Robert Mueller

Robert Swan Mueller III (f. 7. ágúst 1944) er bandarískur málafærslumaður sem var sjötti formaður bandarísku alríkislögreglunnar frá 2001 til 2013.[1] Mueller er skráður Repúblikani og var settur í embættið af George W. Bush Bandaríkjaforseta. Barack Obama Bandaríkjaforseti framlengdi tíu ára embættistímabil hans um tvö ár og Mueller gegndi embættinu því lengur en nokkur formaður alríkislögreglunnar síðan J. Edgar Hoover var og hét. Mueller er núna formaður rannsóknarnefndar um rússnesk afskipti af bandarísku forsetakosningunum árið 2016.

Robert Mueller
Director Robert S. Mueller- III.jpg
Formaður bandarísku alríkislögreglunnar
Í embætti
4. september 2001 – 4. september 2013
Persónulegar upplýsingar
Fæddur7. ágúst 1944 (1944-08-07) (75 ára)
New York, Bandaríkjunum
ÞjóðerniBandarískur
StjórnmálaflokkurRepúblikanaflokkurinn
MakiAnn Cabell Standish (g. 1966)
Börn2
HáskóliPrinceton-háskóli
Undirskrift

Mueller er útskrifaður úr Princeton-háskóla og gegndi herþjónustu í bandaríska sjóhernum í Víetnamstríðinu. Þar hlaut hann Bronsstjörnuorðuna fyrir hugprýði og Purple Heart-orðuna sem sæmd er hermönnum sem hafa særst í átökum. Hann útskrifaðist úr lagaháskólanum í Virginíu árið 1973 og vann hjá lögfræðistöfu í San Francisco í þrjú ár þar til hann var útnefndur aðstoðarmálafærslumaður í sömu borg. Áður en hann var útnefndur formaður alríkislögreglunnar var Mueller ríkismálafærslumaður og aðalmálafærslumaður fyrir glæpadeild auk þess sem hann var varadómsmálaráðherra.

Í maí árið 2017 var Mueller útnefndur af Rod Rosenstein varadómsmálaráðherra sem sérstakur saksóknari til að sjá um rannsókn á afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum árið 2016. Rannsóknin snýr einnig að tengslum rússnesku ríkisstjórnarinnar og á kosningaherferð Donalds Trump[2] og möguleikanum á því að Trump hafi sem Bandaríkjaforseti gerst sekur um að hindra framgang réttvísinnar með því að reka James Comey, formann bandarísku alríkislögreglunnar.

Rannsókn Muellers lauk í mars árið 2019. Í niðurstöðum rannsóknarinnar sagðist Mueller ekki hafa fundið sannanir fyrir því að kosningaherferð Trumps hefði átt samráð með afskiptum Rússa í kosningunum en tók þó ekki beina afstöðu með eða á móti því að Trump hefði hindrað framgang réttvísinnar.[3] Í vitnisburði sínum fyrir Bandaríkjaþingi í júlí 2019 hafnaði Mueller því að skýrsla hans hefði hreinsað Trump af ásökunum um síðari glæpinn.[4]

TilvísanirBreyta

  1. „Robert Mueller Biography; Special Counsellor of Justice Department“. BiographyTree. August 5, 2017. Sótt February 20, 2018.
  2. Ruiz, Rebecca R. og Landler, Mark May 17, 2017, „Robert Mueller, Former F.B.I. Director, Is Named Special Counsel for Russia Investigation". The New York Times. (en-US) ISSN 0362-4331 Geymt frá upphaflegu greininni May 17, 2017. Skoðað December 3, 2017.
  3. „Áttu ekki óeðli­leg sam­skipti við Rússa“. mbl.is. 24. mars 2019. Sótt 25. mars 2019.
  4. Kjartan Kjartansson (24. júlí 2019). „Robert Mueller við þingnefnd: „Forsetinn var ekki hreinsaður af sök““. Vísir. Sótt 26. september 2019.