Opna aðalvalmynd

Alexander Boris de Pfeffel Johnson (fæddur 19. júní 1964) er breskur stjórnmálamaður og núverandi forsætisráðherra Bretlands. Hann hafði áður verið borgarstjóri Lundúna og utanríkisráðherra Bretlands. Hann er einnig blaðamaður og rithöfundur, var t.d. ritstjóri stjórnmálatímarits The Spectator. Boris var kosinn þingmaður fyrir Henley árið 2001, og var skuggamenntamálaráðherra til ársins 2008 þegar hann bauð sig fram til borgarstjóra Lundúna. Hann var settur inn í starf borgarstjóra þann 4. maí 2008 og gegndi því starfi til ársins 2016 þegar Sadiq Khan tók við af honum.

Boris Johnson
Yukiya Amano with Boris Johnson in London - 2018 (41099455635) (cropped).jpg
Boris Johnson árið 2018.
Forsætisráðherra Bretlands
Núverandi
Tók við embætti
24. júlí 2019
Utanríkisráðherra Bretlands
Í embætti
13. júlí 2016 – 9. júlí 2018
Borgarstjóri Lundúna
Í embætti
4. maí 2008 – 9. maí 2016
Persónulegar upplýsingar
Fæddur19. júní 1964 (1964-06-19) (55 ára)
New York-borg, New York, Bandaríkjunum
ÞjóðerniBreskur
StjórnmálaflokkurÍhaldsflokkurinn
MakiAllegra Mostyn-Owen (g. 1987; skilin 1993)
Marina Wheeler (g. 1993; skilin 2018)
TrúarbrögðEnska biskupakirkjan
HáskóliOxford-háskóli
AtvinnaStjórnmálamaður, blaðamaður
Undirskrift

Johnson var utanríkisráðherra frá 2016 til 2018. Hann sagði af sér vegna Brexit-málefna. Eftir að Theresa May tilkynnti afsögn sína úr formannsembætti Íhaldsflokksins í maí 2019 bauð Johnson sig fram til að taka við af henni. Hann vann sigur í formannsjöri flokksins í júlí sama ár og tók við af May sem formaður og forsætisráðherra þann 24. júlí.

ÆviágripBreyta

Boris Johnson fæddist í New York í Bandaríkjunum og bjó um hríð í Brussel í Belgíu sem barn. Johnson gekk í Eton og Oxford-háskóla og nam þar latínu og gríska fornfræði.[1]

Johnson hóf starfsferil sinn í blaðamennsku og vann lengi sem blaðamaður og sem ritstjóri tímaritsins The Spectator. Johnson hóf virka þátttöku í breskum stjórnmálum árið 2001 þegar hann var kjörinn á neðri deild breska þingsins fyrir Íhaldsflokkinn í kjördæminu Henley-on-Thames.[1]

Á þessum tíma sat Íhaldsflokkurinn í stjórnarandstöðu og Johnson var skuggamenningarmálaráðherra flokksins í formannstíð Michaels Howard. Árið 2004 var Johnson sviptur því embætti eftir að upp komst að Johnson hafði haldið fram hjá eiginkonu sinni í nokkur ár með greinahöfundinum Petronellu Wyatt og að Wyatt hefði orðið ólétt eftir hann en látið rjúfa meðgönguna.[2] Johnson hafði logið því að Howard og að almenningi að framhjáhaldið hefði aldrei átt sér stað.[3] Þegar David Cameron varð formaður Íhaldsflokksins árið 2005 fékk Johnson aftur sæti í skuggaríkisstjórninni og varð skuggaráðherra æðri menntunarmála.[1]

Borgarstjóri Lundúna (2008–2016)Breyta

Árið 2007 ákvað Johnson að bjóða sig fram í embætti borgarstjóra Lundúna gegn Ken Livingstone, sitjandi borgarstjóra úr Verkamannaflokknum.[4][5] Johnson vann sigur í kosningunum næsta ár og tók við af Livingstone sem borgarstjóri þann 4. maí 2008.[6]

Sem borgarstjóri Lundúna lagði Johnson mikla áherslu á að gera borgina aðgengilegri fyrir reiðhjól. Undir lok borgarstjóratíðar hans árið 2016 hafði 10,3 millj­ón­um reiðhjóla verið komið í umferð á götum borgarinnar í gegnum hjólaleigu borgarinnar. Johnson og fylgismenn hans hafa einnig bent á árangur á sviði af­brota, hús­næðismála og sam­göngu­mála á þessum tíma hans sem merki um farsæla stjórn hans. Aftur á móti var Johnson gagnrýndur fyrir ýmis mál eins og verulega framúrkeyrslu í kostnaði á byggingu leikvangs fyrir sumarólympíuleikanna 2012.[1]

Árið 2015 hélt bandaríski forsetaframbjóðandinn Donald Trump því fram að á borgarstjóratíð Johnsons væru stórir hlutar af Lundúnaborg orðnir „bannsvæði“ fyrir lögreglu vegna fjölda meintra íslamskra öfgamanna sem þar héldu til. Johnson brást við með því að saka Trump um „sláandi fávisku“ og kallaði hann óhæfan til að gegna embætti forseta Bandaríkjanna.[7]

Árið 2016 kallaði David Cameron forsætisráðherra til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild BretlandsEvrópusambandinu. Johnson slóst seint í hóp þeirra sem mæltu með útgöngu úr Evrópusambandinu en eftir að hafa tekið þá ákvörðun að styðja útgöngu varð hann einn af helstu talsmönnum hreyfingarinnar.[8] Áður en Johnson tilkynnti þátttöku sína í útgönguherferðinni hafði hann skrifað óbirta grein þar sem hann studdi áframhaldandi veru Bretlands í Evrópusambandinu.[9] Þetta hefur leitt til ásakana um að Johnson hafi stutt útgönguherferðina fremur til að geta velt Cameron úr formannssæti Íhaldsflokksins en af sérstakri pólitískri sannfæringu.[10]

RáðherratíðirBreyta

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni þann 23. júní 2016 kusu Bretar með naumum meirihluta að yfirgefa Evrópusambandið. Í kjölfarið sagði David Cameron af sér sem formaður Íhaldsflokksins og Johnson bauð sig fram til að taka við af honum sem flokksformaður og forsætisráðherra. Johnson dró hins vegar framboð sitt til baka eftir að Michael Gove, samstarfsmaður hans og annar af helstu foringjum útgönguherferðarinnar, gaf einnig kost á sér í formannskjörinu. Niðurstaðan varð sú að Theresa May var kjörin formaður flokksins og tók við embætti forsætisráðherra þann 13. júlí 2016. May útnefndi Johnson utanríkisráðherra í ríkisstjórn sinni.[11]

Johnson sagði af sér sem utanríkisráðherra þann 9. júlí árið 2018 vegna ósættis með samninga May við Evrópusambandið um það hvernig útgöngu Bretlands úr ESB skyldi háttað.[12][13] Theresa May neyddist til að boða afsögn sína sem formaður Íhaldsflokksins í maí næsta ár eftir að hafa ítrekað mistekist að fá samþykki þingsins fyrir útgöngusamningum sínum við Evrópusambandið. Johnson bauð sig fram til formanns á ný og vann formannskjörið með um tveimur þriðju atkvæða gegn Jeremy Hunt, eftirmanni sínum í embætti utanríkisráðherra.[14] Johnson tók við af May sem formaður og forsætisráðherra þann 24. júlí.

Sem forsætisráðherra hefur Johnson lagt ríka áherslu á að Bretland yfirgefi Evrópusambandið á tilsettum tíma þann 31. október 2019 hvort sem samningur um framtíðarsamband landsins við ESB næst eða ekki. Þann 28. ágúst lýsti Johnson því yfir að hann hygðist biðja Elísabetu drottningu að fresta þingfundum breska þingsins í aðdraganda útgöngunnar. Andstæðingar Johnsons hafa harðlega gagnrýnt þingfrestunina og vænt Johnson um að reyna að koma í veg fyrir að þingið fái neitt um það sagt hvort samningur verði gerður eða ekki.[15][16][17] Þann 1. september missti Johnson nauman meirihluta sinn í neðri málstofu breska þingsins þegar þingmaðurinn Phillip Lee sagði sig úr Íhaldsflokknum og gekk til liðs við Frjálslynda demókrata í miðri ræðu forsætisráðherrans.[18] Johnson reyndi í kjölfarið að boða til nýrra þingkosninga en þingið hafnaði tillögu hans í tvígang.[19][20]

Þann 11. september 2019 dæmdi skoskur dómstóll þingfrestun Johnsons ólöglega.[21] Hæstiréttur Bretlands staðfesti dóminn þann 24. september næstkomandi.[22]

TilvísanirBreyta

 1. 1,0 1,1 1,2 1,3 „Fetar í fótspor langafa síns“. mbl.is. 24. júlí 2019. Sótt 25. júlí 2019.
 2. „Skuggaráðherrann og samkvæmisdaman“. Vísir. 17. nóvember 2994. Sótt 25. júlí 2019.
 3. Porter, Andrew og Hellen, Nicholas 14. nóvember 2004, „Boris Johnson sacked for lying over affair". The Times. Geymt frá upphaflegu greininni 24. júlí 2008.
 4. Ásgeir Sverrisson (29. júlí 2007). „Sérviskan gegn sósíalismanum“. mbl.is. Sótt 25. júlí 2019.
 5. Egill Helgason (17. júlí 2007). „Spectatorritstjóri býður sig fram til borgarstjóra í London“. Eyjan.is. Sótt 25. júlí 2019.
 6. „Boris færist nær“. DV. 15. júní 2019. Sótt 25. júlí 2019.
 7. Aaron Blake (23. júlí 2019). „‘Stupefying ignorance’: What Boris Johnson said about Trump when he wasn’t being so diplomatic“ (enska). The Washington Post. Sótt 25. júlí 2019.
 8. Björn Malmquist (23. júlí 2019). „Hver er Alexander Boris de Pfeffel Johnson?“. RÚV. Sótt 25. júlí 2019.
 9. Jessica Elgot (16. október 2016). „Secret Boris Johnson column favoured UK remaining in EU“ (enska). The Guardian. Sótt 25. júlí 2019.
 10. Tom Peck (21. september 2016). „Boris Johnson never wanted Brexit and only backed Leave to become ‘heir apparent’ to Tory throne, says minister“ (enska). The Independent. Sótt 25. júlí 2019.
 11. „Val á utanríkisráðherra vekur hörð viðbrögð“. Fréttablaðið. 15. júlí 2016. Sótt 25. júlí 2019.
 12. Daníel Freyr Birkisson (9. júlí 2018). „Boris John­son annar ráð­herrann sem segir af sér“. Fréttablaðið. Sótt 25. júlí 2019.
 13. „Boris Johnson segir af sér og segir Brexit-drauminn vera „að deyja““. Varðberg. 9. júlí 2018. Sótt 25. júlí 2019.
 14. Ágúst Borgþór Sverrisson (23. júlí 2019). „Boris Johnson formaður breska Íhaldsflokksins og væntanlegur forsætisráðherra“. DV. Sótt 25. júlí 2019.
 15. „Þingfrestun Johnson mótmælt í breskum borgum“. RÚV. 29. ágúst 2019. Sótt 1. september 2019.
 16. „Þúsund­ir mót­mæla frest­un bresks þings“. mbl.is. 31. ágúst 2019. Sótt 1. september 2019.
 17. Þórgnýr Einar Albertsson (29. ágúst 2019). „Boris Johnson sagður haga sér eins og hann sé einræðisherra“. Fréttablaðið. Sótt 1. september 2019.
 18. Freyr Gígja Gunnarsson (3. september 2019). „Boris Johnson missir meirihlutann á þinginu“. RÚV. Sótt 13. september 2019.
 19. Birgir Þór Harðarson (4. september 2019). „Boris Johnson gjörsigraður í breska þinginu“. RÚV. Sótt 13. september 2019.
 20. Freyr Gígja Gunnarsson (9. september 2019). „Þingið felldi tillögu Johnson um kosningar“. RÚV. Sótt 13. september 2019.
 21. Kjartan Kjartansson (11. september 2019). „Skoskur dómstóll telur frestun þingfunda ólöglega“. Vísir. Sótt 13. september 2019.
 22. Samúel Karl Ólason (24. september 2019). „Þingfrestun Boris dæmd ólögleg“. Vísir. Sótt 24. september 2019.


Fyrirrennari:
Ken Livingstone
Borgarstjóri Lundúna
(4. maí 20089. maí 2016)
Eftirmaður:
Sadiq Khan
Fyrirrennari:
Philip Hammond
Utanríkisráðherra Bretlands
(13. júlí 20169. júlí 2018)
Eftirmaður:
Jeremy Hunt
Fyrirrennari:
Theresa May
Forsætisráðherra Bretlands
(24. júlí 2019 – )
Eftirmaður:
Enn í embætti