Donald Trump

45. forseti Bandaríkjanna
(Endurbeint frá Donald trump)

Donald John Trump (fæddur 14. júní 1946) er 45. og 47. forseti Bandaríkjanna og nýkjörinn forseti Bandaríkjanna. Hann er fæddur og uppalinn í New York-borg í New York-fylki. Hann var stjórnandi sjónvarpsþáttanna Lærlingurinn (enska: The Apprentice) á árunum 2004-2015. Hann bauð sig fram sem fulltrúi Repúblikanaflokksins í forsetakosningunum í Bandaríkjunum þann 8. nóvember 2016 og tók við embættinu af Barack Obama þann 20. janúar 2017 sem nýkosinn 45. forseti Bandaríkjanna. Trump er með gráðu í viðskiptafræði.

Donald Trump
Forseti Bandaríkjanna
Tekur við embætti
20. janúar 2025
VaraforsetiJD Vance
ForveriJoe Biden
Í embætti
20. janúar 2017 – 20. janúar 2021
VaraforsetiMike Pence
ForveriBarack Obama
EftirmaðurJoe Biden
Persónulegar upplýsingar
Fæddur14. júní 1946 (1946-06-14) (78 ára)
New York-borg, New York, Bandaríkjunum
ÞjóðerniBandarískur
StjórnmálaflokkurRepúblikanaflokkurinn (1987–1999, 2009–2011, 2012–)
Demókrataflokkurinn (til 1987, 2001–2009)
Umbótaflokkurinn (1999–2001)
MakiIvana Zelníčková (g. 1977; skilin 1992)
Marla Maples (g. 1993; skilin 1999)
Melania Knauss (g. 2005)
BörnDonald yngri, Ivanka, Eric, Tiffany, Barron
StarfViðskipamaður, fasteignasali, stjórnmálamaður
Undirskrift

Fyrirtæki Trumps (enska: The Trump Organization) á 14.000 íbúðir í Brooklyn, Queens og Staten Island. Þar að auki á hann m.a. aðrar eignir eins og hótel og spilavíti. Talið er að hann eigi að minnsta kosti 16 golfvelli í Bandaríkjunum og þá á hann einnig golfvöll í Skotlandi.

Trump bauð sig fram til endurkjörs í forsetakosningunum árið 2020 en tapaði fyrir Joe Biden, frambjóðanda Demókrataflokksins. Trump neitaði að viðurkenna ósigur og fór í mál við ýmis fylki Bandaríkjanna vegna ásakana um kosningasvindl. Nær öllum þessum málum var vísað frá vegna skorts á sönnunargögnum og Trump lét því af embætti í janúar 2021. Áður en Trump lét af embætti gerðu stuðningsmenn hans árás á þinghúsið í Washington til að koma í veg fyrir staðfestingu á sigri Bidens með þeim afleiðingum að fimm manns létust. Eftir embættistíð sína hefur Trump áfram haldið því fram að hann hafi í raun unnið kosningarnar og hefur breitt út ýmsar samsæriskenningar um framkvæmd þeirra.

Trump var forsetaefni Repúblikanaflokksins í forsetakosningum Bandaríkjanna árið 2024. Hann náði kjöri og þegar hann tekur við embætti 20. janúar næstkomandi verður sá annar í sögunni til að gegna embætti forseta Bandaríkjanna tvö aðskilin kjörtímabil en Grover Cleveland er sá eini sem hefur gert það hingað til. Donald Trump verður bundinn tímamörkum í forsetakosningunum 2028.

Æviágrip

breyta

Donald Trump fæddist þann 14. júní árið 1946 í New York. Hann er sonur fasteignasalans og milljarðamæringsins Freds Trump og skosk-bandarískrar konu hans, Mary Trump. Trump lauk prófi frá Wharton-verslunarskólanum, sem er deild í Pennsylvaníuháskóla, árið 1968. Eftir að hafa lokið námi vann Trump sem rukkari í fyrirtæki föður síns og innheimti tekjur af fasteignum hans. Trump vann hjá fyrirtæki föður síns til ársins 1975 en hóf þá sjálfstæðan rekstur í fasteignaiðnaðinum.[1] Faðir Trumps lánaði honum andvirði um 60 milljóna Bandaríkjadala til að hjálpa honum að komast á lappirnar í viðskiptageiranum.[2] Alls hefur hann á ævi sinni hlotið andvirði um 413 milljóna Bandaríkjadala frá fyrirtækjum föður síns.[3] Trump hefur í seinni tíð talað um að faðir hans hafi veitt honum „lítið lán“ upp á milljón Bandaríkjadali (andvirði um 120 milljóna íslenskra króna) til þess að hefja viðskiptaferilinn.[4]

Viðskipta- og sjónvarpsferill

breyta

Árið 1978 keypti Trump Commodore-hótelið nálægt Grand Central-járnbrautarstöðinni í New York. Hann byggði skrifstofubyggingu í turni á fimmta stræti borgarinnar og græddi talsvert á að leigja hana út. Trump var orðinn velkunnur milljarðamæringur þegar hann var 42 ára. Árið 1983 byggði hann 58 hæða skýjakljúf, Trump-turninn, á Manhattan. Árið 1988 átti Trump meðal annars tvö spilavíti og hótel í Atlanta, skutludeild Eastern-flugfélagsins, Mar-a-Lago-óðalið í Flórída, meirihluta í Alexander's-verslunarkeðjunni í New York og fjölbýlishús í ýmsum bandarískum stórborgum.[1] Trump þótti á seinni hluta níunda áratugarins nokkurs konar „tákn yfirstandandi uppgangstíma í bandarísku viðskiptalífi“. Hann hafði þó einnig orð á sér fyrir að beita „siðlausum“ aðferðum til að sölsa undir sig lóðir mun fátækari eigenda.[5]

Nokkuð fór að síga undan viðskiptaveldi Trumps í lok níunda áratugarins og byrjun þess tíunda.[6] Árið 1989 fóru fyrirtækjaskuldir hans upp í rúma fjóra milljarða dollara og margir verðbréfasalar á Wall Street töldu hann í reynd vera á hausnum.[7] Dóttir Trumps, Ivanka, hefur sagt að í byrjun 10. áratugarins, þegar skuldir Trumps voru sem hæstar, hafi faðir hennar bent henni á heimilislausan mann sem sat fyrir framan Trump-turn og sagt við hana: „Veistu, þessi náungi er 8 milljörðum dollara ríkari en ég!“.[8] Árið 1990 var Trump einu ógreiddu láni frá því að lýsa yfir persónulegu gjaldþroti og neyddist því til þess að gefa bönkum tímabundna stjórn á fyrirtækjum sínum í skiptum fyrir vasapening.[9] Frá 1991 til 2009 lýstu gistihúsa- og spilavítakeðjur Trumps sex sinnum yfir gjaldþroti.[10]

Á þessum tíma beið orðstír Trumps einnig hnekki vegna umfjöllunar um einkalíf hans. Slúðurblöð fjölluðu mikið um framhjáhald hans á konu sinni, tékknesku skíðadrottningunni Ivönu, með fegurðardrottningunni Mörlu Maples. Trump skildi við Ivönu árið 1992 og þurfti að greiða henni 25 milljónir Bandaríkjadala í skilnaðarbætur.[11] Trump giftist Maples árið 1993 en skildi við hana sex árum síðar.

Eftir eins árs endurskoðun á skuldastöðu sinni tókst Trump að forðast allsherjar gjaldþrot og algera sundurlimun á eignum hans en auður hans var aðeins brot af því sem hann var áður[11] og vegna gjaldþrota fyrirtækja hans glataði hann lánstrausti hjá flestum bönkum öðrum en Deutsche Bank.[12]

Árið 2003 varð Trump framleiðandi og kynnir bandarísku raunveruleikaþáttanna The Apprentice sem sýndir eru á sjónvarpsstöðinni NBC. Í þáttunum kepptu þátttakendur um hálaunastarf í fyrirtæki Trumps og einn sigurvegari var valinn í lok hverrar þáttaraðar. Í lok hvers þáttar datt einn keppandi úr keppninni og Trump fékk það hlutverk að segja orðin „Þú ert rekinn“ (enska: You're fired) við hinn óheppna. Þættirnir nutu mikilla vinsælda á fyrsta áratugi 21. aldar og með hlutverki sínu í þeim tókst Trump að miklu leyti að byggja á ný upp almannaímynd sína sem kænn kaupsýslumaður.[13]

Stjórnmálaferill

breyta

Trump studdi Ronald Reagan á 9. áratugnum en lítið er vitað um pólitískar skoðanir hans fyrir þann tíma. Trump var í Demókrataflokknum frá 2001-2008 en árið 2011 gekk hann í Repúblikanaflokkinn.

Árið 1989 barðist Trump fyrir því að dauðarefsing yrði tekin upp í New York-fylki á ný svo hægt yrði að taka af lífi fimm menn af afrískum og rómönskum uppruna sem höfðu verið ákærðir fyrir að nauðga konu í Central Park í miðborg New York-borgar. Trump greiddi meðal annars fyrir heilsíðuauglýsingar í dagblöðum þar sem þess var krafist að hinir ákærðu sættu dauðarefsingu.[14] Fimmmenningarnir voru sakfelldir og fangelsaðir fyrir nauðgunina en var sleppt árið 2002 eftir að erfðarannsókn og viðurkenning hins raunverulega sökudólgs sýndi fram á sakleysi þeirra. Trump hefur í seinni tíð varið afstöðu sína í málinu og neitað að biðja fimmmenningana afsökunar fyrir að berjast fyrir dauðadómi yfir þeim.[15]

Trump hafði lengi verið óhræddur við að tjá sig um bandarísk stjórnmál en skoðanir hans fóru að vekja meiri athygli eftir að Barack Obama var kjörinn forseti Bandaríkjanna árið 2008. Trump varð hávær gagnrýnandi Obama eftir að hann tók við embætti og varð jafnframt einn helsti boðberi þeirrar samsæriskenningar að Obama hafi ekki fæðst í Bandaríkjunum heldur í Keníu og ætti þar með að vera ókjörgengur í embætti Bandaríkjaforseta.[16] Á þessum tíma var Trump að undirbúa sitt eigið forsetaframboð fyrir Repúblikanaflokkinn árið 2012 á móti Obama og hugðist nota þessa ásökun um meint ólögmæti stjórnar hans sem vopn í kosningabaráttunni. Obama birti hins vegar fæðingarvottorð sitt frá spítala í Hawaii í apríl árið 2011 til þess að afsanna aðdróttanir Trumps. Trump sagðist í kjölfarið „mjög stoltur af [sínum] þætti í að fá úr þessu máli skorið“[17] en næsta mánuð hætti hann við forsetaframboð sitt gegn Obama.[18]

Forsetakosningarnar árið 2016

breyta

Donald Trump tilkynnti í júní árið 2015 að hann hygðist bjóða sig fram í forsetakosningunum sem haldnar yrðu næsta ár. Á fyrsta kosningafundi sínum sagði hann að sem forseti myndi hann „gera Bandaríkin frábær á ný“ (enska: Make America Great Again) og urðu þessi orð þekkt slagorð stuðningsmanna Trumps.[19]

Kosningaherferð Trumps hlaut mikla fjölmiðlaumfjöllun frá byrjun og mörg ummæli hans og kosningaloforð vöktu bæði hneykslun og aðdáun Bandaríkjamanna. Á fyrsta kosningafundi sínum lagði Trump áherslu á að stemma stigu við komu ólöglegra innflytjenda til Bandaríkjanna yfir mexíkósku landamærin og lýsti því yfir að innflytjendur frá Mexíkó væru upp til hópa nauðgarar og glæpamenn.[20] Þrátt fyrir að ólöglegur innflutningur til Bandaríkjanna frá Mexíkó hafi þegar verið í sögulegu lágmarki árið 2015[21][22] líkti Trump stöðu mála á landamærunum við neyðarástand og lofaði snemma að næði hann kjöri myndi hann byggja landamæramúr milli Mexíkó og Bandaríkjanna. Þennan múr ættu skattgreiðendur þó ekki að greiða, heldur kvaðst Trump ætla að fá ríkisstjórn Mexíkó til þess að greiða kostnaðinn.[23] Loforðið um landamæramúr sem Mexíkó ætti að greiða fyrir varð eitt helsta stefið í kosningabaráttu Trumps og hefur áfram verið áberandi stefnumál í forsetatíð hans.

Donald Trump heldur sigurræðu sína þann 9. nóvember 2016.

Þótt ummæli og framkoma Trumps væru mjög umdeild á landsvísu reyndust stefnumál hans vinsæl meðal skráðra meðlima Repúblikanaflokksins og því mældist hann snemma með forystu í könnunum fyrir forkjör flokksins. Mikla athygli vakti í kosningabaráttunni þegar Ted Cruz vann fyrstu forkosningar Repúblikana í Iowa-fylki þann 1. febrúar 2016 og Donald Trump varð í öðru sæti. Í kjölfarið ásakaði Trump Ted Cruz um að hafa „stolið“ kosningum.[24] Þrátt fyrir þessi feilspor vann Trump að endingu útnefningu Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar og var lýstur frambjóðandi þeirra þann 17. júlí árið 2016.

Kosningabaráttan sem var framundan við mótframbjóðanda hans úr Demókrataflokknum, Hillary Clinton, þótti óvægin. Trump var m.a. sakaður um kynferðislega áreitni gagnvart konum frá gömlum upptökum og sjálfur kallaði hann Hillary glæpamann sem ætti að læsa inni. Kannanir sýndu lengst af að Hillary Clinton hafði yfirhöndina en Trump saxaði smám saman á forskot hennar þar til það var orðið ómarktækt á kjördag. Í kosningunum hlaut Clinton um þremur milljónum fleiri atkvæði en Trump en vegna þess hvernig kjördæmaskipan Bandaríkjanna er háttað fékk Trump talsvert fleiri kjörmenn í kjörmannaráðinu sem velur forsetann og vann þannig kosningarnar.[25]

Forsetatíð (2017–2021)

breyta

Donald Trump tók við embætti Bandaríkjaforseta þann 20. janúar árið 2017. Í fyrstu viku sinni í embætti gaf Trump út tólf tilskipanir og fyrirmæli, meðal annars um að minnka útgjöld til heilbrigðatryggingakerfis Baracks Obama, um framkvæmdir við umdeildar olíuleiðslur frá Kanada til Bandaríkjanna og bann við styrkingu Bandaríkjanna við samtök sem bjóða upp á fóstureyðingar. Einnig velti upp hugmyndum um að leggja 20% toll á vörur frá Mexíkó sem lið í því að láta landið borga undir múr á landamærum ríkjanna. Enrique Peña Nieto, forseti Mexíkó, aflýsti fundi sínum með Trump í kjölfarið. Trump hóf einnig aðgerðir til að banna fólki frá nokkrum löndum þar sem múslímar eru í meirihluta, að koma til Bandaríkjanna: Sýrlandi, Írak, Íran, Líbíu, Súdan, Sómalíu og Jemen. Trump ritaði undir tilskipun um úrsögn Bandaríkjanna úr TPP (Trans Pacific Partnership), viðskipasamningi Kyrrhafsríkja.

Áætlun gegn loftslagsbreytingum var tekin út af síðu forsetaembættisins og skýrsla um stöðu samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks á vinnustöðum. Stjórn Trumps krefst þess að fá að fara yfir allar rannsóknir og gögn vísindamanna Umhverfisverndarstofnunar Bandaríkjanna (EPA) áður en þau koma fyrir sjónir almennings.[26]

Rannsókn FBI á rússneskum afskiptum af forsetakosningunum 2016

breyta

Stuttu eftir að Trump tók við embætti rak hann James Comey, formann bandarísku alríkislögreglunnar, úr embætti.[27] Alríkislögreglan var þá byrjuð að rannsaka meint afskipti Rússa af forsetakosningunum og tölvuárásir rússneskra hakkara á tölvur Demókrataflokksins. Trump hafði áður spurt Comey hreint út hvort verið væri að rannsaka hann og tengsl kosningaherferðar hans við rússneska útsendara.[28] Daginn eftir að Trump rak Comey sagði hann á fundi við Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, að hann „[hefði verið] undir miklu álagi út af Rússlandi“ og að þess vegna væri hann feginn því að hafa rekið Comey.[29] Vegna þessara ummæla sökuðu andstæðingar Trumps hann um að hafa rekið Comey til þess að koma í veg fyrir að þurfa sjálfur að sæta rannsókn og væri þar með sekur um að hindra framgang réttvísinnar.[30]

Eftir að því var velt upp að Trump hefði gerst brotlegur með brottrekstri Comey ákvað þáverandi aðstoðardómsmálaráðherra í stjórn Trumps, Rod Rosenstein, að skipa Robert Mueller til að fara fyrir sérstakri rannsóknarnefnd til að kanna afskipti Rússa af kosningunum og mögulegt samneyti Trumps við rússnesku tölvuþrjótana.[31] Frá því að rannsókn Muellers var hleypt af stokkunum hafa a.m.k. 33 manns verið ákærðir, þar af fjórir samstarfsmenn Trumps.[32] Meðal annars var lögmaður Trumps til margra ára, Michael Cohen, dæmdur í þriggja ára fangelsi þann 12. desember 2018 fyrir að múta tveimur konum í nafni Trumps til að segja ekki frá kynferðislegu sambandi þeirra við Trump á meðan á kosningabaráttunni stóð.[33] Rannsóknin leiddi jafnframt til þess að Michael Flynn, þjóðaröryggisráðgjafi Trumps, var dæmdur sekur fyrir að ljúga að lögreglunni í yfirheyrslu;[34] Paul Manafort, kosningastjóri Trumps, var dæmdur sekur fyrir banka- og skattsvik ásamt fleiri glæpum[35] og Roger Stone, kosningaráðgjafi Trumps, var dæmdur í fangelsi fyrir að hindra framgang réttvísinnar með því að hóta vitnum í málinu.[36]

Trump hefur jafnan lýst yfir vanþóknun á rannsókn Muellers og hefur líkt henni við „nornaveiðar“.[32] Hann beitti valdi sínu sem forseti til að milda dóminn yfir Roger Stone áður en hann átti að hefja fangavist sína í júlí 2020[37] og náðaði Michael Flynn í nóvember sama ár.[38] Trump náðaði síðan einnig Stone og Manafort á aðfangadag 2020.[39]

Rannsókn Muellers lauk í mars árið 2019. Í niðurstöðum rannsóknarinnar sagðist Mueller ekki hafa fundið sannanir fyrir því að kosningaherferð Trumps hefði átt samráð með afskiptum Rússa í kosningunum en tók þó ekki beina afstöðu með eða á móti því að Trump hefði hindrað framgang réttvísinnar.[40] Í vitnisburði sínum fyrir Bandaríkjaþingi í júlí 2019 hafnaði Mueller því að skýrsla hans hefði hreinsað Trump af ásökunum um síðari glæpinn.[41]

Utanríkisstefna

breyta
 
Trump (til hægri) tekur í höndina á Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, á fyrsta formlega fundi leiðtoganna í Singapúr árið 2018.

Í byrjun forsetatíðar sinnar var Trump mjög harðorður í garð ríkisstjórnar Norður-Kóreu vegna tilrauna hennar með kjarnorkuvopn og langdrægar eldflaugar sem áttu að geta náð að vesturströnd Bandaríkjanna. Mikil spenna ríkti og talsvert var um stríðsæsing milli Bandaríkjanna og Norður-Kóreu árið 2017 og Norður-Kóreumenn undirbjuggu jafnvel áætlun um að skjóta eldflaugum að bandarísku Kyrrahafseyjunni Gvam.[42] Við allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna árið 2017 uppnefndi Trump Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu „eldflaugamanninn“ (e. Rocket Man) og hótaði Norður-Kóreu gereyðileggingu ef kjarnorkuáætlun landsins yrði ekki stöðvuð.[43]

Samskipti Kims og Trumps bötnuðu verulega árið 2018 og þann 12. júní það ár áttu leiðtogarnir tveir sögulegan fund í Singapúr.[44] Á fundinum undirrituðu leiðtogarnir yfirlýsingu þar sem þeir kváðust munu vinna saman að „friði og farsæld“ á Kóreuskaga og stefna að afkjarnavopnun svæðisins.[45] Í kjölfar fundarins sagði Trump að þeir Kim hefðu „orðið ástfangnir“ og að samband þeirra væri „dásamlegt“.[46] Trump og Kim hittust aftur í Hanoi í Víetnam í febrúar 2019 en slitu fundinum án samnings.[47] Þeir hittust síðan í þriðja sinn á afvopnaða svæðinu í Norður-Kóreu í júní sama ár og var þetta í fyrsta sinn sem sitjandi forseti Bandaríkjanna fór inn í landið.[48] Þrátt fyrir fyrirheitin um frið og afkjarnavopnun hafa Norður-Kóreumenn þó haldið kjarnorku- og eldflaugatilraunum áfram eftir fundina[49][50] en Trump hefur engu að síður heitið Kim áframhaldandi trausti og stuðningi.[51] Í desember 2019 lýstu norður-kóresk stjórnvöld því yfir að kjarnorkuafvopnun væri ekki lengur á samningaborðinu og að ekki væri þörf á frekari löngum viðræðum við Bandaríkjamenn.[52] Í nýársávarpi sínu í byrjun ársins 2020 tilkynnti Kim svo að Norður-Kóreumenn hygðust hætta að standa við orð sín um að stöðva prófun kjarnavopna og langdrægra flugskeyta.[53]

Þann 8. maí árið 2018 tilkynnti Trump að hann hygðist draga Bandaríkin úr samkomulagi sem stjórn Baracks Obama hafði gert við Íran árið 2015 í samvinnu við Bretland, Frakkland, Kína, Rússland, Þýskaland og Evrópusambandið. Samkvæmt samningnum var dregið úr viðskiptaþvingunum gegn Íran og íranskar eignir erlendis affrystar með því skilyrði að höft yrðu sett á kjarnorkuáætlun Írans. Repúblikanar höfðu verið mjög gagnrýnir á samninginn og Trump hafði áður lýst honum sem „versta samningi allra tíma“.[54] Hin ríkin sem stóðu að samningnum vildu halda sig við hann og færðu ásamt Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni rök fyrir því að Íran hefði ekki brotið gegn ákvæðum samningsins áður en Trump ákvað að rifta honum.[55] Bandaríkin tóku að nýju upp viðskiptaþvinganir gegn Íran í nóvember 2018[56] og hafa beitt frekari refsiaðgerðum gegn landinu vegna aukinnar spennu á milli ríkjanna á síðustu árum.[57] Þann 3. janúar 2020 fyrirskipaði Trump dráp íranska hershöfðingjans Qasem Soleimani, sem stjórnaði hernaðaraðgerðum Írans erlendis, og sagði að dauði hans hefði verið nauðsynlegur til að koma í veg fyrir stríð.[58]

Þann 6. desember árið 2017 tilkynnti Trump að Bandaríkin hygðust viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraelsríkis og láta flytja sendiráð Bandaríkjanna í Ísrael þangað frá Tel Avív.[59] Þann 25. mars árið 2019 undirritaði Trump jafnframt yfirlýsingu þess efnis að Bandaríkin viðurkenndu innlimun Ísraels á Gólanhæðum, sem Ísraelar hertóku í sex daga stríðinu árið 1967 en hafa almennt verið skilgreindar sem hernámssvæði af alþjóðasamfélaginu.[60] Ákvarðanir Trumps voru umdeildar á alþjóðavísu, sérstaklega meðal múslimaríkja, en var hins vegar fagnað innan Ísraels. Í þakklætisskyni vígði Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, nýjar ísraelskar landtökubyggðir í Gólanhæðum undir nafninu „Trumphæðir“ þann 16. júní 2019.[61]

Trump lýsti því yfir í Twitter-færslu þann 19. desember 2018 að hann hygðist láta kalla alla bandaríska hermenn heim frá Sýrlandi, þar sem þeir höfðu leitt inngrip Bandaríkjamanna í sýrlensku borgarastyrjöldina. Hann rökstuddi ákvörðun sína með því móti að Íslamska ríkið í Sýrlandi hefði verið sigrað og að þar með væri markmiði herliðsins á svæðinu náð.[62]

Í mars árið 2019 samþykktu bæði fulltrúadeild og öldungadeild Bandaríkjaþings frumvarp þess efnis að Bandaríkin skyldu hætta hernaðarstuðningi við Sádi-Arabíu í borgarastyrjöldinni í Jemen og hætta sölu á vopnum til Sáda sem notuð væru í stríðinu.[63] Trump beitti neitunarvaldi forsetans til að koma í veg fyrir að frumvarpið tæki gildi þann 24. júlí og sagði að vopnasölur til Sáda væru nauðsynlegar til að verjast Írönum og bandamönnum þeirra í Austurlöndum nær.[64] Trump hefur verið ötull stuðningsmaður krónprinsins Múhameðs bin Salman, stjórnanda Sádi-Arabíu, og hefur meðal annars vefengt niðurstöður bandarísku leyniþjónustunnar um að prinsinn hafi fyrirskipað morðið á blaðamanninum Jamal Khashoggi í Istanbúl í október 2018.[65]

Ákæruferli fyrir embættisbrot

breyta

Þann 24. september árið 2019 tilkynnti Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings úr Demókrataflokknum, að fulltrúadeildin hygðist hefja formlegt ákæruferli gegn Trump vegna gruns um að hann hefði framið embættisbrot. Tilefnið var uppljóstrun um að Trump hefði þrýst á Volodymyr Zelenskyj, forseta Úkraínu, til að fá úkraínsk stjórnvöld til að hefja rannsóknir á málum tengdum Joe Biden, fyrrum varaforseta Bandaríkjanna, og syni hans, Hunter Biden, sem stýrði gasfyrirtæki í Úkraínu á forsetatíð Baracks Obama.[66] Fyrir símtal þeirra Zelenskyj hafði Trump gefið fyrirmæli um að stöðva greiðslu hundrað milljóna dollara hernaðaraðstoðar til Úkraínu.[67] Trump sætir ásökunum um að reyna að beita hernaðarstyrknum til að múta Zelenskíj til að koma höggi á pólitískan andstæðing, en Biden var þá meðal frambjóðenda í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar 2020. Trump viðurkenndi síðar að hafa vakið athygli á máli Bidens í símtali sínu við Zelenskyj en neitaði því að frestun hernaðarstyrksins hefði neitt með þá beiðni að gera.[68]

Þann 3. desember gaf leyniþjónustunefnd fulltrúadeildarinnar út skýrslu þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að Trump hafi „fórnað öryggishagsmunum Bandaríkjanna í eigin þágu, grafið undan heillindum forsetakosninganna og ógnað öryggi þjóðarinnar“ með því að reyna að beita hernaðarstyrknum til að hafa áhrif á Zelenskyj. Í eigin skýrslu daginn áður mótmæltu Repúblikanar á þingi og sögðu að Trump hefði ekki beitt Zelenskyj neinni þvingun með því að frysta hernaðarstyrkinn og hafi heimilað greiðslu hans þegar þingið ýjaði að því.[69]

Fulltrúadeildin lagði formlega fram kæru gegn Trump þann 19. desember 2019.[70] Öldungadeild Bandaríkjaþings, þar sem Repúblikanar voru í meirihluta, sýknaði Trump af ákærunni þann 5. febrúar 2020.[71]

Kórónaveirufaraldurinn 2019–2021

breyta
 
Trump á leið í meðferð vegna COVID-19 árið 2020

Daginn eftir að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lýsti yfir neyðarástandi vegna útbreiðslu kórónaveirusýkinnar COVID-19 frá Wuhan í Kína þann 30. janúar 2020 setti stjórn Trumps takmarkanir á ferðir til Bandaríkjanna frá Kína. Fólki, öðrum en bandarískum ríkisborgurum og nánum ættingum þeirra, var bannað að koma til Bandaríkjanna ef þau höfðu verið í Kína innan tveggja vikna. Alex Azar, heilbrigðisráðherra Trumps, sagði ráðstafanirnar hafa verið gerðar „samkvæmt einróma meðmælum heilbrigðisstarfsmanna“.[72] Takmarkanir Bandaríkjastjórnar á komur til landsins frá Kína voru í samræmi við svipaðar aðgerðir í ýmsum öðrum löndum á sama tíma.[73]

Frá janúar fram í miðjan mars 2020 gerði Trump þó að mestu lítið úr hættunni af COVID-19 og sagðist jafnan ekki hafa áhyggjur af veikinni.[74] Eftir að hafa gert ráðstafanirnar hélt Trump því ítrekað fram á fundum og viðtölum að kórónaveirufaraldurinn myndi „hverfa“ með auknum sumarhita líkt og árstíðabundnir inflúensufaraldrar.[75] Jafnframt hélt hann því fram að umræðan í kringum veirufaraldurinn væri „nýjasta gabb“ Demókrata,[76] sem hann sakaði um að gera meira úr veikinni en staðreyndir gæfu tilefni til.[74] Þann 24. mars sagðist Trump vona að hið versta yrði liðið hjá á páskadag og að efnahagurinn yrði þá kominn á fullt skrið á ný og „kirkjurnar fullar“.[77] Trump hefur stungið upp á ýmsum skottulækningum til að vinna bug á veirunni, meðal annars innbyrðingu sótthreinsivökva og notkun útfjólublárra geisla á líkamann,[78] og hefur mælt með notkun malaríulyfsins hýdroxýklórókíns gegn veikinni. Ekki hefur verið sýnt fram á að lyfið hafi nein áhrif gegn veirusýkingunni.[79]

Í upptökum úr viðtölum sem Trump veitti blaðamanninum Bob Woodward á fyrri hluta ársins 2020 kemur fram að hann gerði sér grein fyrir því að COVID-19 væri banvænn sjúkdómur áður en fyrsta dauðsfallið af völdum hans var greint í Bandaríkjunum. Hann gerði engu að síður vísvitandi lítið úr hættunni af sjúkdómnum opinberlega, að eigin sögn til þess að koma í veg fyrir ofsahræðslu í bandarísku samfélagi.[80][81]

Þann 12. mars tilkynnti Trump að lokað yrði á flug til Bandaríkjanna frá Schengen-svæðinu í 30 daga til að hefta útbreiðslu veirunnar.[82] Bretland og Írland voru í upphafi undanskilin banninu en þann 14. mars lét Trump einnig banna flug þaðan.[83] Þann 27. mars skrifaði Trump undir björgunarpakka upp á 2,2 billjónir Bandaríkjadollara til fyrirtækja, launafólks og heilbrigðisþjónustunnar til að takast á við faraldurinn. Björgunarpakkinn er sá stærsti í sögu Bandaríkjanna.[84]

Þann 14. apríl tilkynnti Trump að Bandaríkin hygðust stöðva greiðslur til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar á meðan úttekt væri gerð á viðbrögðum hennar við kórónaveirufaraldrinum. Trump sakaði stofnunina um að förlast að senda sérfræðinga í læknavísindum til Kína við upphaf faraldursins og hafa þannig mistekist að koma í veg fyrir útbreiðslu hans.[85] Þann 30. maí tilkynnti Trump að Bandaríkin hygðust slíta öll tengsl við WHO og hætta að fjármagna stofnunina.[86]

Trump og eiginkona hans, Melania, greindust sjálf með COVID-19 þann 2. október 2020, aðeins um mánuði fyrir forsetakosningar það ár.[87] Trump var lagður inn á Walter Reed-hersjúkrahúsið vegna sjúkdómsins sama dag[88] en útskrifaðist þaðan eftir læknismeðferð þann 5. október, meðal annars eftir nokkra skammta af veirulyfinu remdesivir.[89] Um tuttugu starfsmanna í Hvíta húsinu höfðu smitast af Covid á svipuðum tíma[90] og talið er að veiran hafi breiðst út í innsta hring Trumps vegna fjöldaviðburðar sem haldinn var í Hvíta húsinu í september án þess að gætt væri að grímunotkun eða hæfilegri fjarlægð milli gesta.[91]

Forsetakosningarnar árið 2020 og eftirmálar

breyta

Trump bauð sig fram til endurkjörs í forsetakosningum árið 2020. Andstæðingur hans úr Demókrataflokknum var Joe Biden, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna á forsetatíð Baracks Obama.

Kosningarnar voru haldnar þann 4. nóvember. Skoðanakannanir höfðu lengi spáð Biden auðveldum sigri en á kosninganótt reyndist leikurinn milli þeirra Bidens og Trumps mun jafnari en von var á. Trump vann sigra í mikilvægum fylkjum á borð við Flórída og Texas og eftir fyrstu talningar virtist hann einnig hafa forystu í mikilvægum fylkjum á borð við Wisconsin, Michigan og Pennsylvaníu. Trump lýsti yfir sigri á kosninganótt þrátt fyrir að enn ætti eftir að telja fjölda atkvæða. Þegar farið var að telja utankjörfundaratkvæði síðla nætur og á næstu dögum fór hagur Bidens hins vegar að vænkast verulega. Metfjöldi póstatkvæða hafði verið greiddur vegna alþjóðlega kórónaveirufaraldursins, en Trump hafði ítrekað ráðið fylgjendum sínum frá því að greiða utankjörfundaratkvæði og haldið því fram án röksemda að slík atkvæði byðu upp á stórtækt kosningasvindl. Hlutfallslega runnu því mun fleiri utankjörfundaratkvæði til Bidens og þegar farið var að telja þau á næstu dögum náði Biden forystu í nokkrum fylkjum þar sem Trump hafði virst sigurstranglegri á kosninganótt. Þann 7. nóvember höfðu flestar bandarískar fréttastofur lýst Biden sigurvegara, enda hafði hann þá náð forskoti í nógu mörgum fylkjum til að tryggja sér ríflega 270 atkvæði í kjörmannaráðinu sem velur forsetann.[92]

Trump hefur neitað að viðurkenna ósigur í kosningunum og hefur allt frá kjördegi ítrekað haldið því fram að Biden hafi haft rangt við.[93] Trump, kosningateymi hans og aðrir meðlimir Repúblikanaflokksins hafa farið í mál gegn ýmsum fylkjum þar sem Biden vann til þess að reyna að fá niðurstöðum kosninganna hnekkt vegna meints kosningasvindls. Í flestum þessum málum hefur kröfum Trumps verið hafnað eða þeim verið vísað frá vegna skorts á sönnunargögnum. Þrátt fyrir þrálátar staðhæfingar Trumps og fylgismanna hans um að svindl hafi ráðið úrslitum kosninganna hefur nefnd á vegum stjórnar Trumps sem hefur eftirlit með kosningaöryggi í Bandaríkjunum kallað kosningarnar „þær öruggustu í sögunni“[94] og William Barr, dómsmálaráðherra í stjórn Trumps, sagði dómsmálaráðuneytið ekki hafa hlotið vísbendingar um víðtækt kosningasvindl.[95]

Kjörmannaráðið kom saman þann 14. desember og greiddi atkvæði um næsta forseta. Lokaniðurstaðan var þannig að Biden fékk 306 atkvæði en Trump 232.[96] Trump hélt þó áfram að reyna að hnekkja kosningunum með ýmsum ráðum, meðal annars með símtali við Brad Raffensperger, innanríkisráðherra Georgíu, þar sem Trump beitti hótunum til að þrýsta á Raffensperger að „finna“ 11.780 atkvæði sem myndu nægja til þess að hnekkja sigri Bidens í fylkinu.[97][98] Trump hvatti varaforseta sinn, Mike Pence, jafnframt til að neita að telja „fölsk“ atkvæði sem hefðu fallið til Bidens þegar kæmi að staðfestingu kosninganna á Bandaríkjaþingi.[99] Pence neitaði að fara eftir þessu þar sem hann taldi ekki að varaforseti Bandaríkjanna hefði vald til þess.

Árásin á Bandaríkjaþing 2021

breyta
 
Trump ávarpar stuðningsmenn sína í Washington í aðdraganda árásarinnar á þinghúsið.

Þann 6. janúar 2021, daginn sem Bandaríkjaþing kom saman til að staðfesta atkvæðagreiðslu kjörmannaráðsins, ávarpaði Trump fjöldasamkomu stuðningsmanna sinna í Washington, D.C. þar sem úrslitum kosninganna var mótmælt. Trump sagði mannfjöldanum að hann myndi aldrei viðurkenna ósigur og hvatti mótmælendurna síðan til að fjölmenna að bandaríska þinghúsinu til að fá þingmenn Repúblikana til að staðfesta ekki úrslitin. Niðurstaðan varð sú að fjöldi stuðningsmanna Trumps braut sér leið inn í þinghúsið, hrakti burt þingmennina og rauf þingfundinn.[100] Var þetta í fyrsta skipti síðan í stríðinu 1812 sem árásarmenn hafa tekið yfir þinghús Bandaríkjanna.

Fjórir af stuðningsmönnum Trumps létust í átökunum um þinghúsið.[101] Auk þeirra lést einn lögreglumaður úr sárum sínum tveimur dögum síðar.[102] Varnarmálaráðuneyti Trumps neitaði í fyrstu að senda þjóðvarðlið alríkisstjórnarinnar á vettvang til að stilla til friðar en að endingu var þjóðvarðliðið sent eftir að Mike Pence gaf heimild fyrir því.[103]

Á meðan árásarmennirnir sátu í þinghúsinu birti Trump færslu á Twitter þar sem hann bað stuðningsmenn sína að fara heim, en ítrekaði um leið marklausar staðhæfingar sínar um að kosningunum hefði verið stolið og að hann hefði í raun unnið yfirburðasigur.[104] Trump sagðist jafnframt „elska“ árásarmennina.[104] Í ljósi yfirstandandi ofbeldis í höfuðborginni lét Twitter í kjölfarið loka notendaaðgangi forsetans tímabundið vegna brota á reglum miðilsins.[105] Eftir að Twitter-aðgangur Trumps var opnaður á ný aðfaranóttina 8. janúar gaf hann út annað myndband þar sem hann fordæmdi árásina á þinghúsið og lofaði í þetta sinn að valdfærslan til Bidens yrði friðsamleg.[106]

Þann 13. janúar samþykkti fulltrúadeild Bandaríkjaþings frumvarp um að kæra Trump aftur fyrir embættisbrot vegna þáttar hans í að egna stuðningsmenn sína til að ráðast á þinghúsið.[107] Trump varð þar með fyrsti forseti Bandaríkjanna sem hefur verið kærður til embættismissis oftar en einu sinni. Réttarhöldum hans lauk ekki fyrr en eftir að kjörtímabili hans lauk, og var Trump þá sýknaður af öldungadeild Bandaríkjaþings. 57 þingmenn kusu með sakfellingu Trumps en 43 á móti, en tvo þriðju þingmanna þarf til að sakfella embættismann í embættismissisréttarhöldum.[108][109]

Forsetakosningarnar árið 2024

breyta

Trump bauð sig fram til kjörs í forsetakosningum árið 2024 þann 15. nóvember 2022.[110] Nái hann kjöri sem forseti yrði hann sá annar í sögunni til að vera kjörinn forseti eftir að hafa tapað endurkjöri en Grover Cleveland er sá eini sem hefur náð því en hann gengdi embætti forseta á árunum 1885 til 1889 og aftur 1893 til 1897. Cleveland tapaði kosningunum 1888 á móti Benjamin Harrison en vann á móti honum í kosningunum 1892. Donald Trump og Joe Biden hafa báðir tryggt sér útnefningar flokka sinna og munu mætast öðru sinni og það verður í fyrsta sinn frá árinu 1912 sem fyrrum forseti mætir sitjandi forseta í kosningum, nái hann kjöri yrði það í fyrsta sinn frá árinu 1892 sem fyrrum forseti nær kjöri á ný. Þann 30.maí 2024 var Trump sakfelldur í New York fyrir mútugreiðslur og skjalafals, ekki hefur verið tekin ákvörðun um refsingu. Sakfelling hefur ekki áhrif á kjörgengi hans til forseta og er líklegt að hann muni náða sjálfan sig þegar hann tekur við embætti á nýjan leik.[111]

Trump valdi J. D. Vance, öldungadeildarþingmann frá Ohio, sem varaforsetaefni sitt í kosningunum.[112]

Donald Trump sigraði forsetakosningarnar 2024 og tekuð við embætti forseta á nýjan leik 20. janúar næstkomandi.[113]

Morðtilræði

breyta

Þann 13. júlí árið 2024 varð Trump fyrir morðtilræði þegar skotið var á hann á kosningafundi í Pennsylvaníu. Byssukúla straukst við eyra hans og blóðgaði hann. Þá lést ein manneskja í árásinni og tveir særðust.[114] Tilræðismaðurinn, tvítugur maður að nafni Thomas Matthew Crooks, var skotinn til bana af liðsmönnum alríkislögreglunnar stuttu eftir að hafa hleypt af skotunum.[115]

Þann 15. september 2024 var reynt að skjóta á Trump þar sem hann var staddur á golfvelli í hans eigu. Málið er enn til rannsóknar.

Síðari forsetatíð Donald Trump

breyta

Donald Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna í forsetakosningunum sem fram fóru 5. nóvember 2024. Hann tekur því við embætti forseta á ný þann 20. janúar 2025 sem 47. forseti Bandaríkjanna. Trump hefur nefnt nokkra einstaklinga sem hann hyggst skipa í háttsett embætti.[116] Höfðuð hafa verið nokkur dómsmál á hendur Donald Trump og ætla má að hann náði sjálfan sig þegar hann tekur við embætti forseti. Þá hefur hann heitið því að náða þá einstaklinga sem hlotið hafa dóm eða eiga eftir að fá dóm fyrir árásina á Bandaríkjaþing 6. janúar 2021.

Stefnumál

breyta

Félagsleg og heilsutengd málefni

breyta

Trump lýsir sér sem andstæðingi fóstureyðinga (pro life) nema í tilvika nauðgunar, sifjaspella og af alvarlegum heilsufarsástæðum. Hann er á móti lögleiðingu marijúana en með læknisfræðilegri notkun þess. Trump er andstæðingur the Affordable Care Act (einnig þekkt sem Obamacare) og vill skipta því út fyrir markaðslegar lausnir. Trump er fylgjandi dauðarefsingu.

Efnahagsmál

breyta

Trump vill lækka fyrirtækjaskatta niður í 15%. Hann hefur haft frammi ýmsar skoðanir um lágmarkslaun en vill að hvert ríki ákveði þau fyrir sig.

Hann vill vernda bandarísk störf og framleiðslu með tollamúrum.

Umhverfismál

breyta

Trump hafnar samhljóða áliti vísindamanna um loftlagsbreytingar og vill hafna Parísarsamkomulaginu um það.

Utanríkisstefna

breyta

Trump vill auka fjárframlög í bandaríska herinn en vill minnka umsvif hans í NATO. Hann er aðdáandi Ísraelsríkis og styður frekari byggingar á Vesturbakkanum. Kjarnorkusamninginn sem Obama gerði við Íran myndi hann leysa upp.

Hann myndi viðurkenna Krímskaga sem rússneskt landsvæði og afnema viðskiptabann á Rússland.

Innflytjendastefna

breyta

Trump hefur lofað því að byggja vegg á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó, senda burt 11 milljónir ólöglegra innflytjenda og viðurkennir ekki ríkisborgararétt þeirra sem fæðast þar. Hann hefur sagst vilja banna múslimum að koma til landsins en mildaði afstöðu sína með því að segja að hann vildi banna fólk frá ákveðnum löndum sem eru með þekkta hryðjuverkasögu gegn Bandaríkjunum.

Einkahagir

breyta

Trump er skoskur í móðurætt og þýskur í föðurætt. Bróðir hans lést úr krabbameini fyrir aldur fram. Trump á fimm börn úr þremur hjónaböndum. Núverandi eiginkona hans er fyrrum fyrirsætan Melania Knauss-Trump, sem er fædd í Slóveníu árið 1970 og uppalin þar.

Trump er mótmælendatrúar og tilheyrir öldungakirkjunni(en). Donald Trump er 190 sentímetrar á hæð.

Heimild

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 „„Auðgaðist á því að finna dýrgripi í ruslakistunni". Frjáls verslun. 1. október 1988. Sótt 24. janúar 2019.
  2. David Barstow, Susanne Craig og Russ Buettner (2. október 2018). „11 Takeaways From The Times's Investigation Into Trump's Wealth“ (enska). The New York Times. Sótt 24. janúar 2019.
  3. David Barstow, Susanne Craig og Russ Buettner (2. október 2018). „Trump Engaged in Suspect Tax Schemes as He Reaped Riches From His Father“ (enska). The New York Times. Sótt 24. janúar 2019.
  4. „Trump fékk „lítið lán" hjá pabba“. mbl.is. 27. október 2015. Sótt 24. janúar 2019.
  5. Halldór Vilhjálmsson (28. nóvember 1987). „Allt verður að gulli hjá Trump“. Morgunblaðið. Sótt 24. janúar 2019.
  6. „Hvað verður um Trump?“. Dagblaðið Vísir. 18. júní 1990. Sótt 24. janúar 2019.
  7. „Hvort er Donald Trump jákvæður eða neikvæður milljarðamæringur?“. Tíminn. 15. júlí 1993. Sótt 24. janúar 2019.
  8. Ruth Graham (11. janúar 2018). „What a 2003 Documentary About Rich Kids Tells Us About Ivanka Trump's Coming of Age“ (enska). Slate. Sótt 25. janúar 2019.
  9. "Banks Approve Loans for Trump, But Take Control of His Finances" (enska). The New York Times. 27. júní 1990. Sótt 25. júní 2019.
  10. Hao Li (12. apríl 2011). „Donald Trump Questioned on His Bankruptcies“ (enska). International Business Times. Sótt 25. janúar 2019.
  11. 11,0 11,1 „Donald Trump réttir úr kútnum“. Tíminn. 13. júní 1992. Sótt 25. janúar 2019.
  12. Allan Smith (8. desember 2017). „Trump's long and winding history with Deutsche Bank could now be at the center of Robert Mueller's investigation“ (enska). Business Insider. Sótt 25. janúar 2019.
  13. Tómas Hafliðason (6. janúar 2005). „Þú ert rekinn!“. Deiglan. Sótt 25. janúar 2019.
  14. „Barist fyrir því að dauðarefsing verði aftur tekin upp í New York“. Tíminn. 31. maí 1989. Sótt 26. september 2019.
  15. Jan Ransom (18. júní 2019). „Trump Will Not Apologize for Calling for Death Penalty Over Central Park Five“ (enska). The New York Times. Sótt 26. september 2019.
  16. Björn Teitsson (27. apríl 2011). „Trump ræðst að Obama“. Dagblaðið Vísir. Sótt 25. janúar 2019.
  17. Björn Teitsson (29. apríl 2011). „Segja vottorð Obama falsað“. Dagblaðið Vísir. Sótt 25. janúar 2019.
  18. „Donald Trump bows out of 2012 US presidential election race“. The Guardian. 16. maí 2011. Sótt 25. janúar 2019.
  19. „Donald Trump tilkynnir framboð“. mbl.is. 16. júní 2015. Sótt 29. janúar 2019.
  20. „NBC slítur samstarfinu við Trump“. mbl.is. 29. júní 2015. Sótt 30. janúar 2019.
  21. Russell Berman (26. janúar 2016). „Why Is the Undocumented-Immigrant Population Dropping?“ (enska). The Atlantic. Sótt 30. janúar 2019.
  22. Ana Gonzalez-Barrera (19. nóvember 2015). „More Mexicans Leaving Than Coming to the U.S.“ (enska). Pew Research Center. Sótt 30. janúar 2019.
  23. Hallgrímur Oddsson (15. júlí 2015). „Donald Trump birti mynd af sér og nasistum - Og leiddi síðan skoðanakönnun“. Kjarninn. Sótt 30. janúar 2019.
  24. „Trump accuses Cruz of 'fraud,' calls for new Iowa election“ (enska). Politico. 2. mars 2016. Sótt 25. janúar 2019.
  25. „Clinton fékk nærri þremur milljónum fleiri atkvæði en Trump“. Kjarninn. 8. janúar 2016. Sótt 22. desember 2019.
  26. „Fyrsta vika Donalds Trumps Bandaríkjaforseta“. RÚV. 27. janúar 2017.
  27. „Trump rekur yfirmann FBI“. Viðskiptablaðið. 9. maí 2017. Sótt 30. janúar 2019.
  28. Heimir Már Pétursson (12. maí 2017). „Trump ræddi þrívegis við Comey um mögulega rannsókn FBI á forsetanum“. Vísir. Sótt 30. janúar 2019.
  29. Matt Apuzzo; Maggie Haberman; Matthew Rosenberg (19. maí 2017). „Trump Told Russians That Firing 'Nut Job' Comey Eased Pressure From Investigation“ (enska). Sótt 30. janúar 2019.
  30. „Hindraði Trump framgang réttvísinnar?“. mbl.is. 15. maí 2017. Sótt 30. janúar 2019.
  31. „Fyrrverandi yfirmaður FBI skipaður“. mbl.is. 17. maí 2017. Sótt 30. janúar 2019.
  32. 32,0 32,1 Ólöf Ragnarsdóttir (22. nóvember 2018). „Um hvað snýst rannsókn Roberts Mueller?“. RÚV. Sótt 30. janúar 2019.
  33. Baldur Guðmundsson (12. desember 2018). „Cohen í þriggja ára fangelsi“. Fréttablaðið. Sótt 30. janúar 2019.
  34. Róbert Jóhannsson (5. desember 2018). „Mueller mælir gegn fangavist Flynns“. RÚV. Sótt 12. desember 2020.
  35. Samúel Karl Ólason (24. ágúst 2018). „Hver er Paul Manafort? Hátt fall mannsins á bak við tjöldin“. Vísir. Sótt 12. desember 2020.
  36. Fanndís Birna Logadóttir (21. febrúar 2020). „Einn helsti bandamaður Trump dæmdur í þriggja ára fangelsi“. Fréttablaðið. Sótt 12. desember 2020.
  37. „„Roger Stone er nú frjáls maður!". mbl.is. 11. júlí 2020. Sótt 12. desember 2020.
  38. Kristján Kristjánsson (26. nóvember 2020). „Donald Trump náðar Michael Flynn“. DV. Sótt 12. desember 2020.
  39. Ævar Örn Jósepsson (24. desember 2020). „Trump náðar Manafort, Stone og tengdaföður Ivönku“. RÚV. Sótt 24. desember 2020.
  40. „Áttu ekki óeðlileg samskipti við Rússa“. mbl.is. 24. mars 2019. Sótt 25. mars 2019.
  41. Kjartan Kjartansson (24. júlí 2019). „Robert Mueller við þingnefnd: „Forsetinn var ekki hreinsaður af sök". Vísir. Sótt 25. september 2019.
  42. Kjartan Kjartansson (10. ágúst 2017). „Norður-Kóreumenn tilbúnir í eldflaugaárás á Gvam von bráðar“. Vísir. Sótt 25. september 2019.
  43. Þórgnýr Einar Albertsson (23. september 2017). „Eldflaugamaðurinn mætir þeim elliæra“. Vísir. Sótt 25. september 2019.
  44. „Sögulegur fundur Kim Jong Un og Trump“. 12. júní 2018. Sótt 25. september 2019.
  45. „Um hvað sömdu Trump og Kim?“. Hringbraut. 12. júní 2018. Sótt 25. september 2019.
  46. Bogi Arason (28. júlí 2019). „Eflir enn kjarnorkuherafla sinn“. mbl.is. Sótt 25. september 2019.
  47. Stefán Ó. Jónsson (28. febrúar 2019). „Gat ekki gengið að kröfum Kim“. Vísir. Sótt 25. september 2019.
  48. Lovísa Arnarsdóttir (30. júní 2019). „Trump og Kim hittust í þriðja sinn: „Frábær dagur". Fréttablaðið. Sótt 25. september 2019.
  49. „Norður-Kórea heldur áfram að þróa kjarnavopn“. RÚV. 4. ágúst 2018. Sótt 25. september 2019.
  50. „Skutu fjölda eldflauga á loft“. mbl.is. 30. júlí 2019. Sótt 25. september 2019.
  51. „Trump styður Kim áfram“. mbl.is. 2. ágúst 2019. Sótt 25. september 2019.
  52. „Kjarnorkuafvopnun ekki á dagskrá“. mbl.is. 8. desember 2019. Sótt 10. janúar 2020.
  53. „Kim Jong-un herskár á nýársdag“. mbl.is. 31. desember 2019. Sótt 10. janúar 2020.
  54. Þórgnýr Einar Albertsson (9. maí 2018). „Trump stóð við stóru orðin um Íran“. Fréttablaðið. Sótt 25. september 2019.
  55. Bogi Þór Arason (10. maí 2018). „Trump tók mikla áhættu“. mbl.is. Sótt 25. september 2019.
  56. Róbert Jóhannsson (2. nóvember 2018). „Viðskiptaþvinganir gegn Íran hefjast á mánudag“. RÚV. Sótt 25. september 2019.
  57. Þórgnýr Einar Albertsson (25. júní 2019). „Enn frekari þvinganir gegn Íran“. Fréttablaðið. Sótt 25. september 2019.
  58. Ásrún Brynja Ingvarsdóttir (3. janúar 2020). „Segir að árásin hafi verið gerð til að stöðva stríð“. RÚV. Sótt 5. janúar 2020.
  59. „Jerúsalem viðurkennd sem höfuðborg“. Viðskiptablaðið. 7. desember 2017. Sótt 29. september 2019.
  60. „Viðurkenna yfirráð Ísraela yfir Gólanhæðum“. mbl.is. 25. mars 2019. Sótt 29. september 2019.
  61. „Netanyahu vígði Trumphæðir“. RÚV. 16. júní 2019. Sótt 29. september 2019.
  62. „Telja ótímabært að yfirgefa Sýrland“. mbl.is. 20. desember 2019. Sótt 29. september 2019.
  63. „Vilja hætta að styðja stríðið í Jemen“. mbl.is. 13. mars 2019. Sótt 29. september 2019.
  64. Kristján Róbert Kristjánsson (25. júlí 2019). „Trump beitti neitunarvaldi“. RÚV. Sótt 29. september 2019.
  65. „Trump: Of snemmt að segja hver myrti Khashoggi“. mbl.is. 18. nóvember 2019. Sótt 29. september 2019.
  66. „Demókratar ætla að ákæra Trump til embættismissis“. mbl.is. 24. september 2019. Sótt 25. september 2018.
  67. Kjartan Kjartansson (24. september 2019). „Trump stöðvaði styrk til Úkraínu áður en hann talaði við nýja forsetann“. Vísir. Sótt 2019 2019.
  68. Hallgrímur Indriðason (24. september 2019). „Meint brot Trump í formleg ákæruferli“. RÚV. Sótt 25. september 2019.
  69. Samúel Karl Ólason (3. desember 2019). „Segja Trump hafa brotið af sér í starfi“. Vísir. Sótt 3. desember 2019.
  70. Júlíus Þór Halldórsson (19. desember 2019). „Fulltrúadeildin ákærir Trump“. Viðskiptablaðið. Sótt 10. janúar 2020.
  71. Samúel Karl Ólason (5. febrúar 2020). „Trump sýknaður af ákærum um embættisbrot“. Vísir. Sótt 10. febrúar 2020.
  72. „Trump, Biden Spin China Travel Restrictions“. 6. apríl 2020.
  73. Jessica Calefati (14. apríl 2020). "The president looks like he was ahead of the curve – as you know, he talks about this all the time – on shutting down travel from China.". Politifact. Sótt 15. apríl 2020.
  74. 74,0 74,1 Blake, Aaron (17. mars 2020). „A timeline of Trump playing down the coronavirus threat“. The Washington Post. Sótt 15. apríl 2020.
  75. Sunna Ósk Logadóttir (20. mars 2020). „Fimm misvísandi skilaboð Donalds Trump – og nokkur til“. Kjarninn. Sótt 15. apríl 2020.
  76. Strauss, Daniel; Laughland, Oliver (29. febrúar 2020). „Trump calls coronavirus criticism Democrats' 'new hoax' and links it to immigration“. The Guardian (bresk enska). ISSN 0261-3077. Sótt 15. apríl 2020.
  77. Brauninger, Kevin (24. mars 2020). „Trump wants 'packed churches' and economy open again on Easter despite the deadly threat of coronavirus“. CNBC (bresk enska). Sótt 15. apríl 2020.
  78. Róbert Jóhannsson (24. mars 2020). „Trump vill tilraunir með sterk ljós og sótthreinsi“. RÚV. Sótt 24. maí 2020.
  79. Óttar Kolbeinsson Proppé (22. mars 2020). „Þeir sem tóku malaríulyfið gegn veirunni voru líklegri til að látast“. Fréttablaðið. Sótt 24. maí 2020.
  80. „Gerði lítið úr faraldrinum en vissi betur“. mbl.is. 9. september 2020. Sótt 15. september 2020.
  81. Róbert Jóhannsson (10. september 2020). „Gerði vísvitandi lítið úr hættunni“. RÚV. Sótt 15. september 2020.
  82. Róbert Jóhannsson (12. mars 2020). „Bandaríkin loka á flug frá Evrópu í 30 daga“. RÚV. Sótt 15. apríl 2020.
  83. Patrick Sawer; David Chazan (14. mars 2020). „US bans flights from UK and Ireland in bid to stem coronavirus spread“. The Telegraph. Sótt 15. apríl 2020.
  84. Samúel Karl Ólason (27. mars 2020). „Skrifaði undir stærsta björgunarpakka sögunnar“. Vísir. Sótt 15. apríl 2020.
  85. Hjörvar Ólafsson (14. apríl 2020). „Trump stöðvar greiðslur Bandaríkjanna til WHO“. Fréttablaðið. Sótt 15. apríl 2020.
  86. Markús Þ. Þórhallsson (30. maí 2020). „Bandaríkin slíta á tengsl við WHO“. RÚV. Sótt 5. júní 2020.
  87. Ævar Örn Jósepsson (2. október 2020). „Donald og Melania Trump smituð af kórónuveirunni“. RÚV. Sótt 2. október 2020.
  88. „Trump lagður inn á spítala“. mbl.is. 2. október 2020. Sótt 10. október 2020.
  89. Dagný Hulda Erlendsdóttir (5. október 2020). „Trump útskrifaður af spítala í kvöld“. RÚV. Sótt 10. október 2020.
  90. Sunna Kristín Hilmarsdóttir; Gunnar Reynir Valþórsson (7. október 2020). „Kórónuveiran heldur áfram að breiðast um Hvíta húsið“. Vísir. Sótt 10. október 2020.
  91. Kristín Ólafsdóttir (9. október 2020). „Segir Hvíta húsið hafa boðið upp á „ofurdreifingu" veirunnar“. Vísir. Sótt 13. október 2020.
  92. Oddur Þórðarson (7. nóvember 2020). „Joe Biden sagður kjörinn forseti Bandaríkjanna“. mbl.is. Sótt 7. nóvember 2020.
  93. „Giuliani: Trump játar ekki ósigur“. mbl.is. 7. nóvember 2020. Sótt 7. nóvember 2020.
  94. Þorvarður Pálsson (13. nóvember 2020). „Forsetakosningarnar „þær öruggustu í sögunni". RÚV. Sótt 9. desember 2020.
  95. Magnús H. Jónasson (1. desember 2020). „Engar vísbendingar um víðtækt kosningasvindl“. Fréttablaðið. Sótt 9. desember 2020.
  96. Kristján Kristjánsson (15. desember 2020). „Formlega staðfest að Joe Biden verður næsti forseti Bandaríkjanna“. DV. Sótt 23. desember 2020.
  97. Hildur Margrét Jóhannsdóttir (3. janúar 2021). „„Ég vil bara finna 11.780 atkvæði". RÚV. Sótt 7. janúar 2021.
  98. Vésteinn Örn Pétursson (3. janúar 2021). „Trump þrýsti á flokksbróður og hótaði til að hagræða úrslitunum“. Vísir. Sótt 7. janúar 2021.
  99. „Þrýstir á Pence að staðfesta ekki úrslitin“. mbl.is. 6. janúar 2021. Sótt 7. janúar 2021.
  100. Þórður Snær Júlíusson (6. janúar 2021). „Forseti Bandaríkjanna stýrir fordæmalausri árás á lýðræðið“. Kjarninn. Sótt 7. janúar 2021.
  101. Sunna Kristín Hilmarsdóttir (7. janúar 2021). „Fjórir látnir eftir árásina á þinghúsið“. Vísir. Sótt 7. janúar 2021.
  102. Sunna Kristín Hilmarsdóttir (8. janúar 2021). „Lögreglumaður lést af sárum sínum eftir árásina á þinghúsið“. Vísir. Sótt 8. janúar 2021.
  103. Einar Þór Sigurðsson (6. janúar 2021). „Allt það helsta frá óeirðunum í Washington í kvöld“. Fréttablaðið. Sótt 7. janúar 2021.
  104. 104,0 104,1 Jón Trausti Reynisson (7. janúar 2021). „Trump ávarpar innrásarfólkið: „Við elskum ykkur, þið eruð mjög sérstök". Stundin. Sótt 7. janúar 2021.
  105. „Twitter læsir aðgangi forsetans“. mbl.is. 7. janúar 2021. Sótt 8. janúar 2021.
  106. Lovísa Arnardóttir (8. janúar 2021). „Trump fordæmdi árásina á þinghúsið“. Fréttablaðið. Sótt 8. janúar 2021.
  107. „Ákæra Trump fyrir embættisglöp“. mbl.is. 13. janúar 2021. Sótt 14. janúar 2021.
  108. „„Sanngjörn" réttarhöld ekki möguleg i tæka tíð“. mbl.is. 13. janúar 2021. Sótt 14. janúar 2021.
  109. Hildur Margrét Jóhannsdóttir (13. febrúar 2021). „Trump sýknaður af ákæru um embættisglöp“. RÚV. Sótt 14. febrúar 2021.
  110. Orr, Gabby (15. nóvember 2022). „Former Republican President Donald Trump says he's launching another White House bid“. CNN (enska). Sótt 15. nóvember 2022.
  111. Karlsson, Ari Páll (30. maí 2024). „Donald Trump sakfelldur í New York - RÚV.is“. RÚV. Sótt 10. júní 2024.
  112. Þorgerður Anna Gunnarsdóttir (15. júlí 2024). „J.D. Vance verður varaforsetaefni Donalds Trumps“. RÚV. Sótt 15. júlí 2024.
  113. Ragnarsson, Samúel Karl Ólason,Jón Þór Stefánsson,Tómas Arnar Þorláksson,Rafn Ágúst (11. maí 2024). „Vaktin: For­seta­kosningar í Banda­ríkjunum - Vísir“. visir.is. Sótt 6. nóvember 2024.
  114. Jón Þór Stefánsson (14. júlí 2024). „Svona var vett­vangur á­rásarinnar“. Vísir. Sótt 15. júlí 2024.
  115. Jón Þór Stefánsson (14. júlí 2024). „Grunaður á­rásar­maður hét Thomas Matthew Crooks“. Vísir. Sótt 15. júlí 2024.
  116. Guðmundsson, Brynjólfur Þór (12. nóvember 2024). „Trump stillir upp tryggum bandamönnum í lykilstöður - RÚV.is“. RÚV. Sótt 13. nóvember 2024.


Fyrirrennari:
Barack Obama
Forseti Bandaríkjanna
(20. janúar 201720. janúar 2021)
Eftirmaður:
Joe Biden