Bayern München

Knattspyrnufélag í München í Þýskalandi

Bayern München (fullt nafn Fussball-Club Bayern München e.V. eða FC Bayern München e.V.) er íþrótta- og knattspyrnufélag frá þýsku borginni München í Bæjaralandi. Knattspyrnudeild karla hefur oftar orðið þýskur meistari og bikarmeistari en nokkurt annað félag. Á alþjóðlegum vettvangi er Bayern München einnig meðal sigursælastu liðum Evrópu, en það er eitt fjögurra liða sem unnið hefur alla þrjá Evróputitla sem í boði eru (ásamt FC Barcelona, Juventus og Ajax Amsterdam).

FC Bayern München e.V.
Fullt nafn FC Bayern München e.V.
Stytt nafn Bayern München, Bæjarar
Stofnað 1900
Leikvöllur Allianz Arena
Stærð 75.000
Knattspyrnustjóri Vincent Kompany
Deild 1. Bundesligan
2023-2024 2. sæti
Heimabúningur
Útibúningur

Leikmenn (2023)

breyta

Ath: Fánar eru tákn fyrir það þjóðerni sem skráð eru hjá FIFA. Leikmenn gætu haft fleiri en eitt ríkisfang.

Nú. Staða Leikmaður
1   GK Manuel Neuer (Fyrirliði)
2   DF Dayot Upamecano
4   DF Matthijs de Ligt
5   DF Benjamin Pavard
6   DF Joshua Kimmich
7   MF Serge Gnabry
8   MF Leon Goretzka
9   MF Harry Kane
10   FW Leroy Sané
11   FW Kingsley Coman
Nú. Staða Leikmaður
13   FW Eric Maxim Choupo-Moting
14   MF Paul Wanner
19   MF Alphonso Davies
20   DF Bouna Sarr
21   DF Lucas Hernandez
22   DF João Cancelo (á láni frá Manchester City)
23   DF Daley Blind
25   FW Thomas Müller
Nú. Staða Leikmaður
26   GK Sven Ulreich
27   GK Yann Sommer
35   GK Johannes Schenk
38   MF Ryan Gravenberch
39   GK Mathys Tel
40   DF Noussair Mazraoui
42   MF Jamal Musiala
44   DF Josif Stanisic

Saga Bayern München

breyta

Stofnun og fyrstu árin

breyta
 
Fyrsti deildarleikurinn fór fram gegn Nürnberg árið 1901

27. febrúar 1900 fór fram fundur knattspyrnufélagsins MTV München á veitingastað nokkrum í München. Menn voru ósáttir um framhald félagsins, enda var það nýbúið að fá neitum um inngöngu í knattspyrnusambandið. 11 fundarmenn yfirgáfu fundinn og settust saman á veitingastaðnum Gisela. Þar stofnuðu þeir nýtt knattspyrnufélag sem hlaut heitið Bayern München. Fyrsti formaður hins nýja félags varð Franz John. Félagslitirnir urðu blár og hvítur. Mikið verk var framundan við að hóa saman knattspyrnumenn og mynda starfhæft félag. Liðið fékk æfingaaðstöðu á vellinum við Schyrenplatz, sem enn er til í dag. Fyrsti leikur Bayern München fór fram í mars 1900, en þá var leikið við 1. Münchener FC 1896 (sem ekki er til lengur í dag). Bæjarar unnu leikinn 5:2. 1906 var ákveðið að sameinast öðru liði, Münchener Sport-Club. Nýja félagið hlaut heitið F.A. Bayern im München SC. Búningar breyttust við það í hvítar treyjur og rauðar buxur. Frá þessum tíma kom hugtakið ‚die Roten,‘ sem merkir hinir rauðu. Í framhaldið varð liðið besta knattspyrnulið borgarinnar, en í suðurhluta Þýskalands voru ýmis önnur lið talsvert betri. Ekki var til nein samhæfð deild á þessum tíma. 1907 flutti liðið á nýjan stað við Leopoldstrasse í München. 1910 komst liðið í fyrsta sinn í úrslitakeppni í suðurþýskum fótbolta og varð í öðru sæti á eftir Karlsruhe. Á sama ári var fyrsti bæjarinn, Max Bablonsky, valinn í landsliðið.

Fyrsti titillinn

breyta

Meðan heimstyrjöldin fyrri geysaði var ekki keppt í knattspyrnu. Næstu ár á eftir voru keppnir haldnar óreglulega. Bayern München skildi við Münchener SC og sameinaðist öðru liði, en skildi einnig við það 1924. Frá og með þeim tíma var félagið nógu burðugt til að standa eitt og sér sem FC Bayern München. Ráðinn var skoskur þjálfari, Jim McPherson. Bæjarar urðu á þessum tíma sterkt félag og voru taldir með betri liðum í Bæjaralandi, á eftir félögum eins og Nürnberg og Fürth. 1926 spiluðu Bæjarar í fyrsta sinn um suðurþýska meistaratitilinn gegn Fürth, en síðarnefnda félagið var það besta í Þýskalandi á þessum tíma. FC Bayern München vann í dramatískum leik 4:3 og var leiknum í München lýst beint í útvarpinu. Þetta var fyrsti bikar Bæjara. Þeir voru hins vegar slegnir út í þýsku keppninni, en þá var í gangi útsláttarkeppni milli félaga. 1928 urðu Bæjarar á ný suðurþýskir meistarar og komust í fyrsta sinn í úrslit í þýsku keppninni. Úrslitaleiknum töpuðu Bæjarar hins vegar fyrir HSV 2:8. Þýska meistaratilitill náðu Bæjarar ekki fyrr en 1932, en þá unnu þeir Eintracht Frankfurt í úrslitaleiknum 2:0.

Stríð

breyta

Strax árið eftir komust nasistar til valda í Þýskalandi. Sökum þess að forseti og þjálfari Bayern München voru báðir af gyðingaættum, urðu þeir að yfirgefa félagið, sem litið var hornauga af nasistum. Í kjölfarið átti félagið erfitt uppdráttar. Deildunum í Þýskalandi var skipt í minni einingar til að félögin þyrftu ekki að ferðast langar leiðir. Bæjarar lentu í suðurbærísku deildinni og við lá að þeir féllu í enn minni deild. Á hinn bóginn var félagið flutt til aðstöðu við Grünwalder Strasse, þar sem það var til húsa fram að Ólympíuleikunum 1972. Völlurinn eyðilagðist í loftárásum 1943 og var ekki leikfær fyrr en eftir stríð.

Eftirstríðsárin

breyta
 
Franz Beckenbauer í þýsku landsliðstreyjunni 1974

Við lok heimstyrjaldarinnar voru öll knattspyrnufélög í Þýskalandi leyst upp og urðu þau að sækja um leyfi til að fá að starfa á ný. Leikmenn Bayern München voru kallaðir saman og fyrsti leikur félagsins var vináttuleikur við FC Wacker München 24. júní 1945. Erfiðleikar voru margir. Nær árlega var skipt um þjálfara og velgengnin lét á sér standa. Félagið lék í Oberliga Süd (sem samsvarar þriðju deild) og féll loks í neðri deild 1955. Þar með hafði félagið náð botninum. Bæjarar náðu hins vegar að komast upp í Oberliga strax næstu leiktíð. Hápunktur sjötta áratugarins náðist 1957 er félagið varð bikarmeistari. Eftir fallið var ákveðið að taka ekki þátt í bikarkeppninni, en þjálfaranum, Willibald Hahn, tókst að sannfæra stjórnina um ágæti keppninar. Bæjarar unnu hvern andstæðinginn á fætur öðrum. Í undanúrslitunum sigruðu þeir Saarbrücken 3:1 og fengu Fortuna Düsseldorf í úrslitunum. Sú viðureign fór fram 29. desember 1957 í Ágsborg. Á 78. mínútu tókst Rudi Jobst að skora fyrir Bæjara og reyndist það eina mark leiksins. Fyrsti bikarinn var í höfn. En ekki tókst að láta kné fylgja kviði, því Bæjarar enduðu um ofanverða Oberliga næstu árin. Tímabilið 1962-63 tók Bayern München í fyrsta sinn þátt í alþjóðlegri keppni, Messestadt-Pokal (bikarkeppni sýningarborga). Félaginu tókst að komast í fjórðungsúrslit, en tapaði þar fyrir Dinamo Zagreb. Þetta leikár fór hins vegar í því að komast í nýja deild sem átti að stofna 1964, Bundesliguna. Aðeins bestu félögin áttu þátttökurétt í henni. Bæjarar náðu sér aðeins í tvo nýja leikmenn til styrkingar. Annar þeirra var 18 ára markvörður, Sepp Maier, sem átti eftir að leika með félaginu og í landsliðinu áratugum saman. Þegar uppi var staðið lentu Bæjarar í þriðja sæti í Oberliga og dugði það ekki til. Þýska Bundesligan var stofnuð 1964 og var Bayern München ekki með. Þeir voru í nýstofnaðri Regionalliga Süd (sem samsvarar þriðju deild).

Bundesligan

breyta
 
Gerd Müller

Í upphafi leikárs 1964 var stefnan tekin á Bundesliguna. Til liðs við félagið kom ungur 18 ára piltur að nafni Franz Beckenbauer. Hann skoraði strax í fyrsta leik sínum fyrir félagið, sem sigraði St. Pauli frá Hamborg 4:0. En allt kom fyrir ekki. Í lok leiktíðar 1965 vantaði Bayern München aðeins eitt stig til að komast í Bundesliguna. Því var ákveðið að reyna á ný. Til að fá góðan markaskorara var ákveðið að fá ungan pilt sem þegar hafði látið að sér kveða, Gerhard Müller (jafnan kallaður Gerd Müller). Hann þótti stuttur í loftinu og svolítið feitlaginn. Fæstir trúðu því að hann yrði félaginu til framdráttar og var jafnvel kallaður 'kleines dickes Müller' (litli feiti Müller). Í fyrsta leik sínum 18. október 1964 skoraði hann gegn Freiburger FC. Og hann hélt áfram að skora. Í lok leiktíðar 1965 var Bayern München sigurvegari Regionalliga Süd. Markahlutfall félagsins var einstakt, 146:32. Gerd Müller skoraði 33 mörk í aðeins 26 leikjum. Með sigrinum hlutu Bæjarar þátttökurétt í útsláttarkeppni um tilverurétt í Bundesligunni. Þeir unnu Tennis Borussia Berlin 8:0 og stigu upp. Bayern München var loks komið í deild hinna bestu og átti eftir að halda sæti sínu í Bundesligunni um ókomin ár. Fyrsti leikur félagsins í deild hinna bestu tapaðist gegn 1860 München 0:1. En menn bitu á jaxlinn og eftir fjórar umferðir voru Bæjarar komnir í fyrsta sætið, í fyrsta sinn í sögunni. Í lokin varð félagið í þriðja sæti og mátti vel við una. En Bæjarar voru komnir á bragðið. Í bikarkeppninni tókst þeim að landa sínum öðrum bikar með sigri á Meidericher SV (Duisburg í dag) í úrslitaleik 4:2. 1967 spiluðu Bæjarar því í Evrópukeppni bikarhara, þar sem félaginu tókst að komast í úrslit, öllum að óvörum. Þar mættu þeir Glasgow Rangers frá Skotlandi og náðu að knýja fram sigur með marki í framlengingu, 1:0. Fyrsti Evrópubikarinn var í höfn. Í deildinni náði félagið hins vegar aðeins sjötta sæti, en sigraði þó í bikarkeppninni í annað sinn í röð með sigri á HSV 4:0 í úrslitaleik. Þetta var þriðji bikar félagsins á 12 mánuðum. Í kjölfarið var Franz Beckenbauer kjörinn knattspyrnumaður ársins í Þýskalandi. Í leiktíðinni 1967-68 var Bayern München slegið út í Evrópukeppninni af AC Milan í undanúrslitum. Í deildinni náði félagið ekki nema fimmta sætið.

Stórveldið Bayern München

breyta
 
Allianz Arena er heimavöllur Bayern München

Í leiktíðinni 1968-69 varð Bayern München í fyrsta sinn þýskur meistari í Bundesligunni. Sömuleiðis vann félagið bikarkeppnina með sigri á Schalke 04 í úrslit 2:1. Þetta var í fyrsta sinn sem sama félagið landaði ‚tvennunni‘ síðan Schalke gerði það 1937. Í mars 1970 tók Udo Lattek við sem þjálfari félagsins. Undir hans stjórn áttu Bæjarar mikilli velgengni að fagna. Af nýjum liðsmönnum Bæjara má nefna Uli Höness og Paul Breitner. 1970 lentu Bæjarar í öðru sæti í deildinni, 1971 urðu þeir bikarmeistarar á ný og lönduðu öðru sæti í deildinni. Þeir spiluðu 14 leiki í röð án taps, sem þá var einstakt. Af 101 marki skoraði Gerd Müller 40. Einn mesti sigur í Bundesligunni vannst gegn Borussia Dortmund, en Bæjarar sigruðu 11:1. 1972-74 urðu Bæjarar þýskir meistarar þrjú ár í röð. Á þessum árum stemplaði félagið sig rækilega inn sem eitt besta félag Þýskalands, ásamt Borussia Mönchengladbach. Þessi tvö félög voru á þessum árum í mikilli baráttu um nær alla titla. 1972 flutti Bayern München í Ólympíuleikvanginn, en það ár hafði borgin München haldið Ólympíuleikana. 1974 urðu Bæjarar í fyrsta sinn Evrópumeistarar er þeir sigruðu Atletico Madrid í úrslitaleik. 1975 vörðu þeir titil sinn með sigri á Leeds United. Þá var nýgenginn til liðs við Bæjara ungur piltur að nafni Karl-Heinz Rummenigge sem reyndist mikill markaskorari. 1976 sigruðu Bæjarar enn í Evrópukeppninni, að þessu sinni gegn Saint-Étienne í úrslitum (eftir að hafa sigrað Real Madrid í undanúrslitum). Þetta var þriðji Evrópumeistaratitill Bæjara. Aðeins tvö önnur félög höfðu sigrað keppnina þrisvar fram að þessu: Real Madrid og Ajax Amsterdam. Næstu tvö árin voru mögur í sögu Bæjara. 1978 lentu þeir til dæmis aðeins í 12. sæti í deildinni, sem er versti árangur félagsins í Bundesligunni. Nokkrir þekktir leikmenn yfirgáfu félagið. Franz Beckenbauer fór til Bandaríkjanna, Gerd Müller sömuleiðis og Uli Höness fór til Nürnberg. Höness sneri aftur til Bæjara 1979, en þá sem framkvæmdarstjóri, aðeins 27 ára gamall. Í júlí 1979 slasaðist auk þess markmaðurinn Sepp Maier svo illa í bílslysi að hann neiddist til að hætta allri knattspyrnu. Rummenigge og Breitner héldu þó áfram að skora og voru ein marksælasta tvenna í þýskum fótbolta. Árangurinn sneri aftur 1980 með þýska meistaratitlinum. Á níunda áratugnum varð Bayern München sex sinnum þýskur meistari, á tíunda áratugnum fimm sinnum og á fyrsta áratug 21. aldar urðu Bæjarar aftur sex sinnum meistari. Lélegasti árangur félagsins í þessi 30 ár var fjórða sætið, með tveimur undantekningum (10. sætið 1992 og 6. sætið 1995). Bayern München er því langsigursælasta félagslið Þýskalands frá upphafi. Sömu 30 ár voru hins mögur í alþjóðlegri knattspurnu. Bayern München léku nær öll ár í Meistaradeildinni eða öðrum alþjóðlegum keppnum, en tókst ekki að landa nema tveimur bikurum á þessum árum. Þeir sigruðu Meistaradeildina 2001 eftir sigur á FC Valencia, og þeir sigruðu heimsbikarinn á sama ári með sigri á Boca Juniors frá Argentínu. Einkennandi fyrir félagið voru hin tíðu þjálfaraskipti. Margir þekktir landsliðsmenn léku með félaginu eftir umbrotin 1979. Þar má nefna Lothar Matthäus, Andreas Brehme, Michael Ballack, Mario Basler, Jürgen Klinsmann, Stefan Effenberg og Oliver Kahn. Einn Íslendingur hefur leikið með félaginu, Ásgeir Sigurvinsson 1981-82. 1991 sneri Franz Beckenbauer aftur til félagsins og var forseti þess í tvo áratugi.

Titlar

breyta

Innanlands

breyta
  • Bundesligan (33)
    • 1932, 1969, 1972, 1973, 1974, 1980, 1981, 1985, 1986, 1987, 1989, 1990, 1994, 1997, 1999, 2000, 2001, 2003, 2005, 2006, 2008,2010, 2013, 2014, 2015, 2016, 2017, 2018 , 2019 , 2020, 2021, 2022, 2023
  • Bikarkeppnin(DFB-Pokal) (20)
    • 1957, 1966, 1967, 1969, 1971, 1982,1984, 1986, 1998, 2000, 2003, 2005, 2006, 2008, 2010, 2013, 2014, 2016, 2019, 2020
  • DFL-Supercup (6)
    • 1987, 1990, 2010, 2012, 2016, 2017
  • DFL-Ligapokal (6) (1997-2007)
    • 1997, 1998, 1999, 2000, 2004, 2007

Alþjóðlegir

breyta
Röð Ár Hvar leikið Sigraði Úrslit
1 1974 Brussel Atletico Madrid 1-1 í fyrri leik, 4-0 í síðari leik
2 1975 París Leeds United 2-0
3 1976 Glasgow Saint-Étienne 1-0
4 2001 Mílanó FC Valencia 1-1 eftir venjul. leiktíma, 5-4 í vítaspyrnukeppni
5 2013 London Borussia Dortmund 2-1
6 2020 Lissabon Paris St Germain 1-0

Í fjögur skipti til viðbótar komst Bayern München í úrslit.

Röð Ár Hvar leikið Tapaði fyrir Úrslit
1 1982 Rotterdam Aston Villa 0-1
2 1987 Vín FC Porto 1-2
3 1999 Barcelona Manchester United 1-2
4 2010 Madríd Inter Milan 0-2
  • Evrópukeppni bikarhafa (1)
    • Bayern München sigraði í þessari keppni einu sinni, árið 1967. Í úrslitum sigruðu þeir Glasgow Rangers 1:0.
  • Evrópukeppni félagsliða (1)
    • Bayern München sigraði í þessari keppni einu sinni, árið 1996. Í úrslitum sigruðu þeir Bordeaux í fyrri leiknum 2:0, en í seinni leiknum 3:1.
  • Heimsbikarkeppnin (2)
    • Þennan bikar hefur Bayern München sigrað tvisvar:
Röð Ár Hvar leikið Sigraði Úrslit
1 1976 Brasilíu Cruzeiro 2-0
2 2001 Tókíó Boca Juniors 1-0

Þekktir leikmenn

breyta
     

Þjálfarar

breyta

Þjálfarar Bayern München síðan Bundesligan var stofnuð 1964:

Röð Þjálfari Land Ár Titlar
1 Zlatko Cajkovski Júgóslavíu 1964-1968 Bikarmeistari (2x), Evrópumeistari bikarhafa
2 Branco Zebec Júgóslavíu 1968-1970 Meistari, bikarmeistari
3 Udo Lattek Þýskalandi 1970-1975 Meistari (3x), bikarmeistari, Evrópumeistari
4 Dettmar Kramer Þýskalandi 1975-1977 Evrópumeistari (2x), heimsbikarmeistari
5 Gyula Lóránt Ungverjalandi 1977-1979
6 Pal Csernai Ungverjalandi 1979-1983 Meistari (2x), bikarmeistari
7 Reinhard Saftig Þýskalandi 1983
8 Udo Lattek Þýskalandi 1983-1987 Meistari (3x), bikarmeistari (2x)
9 Jupp Heynckes Þýskalandi 1987-1991 Meistari (2x)
10 Søren Lerby Danmörku 1991-1992
11 Erich Ribbeck Þýskalandi 1992-1993
12 Franz Beckenbauer Þýskalandi 1994 Meistari
13 Giovanni Trappatoni Ítalíu 1994-1995
14 Otto Rehhagel Þýskalandi 1995-1996
15 Franz Beckenbauer Þýskalandi 1996 Evrópumeistari félagsliða
16 Giovanni Trappatoni Ítalíu 1996-1998 Meistari, bikarmeistari
17 Ottmar Hitzfeld Þýskalandi 1998 2004 Meistari (4x), bikarmeistari (2x), meistaradeildin, heimsbikarinn
18 Felix Magath Þýskalandi 2004-2007 Meistari (2x), bikarmeistari (2x)
19 Ottmar Hitzfeld Þýskalandi 2007-2008 Meistari, bikarmeistari
20 Jürgen Klinsmann Þýskalandi 2008-2009
21 Jupp Heynckes Þýskalandi 2009
22 Louis van Gaal Hollandi 2009-2011 Meistari, bikarmeistari
23 Andries Jonker Hollandi 2011
24 Jupp Heynckes Þýskalandi Síðan 2011

Kvennaliðið

breyta

Kvennalið Bayern München var stofnað 1970 og var strax meðal bestu liða. 1976 urðu konurnar þýskir meistarar. Fram að 1990 urðu þær 19 sinnum í röð bærískir meistarar. 1990 var kvennadeild Bundesligunnar stofnuð. Þar stóðu konurnar sig ekki nógu vel og féllu í neðri deild, þar sem þær spiluðu í átta ár. Árið 2000 komust þær aftur í Bundesliguna, en hafa ekki náð að sigra deildina. Besti árangur er fjórða sætið 2002, 2005 og 2007, sem og annað sætið 2009.

Aðrar íþróttir

breyta

Bayern München starfrækir einnig lið í öðrum íþróttagreinum en knattspyrnu. Þar má nefna körfubolta, handbolta, skák, borðtennis, fimleika og íshokkí.

Heimildir

breyta

Fyrirmynd greinarinnar var „Bayern München“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt 5. október 2011.