Fulltrúadeild Bandaríkjaþings

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings er neðri deild Bandaríkjaþings, en þar sitja 435 þingmenn fyrir 50 fylki.

Skjaldamerki Fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.

Um þingið

breyta

Bandaríkjaþing á rætur sínar að rekja aftur til ársins 1787 þegar Bandaríkin lýstu yfir sjálfstæði og ákveðið var að hafa tvær deildir til að tryggja það að ekki skapaðist ójafnvægi á milli fylkja heldur hefðu öll fylki fulltrúa til að standa vörð um þeirra hagsmuni.

Fulltrúar í neðri deild Bandaríkjaþings eru 435 talsins en þeir eru kosnir til tveggja ára í einmenningskjördæmiskosningu. Auk fulltrúanna 435 eru nokkur svæði með áheyrnafulltrúa sem eru án atkvæðisréttar en það eru höfuðborgin, Washington DC, Bandarísku Samóaeyjarnar, Gvam (Guam), Bandarísku Jómfrúaeyjar og Norður-Maríanaeyjar auk eins fastafulltrúa (e. Resident Commissioner) frá Puerto Rico sem kosinn er til fjögurra ára. Þessir sex fulltrúar og fastafulltrúinn mega taka þátt í umræðum og kjósa í nefndum. Þeir mega einnig kjósa í „nefnd heildarinnar“ (e. Committee of the Whole) þegar atkvæði þeirra ráða ekki úrslitum en nefnd heildarinnar er nokkurs konar tæki þingsins til að kanna viðhorf þingmanna til frumvarps og leggja fram lagabreytingar.

Misjafnt er hversu margir þingmenn sitja fyrir hvert fylki en eftir því sem íbúar fylkisins eru fleiri, því fleiri kjördæmi eru innan fylkisins. Kalifornía er með flesta þingmenn eða 53 en sjö fylki hafa aðeins einn þingmann en það eru Alaska, Delaware, Montana, Norður-Dakóta, Suður-Dakóta, Vermont og Wyoming. Þingmenn bera ákveðnar skyldur gagnvart sínu heimafylki og fara oft heim í fríum til að sinna vinnu þar en hugmyndin er að þingmennirnir kjósi um frumvörp á grundvelli hagsmuna síns kjördæmis.[1] Frambjóðendur til fulltrúadeildarinnar verða að vera 25 ára, hafa búið í Bandaríkjunum í sjö ár og búa í því fylki sem þeir eru fulltrúi fyrir en ekkert takmark er fyrir því hversu oft þingmenn mega bjóða sig fram til setu í fulltrúadeildinni. Kosningar til fulltrúadeildarinnar eru ávallt á þriðjudegi eftir fyrsta mánudag í nóvember á árum sem enda á sléttri tölu.

Helstu embætti innan þingsins

breyta

Helstu leiðtogar á þinginu er forseti þingsins (e. speaker) eða forseti þingsins sem nú er Mike Johnson. Forseti þingsins er jafnframt leiðtogi meirihlutans og hefur hann þó nokkur völd. Hann ákveður í hvaða nefndir frumvörp eru send, skipuleggur dagskrána og er andlit flokks síns út á við. Forseti á að framfylgja reglum þingsins á sanngjarnan hátt en þó er búist við því að hann nýti sér forréttindin sem fylgja embættinu flokk sínum í hag. Leiðtogi minnihlutans sem nú er Hakeem Jeffries er síðan andlit minnihlutans út á við. „Svipa“ (e. whip) meirihluta og minnihluta er einnig mikilvægt hlutverk en svipan er í raun samskiptastjóri flokksins, hann á að vita hvað flokksmeðlimir vilja, hvað þeir þola og sjá til þess að þeir kjósi rétt. Svipa meirihluta nú er Tom Emmer en svipa minnihluta Katherine Clark. Aðrir mikilvægir aðilar eru formaður flokksstjórnarfundar og formaður nefndar um þingframboð flokksins.

Innan fulltrúadeildarinnar starfa nefndir ýmissa málefna, s.s. landbúnaðarnefnd, dómsmálanefnd, utanríkisnefnd, skattanefnd og fleira, alls 25 talsins. Einnig eru skipaðar tímabundnar nefndir en helstu hlutverk nefndanna eru að bæði valdinu og vinnunni sé dreift. Fulltrúadeildin myndi án þeirra hafa allt of mikið að gera, auk þess sem þetta hvetur þingmenn til að sérhæfa sig á ákveðnum sviðum til að komast í nefndarsetu.

Hlutverk

breyta

Mikilvægasta hlutverk fulltrúadeildarinnar er löggjafarvaldið en auk þess hefur fulltrúadeildin umsjón með fjárlögum og yfirlýsingu um stríð. Einnig hefur fulltrúadeildin mikilvægt hlutverk í að stuðla að jafnvægi í þrískiptingu valdsins og hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu.

Löggjöf fer þannig fram að frumvörp verða til í annarri hvorri deildinni nema frumvörp sem varða fjárlög, þau verða að koma frá fulltrúadeildinni. Báðar deildirnar skiptast á að ræða og kjósa um frumvörp, alls tvisvar, en báðar deildir verða að samþykkja frumvarpið áður en það er sent til forsetans til undirritunar. Ef forsetinn neitar að undirrita frumvarpið þá er það sent aftur til þingsins en frumvarpið verður þá ekki að lögum nema með 2/3 atkvæða í báðum deildum þingsins.

Fulltrúadeildin hefur að auki ákveðin völd sem öldungadeildin hefur ekki, svo sem að kjósa forsetann ef kjörmannaráð stendur á jöfnu og leggja til málshöfðun gegn forseta (e. impeachment) en helsti munur á öldungadeildinni og fulltrúadeildinni er að öldungadeildin er mun frjálslegri. Í fulltrúadeildinni er ákveðið í upphafi hversu lengi megi ræða frumvarp en í öldungadeildinni er málþóf algengt þar sem tíminn er ekki takmarkaður og aðeins er hægt að stoppa málþóf með samþykki aukins meirihluta (60 þingmenn af 100) öldungadeildaþingmanna. Þetta gerir það að verkum að réttur minnihlutans verður meiri og meirihlutinn neyðist oft til að málamiðla. Að auki eru flokkslínur í öldungadeildinni óljósari heldur en í neðri deildinni þar sem mikill flokksagi ríkir.

Tilvísanir

breyta
  1. „House of Representatives“. Sótt 11. október 2010.

Heimildir

breyta

Tenglar

breyta