Covid-19 faraldurinn

Kórónaveirufaraldurinn er heimsfaraldur sjúkdómsins COVID-19 sem er af völdum kórónaveirunnar SARS-CoV-2.

Kórónaveirufaraldur[1]
Land eða landsvæði [a] Staðfest smit Dauðsföll
Bandaríkin 107.000.000 1.170.000
Indland 45.000.000 530.000
Frakkland 40.000.000 167.000
Brasilía 38.000.000 704.000
Þýskaland 38.000.000 174.000
Tyrkland 17.000.000 102.000
Bretland 24.600.000 226.000
Rússland 23.000.000 400.000
Suður-Kórea 32.000.000 35.000
Spánn 14.000.000 121.000
Ítalía 26.000.000 190.000
Japan 34.000.000 75.000
Ástralía 12.000.000 22.000
Víetnam 11.000.000 43.000
Argentína 10.000.000 130.000
Mexíkó 7.600.000 334.000
Perú 4.500.000 220.000
Kólumbía 6.000.000 140.000
Pólland 6.500.000 120.000
Íran 7.500.000 145.000
Indónesía 6.800.000 160.000
Úkraína 5.600.000 112.000
Suður-Afríka 4.000.000 100.000
Malasía 5.000.000 37.000
Síle 5.300.000 65.000
Írak 2.500.000 25.000
Tékkland 4.600.000 42.000
Holland 8.500.000 23.000
Kanada 4.700.000 52.000
Belgía 4.800.000 34.000
Rúmenía 3.400.000 68.000
Grikkland 6.100.000 37.000
Filippseyjar 4.100.000 66.000
Svíþjóð 2.700.000 24.500
Bangladess 2.000.000 29.000
Ísrael 4.800.000 12.000
Portúgal 5.700.000 27.000
Pakistan 1.500.000 30.000
Taíland 4.800.000 34.000
Ungverjaland 2.200.000 49.000
Norður-Kórea 5.000.000 74
Taívan 10.000.000 19.000
Serbía 2.500.000 18.000
Danmörk 3.200.000 8.800
Írland 1.700.000 9.000
Marokkó 1.300.000 16.000
Sádi-Arabía 800.000 10.000
Sviss 4.400.000 14.000
Nepal 1.000.000 12.000
Jórdanía 1.700.000 14.000
Austurríki 6.000.000 23.000
Líbanon 1.200.000 11.000
Kasakstan 1.400.000 14.000
Túnis 1.000.000 29.000
Ekvador 1.000.000 36.000
Hvíta-Rússland 1.000.000 7.000
Sameinuðu arabísku furstadæmin 1.000.000 2.000
Króatía 1.300.000 18.000
Georgía 1.800.000 17.000
Slóvakía 1.900.000 21.000
Úrúgvæ 1.000.000 7.000
Armenía 400.000 9.000
Egyptaland 500.000 25.000
Kúveit 600.000 2.500
Bosnía og Hersegóvína 400.000 16.000
Katar 500.000 700
Noregur 1.500.000 5.500
Nýja-Sjáland 2.400.000 4.500
Búlgaría 1.300.000 38.000
Bólivía 1.200.000 22.000
Dóminíska lýðveldið 600.000 4.000
Panama 1.000.000 9000
Gvatemala 1.300.000 20.000
Kosta Ríka 1.200.000 9.000
Barein 700.000 1.500
Kúba 1.100.000 8.500
Venesúela 500.000 6.000
Palestína 600.000 5.000
Litáen 1.300.000 10.000
Hondúras 500.000 11.000
Eþíópía 500.000 7.500
Sri Lanka 700.000 17.000
Slóvenía 1.300.000 7.000
Moldóva 600.000 12.000
Mjanmar 600.000 19.000
Alsír 300.000 7.000
Kína 500.000 5.200
Finnland 1.500.000 10.000
Aserbaídsjan 800.000 10.000
Afganistan 200.000 8.000
Singapúr 2.500.000 1.700
Andorra 48.000 160
Lettland 1.000.000 6.000
Eistland 600.000 3.000
Lúxemborg 300.000 1.200
Hong Kong 2.300.000 14.000
Ísland 209.000 250
Færeyjar 35.000 28
Grænland 12.000 21
Diamond Princess skipið [b] 712 12
Alls 775.000.000 7.000.000
Neðanmálsgreinar
  1. Miðað við landið þar sem smitið greindist, ekki ríkisfang hins smitaða eða landið þar sem smit átti sér stað.
  2. Hér er átt við smit um borð í skipinu Diamond Princess sem var í sóttkví innan japönsku landhelginnar.

Smitleið sjúkdómsins milli einstaklinga mun vera snerti- og dropasmit. Það þýðir að veiran dreifast þegar veikur einstaklingur hóstar, hnerrar eða snýtir sér í návígi við aðra í sama rými og heilbrigður einstaklingur andar að sér agnarsmáu dropunum. Veiran getur einnig lifað í stuttan tíma á öðrum snertiflötum þar sem droparnir lenda. Það að snerta veika einstaklinga eða sameiginlega snertifleti felur þannig í sér ákveðna áhættu.

Útsettir fyrir smiti eru því allir þeir sem hafa verið innan við 1–2 metra frá veikri manneskju meðan viðkomandi var með hósta eða hnerra, eða hafa snert viðkomandi, sofið í sama rúmi, dvalið í sama húsnæði eða verið í sama farartæki.[2]

Alls hafa um 770 milljónir tilvik verið staðfest í yfir 200 löndum og landsvæðum. Dauðsföll sem rekja má til sjúkdómsins eru um 7 milljónir. Raunverulegar tölur gætu verið mun hærri, 15-21 milljónir samkvæmt sérfræðingum. [3]

Á Íslandi hafa um 209.000 smitast og 250 látist. Andlát eru þó talin vera fleiri og landlæknisembættið hefur metið að allt að 440 hafi látist. [4]

Veiran var fyrst greind í desember 2019 í borginni Wuhan í Kína.

Í maí 2023 lýsti alþjóðaheilbrigðismálastofnunin að Covid væri ekki lengur ógn. [5]

Einstaka lönd

breyta

Ísland

breyta
Aðalgreinar: Kórónaveirufaraldurinn 2019–2021 á Íslandi

Fyrsta tilvik COVID-19 á Íslandi var greint 28. febrúar 2020. Það var maður á fimmtugsaldri sem hafði verið í bænum Andalo á Norður-Ítalíu. Í kjölfarið var vinnustaður mannsins settur í sóttkví sem og þeir sem búa á sama heimili og maðurinn.[6][7][8][9][10]

Fyrstu smitin (til 6. mars 2020) voru öll rakin til Norður-Ítalíu og til Austurríkis.[11]

Ríkislögreglustjóri lýsti yfir neyðarstigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni vegna kórónaveiru eftir að fyrstu smit innanlands voru staðfest 6. mars 2020.[12] Strax í kjölfarið var tekin ákvörðun um að banna heimsóknir gesta til allra starfsstöðva Landspítalans frá og með 6. mars 2020, þ.m.t. á Landspítalanum í Fossvogi, á Hringbraut, Vífilsstöðum, Grensás, Landakoti og Kleppi. Undantekningar voru aðeins gerðar í sérstökum tilvikum.[13] Samdægurs var tekin ákvörðun um að loka starfsstöðvum og starfseiningum Reykjavíkurborgar sem viðkvæmir hópar sóttu, m.a. dagdvalir fyrir eldra fólk, vinnu- og virknimiðuð stoðþjónusta fyrir fatlað fólk og skammtímadvalir fyrir fötluð börn, ungmenni og fullorðna einstaklinga.[14]

Fyrir ferðamenn sem kunnu að vera smitaðir með COVID-19 og aðra sem þurftu á því að halda var Fosshótel Lind við Rauðarárstíg breytt í sóttkvíarhús.[15]

Sýkla- og veirufræðideild Landspítalans ásamt Íslenskri erfðagreiningu tóku að sér að skima Íslendinga fyrir veirunni um miðjan mars undir stjórn sóttvarnarlæknis.[16]

Frá 19. mars 2020 var Íslendingum og öðrum með búsetu á Íslandi sem koma til landsins skylt að fara í tveggja vikna sóttkví án tillits til hvaðan þeir eru að komu. Þetta gilti einnig um Íslendinga sem voru búsettir erlendis.[17]

Frá 15. mars var sett samkomubann til 13. apríl og viðburðum þar sem fleiri en 100 manns kæmu saman var aflýst. Það bann var endurskoðað 23. mars og frá og með þeim degi máttu ekki fleiri en 20 koma saman. Það var framlengt fram í byrjun maí. Frá 4. maí máttu allt að 50 manns koma saman og ýmis starfsemi var leyfð með smitgát. En smitum fækkaði allverulega frá lokum apríl. Í maí greindust aðeins 8 smit. Þríeykið Þórólfur Guðnason, Alma Möller og Víðir Reynisson sáu um daglega fundi í um 2 mánuði, fækkuðu fundum svo í 3 á viku, og héldu síðasta fundinn í bili 25. maí og var neyðarstigi aflýst.[18]

Frá 18. maí opnuðu sundstaðir og frá 25. maí opnuðu líkamsræktarstöðvar og allt að 200 manns máttu koma saman. 500 manns komu saman á tónleikum Páls Óskars 28. maí í Hörpu en þeim var skipt upp í hólf. Íslandsmót í knattspyrnu byrjaði um miðjan júní og var áhorfendum skipt upp í hólf. 2 metra reglan var endurskoðuð og gilti hún um þá sem kusu að hafa þá fjarlægð ættu kost á því. Alþjóðlegt flug var leyft frá 15. júní og voru sýni tekin og einnig mótefni skimuð. Einnig voru sundstaðir og líkamsræktarstöðvar opnaðar að fullu og 500 máttu koma saman.

Vegna fjölgunar smita í lok júlí voru 100 manna hóptakmarkanir settar tímabundið á og 2 metra reglan virk á ný. Atburðum á verslunarmannahelgi var aflýst. Menningarnótt var aflýst í fyrsta sinn.

Í lok september fjölgaði smitum talsvert og var Landspítalinn settur á hættustig. Í byrjun október voru hömlur settar á: líkamsræktarstöðum og börum m.a. lokað og 20 manna hópamyndanir leyfðar (þó undantekning með jarðafarir o.fl.).

Um mánaðarmót október/nóvember kom upp hópsmit á Landakotsspítala þar sem yfir 200 smituðust. 13 manns létust vegna þess. Um jólin var fólk hvatt til að halda sig innan sinnar jólakúlu með ekki fleiri en 10 manns innan hennar.

Fyrsta bóluefnið kom milli jóla og nýárs og var fyrsti einstaklingur bólusettur 29. desember á hjúkrunarheimili. Framlínustarfsmenn í heilbrigðiskerfinu voru líka í forgangshópi í fyrstu bólusetningunni.

Á árinu höfðu nokkrir ráðamenn verið gagnrýndir um að fara ekki eftir gildandi takmörkunum.

Slakað var á hömlum 12. janúar þegar til að mynda líkamsræktarstöðvar voru opnaðar aftur með takmörkunum og í jarðarförum máttu koma 100 manns saman. Lítið var um smit innanlands um áramót en fleiri greindust á landamærunum. Því var tvöföld skimun á landamærum skylda frá 15. janúar. Val um tveggja vikna sóttkví við komu til landsins var afnumið.

Um miðjan febrúar opnuðu barir og skemmtistaðir með takmörkunum. Gestum í leikhúsi og söfnum fjölgaði í 150 og var miðað við fjarlægð og fermetrafjölda.[19]

Hugmyndir voru uppi um að lyfjafyrirtækið Pfizer myndi bólusetja alla íslensku þjóðina í rannsókn en miðað við stöðuna í faraldrinum í byrjun árs þótti það ekki fýsilegt.

Frá 19. febrúar þurftu allir sem koma til landsins að sýna vottorð um neikvætt PCR-próf gegn COVID-19 áður en þeir stíga um borð í flugvél eða skip á leið til Íslands. Ferðamenn gátu sleppt sóttkví að því tilskyldu að þeir skiluðu bólusetningarvottorði. Ríkisstjórnin ákvað að leyfa ferðamönnum að koma til landsins frá 1. maí og miðað verður við litakóðunarkerfi hvers lands fyrir sig hvort fólk þarf í skimun og sóttkví.[20]

Smitum fjölgaði í lok mars og var ákveðið að setja hömlur í 3 vikur eða fram yfir páska; 10 manna samkomubann, líkamsrækt o.fl. Frá 1. apríl var fólk sem kom frá áhættusvæðum skikkað í 5 daga sóttkví á farsóttahúsi, það stærsta var Fosshótel í Reykjavík með 320 herbergi. Þessar aðgerðir voru umdeildar og umræða um mannréttindi og frelsissviptingu áttu sér stað.[21] Svo fór að dómstólar dæmdu gegn ákvörðunum sóttvarnarlæknis og fólk var ekki skylt til að dvelja í farsóttarhúsi.[22]

Í lok apríl jukust smit enn á ný þegar einstaklingar sem áttu að vera í sóttkví brutu hana. Smit varð í leikskóla og í matvöruverslun. Síðar var samþykkt frumvarp sem skyldaði ferðamenn frá hááhættusvæðum að dvelja í farsóttarhúsi.[23] Í lok maí var búið að fullbólusetja meira en 25% mannfjöldans. Allt að 150 manns máttu vera viðstaddir viðburði með ákveðnum skilyrðum. Losað var um frekari takmarkanir og grímuskylda afnumin í verslunum og flestum vinnustöðum nema heilbrigðisstofnunum og þar sem nánd er viðhöfð. Skyldusóttkví á farsóttarhóteli var afnumin fyrir ferðamenn. Um miðjan júní voru fullbólusettir um 50%, 1. júlí yfir 70% og miðjan júlí 85%.

Þann 25. júní var öllum takmörkunum aflétt innanlands þegar um 90% höfðu fengið a.m.k. einn skammt og ekkert smit hafði greinst innanlands í meira en 2 vikur. Takmarkanir höfðu verið í 16 mánuði.[24]

Í lok júlí fjölgaði smitum enn á ný. Yfir hundrað smit greindust daglega, mest um 150 sem var það mesta síðan faraldurinn hófst. Aftur voru settar samkomutakmarkanir og máttu 200 manns koma saman. Hátíðum um verslunarmannahelgi og Menningarnótt var aflýst aftur og farþegum á landamærunum gert að skila neikvæðum prófum. Í lok ágúst máttu 500 manns koma saman að því tilskyldu að niðurstöðum úr hraðprófum yrði skilað. Í þessari bylgju voru nokkur andlát og þar á meðal erlendir ferðamenn. Um miðjan september máttu 1500 manns koma saman með hraðprófum.

Í byrjun nóvember fjölgaði smitum hratt og greindist met smita á einum degi. Grímuskyldu var komið á í verslunum o.fl. og takmarkanir hertar. Til stóð að opna fyrir allar takmarkanir í lok nóvember en það gekk ekki eftir. Boðið var upp á 3. bóluefnaskammtinn, örvunarskammt.

Um jólin greindust yfir 500 smit á einum degi þegar nýtt afbrigði, omicron kom inn í landið og voru takmarkanir hertar. Um áramót greindust yfir 1000-1600 smit daglega.

Í byrjun árs voru yfir 20.000 í einangrun eða sóttkví. Þríbólusettir þurftu ekki lengur að sæta innisóttkví. Byrjað var að aflétta í skrefum og stefnt var að aflétta takmörkunum í byrjun mars. Met var slegið þegar um 3.000 greindust á einum degi. Smit komust í 100.000 eftir miðjan febrúar. Um 10% starfsmanna Landspítala voru frá vinnu.

Þann 25. febrúar var öllum takmörkunum aflétt eftir tæp 2 ár af hömlum. Fólk var ekki skyldað í sóttkví lengur. Landspítali var þó settur á neyðarstig sama dag.

Sóttvarnarlæknir taldi að hjarðónæmi hafði verið náð í apríl en útilokaði ekki að ný afbrigði myndu koma.

Um miðjan maí höfðu um 50% landsmanna smitast og sýnatökum snarfækkaði. Talið var að hjarðónæmi hafi verið náð en mótefni fannst 70-80% í hópnum 20-60 ára. [25]

Í júní var eldra fólk hvatt í 4. bólusetningu. Aukin smit og spítalainnlagnir voru í mánuðinum. [26]

Í mars 2023 aflýsti ríkislögreglustjóri óvissustigi vegna sjúkdómsins en Landspítali hafði verið færður af óvissustigi viku áður. [27]

Um sumarið fjölgaði svo smitum. [28]

Bylgjur

breyta

Talað er um bylgjur í faraldrinum á Íslandi. Fyrsta bylgjan hófst í lok febrúar 2020 og endaði í byrjun júní 2020. Önnur bylgja hófst í lok júlí 2020 og endaði í byrjun september 2020. Þriðja bylgjan hófst í lok september 2020 og var tekin að hjaðna um miðjan nóvember. Talað var um fjórðu bylgju þegar smitum fjölgaði í júlí 2021 og þá fimmtu í nóvember sama ár.

Danmörk

breyta
 
Handspritt og grímur seldust fljótlega upp í apótekum í Danmörku

COVID-19 barst til Danmerkur í lok febrúar 2020 og fyrsta smitið var staðfest þann 27. febrúar í Hróarskeldu. Mörg smit voru rakin til skíðasvæða í Tirol, sérstaklega til Ischgl, og var viðurkennt af Statens Serum Institut að það hefði ekki tekist að koma nógu snemma auga á uppruna þessara smita.[29]

Vegna hraða útbreiðslunnar í Danmörku var gripið til aðgerða. Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, tilkynnti á blaðamannafundi 11. mars að sett yrði samkomubann á viðburði þar sem fleiri en eitt hundrað koma saman. Skólahaldi var aflýst í 2 vikur frá og með 13. mars og biðlað var til almennings um að vera heima en að forðast að hamstra matvæli og lyf.[30]

Þann 13. mars tilkynnti utanríkisráðuneytið að Danir í útlöndum ættu að koma heim sem fyrst og að íbúar Danmerkur ættu ekki að ferðast til útlanda nema í neyðartilvikum.[31] Um kvöldið 13. mars tilkynnti forsætisráðherra Danmerkur að landamærum Danmerkur yrði lokað 14. mars frá klukkan 12 að dönskum tíma.[32]

Danir afléttu hömlum í byrjun maí og var skólahald leyft. Hömlur voru settar aftur á fyrir jólin. Í nóvember var fjölda minka slátrað í landinu þar sem dýrin voru talin smita menn. Í byrjun apríl var svo einhverjum hömlum aflétt á nýjan leik og í maí t.d. veitingahúsum ætlað að opna.[33]

Þann 10. september 2021 var öllum hömlum aflétt.[34]

Svíþjóð

breyta

Ólíkt öðrum Evrópulöndum voru ekki lokanir settar á þegar faraldurinn breiddist út í landinu. Faraldsfræðingurinn Anders Tegnell var í forsvari fyrir sænsk heilbrigðisyfirvöld á meðan faraldrinum stóð. Hann og stjórnvöld hlutu talsverða gagnrýni fyrir nálgun sína en smit og dauðsföll voru hlutfallslega mun fleiri í Svíþjóð en annars staðar á Norðurlöndum. Stjórnvöld gáfu út viðmiðanir varðandi hreinlæti og æskilega hegðun en valfrjálst var að fara eftir þeim. Íbúar á hjúkrunarheimilum voru ekki verndaðir sem skyldi. Stefan Löfven forsætisráðherra og Karl Gústav konungur sögðu síðar að sænska nálgunin hefði verið mistök.

Bretland

breyta

Bretland fór í lokanir 23. mars 2020 og bannaði óþarfa ferðalög, lokaði skólum, búðum og þar sem fólk safnaðist saman. Boris Johnson tilkynnti í lok apríl að hápunktinum hafði verið náð. Smitum og dauðsföllum fækkaði um sumarið og hömlum var aflétt. Í lok september fjölgaði svo smitum og hömlur voru aftur settar á yfir vetrarmánuðina, misharðar eftir svæðum. Skólum var ekki lokað. Í desember fannst nýtt mjög smitandi afbrigði af COVID í landinu og í kjölfarið bönnuðu lönd ferðalanga frá Bretlandi. Í janúar var sóttkví sett á alla þá sem komu til landsins og þeir skimaðir. Bretland varð fyrsta landið til að nota Pfizer–BioNTech-bóluefnið í miklum mæli og á fyrri hluta árs tókst að bólusetja allmarga og var landið með eitt hæsta hlutfall bólusettra í heiminum.[35]

Í byrjun apríl 2021 var hömlum aflétt þegar til að mynda barir, verslanir og líkamsrækt opnuðu.[36] Smitum og dauðsföllum hríðlækkaði á sama tíma með fjölmarga bólusetta. Þann 19. júlí ákvað ríkistjórnin að aflétta öllum hömlum þrátt fyrir að smit hefðu færst í aukana.

Ítalía

breyta
 
Ítölsk hjúkrunarkona á gjörgæsludeild, eftir 12 tíma vakt í Pesaro í mars 2020

Vírusinn kom fyrst til Ítalíu í janúar 2020 þegar tveir kínverskir ferðamenn greindust jákvæðir í Róm. Þann 11. mars fóru 15 héruð landsins eða 60 milljónir í lokanir. Matvörubúðir og apótek voru einungis opin. Í maí var lokunum og ferðahömlum aflétt. Í október kom önnur bylgja og takmarkanir voru áfram settar á.

Bandaríkin

breyta

Bandaríkin voru það ríki þar sem flest smit og dauðsföll (um milljón) voru staðfest. Í byrjun faraldursins þar voru viðbrögð hæg, skimanir og ferðatakmarkanir voru settar á þegar faraldurinn var kominn í óefni. Donald Trump lýsti yfir neyðarástandi um miðjan mars 2020. New York-borg fór illa út úr fyrstu bylgjunni með gífurlegt álag á sjúkrahús og dauðsföll voru svo yfirþyrmandi á tímabili að fjöldagrafir voru grafnar til að anna fjölda líka. Sóttvarnarlæknirinn Anthony Fauci var Trump innan handar til að byrja með en forsetinn var ósammála honum í mörgum tilvikum. Bandaríkin sögðu sig úr WHO, Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni í júlí. Þau höfðu m.a. verið gagnrýnd að opna aftur of snemma fyrir takmarkanir þegar smit voru í vexti.

Kanada

breyta

Í Kanada voru mótmæli í janúar og febrúar 2022 undir nafninu frelsislestin (Freedom Convoy) sem hófst þegar vörubílstjórar mótmæltu bólusetningarskyldu. Þegar leið á mótmælin urðu þau gegn hvers kyns takmörkunum vegna COVID og gangandi fólk tók einnig þátt. Bílstjórarnir tepptu umferð í Ottawa, á Ambassador-brúnni milli Windsor og Detroit þar sem vöruflutningar eru milli BNA og Kanada. Einnig voru mótmæli á landamærum Alberta og Bresku-Kólumbíu og Bandaríkjanna. Justin Trudeau, forsætisráðherra, setti neyðarlög (Emergencies Act) í fyrsta sinn í kanadískri sögu, í þeim tilgangi að hefta mótmælin. Handtökum, sektum, upptaka vörubíla og frysting bankareikninga var ætlað að stöðva bílstjórana. [37]

Brasilía

breyta

Brasilía var með annað hæsta hlutfall dauðsfalla vegna COVID-19 á eftir Bandaríkjunum í apríl 2021. Jair Bolsonaro forseti landsins gerði lítið úr sjúkdómnum og kallað hann smá flensu. Hann lenti í útistöðum við heilbrigðisyfirvöld og fylkisstjóra um viðbrögð vegna veirunnar. Í mars/apríl 2021 hafði ástandið í landinu náð nýjum hæðum, spítalar voru yfirfullir og dauðsföll á sólarhring náðu yfir 4000.

Í júní 2021 náðu dauðsföll yfir 500.000 og Brasilíumenn mótmæltu forsetanum og skorti á aðgerðum.[38]

Indland

breyta

Útbreiðsla veirunnar varð næstmest í heiminum á Indlandi vorið 2021. Í annarri stóru bylgjunni sem hófst í apríl 2021 greindust yfir 300.000 smit daglega og dauðsföll jukust. Indland tók fram úr Brasilíu í smitfjölda. Heilbrigðiskerfið var ekki í stakk búið að takast á við fjölda sjúklinga. Á mörgum sjúkrahúsum var ekki unnt að anna eftirspurn sjúklinga og súrefnisbirgðir voru á þrotum í sumum fylkjum landsins.[39] Trúarbragðahátíðir hindúa gerðu illt verra en lítið var um smitvarnir þar. Farandverkafólk hefur verið fast eða þurft að ganga langar vegalengdir þegar lestarsamgöngur lágu niðri.

Talið er að mun fleiri hafi látið lífið vegna sjúkdómsins en gefið hefur verið upp. [40]

Fyrsta tilfelli kórónaveiru var greint í Wuhan í Kína í desember 2019 og dreifðist um landiðí janúar. Yfirvöld viðhéldu 0-kóvid stefnu í lengri tíma í því miði að uppræta veiruna. Eftir mótmæli vegna takmarkanna í lok árs 2022 innanlands léttu Kínverjar loks á sóttvarnartakmörkunum og leyfðu ferðalög í fyrsta sinn í um 3 ár til og frá landinu.[41] Veirusmitum fjölgaði í Kína eftir afléttingu en opinberar tölur hafa verið á reiki í landinu og hafa yfirvöld verið gagnrýnd af WHO og ríkjum fyrir slælega upplýsingasöfnun og upplýsingagjöf. [42] Mun færri greind smit og dauðsföll hafa verið opinberuð í Kína en hjá öðrum stórþjóðum.

Í byrjun júní 2021 uppfærði Perú dauðsföll vegna covid úr um 60.000 í 180.000 og varð það þá það land sem hafði hæsta dánarhlutfall miðað við höfðatölu.[43]

Smitvarnir

breyta

Almennt hreinlæti skiptir máli í að hindra dreifingu veirunnar. Vandaður handþvottur með sápu og vatni í a.m.k. 20 sekúndur er mikilvægur þáttur í að forðast smit og einnig að hreinsa með handspritti eftir að koma við sameiginlega snertifleti (t.d. hurðahúna og takka) eða að taka við hlutum úr annarra höndum.[2] Almennt er ekki mælt með að heilbrigt fólk noti grímur nema í návígi við veika.

Miðað út frá SARS veiru er líftími veirunnar á pappír og sambærilegum flötum sennilega mjög stuttur.[44] Landlæknirinn á Íslandi taldi útilokað að vörusendingar frá áhættusvæðum gætu mögulega smitað frá sér.[2]

Framlínustarfsmenn í faraldrinum voru meðal annars skilgreindir sem þeir sem veita þjónustu og vinna í nálægð sinna viðskiptavina.[44] Við þrif eftir aðra átti að nota einnota hanska og jafnframt að þvo hendurnar með sápu og vatni áður en hanskar voru settir upp og eftir að taka hanskana af sér og henda þeim.

Bóluefni

breyta

Bóluefni gegn veirunni var þróað seinni hluta árs 2020 og varð Bretland fyrsta landið til að samþykkja bóluefni lyfjafyrirtækisins Pfizer/BioNTech. Það átti að veita 95% vörn gegn COVID og var fyrst í boði fyrir eldri borgara og heilbrigðis- og umönnunarfólk.[45] Níræð kona í Coventry varð sú fyrsta til að fá bóluefnið 8. desember.[46] Í Bandaríkjunum fékk hjúkrunarfræðingur frá New York fyrsta bóluefnið þar í landi.[47] Önnur bóluefni hafa einnig verið þróuð í löndum eins og Rússlandi og Kína.

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Taflan kemur frá Wikipedíu og Worldometer-síðunni á ensku um faraldurinn. Helstu þjóðir og námundaðar tölur.
  2. 2,0 2,1 2,2 „Spurningar og svör varðandi kórónaveiruna (COVID-19)“. Landlæknir. 27. janúar 2020. Sótt 3. mars 2020.
  3. Raunverulegur fjöldi látinna vegna Covid á reiki Mbl.is, sótt 11/1 2023
  4. Talið að um 400 hafi látist úr covid í fyrra Rúv, skoðað 1. mars 2023
  5. BBC News - Covid global health emergency is over, WHO says BBC, sótt 6/5 2023
  6. Freyr Gígja Gunnarsson; Hólfríður Dagný Friðjónsdóttir (28. febrúar 2020). „Vinnustaður mannsins kominn í sóttkví“. RÚV. Sótt 3. mars 2020.
  7. Magnús Geir Eyjólfsson (6. mars 2020). „Lýsa yfir neyðarstigi eftir fyrsta innanlandssmitið“. RÚV. Sótt 20. apríl 2020.
  8. „Innanlandssmitum kórónuveiru fjölgar“. mbl.is. 6. mars 2020. Sótt 20. apríl 2020.
  9. Sólveig Klara Ragnarsdóttir (7. mars 2020). „5 ný smit greind í dag - þar af 3 innanlands“. RÚV. Sótt 20. apríl 2020.
  10. Sólveig Klara Ragnarsdóttir (8. mars 2020). „Þrír farþegar úr Veróna fluginu smitaðir af COVID-19“. RÚV. Sótt 20. apríl 2020.
  11. „Fréttatilkynning vegna COVID-19 kl. 16:30“. Embætti landlæknis. 3. mars 2020. Sótt 20. apríl 2020.
  12. „Neyðarstig almannavarna vegna COVID-19“. 6. mars 2020. Sótt 20. apríl 2020.
  13. Sólveig Klara Ragnarsdóttir (6. mars 2020). „Banna allar heimsóknir á Landspítala“. RÚV. Sótt 20. apríl 2020.
  14. „Lokanir til að vernda viðkvæma hópa“.
  15. Stefán Ó. Jónsson; Andri Eysteinsson (29. febrúar 2020). „Hóteli á Rauðarárstíg breytt í sóttkví“. Vísir. Sótt 3. mars 2020.
  16. Giskar á að veiran sé orðin töluvert útbreidd á Íslandi Rúv, skoðað 10. mars, 2020
  17. „Tilkynningar“. www.covid.is. Afrit af upprunalegu geymt þann 19. mars 2020. Sótt 20. mars 2020.
  18. Þríeykið þakkaði fyrir með söngRúv, skoðað 3. júní, 2020
  19. Svandís féllst á tillögur Þórólfs - barir opna á ný Rúv, skoðað 5. febrúar, 2021
  20. Ákvörðun um litakóðunarkerfi ekki í samráði við Þórólf Rúv, skoðað 18. mars, 2021
  21. Illnauðsynleg eða ólögmæt frelsissvipting? Rúv, skoðað 2. apríl 2021
  22. Landsréttur vísaði kærumáli sóttvarnalæknis frá dómi Rúv, skoðað 8. apríl 2021.
  23. Frumvarpið samþykkt eftir langan þingfundRúv, skoðað 22. apríl 2021
  24. Öllu aflétt eftir 16 mánuði af takmörkunum RÚV. skoðað 25/6 2021
  25. Ónæmi gegn Covid hafi náðst Vísir, sótt 17/5 2022
  26. Um 40% 80 ára og eldri þegið fjórðu bólusetningu. RÚV, sótt 29/6 2022.
  27. Óvissustigi vegna covid aflýst Vísir, 23. mars 2023
  28. Hvetur eldra fólk og áhættuhópa til að þiggja bólusetningu í haust Vísir, sótt 27/8 2023
  29. „139 skiturister slæbte coronavirusset med hjem til Danmark: Island testede bredere end andre og fik øjene op for Tyrol“.
  30. Birta Björnsdóttir (11. mars 2020). „Danmörk skellir í lás vegna Covid-19“. RÚV. Sótt 13. mars 2020.
  31. „Klar besked til 100.000 danskere i udlandet: Kom hjem nu!“.
  32. „Statsministeren: Danmarks grænser lukker fra klokken 12 i morgen“.
  33. Hægt að fá sér húðflúr og hárgreiðslu í Danaveldi Rúv, skoðað 12. apríl, 2021
  34. Skemmtistaðir opnaðir á ný í Danmörku Rúv, skoðað 1.9. 2021
  35. Bretar ná tilsettu bólusetningarmarkmiði Rúv, skoðað 17. apríl, 2021
  36. Verslanir, barir og líkamsrækt opnuð á ný í Bretlandi Rúv, skoðað 12. apríl 2021
  37. Lögregla í Ottawa setur mótmælendum afarkosti Rúv, 17. feb. 2022
  38. Mótmæla forsetanum, 500.000 látin vegna covid Rúv, skoðað 20 júní 2021
  39. Hólmfríður Gísladóttir (23. apríl 2021). „„Algjört kerfishrun": Kórónuveirufaraldurinn hömlulaus á Indlandi“. Vísir. Sótt 25. apríl 2021.
  40. 15 milljónir látist úr covid RÚV, sótt 17/4 2022
  41. Landamæri Kína loksins opin ferðamönnum Mbl.is, sótt 11/1 2023
  42. Vilja að Kína upplýsi um stöðu faraldursins Mbl.is, sótt 11/1 2023
  43. Peru more than doubles death toll after reviewBBC. Skoðað 3. júní 2021
  44. 44,0 44,1 „Sýkingar af völdum nýrrar kórónaveiru 2019 (COVID-19): Leiðbeiningar til framlínustarfsmanna í atvinnulífinu“ (PDF). Landlæknir. 18. febrúar 2020. Sótt 3. mars 2020.
  45. Covid-19: Pfizer/BioNTech vaccine judged safe for use in UK from next week BBC. Skoðað 2. des. 2020
  46. BBC News - Covid-19 vaccine: First person receives Pfizer Covid-19 vaccine in UK BBC, skoðað 8. desember 2020.
  47. Hjúkrunarfræðingur fékk fyrstu sprautuna Rúv, skoðað 14. des. 2020