Hong Kong

sérstjórnarhérað og borg í Kína

Hong Kong (kínverska: 香港; rómönskun: Xiānggǎng), opinberlega Sérstjórnarhérað Alþýðulýðveldisins Kína Hong Kong, er sérstakt sjálfstjórnarhérað í Kínverska alþýðulýðveldinu, á austurbakka árósa Perlufljóts í suðurhluta Kína. Hong Kong er einn af þéttbýlustu stöðum heims, með 7,4 milljón íbúa af margvíslegum uppruna á 1.104 ferkílómetra svæði.

中華人民共和國香港特別行政區
Hong Kong Special Administrative Region of the People's Republic of China
Fáni Hong Kong Skjaldarmerki Hong Kong
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Þjóðsöngur Kína
Staðsetning Hong Kong
Höfuðborg Hong Kong
Opinbert tungumál enska og kínverska (kantónska)
Stjórnarfar Flokksræði

Stjórnarformaður John Lee
Sérstakt sjálfstjórnarhérað í Kína
 • Stofnun 29. ágúst 1842 
 • Stjórn flutt
til Kínverska
alþýðulýðveldisins
1. júlí 1997 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
168. sæti
1.108 km²
3,16
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar
102. sæti
7.413.070
6.777/km²
VLF (KMJ) áætl. 2019
 • Samtals 490,880 millj. dala (44. sæti)
 • Á mann 64.928 dalir (4. sæti)
VÞL (2015) 0.933 (7. sæti)
Gjaldmiðill Hong Kong-dalur (HKD)
Tímabelti UTC+8
Þjóðarlén .hk
Landsnúmer +852

Hong Kong varð bresk nýlenda við að Tjingveldið gaf Hong Kong-eyju eftir þegar Fyrra ópíumstríðinu lauk árið 1842. Eftir Annað ópíumstríðið 1860 var nýlendan stækkuð þannig að hún náði líka yfir Kowloon-skaga. Hún var síðan stækkuð enn frekar þegar Bretar fengu 99 ára samning um Nýju umdæmin árið 1898. Alþýðulýðveldið Kína tók við stjórn svæðisins þegar samningurinn rann út árið 1997. Borgin hefur umtalsvert sjálfstæði sem sérstjórnarhérað samkvæmt hugmyndinni um eitt land, tvö kerfi. Í Hong Kong ríkir markaðshagkerfi sem er með þeim frjálslyndustu í heimi. Hong Kong á stjórnarskrárbundinn rétt til mikils sjálfræðis, þar á meðal eigin lagakerfis, eigin gjaldmiðils, eigin tollalaga og rétt til að gera alþjóðasamninga, svo sem um flugumferð og innflytjendur. Einungis varnarmál og alþjóðasamskipti eru í höndum stjórnarinnar í Peking.

Upphaflega var svæðið þar sem Hong Kong stendur strjálbýlt sveitahérað með nokkrum fiskiþorpum. Nú eru þar ein af helstu fjármálamiðstöðvum heims og ein af stærstu verslunarhöfnum heims. Borgin er 10. mesta útflutningsland heims og 9. mesta innflutningslandið. Gjaldmiðill Hong Kong, Hong Kong-dalur, er 9. mest notaði gjaldmiðill heims í gjaldeyrisviðskiptum (2019). Í Hong Kong býr hlutfallslega mest af forríkum einstaklingum, en þótt verg landsframleiðsla á mann sé með því sem mest gerist er ójöfnuður líka mikill.

Hong Kong er háþróað land og er í sjöunda sæti á lista yfir lönd eftir vísitölu um þróun lífsgæða. Í borginni eru flestir skýjakljúfar af borgum heims og íbúar þar njóta einna mesta langlífis. Yfir 90% íbúa notast við almenningssamgöngur. Loftmengun af völdum svifryks er samt mikið vandamál.

 
Staðsetning Hong Kong sérstjórnarhéraði í Kína.

Nafn svæðisins, sem upprunalega var stafað með latínuletri He-Ong-Kong árið 1780[1] vísaði upprunalega í víkina milli Aberdeen-eyjar og syðri strandar Hong Kong-eyjar. Aberdeen var staðurinn þar sem breskir sjómenn mættu fyrst fiskimönnum frá svæðinu.[2] Þótt uppruni latneska heitisins sé óþekktur er talið að nafngiftin vísi í kantónskan framburð á hēung góng, sem merkir ilmandi höfn eða reykelsishöfn. Ilmurinn gæti verið vísun í reykelsisverksmiðjur Norður-Kowloon en reykelsið var geymt nærri Aberdeen-höfn áður en Viktoríuhöfn tók við hlutverki hennar. Annar landstjóri Hong Kong, John Francis Davis, setti fram aðra kenningu um nafnið; að það væri dregið af Hoong-keang, rauða strauminum sem vísar í hvernig jarðvegurinn á eyjunni litaði fossa hennar.

Einfaldaða útgáfan Hong Kong var almennt notuð um 1810. Nafnið var líka skrifað í einu orði, Hongkong, til 1926 þegar stjórnin tók formlega upp tveggja orða nafnið. Sum fyrirtæki sem voru stofnuð fyrir þann tíma notast enn við þennan rithátt, eins og Hongkong Land, Hongkong Electric Company, Hongkong and Shanghai Hotels og The Hongkong and Shanghai Banking Corporation (HSBC).

Fyrst er vitað um mannabyggð við Hong Kong á Nýsteinöld fyrir um 6000 árum síðan.[3] Fyrstu íbúar svæðisins fluttust þangað frá meginlandinu og fluttu með sér þekkingu á hrísgrjónaræktun. Svæðið tilheyrði Baiyue-ættbálkunum þar til Qin-veldið sigraði þá og innlimaði svæðið í Kína árið 214 f.Kr. Svæðið varð hluti af forn-víetnamska konungdæminu Nanyue eftir hrun Qin-veldisins þar til Han-veldið hertók það 111 f.Kr.[4] Eftir það var Hong Kong undir stjórn ýmissa kínverskra keisaravelda og konungdæma. Saltframleiðsla, perluveiðar og viðskipti döfnuðu þar til Song-keisarahirðin flúði undan Mongólum á 13. öld og setti upp höfuðstöðvar sínar á Lantau-eyju og síðar Kowloon-borg (sem eru hluti af Hong Kong í dag). Song-veldið var svo endanlega sigrað af Mongólum í bardaganum við Yamen og eftir það fór Hong Kong undir Júanveldið.[5] Undir lok Júanveldisins var landið að mestu í eigu sjö stórra ætta. Undir stjórn Mingveldisins héldu landnemar áfram að flytja til svæðisins frá nærliggjandi héruðum.

Fyrstu Evrópubúarnir til að versla á svæðinu voru Portúgalar, en portúgalski könnuðurinn Jorge Álvarez kom þangað árið 1513.[6] Portúgalar stofnuðu verslunarstaðinn Tamão nærri Hong Kong fyrir verslun við Suður-Kína. Þeir voru hraktir á brott eftir nokkrar skærur á 3. áratug 16. aldar. Verslunarsamband milli Kína og Portúgals komst aftur á 1549 og Portúgalar fengu varanlegan samning um stofnun verslunarstöðvar í Makaó árið 1557.

Eftir að Tjingveldið hafði lagt land Mingveldisins undir sig var sett hafnbann á strendur Kína. Kangxi aflétti banninu og leyfði útlendingum að sigla til kínverskra hafna árið 1684. Kínversk stjórnvöld tóku upp Kantónkerfið til að hafa betri stjórn á utanríkisverslun árið 1757. Þá þurftu öll skip, nema rússnesk, að sigla til borgarinnar Kantón (Guangzhou). Kínverjar höfðu lítinn áhuga á evrópskum vörum meðan eftirspurn eftir kínverskum vörum (postulíni, tei, silki o.fl.) var gríðarmikil í Evrópu. Kínverskar vörur fengust þannig aðeins keyptar gegn góðmálmum. Til að bregðast við þessu ójafnvægi hófu Bretar að selja mikið magn ópíums, sem framleitt var á Indlandi, í Kína. Verslunin leiddi til útbreiddrar ópíumfíknar meðal Kínverja sem stjórnvöld reyndu að bregðast við með sífellt strangari takmörkunum á ópíumverslunina.

Árið 1839 hafnaði Daoguang keisari tillögum um að aflétta banni við ópíumverslun og taka upp skattlagningu í staðinn. Hann skipaði þess í stað embættismanninum Lin Zexu að uppræta ópíumverslunina með öllu. Lin Zexu lét eyðileggja ópíumbirgðir í landinu og bannaði verslun við erlend skip. Bretar brugðust við með hervaldi sem leiddi til Fyrra ópíumstríðsins 1840. Tjingveldið gafst fljótlega upp og gaf Hong Kong eftir með Chuenpi-sáttmálanum. Hvorugt ríkið fullgilti þó sáttmálann og átökin héldu áfram til 1842 þegar ríkin gerðu Nanking-sáttmálann. Þá tók Bretland formlega yfir stjórn Hong Kong-eyju.

 
Viktoríuhöfn á 7. áratug 19. aldar.

Nýlendustjórnin kom upp stjórnsýslu snemma árs 1842 en sjórán, sjúkdómar og andstaða Tjingveldisins hömluðu vexti nýlendunnar. Aðstæður bötnuðu eftir Taiping-uppreisnina á 6. áratugnum þegar margir kínverskir flóttamenn, þar á meðal auðugir kaupmenn, flúðu til nýlendunnar vegna óróans á meginlandinu. Áframhaldandi spenna milli Breta og Kínverja vegna ópíumverslunarinnar leiddi til Annars ópíumstríðsins 1856. Tjingveldið beið aftur ósigur og neyddist til að gefa Kowloon og Steinsmiðaeyju eftir með Pekingsáttmálanum. Undir lok stríðsins var Hong Kong orðin að mikilvægri umskipunarhöfn. Hraður vöxtur dró að sér erlenda fjárfestingu um leið og trú á framtíð Hong Kong óx.

Nýlendan stækkaði enn árið 1898 þegar Bretar fengu 99 ára samning um Nýju umdæmin. Hong Kong-háskóli var stofnaður 1911 og Kai Tak-flugvöllur hóf starfsemi 1924. Nýlendan komst hjá langvarandi niðursveiflu vegna Kantón-Hong Kong-verkfallsins 1925-1926. Þegar Annað stríð Kína og Japans hófst 1937 lýsti landstjórinn, Geoffry Northcote, Hong Kong hlutlaust svæði til að verja stöðu hafnarinnar. Árið 1940 bjóst nýlendustjórnin undir átök með því að flytja allar breskar konur og börn frá borginni. Japanski keisaraherinn gerði árás á borgina sama dag og þeir réðust á Perluhöfn 8. desember 1941. Hong Kong var hernumin í nær fjögur ár. Bretar tóku aftur við stjórn borgarinnar 30. ágúst 1945.

Íbúafjöldinn tók hratt við sér eftir stríðið. Kínverskt handverksfólk flúði til eyjarinnar þegar borgarastyrjöldin í Kína hófst, og fleiri flúðu þangað eftir að Kommúnistaflokkur Kína tók völdin á meginlandinu 1949. Hong Kong varð fyrsti Asíutígurinn til að iðnvæðast á 6. áratug 20. aldar. Nýlendustjórnin beitti sér fyrir umbótum vegna ört vaxandi fólksfjölda með því að reisa hagkvæmar íbúðir, með stofnun sjálfstæðrar nefndar til að uppræta spillingu í stjórnkerfinu og með uppsetningu lestarkerfis. Þótt samkeppnisstaða borgarinnar versnaði á sviði framleiðsluiðnaðar batnaði hún á sviði þjónustu. Undir lok aldarinnar var Hong Kong orðin að alþjóðlegri fjármálamiðstöð og skipaflutningahöfn.

 
Kowloon og Hong Kong á 8. áratug 20. aldar.

Óvissa um framtíð nýlendunnar fór vaxandi eftir því sem lok 99 ára samningsins við Kína nálguðust. Murray MacLehose landstjóri vakti máls á þessu við Deng Xiaoping þegar árið 1979. Eftir samningaviðræður milli Bretlands og Kína var gefin út sameiginleg yfirlýsing árið 1984 þar sem Bretar samþykktu að afhenda Kína nýlenduna árið 1997 en að Kína myndi tryggja efnahagslegt og stjórnsýslulegt sjálfstæði hennar í 50 ár eftir yfirfærsluna. Mikill fjöldi flutti engu að síður frá Hong Kong í aðdraganda yfirfærslunnar vegna ótta við versnandi lífskjör. Um hálf milljón flutti frá Hong Kong milli 1987 og 1996. Þann 1. júlí 1997 tóku Kínverjar yfir stjórn nýlendunnar eftir 156 ár af breskum yfirráðum.

Fljótlega eftir þetta varð Hong Kong fyrir nokkrum alvarlegum áföllum. Asíukreppan kostaði stjórnvöld stóran hluta af gjaldeyrisbirgðum landsins til að viðhalda tengingu Hong Kong-dalsins við Bandaríkjadal. Eftir að kreppunni lauk gekk H5N1-fuglaflensufaraldurinn yfir sem hægði á vexti. Á eftir fylgdi svo bráðalungnabólga (HABL) sem leiddi til alvarlegrar efnahagskreppu.

Stjórnmáladeilur eftir yfirfærsluna hafa snúist um lýðræðisþróun héraðsins og trúnað miðstjórnar Alþýðulýðveldisins við hugmyndina um eitt land, tvö kerfi. Lýðræðisumbætur sem nýlendustjórnin réðist í 1994 voru teknar aftur af kínverskum stjórnvöldum. Héraðsstjórnin reyndi án árangurs að koma í gegn nýrri öryggislöggjöf samkvæmt grein 23 í grunnlögum Hong Kong. Sú ákvörðun miðstjórnar Kína að krefjast samþykkis frambjóðenda til embættis stjórnarformanns leiddi til öldu mótmæla 2014 sem urðu þekkt sem regnhlífabyltingin. Árið 2019 hófust útbreidd mótmæli vegna lagafrumvarps um framsal flóttamanna til meginlands Kína.

Í maí árið 2020 var frumvarp lagt fram á kínverska Alþýðuþinginu um öryggislög sem banna uppreisnaráróður, landráð og sjálf­stæðisumleitanir sér­stjórn­ar­héraðsins.[7] Öryggislögin voru samþykkt á kínverska þinginu þann 22. maí og er meðal annars ætlað að koma í veg fyrir mótmæli af sömu stærðargráðu og áður í Hong Kong.[8]

Stjórnmál

breyta

Stjórnsýsluumdæmi

breyta

Héraðið skiptist í 18 stjórnsýsluumdæmi. Í umdæmisráði sitja 479 fulltrúar, þar af 452 kosnir með beinni kosningu sem fulltrúar síns umdæmis. Umdæmisráðið er ráðgefandi aðili gagnvart héraðsstjórninni í sveitarstjórnarmálefnum.

Hong Kong-eyja
  1. Mið- og Vestur
  2. Wan Chai
  3. Austur
  4. Suður
Kowloon
  1. Yau Tsim Mong
  2. Sham Shui Po
  3. Kowloon-borg
  4. Wong Tai Sin
  5. Kwun Tong
Nýju umdæmin
  1. Kwai Tsing
  2. Tsuen Wan
  3. Tuen Mun
  4. Yuen Long
  5. Norður
  6. Tai Po
  7. Sha Tin
  8. Sai Kung
  9. Eyjaumdæmi
 
Stjórnsýsluumdæmi Hong Kong.

Landfræði

breyta
 
Gervihnattarmynd þar sem skilin milli byggðra og óbyggðra svæða sjást vel.

Hong Kong stendur við suðurströnd Kína, austan megin við mynni Perlufljóts, 60 km austan við Maká. Suður-Kínahaf liggur að borginni á allar hliðar nema að norðanverðu þar sem borgin Shenzhen stendur við Sam Chun-á. Héraðið nær yfir 2.755 km² svæði þar sem eru Hong Kong-eyja, Kowloon-skagi, Nýju umdæmin, Lantau-eyja og yfir 200 aðrar eyjar. Af þessu svæði eru 1.073 km² af þurrlendi og 35 km² af ferskvatni, afgangurinn sjór. Hæsti tindur svæðisins er Tai Mo Shan sem nær 957 metra hæð. Mest byggingarland er á Kowloon-skaga, Hong Kong-eyju og nýjum bæjum i Nýju umdæmunum. Stór hluti þeirra rís á landfyllingum vegna skorts á byggingarlandi. 70 km², eða 25% af byggingarlandi, er á landfyllingum.

Óbyggt land er í hæðum eða fjalllendi, með mjög litlu flatlendi, og er mest graslendi, skóglendi, kjarr eða ræktarland. Um 40% af þessu landi er þjóðgarðar eða náttúruverndarsvæði. Vistkerfi svæðisins er fjölbreytt, með 3.000 tegundir æðplantna (þar af 300 innlendar) og þúsundir tegunda skordýra, fugla og sjávardýra.

Veðurfar

breyta

Ríkjandi loftslag í Hong Kong er rakt heittemprað loftslag sem einkennir Suður-Kína. Sumur eru heit og rök með stöku úrhelli og þrumuveðri og hlýju lofti sem berst úr suðaustri. Á þeim tíma geta orðið til hitabeltisfellibylir sem geta valdið flóðum og skriðum. Vetur eru mildir og oftast sólríkir í byrjun með auknum skýjum í febrúar og stöku kuldaskilum með sterkum vindum úr norðri. Veðurblíða er mest á vorin (sem geta verið breytileg) og haustin, sem eru oftast hlý og sólrík. Snjókoma er mjög sjaldgæf og fellur oftast í mikilli hæð. Meðalsólartími í Hong Kong eru 1.709 stundir á ári. Hæsti og lægsti hiti sem mælst hefur hjá Veðurstofu Hong Kong eru 36,6°C 22. ágúst 2017 og 0,0°C 18. janúar 1893.

Tenglar

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Empson, Hal (1992). Mapping Hong Kong: A Historical Atlas. Government Information Services. OCLC 29939947.
  2. Bishop, Kevin; Roberts, Annabel (1997). China's Imperial Way. Odyssey Publications. ISBN 978-962-217-511-2.
  3. Meacham, William (1999). "Neolithic to Historic in the Hong Kong Region". Indo-Pacific Prehistory Association Bulletin. 18 (2): 121–128. eISSN 0156-1316.
  4. Keat, Ooi Gin (2004). Southeast Asia: A Historical Encyclopedia. ABC-CLIO. ISBN 978-1-57607-770-2.
  5. Barber, Nicola (2004). Hong Kong. Gareth Stevens. ISBN 978-0-8368-5198-4.
  6. Porter, Jonathan (1996). Macau, the Imaginary City: Culture and Society, 1557 to the Present. Westview Press. ISBN 978-0-8133-2836-2.
  7. „Vilja inn­leiða ný ör­ygg­is­lög í Hong Kong“. mbl.is. 21. maí 2020. Sótt 1. júlí 2020.
  8. „Um­deild ör­ygg­is­lög um Hong Kong samþykkt“. mbl.is. 22. maí 2020. Sótt 1. júlí 2020.