Nepal (nepalska: नेपाल Nepāl), opinberlega Sambandslýðstjórnarlýðveldið Nepal (nepalska: सङ्घीय लोकतान्त्रिक गणतन्त्र नेपाल Saṅghīya Lokatāntrik Gaṇatantra Nepāl), er landlukt land í Suður-Asíu. Stærstur hluti landsins er í Himalajafjöllum en það nær líka yfir hluta Indus-Ganga-sléttunnar. Landið á landamæri að Kína (Tíbet) í norðri og Indlandi í suðri, austri og vestri. Aðeins 27 km ræma skilur milli suðausturodda landsins og Bangladess. Í austri skilur indverska fylkið Sikkim milli þess og Bútans. Landslag í Nepal er fjölbreytt og nær frá frjósömum sléttum, yfir gróðurvaxnar hæðir að snævi þöktum fjöllum. Suðurhluti Nepals er frjósamur til ræktunar og þar er mjög þéttbýlt. Mikið rignir í Nepal, sérstaklega þegar monsúnrigningarnar skella á Himalajafjöllunum. Átta af tíu hæstu tindum heims eru í Nepal. Þar á meðal er hæsta fjall heims, Everestfjall. Nepal er 147.181 ferkílómetrar að stærð og fólksfjöldi þar er um 30 milljónir. Meirihluti íbúa Nepal eru hindúar en sögulega er landið tengt búddisma. Höfuðborgin og stærsta borg landsins heitir Katmandú. Nepal er fjölmenningarríki. Nepalska er opinbert tungumál landsins en innan við helmingur íbúa á nepölsku að móðurmáli.

संघीय लोकतान्त्रिक गणतन्त्र नेपाल
Sanghiya Loktāntrik Ganatantra Nepāl
Fáni Nepals Skjaldarmerki Nepals
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
जननी जन्मभूमिश्च स्वर्गादपि गरीयसी (sanskrít)
Móðir og móðurland er meira virði en himnarnir
Þjóðsöngur:
Sayaun Thunga Phool Ka
Staðsetning Nepals
Höfuðborg Katmandú
Opinbert tungumál nepalska
Stjórnarfar Sambandslýðveldi

Forseti Bidhya Devi Bhandari
Forsætisráðherra Sher Bahadur Deuba
Sjálfstæði
 - Stofnun konungsríkis 21. desember 1768 
 - Stofnun lýðveldis 29. maí 2008 
Flatarmál
 - Samtals
 - Vatn (%)
93. sæti
147.181 km²
2,8
Mannfjöldi
 - Samtals (2012)
 - Þéttleiki byggðar
40. sæti
26.494.504
180/km²
VLF (KMJ) áætl. 2018
 - Samtals 84 millj. dala (90. sæti)
 - Á mann 2.842 dalir (155. sæti)
VÞL (2017) Increase2.svg 0.574 (149. sæti)
Gjaldmiðill Nepölsk rúpía (NPR)
Tímabelti UTC+5:45
Þjóðarlén .np
Landsnúmer +977

Heitið Nepal kemur fyrst fyrir í ritum frá Vedatímabilinu þegar hindúatrú, ríkjandi trúarbrögð landsins, varð til á Indlandsskaga. Um mitt 1. árþúsundið f.Kr. fæddist Gautama Búdda, stofnandi búddisma, í Lumbini í suðurhluta Nepals. Hlutar af Norður-Nepal hafa verið nátengdir sögu og menningu Tíbets. Katmandúdalur í miðju landsins tengist menningu Indóaría og var miðstöð hins öfluga sambandsríkis Newara sem er kallað Nepalmandalan. Farandkaupmenn frá dalnum sem ferðuðust milli Katmandú og Tíbet stýrðu verslun um þá grein Silkivegarins sem lá um Himalajafjöll. Þar þróaðist sérstök myndlist og byggingarlist. Um miðja 18. öld lagði Prithvi Narayan Shah, konungur Gorkaríkisins, Nepal undir sig og sameinaði landið undir sinni stjórn. Eftir Stríð Bretlands og Nepals 1814-16 gerðu ríkin með sér Sugauli-samninginn þar sem Bretar fengu nokkur landsvæði sem Nepalir höfðu nýlega lagt undir sig á Indlandsskaga og leyfi til að ráða nepalska Gúrka í her sinn. Um miðja 19. öld varð Rana-ætt einráð í ríkinu í gegnum embætti forsætisráðherra en konungurinn varð leppkonungur. Landið varð aldrei nýlenda en hélt fast við bandalag sitt við breska heimsveldið. Alræði Rana-ættar lauk 1951 þegar Tribhuvan konungur náði að hrekja forsætisráðherrann frá völdum með aðstoð nepalska kongressflokksins. Takmörkuðu lýðræði var komið á en konungur leysti þingið tvisvar upp, 1960 og 2005. Um miðjan 10. áratuginn hófst Borgarastyrjöldin í Nepal þegar kommúnistaflokkur Nepals hóf vopnaða baráttu gegn konungsveldinu. Borgarastyrjöldinni lauk 2008 þegar þetta síðasta konungsríki hindúa var lagt niður og landinu var breytt í lýðveldi.

Stjórnarskrá Nepals frá 2015 skilgreinir landið sem veraldlegt sambandslýðveldi með þingræði. Landið skiptist í sjö fylki. Nepal gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum árið 1955. Landið gerði vináttusamninga við Indland 1950 og Alþýðulýðveldið Kína 1960. Samstarfsráð Suður-Asíu er með höfuðstöðvar í Katmandú. Það er líka aðili að Samtökum hlutlausra ríkja og BIMSTEC, efnahagssamstarfi ríkja við Bengalflóa. Nepalsher er sá fimmti stærsti í Suður-Asíu. Hann er aðallega þekktur fyrir sögu Gúrkaherdeilda sem börðust í báðum heimsstyrjöldum og hafa tekið þátt í friðargæsluverkefnum á vegum Sameinuðu þjóðanna.

HeitiBreyta

Fyrir sameiningu Nepals var Katmandúdalur þekktur sem Nepal.[1] Uppruni orðsins er óviss. Það kemur fyrir í fornindverskum ritum allt frá 4. öld f.o.t., en jafnvel elstu textar geta innihaldið seinni tíma viðbætur allt frá árnýöld.

Samkvæmt goðafræði hindúa er kemur nafnið Nepal frá öldungnum Ne, sem er ýmist kallaður Ne Muni eða Nemi. Samkvæmt Pashupati Purāna var landið sem Ne verndaði í Himalajafjöllum þekkt sem Nepāl. Samkvæmt Nepāl Mahātmya fékk Nemi það hlutverk frá Pashupati að vernda landið.[2] Samkvæmt goðafræði búddisma þurrkaði bodisattvann Manjushri upp frumvatn slanga til að skapa Katmandúdalinn og lýsti því yfir að adibúddann Ne myndi sjá um byggðina sem myndaðist þar. Dalurinn var því kallaður Nepāl sem merkir „það sem er elskað af Ne“.[3] Samkvæmt Gopalarājvamshāvali, ættfræði Gópalaveldisins sem var samin á 14. öld, var Nepal nefnt eftir kúahirðinum Nepa, stofnanda Abhira. Í þeirri sögu var kýrin sem mjólkaði á staðnum þar sem Nepa fann Jyotirlinga í hofinu Pashupatināth, líka kölluð Ne.[4]

Norski indverskufræðingurinn Christian Lassen stakk upp á því að Nepāla væri samsett úr Nipa (fjallsrætur) og -ala (stytting á alaya sem merkir byggð), þannig að Nepāla merkti „byggð við fjallsrætur“. Hann taldi að sagan um Ne Muni væri uppspuni.[5] Indverskufræðingurinn Sylvain Levi taldi kenningu Lassens ónothæfa, og taldi heitið ýmist dregið af þjóðarheiti Newara eða þjóðaheitið afbökun á orðinu Nepala í sanskrít.[6] Þessi kenning skýrir samt ekki uppruna heitisins.[7][8][9][4] Eins hefur verið stungið upp á því að uppruna orðsins Nepa sé að finna í tíbetó-búrmískum málum sem stofn myndaðan úr Ne (nautgripir) og Pa (hirðir), sem vísar til þess að elstu íbúar dalsins voru gópalar (kúahirðar) og mahispalar (bufflahirðar).[4] Indverski málfræðingurinn Suniti Kumar Chatterji taldi orðið Nepal komið af tíbetó-búrmískri rót, Ne, af óvissum uppruna (ýmsir möguleikar) og pala eða bal, sem ekkert er lengur vitað um hvað merkir.[10]

SagaBreyta

Verkfæri frá nýsteinöld sem fundist hafa í Katmandúdal benda til búsetu manna á Himalajasvæðinu í að minnsta kosti 11.000 ár.

Nafn Nepal kemur fyrir í Atharvaveda Pariśiṣṭa frá Síð-Vedatímabilinu og í Upanishad-textanum Atharvashirsha. Nafnið kemur líka fyrir í textum á hindí eins og Narayana Puja og í textanum „Nepal Mahatmya“ sem segist vera hluti af trúarritinu Skanda Purana. Gópalar byggðu dalinn að öllum líkindum fyrir komu Kírata. Kíratar, sem töluðu sínó-tíbesk mál, lögðu svæðið undir sig hugsanlega um 800 f.Kr. Fyrsti konungur þeirra var Yalambar. Ríki Kírata stóð lengi og náði hugsanlega allt að árósum Ganges.

Um 500 f.Kr. komu upp ýmis furstadæmi og ættbálkasamtök í suðurhluta landsins. Í ættbálki Shakya fæddist fursti sem síðar hafnaði stöðu sinni og hóf meinlætalíf sem Gátama Búdda. Hann er venjulega sagður hafa verið uppi frá 563 til 483 f.Kr. Um 250 f.Kr. voru suðurhéruðin orðin hluti af Maurya-veldinu í Indlandi og urðu síðar undirkonungar Guptaveldisins á 4. öld. Á Allahabadsúlu Samudragupta er Nepal nefnt sem landamæraríki.

MiðaldirBreyta

Licchavi-veldið, upprunalega frá Vaishali í Bihar á Indlandi, ríkti yfir Katmandúdal frá því um 400. Hugsanlega hafa þeir lagt landið undir sig með sigri á Kírötum. Þessu konungsveldi hnignaði á 8. öld og við tók ríki Newara. Simroun-veldið með Simroungarh sem höfuðborg stóð frá 11. til 14. aldar og Thakuri-veldið ríkti yfir hlutum landsins frá 9. öld til 12. aldar.

Snemma á 12. öld kom Malla-veldið upp í austurhluta Nepals (úr sanskrít malla „glímukappi“). Þeir konungar ríktu í um tvær aldir en eftir það klofnaði ríkið í mörg smáríki. Annað Malla-veldi kom upp seint á 14. öld og sameinaði miðhluta landsins í eitt ríki. Árið 1482 skiptist landið milli þriggja ríkja, Kathmandu, Patan og Bhaktapur.

Sameining NepalsBreyta

Um miðja 18. öld sameinaði konungur Gorkaríkisins í vesturhluta Nepals, Prithvi Narayan Shah, mörg minni konungdæmi í eitt ríki. Honum tókst að tryggja hlutleysi fjallahéraðanna og eftir nokkra bardaga, sérstaklega orrustuna um Kirtipur, náði hann að leggja allan Katmandúdal undir sig 1769. Faðir Jósep, kaþólskur trúboði í Nepal, ritaði nákvæma lýsingu á stríðinu.

Gorkaríkið náði hátindi sínum þegar norðurindversku ríkin Kumaonríkið og Garhwal-ríkið komust undir nepalska stjórn, allt að Sikkim í vestri. Deilur við Tíbet um stjórn fjallvega leiddu til Stríðs Kína og Nepals 1788 til 1792. Stríðið leiddi til aukinna yfirráða Kínverja í Tíbet, en Nepal hélt sjálfstæði sínu.

Deilur Nepals við Breska Austur-Indíafélagið um yfirráð yfir norðurhéruðum Indlands leiddu til Stríðs Bretlands og Nepals 1815-1816. Í fyrstu vanmátu Bretar hernaðarmátt Nepals og biðu ósigra þar til þeir sendu nægjanlegt lið. Það orðspor sem gúrkahermenn nutu má rekja til þessa stríðs. Með Sugaulisamningnum lét Nepal af hendi landamærahéruð og gaf Bretum leyfi til að ráða hermenn frá Nepal.

Alræði RanaættarBreyta

Flokkadrættir innan konungsfjölskyldunnar leiddu til óstöðugleika um miðja 19. öld. Árið 1846 komst upp um ráðagerð drottningar sem hugðist losa sig við valdamikinn herforingja, Jung Bahadur Kunwar. Hann og bræður hans brugðust við með því að myrða 30-40 hermenn, hallarliða og fursta sem studdu drottninguna í Kotblóðbaðinu. Jung Bahadur Kunwar gerðist nú einvaldur forsætisráðherra sem Jung Bahadur Rana en konungur varð valdalaus. Ranaættin studdi Breta ötullega og barðist með þeim í Indversku byltingunni 1857 (og síðar í báðum heimsstyrjöldum). Í þakkarskyni létu Bretar Nepal eftir héruð í Terai-héraði við suðurlandamæri landsins. Árið 1923 gerðu Bretar og Nepal með sér vináttusamning sem tók við af Sugaulisamningnum frá 1816.

Þrælahald var afnumið í Nepal árið 1924. Annars einkenndust yfirráð Ranaættar af gerræði, spillingu og trúarofsóknum.

Lýðræði eftir 1951Breyta

Óánægja með alræði Ranaættar, einkum meðal menntaðra Nepala, óx og gagnrýni á stjórnina varð meira áberandi á 5. áratug 20. aldar. Á sama tíma reyndi Indland að treysta áhrif sín í Nepal eftir Innrás Kína í Tíbet 1950. Indland studdi einkum konunginn Tribhuvan og Nepalska kongressflokkinn gegn Ranastjórninni. Eftir misheppnaða tilraun Mohan Shamsher Jang Bahadur Rana til að skipta um konung tókst Tribhuvan að afnema völd Ranaættar á fyrri hluta árs 1951. Við tók stutt lýðræðistímabil.

Árið 1960 afnam Mahendra konungur stjórnarskrána og leysti þingið upp. Panchayat-kerfi var komið á án stjórnmálaflokka. Árið 1989 neyddi samstöðuhreyfing ólíkra stjórnmálahópa konunginn, Birendra, til að samþykkja stjórnarskrárbreytingar og fjölflokkaþing sem hóf störf árið 1991. Árin 1991-1992 hrakti Bútan um 100.000 bútanska borgara af nepölskum uppruna úr landi. Flestir þeirra hafa hafst við í flóttamannabúðum í austurhluta Nepals síðan.

Árið 1996 hóf Kommúnistaflokkur Nepals vopnaða baráttu fyrir afnámi konungsveldisins og stofnun alþýðulýðveldis í Nepal. Þetta leiddi til áralangrar borgarastyrjaldar og um 12.000 dauðsfalla. Árið 2001 áttu konunglegu fjöldamorðin í Nepal sér stað, þar sem Birendra konungur og Aishwarya drottning féllu ásamt sjö öðrum meðlimum konungsfjölskyldunnar. Bróðir konungs, Gyanendra, tók við völdum.

Stofnun lýðveldisBreyta

Þann 1. febrúar 2005 ákvað konungur að leysa upp þingið og taka sér alræðisvald til að kljást við vopnaða hreyfingu Maóista. Síðar sama ár lýstu Maóistarnir yfir einhliða vopnahléi. Árið 2006 urðu nokkurra vikna fjöldamótmæli allra stjórnmálaflokka í Nepal til þess að konungur neyddist til að kalla þingið saman aftur. Sjö flokka samsteypustjórn samþykkti að afnema flest völd konungsins. Þann 24. desember 2007 var ákveðið að afnema konungsveldið sem tók gildi þann 28. maí 2008. Fyrsti forseti lýðveldisins Nepal, Ram Baran Yadav, tók við völdum 23. júlí 2008. Eftir tvö stjórnlagaþing var ný stjórnarskrá loks samin og tók gildi árið 2015. Minnihlutahópar í landamærahéruðum eins og Madeshar og Tharuar hafa mótmælt nýju stjórnarskránni harðlega. Átök milli þeirra og stjórnarinnar leiddu til þess að Indland beitti Nepal viðskiptaþvingunum.

StjórnmálBreyta

StjórnsýslueiningarBreyta

Nepal er sambandslýðveldi með 7 sjálfstjórnarhéruð. Hvert hérað skiptist í 8 til 14 umdæmi. Umdæmin skiptast svo aftur í sveitarstjórnir og bæjarstjórnir. Alls eru 753 staðbundin stjórnvöld, þar á meðal 6 í borgum, 11 á borgarsvæðum og 276 bæjarfélög, eða alls 293 bæjarfélög og 460 sveitarfélög[11]. Hvert sveitarfélag skiptist í deildir. Alls eru deildirnar 6.743.

Héraðsstjórnir hafa takmarkað framkvæmda-, löggjafar- og dómsvald í sínu umdæmi. Héruðin eru með þing samkvæmt Westminster-kerfinu. Sveitarstjórnir og héraðsstjórnir hafa algert vald á sumum sviðum en deila völdum með héraðsstjórnum og alríkisstjórninni þar sem það á við, samkvæmt fyrirmælum í stjórnarskrá Nepals. Á sama hátt geta héraðsþing ekki sett lög í andstöðu við núverandi lög á héraðs- og alríkisstigi eða stjórnarskrá landsins. Öll svið sem stjórnarskráin nær ekki yfir heyra undir alríkisstjórnina. Samræmingarnefndir héraða sem skipaðar eru öllum kjörnum fulltrúum sveitarstjórna í umdæminu, hafa mjög takmarkað hlutverk.

Nr. Hérað Höfuðstaður Umdæmi Stærð
(km2)
Íbúafjöldi
(2011)
Þéttleiki
(íbúar/km2)
1 1. hérað Biratnagar 14 25.905 km2 4.534.943 175
2 2. hérað Janakpur 8 9.661 km2 5.404.145 559
3 3. hérað Hetauda 13 20.300 km2 5.529.452 272
4 Gandaki Pradesh Pokhara 11 21.504 km2 2.413.907 112
5 5. hérað Butwal 12 22.288 km2 4.891.025 219
6 Karnali Pradesh Birendranagar 10 27.984 km2 1.168.515 41
7 Sudurpashchim Pradesh Godawari 9 19.539 km2 2.552.517 130
Alls Nepal Katmandú 77 147.181 km2 26.494.504 180

TilvísanirBreyta

 1. Singh, Upinder (2008). A history of ancient and early medieval India: from the Stone Age to the 12th century. New Delhi: Pearson Longman. bls. 477. ISBN 9788131716779.
 2. Prasad, Ishwari (1996). The Life and Times of Maharaja Juddha Shumsher Jung Bahadur Rana of Nepal. New Delhi: Ashish Publishing House. ISBN 817024756X – gegnum Google Books.
 3. Hasrat, Bikram Jit (1970). History of Nepal: As told by its own and contemporary chroniclers. Hoshiarpur. bls. 7.
 4. 4,0 4,1 4,2 Malla, Kamal P. (1983). „Nepāla: Archaeology of the Word“ (PDF). The Nepal Heritage Society Souvenir for PATA Conference. Kathmandu. bls. 33–39. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. mars 2012. Sótt 5. maí 2011.
 5. Lassen, Christian (1847–1861). Indische Alterthumskunde [Indian Archaeology].
 6. Levi, Sylvain (1905). Le Nepal : Etude Historique d'Un Royaume Hindou. 1. Paris: Ernest Leroux. bls. 222–223.
 7. Majupuria, Trilok Chandra; Majupuria, Indra (1979). Glimpses of Nepal. Maha Devi. bls. 8.
 8. Turner, Ralph L. (1931). A Comparative and Etymological Dictionary of the Nepali Language. London: Routledge and Kegan Paul. Afrit af upprunalegu geymt þann 14. júlí 2012. Sótt 8. maí 2011.
 9. Hodgson, Brian H. (1874). Essays on the Languages, Literature and Religion of Nepal and Tibet. London: Trübner & Co. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. nóvember 2012. Sótt 8. maí 2011. Page 51.
 10. Chatterji, Suniti Kumar (1974). Kirata-Jana-Krti: The Indo-Mongoloids: Their Contribution to the History and Culture of India (2. útgáfa). Calcutta: The Asiatic Society. bls. 64.
 11. Australian Government-The Asia Foundation Partnership on Subnational Governance in Nepal, Diagnostic Study of Local Governance in Federal Nepal 2017 (PDF), The Asia Foundation, afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 20. júlí 2019, sótt 20. júlí 2019
 
Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu
   Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.