Þórólfur Guðnason

íslenskur læknir

Þórólfur Guðnason (f. 28. október 1953 í Vestmannaeyjum) er fyrrum sóttvarnalæknir Íslands.

Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Laugarvatni árið 1973 og embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 1981. Hann stundaði nám í almennum barnalækningum á Íslandi og í Bandaríkjunum 1984-1988 og nám í smitsjúkdómum barna í Bandaríkjunum 1988-1990.[1]

Eiginkona Þórólfs er Sara Hafsteinsdóttir, yfirsjúkraþjálfari á Landspítala háskólasjúkrahúsi, Fossvogi, og eiga þau tvo syni.

Þórólfur Guðnason varði doktorsritgerð sína í lýðheilsuvísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið „Sýkingar og sýklun pneumókokka hjá börnum á íslenskum leikskólum – faraldsfræði, áhættuþættir og íhlutandi aðgerðir“ (Infectious illnesses and pneumococcal carriage among preschool children at Icelandic day care centers – epidemiology, risk factors and intervention).

Þórólfur varð landsþekktur fyrir störf sín sem sóttvarnalæknir í mars 2020 vegna upplýsingafunda um COVID-19. Hann var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu heilbrigðismála þann 17. júní 2020.[2]

Þórólfur ákvað að hætta starfi sem sóttvarnarlæknir í september 2022. Guðrún Aspelund tók við af honum.

Tilvísanir breyta

  1. „Þórólfur Guðnason“. www.mbl.is. Sótt 18. apríl 2020.
  2. Bjarni Pétur Jónsson (17. júní 2020). „Þríeykið fékk fálkaorðuna“. RÚV. Sótt 17. júní 2020.