Árásin á Bandaríkjaþing 2021
Árás á Bandaríkjaþing var gerð þann 6. janúar árið 2021 á þinghúsið í Washington á meðan fundur beggja deilda Bandaríkjaþings stóð yfir. Árásin var framin af stuðningsmönnum Donalds Trump fráfarandi Bandaríkjaforseta, sem vonuðust til þess að koma í veg fyrir að þingið staðfesti atkvæði bandaríska kjörmannaráðsins úr forsetakosningunum 2020, þar sem Trump hafði beðið ósigur gegn Joe Biden, frambjóðanda Demókrataflokksins. Trump hafði neitað að viðurkenna ósigur í kosningunum og ítrekað vænt Biden um svindl, en tilraunir hans til að fá niðurstöðu kosninganna hnekkt fyrir dómi höfðu allar mistekist vegna skorts á sönnunargögnum og annarra lagalegra annmarka.[1]
Að minnsta kosti fimm létust í árásinni. Lögregla skaut eina árásarkonu í átökum inni í þinghúsinu og þrír til viðbótar létust af ókunnum orsökum síðar um daginn.[2] Einn lögreglumaður lést úr sárum sínum tveimur dögum eftir árásina.[3]
Árásarmennirnir voru mestmegnis stuðningsmenn Trumps, meðlimir í öfgahægrihreyfingum og Militiahreyfingum og áhagendur samsæriskenningarinnar QAnon.[4] Sumir af þátttakendunum í árásinni kölluðu atburðinn „byltingu“. Aðrir hafa ýmist kallað árásina uppreisn, hryðjuverk eða tilraun til valdaráns.[5] Árásin var fyrsta skipti frá árinu 1814 sem tekið hefur verið yfir þinghúsið í Washington, en þá brutust breskir hermenn inn í það í stríðinu 1812 og kveiktu í því.
Atburðarás
breytaÍ aðdraganda árásarinnar höfðu stuðningsmenn Trumps safnast saman í Washington á mótmælasamkomu undir formerkjunum „Björgum Bandaríkjunum“. Trump hafði þar ávarpað stuðningsmenn sína og sagt þeim að „berjast“ til að koma í veg fyrir staðfestingu á niðurstöðum kosninganna. Lögfræðingur Trumps, Rudy Giuliani, hafði þar jafnframt hvatt til þess að deilan um kosningarnar yrði útkljáð með „bardagaréttarhöldum“ (e. trial by combat). Trump hafði í kjölfarið hvatt stuðningsmenn sína til að fjölmenna að þinghúsinu til að mótmæla staðfestingu atkvæðatalningarinnar. Í kjölfarið brutust stuðningsmenn Trumps inn í þinghúsið með lítilli mótstöðu og rufu þingfundinn. Þingmennirnir og aðrir starfsmenn í þinghúsinu, þar á meðal Mike Pence, fráfarandi varaforseti Bandaríkjanna, og Kamala Harris, nýkjörinn varaforseti, flúðu af vettvangi.[6]
Eftir að árásarmennirnir höfðu tekið yfir þinghúsið og ljóst var að lögreglu borgarinnar væri ofviða að koma þeim burt var þjóðvarðlið Virginíu kallað á vettvang með leyfi fylkisstjóra Virginíu.[6] Varnarmálaráðuneyti Trumps neitaði í fyrstu að senda þjóðvarðlið alríkisstjórnarinnar á vettvang til að stilla til friðar en að endingu var þjóðvarðliðið sent eftir að Mike Pence gaf heimild fyrir því.[7]
Tilkynnt var um að heimatilbúnar sprengjur hefðu fundist í borginni nærri höfuðstöðvum bæði Demókrataflokksins og Repúblikanaflokksins á meðan árásin stóð yfir. Sprengjusveitir alríkislögreglunnar voru sendar á vettvang til að sprengja þær. Fyrir utan höfuðstöðvar Repúblikanaflokksins fannst jafnframt pallbíll með farm af rifflum og haglabyssum auk skotfæra og ýmissa ótilgreindra efna.[8]
Á meðan árásarmennirnir sátu í þinghúsinu birti Trump myndbandsfærslu á Twitter þar sem hann bað stuðningsmenn sína að fara heim, en ítrekaði um leið marklausar staðhæfingar sínar um að kosningunum hefði verið stolið og að hann hefði í raun unnið yfirburðasigur. Trump sagðist jafnframt „elska“ árásarmennina.[9] Í ljósi yfirstandandi ofbeldis í höfuðborginni lét Twitter í kjölfarið loka notendaaðgangi forsetans tímabundið vegna brota á reglum miðilsins.[10] Eftir að Twitter-aðgangur Trumps var opnaður á ný aðfaranótt 8. janúar gaf hann út annað myndband þar sem hann fordæmdi árásina á þinghúsið og lofaði í þetta sinn að valdfærslan til Bidens yrði friðsamleg.[11]
Eftir að þinghúsið var endurheimt frá stuðningsmönnum Trumps komu þingmenn saman á ný og staðfestu sigur Bidens í kosningunum.[12]
Viðbrögð
breytaÝmsir ráðherrar og embættismenn í stjórn Trumps sögðu af sér vegna árásarinnar, meðal annars Elaine Chao samgönguráðherra,[13] Betsy DeVos menntamálaráðherra[14] og Chad Wolf starfandi heimavarnarmálaráðherra.[15]
Þann 13. janúar samþykkti fulltrúadeild Bandaríkjaþings frumvarp um að kæra Trump fyrir embættisbrot vegna þáttar hans í að egna stuðningsmenn sína til að ráðast á þinghúsið.[16] Réttarhöldum hans lauk ekki fyrr en eftir að kjörtímabili hans lauk, og var Trump þá sýknaður af öldungadeild Bandaríkjaþings. 57 þingmenn kusu með sakfellingu Trumps en 43 á móti, en tvo þriðju þingmanna þarf til að sakfella embættismann í embættismissisréttarhöldum.[17][18]
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, fordæmdi árásina á þinghúsið og sagði hana hafa verið „að áeggjan fráfarandi forseta“.[19]
Sjá einnig
breytaTilvísanir
breyta- ↑ Þórður Snær Júlíusson (6. janúar 2021). „Forseti Bandaríkjanna stýrir fordæmalausri árás á lýðræðið“. Kjarninn. Sótt 7. janúar 2021.
- ↑ Sunna Kristín Hilmarsdóttir (7. janúar 2021). „Fjórir látnir eftir árásina á þinghúsið“. Vísir. Sótt 7. janúar 2021.
- ↑ Sunna Kristín Hilmarsdóttir (8. janúar 2021). „Lögreglumaður lést af sárum sínum eftir árásina á þinghúsið“. Vísir. Sótt 8. janúar 2021.
- ↑ Samúel Karl Ólason (7. janúar 2021). „Öfgamenn áberandi í árásinni á þinghúsið“. Vísir. Sótt 7. janúar 2021.
- ↑ „„Valdarán vitfirringar"“. mbl.is. 7. janúar 2021. Sótt 7. janúar 2021.
- ↑ 6,0 6,1 Vésteinn Örn Pétursson; Sylvía Hall (7. janúar 2021). „Trump einangraður eftir ótrúlega atburðarás“. Vísir. Sótt 7. janúar 2021.
- ↑ Einar Þór Sigurðsson (6. janúar 2021). „Allt það helsta frá óeirðunum í Washington í kvöld“. Fréttablaðið. Sótt 7. janúar 2021.
- ↑ „Grunur um tvær sprengjur í Washington“. mbl.is. 7. janúar 2021. Sótt 8. janúar 2021.
- ↑ Jón Trausti Reynisson (7. janúar 2021). „Trump ávarpar innrásarfólkið: „Við elskum ykkur, þið eruð mjög sérstök"“. Stundin. Sótt 7. janúar 2021.
- ↑ „Twitter læsir aðgangi forsetans“. mbl.is. 7. janúar 2021. Sótt 8. janúar 2021.
- ↑ Lovísa Arnardóttir (8. janúar 2021). „Trump fordæmdi árásina á þinghúsið“. Fréttablaðið. Sótt 8. janúar 2021.
- ↑ Sunna Kristín Hilmarsdóttir (7. janúar 2021). „Kjör Bidens staðfest þrátt fyrir innrás í þinghúsið“. Vísir. Sótt 7. janúar 2021.
- ↑ Magnús H. Jónasson (7. janúar 2021). „Samgönguráðherra Bandaríkjanna segir af sér“. Fréttablaðið. Sótt 14. janúar 2021.
- ↑ Markús Þ. Þórhallsson (8. janúar 2021). „Betsy DeVos menntamálaráðherra Trumps segir af sér“. RÚV. Sótt 8. janúar 2021.
- ↑ „Þriðji ráðherrann í ríkisstjórn Trumps segir af sér“. mbl.is. 11. janúar 2021. Sótt 14. janúar 2021.
- ↑ „Ákæra Trump fyrir embættisglöp“. mbl.is. 13. janúar 2021. Sótt 14. janúar 2021.
- ↑ „„Sanngjörn" réttarhöld ekki möguleg i tæka tíð“. mbl.is. 13. janúar 2021. Sótt 14. janúar 2021.
- ↑ Hildur Margrét Jóhannsdóttir (13. febrúar 2021). „Trump sýknaður af ákæru um embættisglöp“. RÚV. Sótt 14. febrúar 2021.
- ↑ Hildur Margrét Jóhannsdóttir; Haukur Holm (7. janúar 2021). „Árás á lýðræðið „að áeggjan fráfarandi forseta"“. RÚV. Sótt 7. janúar 2021.