Þessir hópar fluttu með sér tækni til járnvinnslu. Síðar hófst flutningur hirðingja frá norðri sem tala nílótísk tungumál. Þessir fólksflutningar stóðu allt fram á 18. öld.

 
Hefðbundinn bátur með latínusegli á Sansibar.

Frá 1. árþúsundinu e.Kr. var öflug verslun milli strandhéraða Tansaníu og Persíu og Arabíu. Með komu íslam varð tungumál íbúanna fyrir áhrifum frá arabísku og svahílí varð til. Borgir og bæir urðu til í kringum verslunina með fram ströndinni og á eyjunum kringum Sansibar og Kilwa. Frá 13. og fram á 15. öld efldust þessar borgir eftir því sem siglingum fór fram á Indlandshafi og áttu viðskipti með vörur allt frá Indlandi og Kína. Snemma á 14. öld kom Ibn Battuta til Kilwa og sagði hana bestu borg veraldar. 1498 kom Vasco da Gama fyrstur Evrópubúa til austurstrandarinnar og um 1525 höfðu Portúgalir lagt alla strandlengjuna undir sig. Yfirráð Portúgala stóðu til loka 18. aldar þegar arabar frá Óman hófu að koma sér þar fyrir. Á þeim tíma varð Sansibar miðstöð þrælaverslunar á svæðinu.

 
Orrustan um Tanga átti sér stað 1914.

1880 var meginlandshluti Tansaníu, Tanganjika, hluti af Þýsku Austur-Afríku. Eftir ósigur Þjóðverja í Fyrri heimsstyrjöldinni lýsti Þjóðabandalagið landið breskt umdæmi. Í Síðari heimsstyrjöldinni var þar herstöð og birgðageymsla breska hersins. Árið 1960 varð Julius Nyerere ráðherra Tanganjika og varð fyrsti forsætisráðherra Tansaníu þegar landið fékk sjálfstæði 1961. 1964 fékk Sansibar sjálfstæði sem soldánsdæmi en almenn uppþot gegn soldáninum leiddu til sameiningar landanna tveggja 26. apríl 1964. Nyerere tók upp afríska jafnaðarstefnu með hugmyndafræðinni Ujamaa sem fól meðal annars í sér þjóðnýtingu nokkurra lykilatvinnugreina og flokksræði þar sem einungis flokkur Nyerere, Chama Cha Mapinduzi, var leyfður.

1979 reyndi stjórn Úganda undir forystu Idi Amin að leggja héraðið Kagera undir sig sem leiddi til stríðs sem lauk með því að her Tansaníu steypti Idi Amin af stóli. 1985 lét Nyerere af völdum og Ali Hassan Mwinyi tók við sem forsætisráðherra. Flokksræði lauk með stjórnarskrárbreytingu árið 1992 en Chama Cha Mapinduzi hefur unnið allar kosningar síðan.

Landafræði

breyta
 
Héruð Tansaníu

Tansanía er 31. stærsta land heims. Í norðri og vestri á það landamæri við stóru vötnin, Viktoríuvatn og Tanganjikavatn. Í norðvesturhlutanum er fjallendi þar sem Kilimanjaro, hæsta fjall Afríku, stendur. Í miðju landinu er háslétta þar sem eru gresjur og ræktarland. Í austri liggur strönd Tansaníu að Indlandshafi þar sem er heitt og rakt. Rétt utan við ströndina eru eyjarnar Sansibar, Mafia og Pemba.

Í Tansaníu eru nokkrir heimsþekktir þjóðgarðar, þar á meðal Serengeti-þjóðgarðurinn, Ngorongoro-gígurinn og Gombe-þjóðgarðurinn.

Skipting í stjórnsýsluumdæmi

breyta

Tansanía skiptist í 26 héruð:

Arusha-hérað · Dar es Salaam-hérað · Dodoma-hérað · Iringa-hérað · Kagera-hérað · Kigoma-hérað · Kilimanjaro-hérað · Lindi-hérað · Manyara-hérað · Mara-hérað · Mbeya-hérað · Morogoro-hérað · Mtwara-hérað · Mwanza-hérað · Pemba Norður · Pemba Suður · Pwani-hérað · Rukwa-hérað · Ruvuma-hérað · Shinyanga-hérað · Singida-hérað · Tabora-hérað · Tanga-hérað · Sansibar Mið/Suður · Sansibar Norður · Sansibar Vestur

Stjórnmál

breyta
 
Julius Nyerere var fyrsti forseti Tansaníu

Forseti Tansaníu og meðlimir þjóðþingsins eru kjörnir með almennri kosningu til fimm ára í senn. Forsetinn útnefnir forsætisráðherra sem skipar í ríkisstjórn. Síðustu þing- og forsetakosningar í Tansaníu voru haldnar árið 2005.

Þingið starfar í einni deild og þar sitja 295 þingmenn. Eins og stendur er stjórnarflokkurinn, CCM, með 93% þingsæta. Lög sem þingið samþykkir gilda ekki á Sansibar nema í nokkrum sérstaklega skilgreindum málaflokkum. Á Sansibar er sérstakt þing sem setur lög um alla aðra málaflokka en þá sem varða samband ríkjanna. Þar sitja 76 þingmenn. Á báðum þingunum eru sérstök sæti tekin frá fyrir þingkonur; 20% sæta allra flokka á þjóðþinginu og fimmtán sæti á þingi Sansibar.

Í Tansaníu eru fimm dómstig þar sem koma saman hefðir úr ættarsamfélaginu, íslam og breskri réttarvenju. Æðsta dómstigið er áfrýjunardómstóll sem tekur við áfrýjunum frá efstu dómstigum bæði á meginlandinu og á Sansibar nema í málum er varða íslömsk lög eða stjórnarskrána.

Efnahagslíf

breyta
 
Teræktun í Tansaníu.

Uppistaðan í efnahagslífi Tansaníu er landbúnaður sem stendur undir um helmingi landsframleiðslunnar, 85% af útflutningsverðmæti og 90% af atvinnu. Vegna loftslags og legu er þó einungis hægt að nýta 4% landsins sem akurlendi. Iðnaður er að mestu bundinn við vinnslu landbúnaðarafurða og framleiðslu léttra neysluvara. Á 10. áratug 20. aldar hefur málmvinnsla vaxið, aðallega á gulli. Framleiðsla á jarðgasi á eyjunni Songo Songo hófst árið 2004 og mest af því er nýtt til rafmagnsframleiðslu í Dar es Salaam.

Nýlegar umbætur í efnahagskerfinu hafa örvað fjárfestingar og vöxt fyrirtækja en jafnframt hefur gengið illa að sjá landinu fyrir nægri raforku þar sem langtímaþurrkar undanfarin ár hafa minnkað framleiðni vatnsaflsvirkjana.

Menning

breyta
 
Frá Ilala-hverfinu í Dar es Salaam.

Flestir íbúar Tansaníu tala bantúmál og svahílí er opinbert tungumál landsins. Hirðingjar sem tala nílótísk mál eru masajar og lúó-mælandi fólk. Einn hópur á Sansibar telur sig vera Shirazi, afkomendur fólks frá Persíu sem flutti íslam til eyjunnar á miðöldum.

Um þriðjungur íbúa Tansaníu eru múslimar, um þriðjungur er kristinn og um þriðjungur aðhyllist hefðbundin afrísk trúarbrögð. Á Sansibar eru aftur á móti 99% íbúanna múslimar.