Dauðarefsing felst í því að taka af lífi dæmda sakamenn í refsingarskyni. Aftökur á brotamönnum og pólitískum andstæðingum hafa verið hluti af nánast öllum samfélögum í gegnum tíðina en hafa nú verið afnumdar í mörgum löndum.

Staða dauðarefsingar í heiminum.
Rautt: Dauðarefsingu beitt vegna ákveðinna afbrota: 55 lönd
Brúnn: Afnumin í reynd (ekki notuð í meira en 10 ár) en ekki með lögum: 23 lönd.
Grænt: Afnumin fyrir glæpi sem ekki eru framdir við sérstakar aðstæður (svosem í stríði): 7 lönd
Grátt: Afnumin.
Cesare Beccaria, Dei delitti e delle pene

Konungsríkið Tahiti var fyrst ríkja heims til að afnema dauðarefsingu úr lögum, árið 1824.[1] Flest ríki í Evrópu, Ameríku og Eyjaálfu hafa afnumið dauðarefsingu úr lögum sínum, annaðhvort algjörlega eða fyrir glæpi sem ekki eru framdir við sérstakar aðstæður eins og til dæmis á stríðstímum eða þá að þau hafa ekki tekið neinn af lífi í lengri tíma. Stærsta undantekningin eru Bandaríkin en þar eru 28 fylki með dauðarefsingu. Í Asíu halda flest ríki í dauðarefsingu og í Afríku eru ríkin álíka mörg sem að nota dauðarefsingu og þau sem gera það ekki [heimild vantar].

Árið 2017 höfðu 142 ríki afnumið dauðarefsingu í lögum eða í reynd. Fjögur lönd voru ábyrg fyrir 84% af aftökum árið 2017 (Sádí Arabía, Írak, Pakistan og Íran). Kína er þar undanskilið en tölfræðin er ekki gefin út.

Árið 2022 höfðu 55 ríki dauðarefsingar. Sum ríki hafa ekki tekið nokkurn af lífi í áratugi en hafa þó ekki afnumið dauðarefsingu með lögum. [2]

Þar sem dauðarefsing er notuð er það vegna þeirra glæpa sem metnir eru alvarlegastir í hverju samfélagi. Oft er það aðeins morð en í mörgum ríkjum einnig fyrir glæpi eins og: landráð, nauðganir, fíkniefnaglæpi, þjófnaði, spillingu, hryðjuverk, sjórán og íkveikjur. Ýmis hegðun tengd trúarbrögðum og kynlífi varðar ekki lengur við dauðarefsingu víðast hvar, þar má nefna galdra, villutrú, trúleysi, samkynhneigð og hórdóm. Í herjum eru oft sérstakir herdómstólar sem að dæma menn til dauða fyrir heigulshátt, liðhlaup, óhlýðni eða uppreisnir.

Þær aðferðir sem beitt hefur verið við fullnustu dauðarefsingar eru fjölmargar og takamarkast aðeins af hugmyndaauðgi þeirra sem í hlut eiga en einna algengast er að fólk sé skotið, hengt, hálshöggvið eða líflátið með eitri.

Dauðarefsingar á Íslandi

breyta
Aðalgrein: Aftökur á Íslandi

Á þjóðveldisöld (930-1264) var ein tegund refsinga skóggangur. Þar voru menn útskúfaðir úr samfélaginu og réttdræpir hvar sem til þeirra náðist.

Við Siðaskipti (um 1550) varð löggjöf strangari og árið 1564 gekk í gildi svonefndur Stóridómur, sem viðkom siðferðismálum.[3] Vitað er um 220 aftökur á Íslandi á tímabilinu frá 1596 til 1830 þegar þeim var hætt. Konum var jafnan drekkt og karlar hálshöggnir.[4]

Síðasta aftakan á Íslandi fór fram 12. janúar 1830, þegar tekin voru af lífi Agnes Magnúsdóttir, vinnukona á Illugastöðum og Friðrik Sigurðsson frá Katadal. Þau höfðu verið dæmd til dauða fyrir morð á tveimur mönnum aðfaranótt 14. mars 1828: Natans Ketilssonar bónda á Illugastöðum og Péturs Jónssonar frá Geitaskarði. Þorgeir Þorgeirson skrifaði skáldsöguna Yfirvaldið upp úr málsgögnum og öðrum heimildum um þessa atburði.

Eftir 1830 var tugur manna dæmdur til dauða. En konungur mildaði refsingu allra svo að enginn var tekinn af lífi samkvæmt dómi. Oft tengdist það óheimilu kynlífi.

Árið 1869 voru sett ný hegningarlög, í takt við ný dönsk lög en þá var felld niður dauðarefsing vegna dulsmáls og blóðskammar.

Sá einstaklingur sem síðastur var dæmdur til dauða á Íslandi var Júlíana Silva Jónsdóttir sem bjó á Brekkustíg 14 í Reykjavík. Hún myrti í nóvember 1913 bróður sinn með fosfóri og lést hann nokkrum dögum síða eftir miklar kvalir. Hún hafði bætt fosfórinu í skyr sem hún gaf honum. Hún var dæmd til dauða vorið eftir. Á endanum var dóminum breytt í langa fangelsisvist.[5]

Dauðarefsingar voru með öllu afnumdar árið 1928 [6].

Sjá einnig

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Alexandre Juster, L'histoire de la Polynésie française en 101 dates : 101 événements marquants qui ont fait l'histoire de Tahiti et ses îles, Les éditions de Moana, 2016, bls. 40
  2. Death penalty: How many countries still have it?BBC, skoðað 25. janúar, 2024.
  3. Már Jónsson. „Hvað er Stóridómur?“. Vísindavefurinn 23. ágúst 2004. http://visindavefur.is/?id=4476. (Skoðað 1. mars 2019).
  4. Fátækir fórnarlömbin í aftökusögu Íslendinga Vísir.is, skoðað 1. mars 2019.
  5. „Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í íslenzkum málum“. timarit.is. Sótt 24. maí 2013.
  6. Hvenær var síðasta aftakan á Íslandi? Vísindavefur, skoðað 1. mars, 2019.