Kasakstan

land í Mið-Asíu

Kasakstan er stórt land sem nær yfir mikinn hluta Mið-Asíu. Hluti landsins er vestan Úralfljóts og telst til Evrópu. Landamæri Kasakstan liggja að Rússlandi, Kína og Mið-Asíuríkjunum Kirgistan, Úsbekistan og Túrkmenistan og einnig að strönd Kaspíahafsins. Kasakstan var áður Sovétlýðveldi en er nú aðili að SSR.

Lýðveldið Kasakstan
Қазақстан Республикасы
Qazaqstan Respūblīkasy (kasakska)
Республика Казахстан
Respublika Kazakhstan (rússneska)
Fáni Kasakstans Skjaldarmerki Kasakstans
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Menıñ Qazaqstanym
Staðsetning Kasakstans
Höfuðborg Astana
Opinbert tungumál Kasakska, rússneska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Kassym-Jomart Tokajev
Forsætisráðherra Alihan Smaiylov
Sjálfstæði
 • frá Sovétríkjunum 16. desember 1991 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
9. sæti
2.724.900 km²
1,7
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar
64. sæti
18.711.560
7/km²
VLF (KMJ) áætl. 2020
 • Samtals 569,813 millj. dala (41. sæti)
 • Á mann 30.178 dalir (53. sæti)
VÞL (2019) 0.817 (50. sæti)
Gjaldmiðill Tenga
Tímabelti UTC+5 til +6
Þjóðarlén .kz
Landsnúmer +7

Kasakstan var í upphafi nokkurs konar stórveldi hirðingja. Orðið kasak (kk: Қазақ, ru: Казах) sem merkir „frjáls maður“ eða „hirðingi“ á rætur að rekja til tyrknesku (sbr. einnig orðið kósakki, sem er af sömu rót). Orðið stan merkir „(föður)land“. Nafn landsins gæti því þýtt „hirðingjaland“.

Fornaldarsaga

breyta

Árið 500 f.Kr. bjuggu Sakar í Suður-Kasakstan. Sakar voru hirðingjar sem ríktu á svæðum frá Altaífjöllum til Úkraínu. Þó svo að Sakar væru herskáir, urðu þeir að lúta í lægra haldi fyrir Alexander mikla. Í grafhýsi rétt utan við Almaty fundust frægar fornleifar, sem nefndar hafa verið „gullni maðurinn“. Þessi „gullni maður“ er sakneskur stríðsmaður í gylltum einkennisbúningi og þykir merkilegur gripur í Kasakstan, sem og í allri Mið-Asíu.

Djengis Khan

breyta

Djengis Khan og heimsveldi Mongólíu lögðu undir sig Kasakstan og Mið-Asíu með stærsta her heims á þeim tíma. Í hernum voru yfir 150.000 hermenn. Rétt eftir að Djengis Khan lést var heimsveldinu skipt á milli sona hans og Kasakstan varð hluti af ríki Chaghatais.

Þrjár hirðir í Kasakstan

breyta

Forfeður Kasaka voru Mongólar og Úsbekar. Á 16. öld yfirtóku Kasakar mongólska hirð í Norður-Kasakstan sem hét Gullhirðin. Kasakar sameinuðust í þrjár hirðir. Þessar hirðir voru Miklahirðin í Suður-Kasakstan, Miðhirðin í Mið- og Norðaustur-Kasakstan, og Litlahirðin í Vestur-Kasakstan. Yfir hverri hirð voru þrír kanar. Titlar þeirra voru axíal, bi, og batýr.

Árin 1690 til 1720 voru tímar stóráfalla í Kasakstan. Ojradar frá Mongóliu sögðu Kasakstan, þ.e. hirðunum þremur, stríð á hendur. Hirðirnar þrjár gátu ekki varist þeim þannig að Kasakar tóku þann kost að biðja um aðstoð frá Rússlandi.

Kasakstan undir stjórn Rússa

breyta

Á tímum rússneska keisaradæmisins var sífellt verið að stækka ríki þess og yfirtaka önnur landsvæði. Þegar Ojradar réðust inn í Kasakstan, átti þjóðin, eins og áður sagði, engan kost annan en að leita til Rússlands um vernd fyrir þeim. Hirðirnar þrjár hétu Rússlandi hollustu sína árið 1731. Rússar innlimuðu svo Kasakstan eftir að þeir höfðu yfirbugað Ojrada árið 1742. En að því kom að hirðirnar þrjár vildu ekki lengur vera hluti af Rússlandi og varð þá mikil uppreisn í Kasakstan. Um milljón Kasaka var drepin í þessari uppreisn sem lauk með því að Rússar héldu yfirráðum sínum í landinu.

Árið 1861 sendi Rússland landflótta fólk til Kasakstans. Taras Sjevtsjenko, úkraínskur listamaður og rithöfundur sem vildi frelsa Úkraínu, var á meðal þeirra. Meðan á fyrri heimsstyrjöldinni stóð var óöld í Kasakstan. Fleiri uppreisnir urðu, um 150.000 manns létu lífið og um 200.000 flúðu til Kína.

Kommúnismi og Sovétríkin

breyta

Árið 1917, rétt eftir að Rússar yfirtóku Kasakstan, stofnaði Alasj Órda flokk sem hét Þjóðernissinnaflokkur Kasakstans og hugðist frelsa Kasakstan á ný. Borgarastyrjöldin í Kasakstan var hörmuleg fyrir Kasaka. Með tíð og tíma ákvað Alasj Órda að ganga í lið með Stalín og bolsévíkum í Rússlandi. Þegar Kommúnistaflokkur Kasakstans (CPK) náði yfirráðum yfir Kasakstan, eftir að borgarastyrjöldinni lauk, voru Alasj Órda og allir í Þjóðernissinnaflokki Kasakstans myrtir að fyrirskipan Stalíns og Kommúnistaflokks Kasakstans. Margt fólk í Kasakstan var myrt í stjórnartíð Stalíns. Margir aðrir flúðu til Kína og Mongólíu. Kasakstan varð Sovétlýðveldi árið 1936.

Stalín og Bækónúr-skotpallurinn

breyta
 
Minnismerki í Astönu til að heiðra fólk sem var myrt í vinnubúðum í Kasakstan

Stalín sendi þúsundir manna til Kasakstans á árunum 1936 til 1940 til að byggja upp verksmiðjuborgir í Kasakstan. Frá 1940 til 1950 var margt fólk frá öðrum Sovétlýðveldum sent til Kasakstans til að vinna í kolanámum eða vinnubúðum. Margar þessara kolanáma og vinnubúða voru í nágrenni borga eins og Karaganda og Úst-Kamenogórsk. Árið 1953 varð Nikita Kruschev forseti í Sovétríkjunum. Hann lét loka vinnubúðum í Sovétríkjunum en í staðinn hófst hann handa við „Jómfrúarlandaáætlunina“ sem ætlað var að auka frjósemi steppunnar í Kasakstan. Yfir 250.000 km² lands, einkum í Norður-Kasakstan, var uppskorið sem akurlendi á meðan „Jómfrúarlandaáætlunin“ stóð yfir.

Meðan á kalda stríðinu stóð létu Sovétríkin byggja Bækónúr-skotpallinn“ í Suðvestur-Kasakstan. Hann var eins og skotpallurinn í Nevada í Bandaríkjunum. Gerðar voru kjarnorkutilraunir og tilraunir til þess að skjóta eldflaugum út í geim. Árið 1989 voru áttu mestu mótmæli í öllum Sovétríkjunum sér stað í Kasakstan. Fjöldi fólks hvarvetna í Kasakstan mótmælti. Mótmælendur fylgtu liði undir nafninu „Nevada-Semey hreyfingin“ og árið 1989 hættu Sovétríkin kjarnorkutilraunum sínum. En enn í dag er eldflaugum skotið út í geim frá Kasakstan og geimfarar stunda enn nám í Bækónúr-stöðinni.

Nazarbaev og Lýðveldið Kasakstan

breyta

Árið 1989 var Nursúltan Nazarbaev kjörinn forseti í Kasakstan. Tveimur árum síðar féllu Sovétríkin. Nazarbaev vildi ekki ganga úr Sovétríkjunum, en svo fór eigi að síður að hann samþykkti það. Þann 16. desember 1991 varð Kasakstan að lýðveldinu Kasakstan. Borgin Aqmola, sem þá var aðeins lítill kolanámubær, var gerð að höfuðborg Kasakstans. Margir töldu Nazarbaev ruglaðan að gera þetta, en nýja höfuðborgin var hluti af Kasakstan 2030 áætlun hans. Aqmola skipti um nafn var nefnd Astana, sem þýðir á kasöksku „Höfuðborg“. Árið 2019 var borgin nefnd Nur-Sultan í höfuðið á Nazarbaev.[2] Nafnabreytingin var tekin til baka árið 2022.[3]

Kasakstan í dag

breyta
 
„Hvíta húsið“ í Astana, þar sem forseti landsins býr.

Kasakstan er núna lýðveldi í Mið-Asíu og 9. stærsta land í heimi. Höfuðborgin er Astana, sem er á miðri steppunni í Norður-Kasakstan. Auðvaldsskipulag er hægt og rólega að umbreyta efnahagslífi Kasakstans en ríkinu svipar þó enn um margt til Sovétríkjanna gömlu.

Nazarbajev var forseti Kasakstans í tæp 30 ár; frá sjálfstæði Kasakstans árið 1991 þar til hann sagði skyndilega af sér í mars árið 2019.[4] Fólk velti fyrir sér þeirri staðreynd að hann væri valdamesti maður landsins og hann var gjarnan talinn ríkja með gerræðislegum hætti.

Í janúar 2022 fóru fram fjöldamótmæli í Kasakstan vegna hækkunar á olíuverði sem snerust brátt upp í óeirðir og allsherjarmótmæli gegn ríkjandi stjórnvöldum. Ríkisstjórn Kasakstans brást við mótmælunum af hörku og kallaði til hernaðaraðstoðar frá Sameiginlegu öryggissáttmálastofnuninni (CSTO), varnarbandalagi fyrrverandi Sovétlýðvelda. Kassym-Jomart Tokajev forseti gaf her­liðum CSTO og örygg­is­sveitum Kasakstan heimild til að „skjóta til að drepa“ mótmælendur án viðvörunar og sagði mótmælin hafa verið valdaránstilraun að áeggjan erlendra hryðjuverkamanna.[5] Samkvæmt opinberum tölum létust að minnsta kosti 164 manns og yfir 2.200 særðust í óeirðunum, auk þess sem rúmlega sex þús­und voru handteknir.[6]

Stjórnmál

breyta
 
Núrsultan Nazarbaev, forseti Kasakstans frá 1991 til 2019.

Þann 16. desember 1986, þegar Kasakstan var enn hluti Sovétríkjanna, varð Gennadý Kólbin forseti landsins. Hann var ekki kasakskur heldur rússneskur. Mikhaíl Gorbatsjev, þáverandi aðalritari sovéska kommúnistaflokksins, tilnefndi Gennadý Kólbin sem forseta Sovétlýðveldisins Kasakstans. Mikhaíl Gorbatsjev vissi af mikilli spillingu innan Kommúnistaflokks Kasakstans. Upphlaup varð í Kasakstan vegna þjóðernis Gennadýs Kólbins. Í Almaty fóru fram fræg mótmæli sem nefnd voru Djeltóksan, sem merkir „desember“ á kasöksku. Fáir létu lífið í mótmælunum en margir slösuðust. Í Almaty er minnisvarði við Respúblika Alangý sem heitir Djeltóksan 1986.[7]

Þann 22. júní 1989 varð Nazarbaev forseti Kasakstans. Hann var forseti frá því að Kasakstan varð lýðveldi árið 1991 til ársins 2019. Sara Alpýsóvna eiginkona hans er mjög atorkusöm í efnahagsmálum landsins og er hún einnig forstjóri „líknarmálasjóðs fyrir börn“. Þau eiga þrjár dætur og er sú elsta, Dariga Nazarbayeva, forstjóri ríkisrekinnar sjónvarpsstöðvar í Kasakstan.

Ríkisstjórn

breyta

Kasakstan er lýðveldi bundið stjórnarskrá. Forseti landsins er þjóðhöfðingi og getur hann beitt neitunarvaldi. Forsætisráðherra stýrir ríkisstjórn Kasakstans. Núverandi forsætisráðherra er Alihan Smaiylov, en hann var útnefndur árið 2022. Þing Kasakstans skiptist í tvær deildir, neðri deild (madjílis) og efri deild (öldungadeild).

Kasasktan er stórt land, sem skiptist í 17 fylki og 3 borgir. Borgirnar eru Almaty, Astana og Bækónúr.

 


Fylki í Kasakstan

Nafnið á íslensku Höfuðborg Nafnið á rússnesku Mannfjöldi Flatarmál
Almaty (Borg) Almaty Алматы 2.000.900 325 km²
Almatyfylki Taldukórgan Алматинская область 860.000 224.000 km²
Aqmolafylki Köksjetá Акмолинская область 829.000 121.400 km²
Nur-Sultan (Borg) Nur-Sultan Нұр-Сұлтан 800.000 324 km²
Aktöbefylki Aktöbe Актюбинская область 661.000 380.000 km²
Atýráfylki Atýrá Атыpауская область 380.000 118.600 km²
Austur-Kasakstanfylki Öskemen Восточно-Казахстанская область 897.000 283.800 km²
Bækónur (Borg) Bækónur Байқоңыр 70.000 57 km²
Djambýlfylki Taras Жамбылская область 962.000 114.000 km²
Karagandyfylki Karaganda Карагандинская область 1.287.000 428.000 km²
Kóstanæfylki Kóstanæ Кустанайская область 975.000 196.000 km²
Kusulórdafylki Kusulórda Кызылординская область 590.000 226.000 km²
Mangystáfylki Aktá Мангистауская область 316.847 165.600 km²
Norður-Kasakstanfylki Petrópavil Севеpо-Казахстанская область 586.000 123.200 km²
Pavlódarfylki Pavlódar Павлодарская область 851.000 124.800 km²
Suður-Kasakstanfylki Sjimkent Южно-Казахстанская область 1.644.000 118.600 km²
Vestur-Kasakstanfylki Óral Западно-Казахстанская область 599.000 151.300 km²

Borgir Í Kasakstan

Sæti Nafnið á íslensku Nafnið á kasöksku Mannfjöldi
1 Almaty Алматы 2.000.900
2 Sjimkent Шымкент 840.000
3 Astana   Астана 600.000
4 Karaganda Қарағанды 437.000
5 Semei Семей 400.000
6 Taras Тараз 330.000
7 Aktöbe Ақтөбе 320.000
8 Pavlódar Павлодар 314.000
9 Úst-Kamenogórsk Усть-Каменогорск 305.000
10 Kóstanæ Қостанай 223.600
11 Petrópavil Петропавл 203.500
12 Óral Орал 195.000
13 Temirtá Теміртау 170.600
14 Kusulórda Қызылорда 157.000
15 Aktá Ақтау 143.000
16 Atýrá Атырау 142.000
17 Ekibastús Экибастуз 127.200
18 Köksjetá Көкшетау 123.400
19 Taldukórgan Талдықорған 118.600
20 Djeskasgan Жезқазған 90.000
21 Túrkistan Түркістан 85.600
22 Balkasj Балқаш 81.000
23 Bækónur Байқоңыр 70.000

Landfræði

breyta
 
Landkort af Kasakstan (frá CIA)

Kasakstan er 9. stærsta land í heimi og er í Mið-Asíu. Í Suður-Kasakstan er eyðimörk hjá Sjimkent og einnig í Norður-Kasakstan. Þar er líka stór steppa í nágrenni Astana og Karaganda. Altaifjöll liggja að landamærum Kasakstan og Kirgistan hjá Almaty. Hæsti tindurinn er 4.572 m hár. Láglendi er í Vestur-Kasakstan við Kaspíahaf. Í Kasakstan eru hvirfilvindar mjög algengir, sérstaklega yfir láglendinu í Vestur-Kasakstan. Kasakstan liggur að Kaspíahafi og á landamæri að Aserbædsjan og Íran.

Efnahagsmál

breyta

Olía hefur lengi verið afar mikilvæg fyrir efnahag Kasakstans. Kasakstan hafði yfir 66.320.000.000 kr. í tekjur af olíu árið 1996. Nazarbaev vildi leggja þjóðartekjurnar fyrir. Margt fólk í Kasakstan sem vinnur í olíuiðnaðinum býr í Vestur-Kasakstan í borgum eins og Aktá og Atýrá. Kasakar segja að Atýrá sé olíuhöfuðborg Kasakstan.

Mörg erlend fyrirtæki starfa í Kasakstan, bæði frá Evrópu og Ameríku og jafnvel Japan. Fjármálamiðstöð Kasakstans er í Almaty.

Fyrirtæki í Kasakstan frá Íslandi

Auðvaldið

breyta

Í Kasakstan í dag eru yfirstétt, borgarastétt og lágstétt eins og í hverju öðru auðvaldskerfi. Mánaðartekjur borgarastéttarinnar eru einungis um 30.000 kr. Yfirstéttin býr einkum í fjallahéruðum, í risastórum húsum, en þénar þó einungis eins og millistéttarfólk í Evrópu. Lágstéttin býr við kröpp kjör í Kasakstan. Litlar íbúðir með lélegu vatns-, orku- og fráveitukerfi eru ekki óalgeng sjón í bæjum Kasakstan.

Kazakhstan 2030

breyta

„Kazakhstan 2030“ er áætlun Nazarbaevs um að gera Kasakstan að auðugu landi. Nazarbaev vill reyna að selja mikla olíu og laða fyrirtæki frá öllum heimshornum til Kasakstans. Þegar maður fer til Kasakstans má sjá veggspjöld sem á stendur „Kazakhstan 2030“ alls staðar í Kasakstan.

Gjaldmiðill

breyta
 
Kasakska tenga 200TГ

Tenga er gjaldmiðill Kasakstans. Tenga kemur úr orðinu dengi í rússnesku sem þýðir einfaldlega peningur. Þann 15. nóvember 1993 hætti ríkisstjórn Kasakstans að nota rúblur og tenga var tekin í notkun í landinu.

Landbúnaður

breyta

Landbúnaður í Kasakstan er mjög háður olíu og búfjárrækt. Yfir 70% landsins eru ræktarlönd og bóndabæir. Mest er ræktað af hveiti í Kasakstan. Þess vegna er bjór í Kasakstan mjög ódýr. Hálfur lítri af bjór kostar einungis 200TГ (100 kr.) í dúkan, sem er kasakstönsk verslun. Ávextir og grænmeti eru ræktuð í sveitum Kasakstan, en ávallt seld á markaði í borgunum, eins og í Silóný Basar (grænn markaður). Algengasta búfé í Kasakstan eru hestar og sauðfé.

Samgöngur

breyta
 
Air Astana flugvél Fokker-50 í Sjimkent

Flugfélag Kasakstans heitir Air Astana. Vilji maður ferðast til Kasakstan frá Evrópu verður maður að fljúga með KLM frá Amsterdam, Lufthansa frá Frankfurt, Turkish Airlines frá Istanbul, Air Astana frá London eða Moskvu, eða Aeroflot. Air Astana flýgur til næstum allra áfangastaða í Kasakstan.

Járnbrautarlestir eru líka algeng samgöngutæki í Kasakstan. Hægt er að fara frá Almaty til Astönu á 20 klukkutímum. Einnig eru til hópferðabílar í Kasakstan en þeir eru ekki jafn almennur ferðamáti eins og járnbrautarlestir og flugvélar. Í borgum er hægt að ná í leigubíl með því að veifa hendinni við veginn. Leigubílar eru ekki á vegum hins opinbera heldur einkareknir. Þeir eru ódýr og mjög almennur ferðamáti í borgum eins og Almaty.

Íbúar

breyta

Einungis um 53% íbúa Kasakstan eru fæddir í Kasakstan. Allt frá því að Kasakstan gekk Rússlandi á hönd hafa Rússar flust um allt Kasakstan. Flestir Rússar búa Í stærstu borgunum, eins og Astana og Almaty og í Norður-Kasakstan, og eru Rússar stundum fjölmennari en Kasakar. En í bæjum eins og Sjimkent og Túrkistan eru um 80% íbúanna Kasakar. Í Kasakstan býr enn fólk frá því að Stalín sendi fólk frá Sovétríkjunum í vinnubúðir til Kasakstans, svo sem Téténar, Úkraínumenn, Úsbekar og jafnvel Hvít-Rússar. Einnig má þar finna þýska Gyðinga sem flúðu Þýskaland í seinni heimsstyrjöldinni.[8]

Þjóðernishópar í Kasakstan

Þjóðerni 1959 % 1970 % 1979 % 1989 % 1999 %
Kasakar 30,0 32,6 36,0 40,1 53,4
Rússar 42,7 42,4 40,8 37,4 29,9
Úkraínumenn 8,2 7,2 6,1 5,4 3,7
Þjóðverjar 7,1 6,6 6,1 5,8 2,4
Tatarar 2,1 2,2 2,1 2,0 1,7
Úsbekar 1,5 1,7 1,8 2,0 2,5
Hvítrússar 1,2 1,5 1,2 1,1 0,8
Úígúrar 0,6 0,9 1,0 1,1 1,4
Kóreumenn 0,8 0,6 0,6 0,6 0,7

Tungumál

breyta

Kasakska er opinbert tungumál í Kasakstan, en ekki kunna allir þeir sem búa eða eru innfæddir í Kasakstan þá tungu. Rússneska er reyndar töluð meira en kasakska í Kasakstan. Í fyrirtækjum er rússneska opinbert tungumál og kasakska er þar sjaldan eða aldrei töluð. En í stjórnkerfinu er alltaf töluð kasakska vegna þess að Nazarbaev vill að kasakska sé opinbert tungumál í Kasakstan. Í borgum eins og Almaty og Astana, sem eru mjög alþjóðlegar, er rússneska töluð meira en kasakska. En ef maður fer til Suður-Kasakstan og heimsækir borgir eins og Sjimkent og Túrkistan, mun maður einungis heyra kasöksku.[9]

Menntun

breyta

Kennsla í skólum í Kasakstan fór áður fram á rússnesku. Frá og með árinu 1991 hefur kennsla farið fram bæði á rússnesku og kasöksku í skólum en sumir skólar nota aðeins annað málið. Í alþjóðlegum skólum er stundum kennt á ensku, en venjulega á rússnesku. Einnig er skóli í Túrkestan þar sem kennt er á tyrknesku. Læsi í Kasakstan er 99,5%. Allir kunna kýrillíska og latneska stafrófið og sumir kunna arabíska stafrófið. Börn í Kasakstan byrja á leikskóla fimm eða sex ára gömul. Árið 2004 voru 100 leikskólar í Kasakstan og í þá gengu 135.856 börn (eða 63% barna á aldrinum fimm til sex ára í Kasakstan). Á leikskólum er bæði kennt á kasöksku og rússnesku, þó oftast er rússneska algengari. Eftir leikskóla hefst grunnskóli og þar á eftir menntaskóli. Nemendur ljúka menntaskóla 18 ára og fara svo í háskóla. Til eru margir háskólar í Kasakstan, sérstaklega í Almaty.

Menning

breyta

Menning í Kasakstan verður fyrir áhrifum frá Rússlandi, Mongólíu og Tyrklandi. Inntak hins fullkomna í kasaskri menningu er lífsmáti hirðingjans. Kúlutjöld eru enn mjög almenn í sveitum og eru líka tákn kasöksku menningarinnar. Kasakskt fólk er mjög gestrisið og gleðst alltaf yfir að hitta útlendinga sem hafa áhuga á landi þess.

Hátíðisdagar

breyta
Dagsetning Íslenskt nafn Kasakskt nafn
1. janúar Nýársdagur Жаңа жыл
7. janúar Jól (rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar) Рождество Христово
8. mars Alþjóðlegi kvennadagurinn Халықаралық әйелдер күні
22. mars Nárús (Mars) Наурыз мейрамы
1. maí Fyrsti maí Қазақстан Ұлттарының Бірлік Күні
9. maí Sigurdagurinn í seinni heimsstyrjöldinni Жеңіс күні
30. ágúst Stjórnarskrárdagurinn Конституция күні
25. október Lýðveldisdagurinn Республика күні
16. desember Þjóðhátíðardagur
 
Besjbarmak: Þjóðarréttur Kasakstans

Besjbarmak er þjóðarréttur í Kasakstan. Hann er úr hveitimjöli og hrossakjöti. Te er mjög almennur drykkur í Kasakstan og mjög ódýrt. Þjóðardrykkurinn í Kasakstan er kúmis, sem er úr geitamjólk. Margar kjörbúðir eru í borgum þar sem fólk getur keypt ávexti, kjöt og fleira.

Trúarbrögð

breyta

Íslam er útbreiddast trúarbragða í Kasakstan. Í Kasakstan hefur aldrei verið lagt mikið upp úr trúarbrögðum. Nær 47% íbúa í Kasakstan eru múslimar, en einungis 3% af þeim telja sig trúaða. Því er eins farið með önnur trúarbrögð. Gyðingar frá Rússlandi búa einnig í Kasakstan, einkum í borgunum Almaty og Pavlódar. Kristindómur og búddismi eru líka meðal trúarbragða í Kasakstan, en ekki jafn útbreidd. Samfélagið í Kasakstan er undir áhrifum frá íslam. Þau áhrif leyna sér ekki í Kasakstan, til dæmis í tungumálinu, á kasöksku heilsar maður með orðunum Assalam alaikum, sem er algeng kveðja í íslömskum löndum.

Tónlist

breyta

Nú á dögum er tónlist í Kasakstan blanda af poppi og hefðbundinni tónlist. Dombra, sem er kasakskur gítar, er enn notaður í tónlist nútímans, bæði í poppi og hefðbundnari tónlist. Tónlist frá Kasakstan er ekki mjög vinsæl í Kasakstan, vegna þess að mörgum landsmanna þykir tónlist frá Rússlandi, Englandi og Bandaríkjunum skemmtilegri. Hér fyrir neðan eru tenglar á tónlistarmyndbönd frá Kasakstan og einnig má smella á hljómsveitirnir til að lesa meira um þær.

Tilvísanir

breyta
  1. Á valdatíma tyrkja varð íslam aðaltrúarbrögðin í Kasakstan og byggingar frá þessu tímabili standa sumar hverjar enn í Túrkistan og eru heilagar byggingar í huga múslima í Mið-Asíu. Lonely Planet Central Asia[óvirkur tengill], júlí 2004: 82-95. ISBN 978-1-74104-614-4
  2. Kristján Róbert Kristjánsson (20. mars 2019). „Astana heitir nú Nursultan“. RÚV. Sótt 7. apríl 2019.
  3. Ævar Örn Jósepsson (14. september 2022). „Höfuðborg Kasakstans fær aftur nafnið Astana“. RÚV. Sótt 14. september 2022.
  4. „Forseti Kasakstans segir af sér“. RÚV. 19. mars 2019. Sótt 21. mars 2019.
  5. „Segir óeirðirnar tilraun til valdaráns“. mbl.is. 10. janúar 2022. Sótt 12. janúar 2022.
  6. Jónas Atli Gunnarsson (9. janúar 2022). „Hvað er að gerast í Kasakstan?“. Kjarninn. Sótt 12. janúar 2022.
  7. Þetta er minnisvarði til að heiðra nemendur sem létu lífið í mótmælunum. Қазақ Тарих, 1993. ISBN 5-615-01303-6
  8. Taflan hér að neðan sýnir þjóðarbrot í Kasakstan frá árinu 1959 til ársins 1999, sem er næstum eins og í dag. Население á
    rússnesku Wikipediu
    .
  9. Rússneska er venjulega tungumálið fyrir fólk til að tala við annað fólk af öðrum kynþætti, en það eru margir kynþættir í Kasakstan og rússneska er bara eins og alþjóðlegt tungumál. Tangat Tangirberdi kyzy Ayapova, Kazakh Textbook: Beginning and Intermediate Geymt 18 júlí 2007 í Wayback Machine, 2002. ISBN 1-881265-91-9

Tenglar

breyta