Nancy Pelosi
Nancy Patricia D'Alesandro Pelosi (fædd 26. mars 1940) er 55. og fyrrverandi forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Hún gegndi því embætti á tveimur tímabilum, fyrst frá 2007 til 2011 og síðan frá 2019 til 2023. Pelosi hefur setið á þingi fyrir Demókrataflokkinn fyrir 8. kjördæmi Kaliforníu frá 1987 en kjördæmið var númerað sem hið 5. fyrstu þrjú kjörtímabil Pelosi.
Nancy Pelosi | |
---|---|
Forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings | |
Í embætti 3. janúar 2019 – 3. janúar 2023 | |
Forveri | Paul Ryan |
Eftirmaður | Kevin McCarthy |
Í embætti 4. janúar 2007 – 3. janúar 2011 | |
Forveri | Dennis Hastert |
Eftirmaður | John Boehner |
Fulltrúadeildarþingmaður fyrir Kaliforníu | |
Núverandi | |
Tók við embætti 2. júní 1987 | |
Forveri | Sala Burton |
Persónulegar upplýsingar | |
Fædd | 26. mars 1940 Baltimore, Maryland, Bandaríkjunum |
Stjórnmálaflokkur | Demókrataflokkurinn |
Maki | Paul Pelosi (g. 1963) |
Börn | 5 |
Háskóli | Trinity Washington-háskólinn |
Undirskrift |
Pelosi er fyrsta konan til þess að gegna embætti forseta fulltrúadeildarinnar en samkvæmt stjórnarskrá Bandaríkjanna er handhafi þess embættis annar í röðinni, á eftir varaforseta Bandaríkjanna, til að taka við embætti forseta Bandaríkjanna skyldi hann deyja, segja af sér eða á einhvern hátt vera leystur frá störfum. Pelosi var því valdamesti kvenmaður í sögu bandarískra stjórnmála þar til Kamala Harris varð varaforseti árið 2021.[1]
Ævi og menntun
breytaPelosi var fædd Nancy Patricia D'Alesandro í Baltimore í Maryland fylki í Bandaríkjunum þann 26. mars 1940. Pelosi er dóttir Thomas D'Alesandro, Jr. sem var öldungardeildarþingmaður fyrir Maryland fylki og síðar borgarstjóri Baltimore. Árið 1962 útskrifaðist hún frá Trinity háskóla í Washington D.C. með B.A.-gráðu í stjórnmálafræði. Við Trinity háskóla kynntist hún eiginmanni sínum, Paul Frank Pelosi.[2] Parið giftist ári eftir útskrift og fluttist til New York borgar og síðar San Francisco.
Stjórnmál
breytaÁ meðan háskólanámi stóð vann Pelosi sem aðstoðarmaður öldungardeildarþingmannsins Daniel Brewster. Þegar hún fluttist til San Francisco fór hún að vinna á vegum demókrataflokksins í Kaliforníu. Þar kynntist hún fulltrúadeildarþingmanninum Phillip Burton, sem sat á þingi fyrir 5. kjördæmi — kjördæmið sem Pelosi myndi síðar vera fulltrúi fyrir. Phillip Burton lést árið 1983 og var þá kona hans Sala Burton kjörin í hans stað. Þegar að Sala greindist með krabbamein á síðari hluta áratugarins og bauð sig ekki fram til endurkjörs árið 1988. Pelosi hlaut stuðning Burton til kosninga um tilnefningu demókrata til sætisins og sigraði naumlega andstæðing sinn. Þegar kosið var um fulltrúa 5. kjördæmisins til fulltrúadeildar sigraði hún frambjóðanda repúblikana með miklum yfirburðum.
Árið 2004 varð Pelosi fyrsta konan til að gegna stöðu leiðtoga minnihlutans í fulltrúadeildinni.[3] Þremur árum síðar, við upphaf 110. þings Bandaríkjaþings var hún kjörin forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Pelosi gegndi embættinu til ársins 2011, en þá guldu Demókratar afhroð í þingkosningum og Pelosi varð leiðtogi minnihlutans á ný.
Eftir að Demókratar endurheimtu meirihluta á fulltrúadeildinni í þingkosningum árið 2018 varð Pelosi þingforseti á ný.[4] Hún tók við af Paul Ryan, þingforseta Repúblikana, þann 3. janúar 2019.
Þann 24. september árið 2019 tilkynnti Pelosi að fulltrúadeildin hygðist hefja formlegt ákæruferli gegn Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrir mögulegt embættisbrot. Tilefnið var uppljóstrun um að Trump hefði í símtali beitt óeðlilegum þrýstingi á Volodymyr Zelenskyj, forseta Úkraínu, til að fá úkraínsk stjórnvöld til að hefja rannsóknir á fjármálum fjölskyldu Joe Biden, fyrrum varaforseta Bandaríkjanna og hugsanlegs mótframbjóðanda Trumps í forsetakosningunum 2020.[5]
Pelosi samþykkti aðra kæru gegn Trump eftir að stuðningsmenn hans gerðu árás á bandaríska þinghúsið í Washington undir lok forsetatíðar hans í janúar 2021.[6]
Undir lok október 2022 braust maður að nafni David DePape inn á heimili Pelosi í San Francisco og réðst á eiginmann hennar, Paul Pelosi, með hamri.[7] Nancy var ekki heima þegar innbrotið var gert en DePape hafði ætlað að ræna henni og veita henni áverka ef hún „segði honum ekki sannleikann“. Paul Pelosi var fluttur á sjúkrahús eftir árásina en útskrifaðist þaðan þann 4. nóvember.[8]
Í kjölfar þingkosninga árið 2022, þar sem Demókratar töpuðu meirihluta sínum á fulltrúadeildinni, tilkynnti Pelosi að hún myndi ekki sækjast eftir endurkjöri sem þingflokksleiðtogi flokksins. Hún hafði þá leitt þingflokk Demókrata á fulltrúadeildinni í tæp 20 ár. Hún mun hins vegar sitja áfram sem almennur þingmaður.[9]
Heimildir
breyta- ↑ „Nancy Pelosi“ Geymt 21 júlí 2011 í Wayback Machine, WhoRunsGov.com. Skoðað 3. febrúar 2010.
- ↑ „Pelosi: Remarks at Georgetown University School of Foreign Commencement“. House.gov. 18. maí 2002. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. ágúst 2008. Sótt 14. júní 2010.
- ↑ Speaker Nancy Pelosi Geymt 29 mars 2019 í Wayback Machine, U.S. House of Representatives Official Web Page. Skoðað 3. febrúar 2010.
- ↑ „Pelosi tekur við af Ryan“. mbl.is. 7. nóvember 2018. Sótt 7. nóvember 2018.
- ↑ Hallgrímur Indriðason (24. september 2019). „Meint brot Trump í formleg ákæruferli“. RÚV. Sótt 2019.
- ↑ Sylvía Hall (9. janúar 2021). „Demókratar undirbúa ákæru fyrir embættisbrot“. Vísir. Sótt 21. janúar 2021.
- ↑ „Pelosi varð fyrir fólskulegri árás“. mbl.is. 28. október 2022. Sótt 16. nóvember 2022.
- ↑ Markús Þ. Þórhallsson (4. nóvember 2022). „Paul Pelosi útskrifaður af sjúkrahúsi“. RÚV. Sótt 16. nóvember 2022.
- ↑ Kjartan Kjartansson (17. nóvember 2022). „Pelosi stígur til hliðar eftir tæplega tveggja áratuga forystu“. Vísir. Sótt 17. nóvember 2022.
Fyrirrennari: Dennis Hastert |
|
Eftirmaður: John Boehner | |||
Fyrirrennari: Paul Ryan |
|
Eftirmaður: Kevin McCarthy |