Rotterdam

Borg í Hollandi

Rotterdam er næststærsta borgin í Hollandi með 618 þúsund íbúa (2014) og stærsta borg héraðsins Suður-Hollands. Í Rotterdam er stærsta höfn Evrópu og þriðja stærsta höfn heims.

Rotterdam
Fáni
Skjaldarmerki
Staðsetning
HéraðSuður-Holland
Flatarmál
 • Samtals304,24 km2
Mannfjöldi
 • Samtals618.261
 • Þéttleiki2.032/km2
Vefsíðawww.rotterdam.nl

Lega og lýsing

breyta

Rotterdam er hafnarborg við Norðursjó og liggur í suðvestarlega í landinu. Meginborgin liggur við ána Nieuwe Maas en það er á sem myndast við samflæði Lek, (einn Rínararmanna) og norðurarms fljótsins Maas. Þar er myndarleg höfn, þótt hún sé nokkuð langt frá sjónum. En nýju hafnirnar, Europoort og Maasvlakte, liggja miklu vestar og eru mestmegnis á landfyllingu allt vestur í Norðursjó. Nú nær höfnin allt frá Norðursjó til miðborgarinnar en það er um 25-30 km vegalengd. Engin önnur höfn er svo stór í Evrópu. Um höfnina fara að sama skapi fleiri vörur en í nokkurri annarri evrópskri höfn. Um 80% af jarðolíu til Evrópu fer um Rotterdam. Við höfnina starfa um 320 þúsund manns. Stór hluti hennar er að meðaltali tveimur metrum fyrir neðan sjávarmál.

Fáni og skjaldarmerki

breyta
 
Gervihnattamynd af hinni 30 km langri höfn í Rotterdam

Skjaldarmerki Rotterdam er tvískipt. Fyrir ofan eru fjögur ljón, tvö rauð og tvö svört. Rauðu ljónin eru tákn héraðsins Hollands. Svörtu ljónin eru tákn héraðsins Hainaut, sem í dag er í suðurhluta Belgíu. Neðri hluti skjaldarmerkisins mynda þrjár lóðréttar rendur, græna, hvíta og græna. Græni liturinn er tákn greifanna af Weena, en hvíti liturinn vísar til árinnar Rotte. Það var Vilhjálmur I, greifi af Hollandi, sem veitti borginni þetta skjaldarmerki 1304 en hann var jafnframt greifinn af Weena og eigandi héraðsins Hainaut.

Fáni Rotterdam var opinberlega tekinn í notkun 10. febrúar 1949. Hann var tekinn úr neðri hluta skjaldarmerkisins, en rendurnar látnar vera láréttar. Merking litanna er sú sama.

Orðsifjar

breyta

Rotterdam heitir eftir ánni Rotte sem bærinn var byggður við. Á 13. öld var varnargarður lagðir við ána og landið gert byggilegt. Orðið –dam merkir varnargarður.

Saga Rotterdams

breyta
 
Rotterdam 1340. Fyrir miðju er áin Rotte, sem var nafngefandi fyrir borgina.

Upphaf

breyta

Svæðið á núverandi borgarstæði var fenjótt í upphafi og þreifst þar aðeins lítilsháttar landbúnaður áður fyrr. Í kringum 1150 var mikið flóð í ánni Rotte, sem batt enda á allan landbúnað þar. Síðla á 13. öld var farið að byggja varnargarð um farveg árinnar, til að koma í veg fyrir önnur flóð og til að þurrka meira ræktarland. Í kjölfarið myndaðist myndarlegur bær við neðri hluta árinnar sem hlaut borgarréttindi 1340. Íbúar þar voru þó ekki nema 2000 þá. Áratug seinna var grafinn skipaskurðurinn Rotterdamse Schie, sem tengdi borgina við fjölmenn landsvæði í norðri. Þetta varð upphafið að því að Rotterdam varð að umskipunarhöfn verslunarvara frá Englandi og Þýskalandi. Við það varð borgin að auðugri og mikilvægri hafnarborg.

Sjálfstæðisstríð

breyta
 
Rotterdam 1690. Höfnin er gríðarstór á þeim tíma mælikvarða.

Rotterdam var ein fárra hafnarborga á Niðurlöndum sem hafði aðgang að sjó meðan 80 ára stríðið (sjálfstæðisstríð Niðurlanda) geysaði. 1572 réðust Spánverjar inn í borgina og rændu hana, enda stóð Rotterdam með Hollendingum í stríðinu gegn spænska landstjóranum. Þrátt fyrir það héldu vörur áfram að berast um höfnina í Rotterdam. Áður en 16. öldin var öll var búið að stækka hafnarsvæðið til muna til að anna vöruflutningum, sem sífellt jukust. Árið 1622 var íbúafjöldi Rotterdam kominn upp í 20 þús og hafði tvöfaldast á örfáum áratugum. Þar var Austur-Indíafélagið með aðalaðsetur, en það félag var með gríðarmikil umsvif í austurhluta Asíu (Indónesía í dag).

Höfnin í Rotterdam var aðaldriffjöðurinn í atvinnulífi borgarbúa, enda var borgin mesta hafnarborg Hollands. 1853 var árfarvegurinn Nieuwe Waterweg (Nýja vatnaleiðin) myndaður úr rennsli ánna Rín og Maas. Við það var Rínarfljót skipgengt til Ruhrhéraðsins í Þýskalandi í uppgangi iðnbyltingarinnar og hægt var að flytja kol og járn þaðan til Rotterdam. Höfnin stækkaði sífellt til vesturs með tilkomu Nieuwe Waterweg. Fyrst þandist hún út til hverfisins Feijenoord en 1894 var Rijnhaven lagður. Fyrir þá hafnaraðstöðu varð heilt þorp að víkja. Árið 1905 var Maashaven gerður og 1919 Waalhaven, en sá síðarnefndi gegndi hlutverki hafnaraðstöðu fyrir kol, málma og korn. 1923 bættist Merwehaven við og 1929 fyrsta olíuhöfnin. Í kjölfarið var olíuhreinsunarstöð reist þar. 1938 bættist svo önnur olíuhöfn við. Með öllum þessum höfnum fjölgaði störfum og þar með mannfjöldi í Rotterdam. Milli 1869 og 1913 fjórfaldaðist íbúafjöldinn en hann fór úr 116 þúsundum í 462 þúsund á þessum árum.

Heimstyrjöldin síðari

breyta
 
Rotterdam brennur 14. maí 1940
 
Kveikt var á hundruðum ljóssúlna 14. maí 2007 til minningar um bruna Rotterdam

Þegar Þjóðverjar réðust inn í Holland 10. maí 1940, áttu þeir ekki í teljandi vandræðum með að ná stærstu borgunum á sitt vald. Aðeins borgirnar Haag og Rotterdam veittu mikið viðnám. Þegar Holland var á valdi Þjóðverja þremur dögum síðar, var enn hart barist í Rotterdam. Þar hafði myndast nokkurs konar þrátefli. Hollendingar vörðu borgina af svo miklum þrótti að Þjóðverjar voru stöðvaðir. Þann 13. maí báðu herforingjar nasista um aðstoð Luftwaffe (herflugvéla). Næsta dag, 14. maí, gerðu þýskar flugvélar loftárásir á borgina. Þegar flugvélarnar nálguðust borgina, höfðu þýskir og hollenskir herforingjar þegar náð samkomulagi um uppgjöf borgarinnar. General Schmidt sendi þá orðsendingu til Berlínar um að láta flugvélarnar snúa við, en einhverra hluta vegna var það ekki gert. Allt í allt vörpuðu 57 flugvélar um 97 tonnum af sprengjum yfir Rotterdam, aðallega yfir miðborgina, sem við það gjöreyðilagðist í sprengingum og eldum. Áætlað er að um eitt þúsund manns hafi farist í þessum loftárásum og 85 þúsund manns urðu heimilislausir. Ástæðan fyrir því að aðeins eitt þúsund manns létu lífið í hildarleiknum var sú að tugþúsundir borgarbúar höfðu flúið átökin í borginni síðustu daga. Í loftárásunum var í kringum 2,6 km2 svæði í miðborginni jafnað við jörðu. Þar af voru tæp 25 þúsund heimili, 24 kirkjur, 775 vöruhús og 62 skólar. Við þessar hamfarir gafst hollenski herforinginn, General Winkelman, upp. Eftir þetta varð Rotterdam fyrir loftárásum Breta og Bandaríkjamanna, sem reyndu að eyðileggja þýskar stöðvar í borginni. Alls varð borgin fyrir 128 loftárásum í stríðinu. Alvarlegasta slíka árásin var gerð 31. mars 1943, er Bandaríkjamenn vörpuðu sprengjum á hafnarsvæðið vestur af miðborginni.

Europoort

breyta
 
Europoort er 15 km langt hafnarsvæði í Rotterdam. Til vinstri er Maasvlakte í Norðursjó, en til hægri eru eldri hafnir.

Eftir stríð var Rotterdam byggð upp á ný. Í stað gamalla húsa risu nú nýtískulegar byggingar, enda gamla miðborgin horfin. Einnig var höfnin lagfærð og stækkuð enn. Fyrsta stóra verkefnið var hin tröllaukna höfn Europoort, en hún er 15 km löng og er á landfyllingu skammt undan Norðursjó. Fyrir þessa nýju höfn urðu tvö heil þorp að víkja og eitt náttúrufriðsvæði. 1962 leysti Rotterdam New York af hólmi sem stærsta höfn heims. Síðan þá hafa hafnirnar í Shanghai og Singapúr farið framúr Rotterdam, sem enn er þriðja stærsta höfn heims. Næsta höfnin, Maasvlakte, var lögð 1970 til 1985 og er hún á mikilli uppfyllingu í Norðursjó (Hoek van Holland). Þegar framkvæmdum lauk var höfnin í Rotterdam orðin tæplega 30 km löng (loftlína). Fyrir vikið hefur hluti gömlu hafnarinnar í miðborginni verið lagður af og hafa risið þar ný íbúðahverfi, svo sem Kop van Zuid. En gríðarlegt magn af vörum fara um höfnina þar fyrir vestan. Til dæmis fara um 80% af allri jarðolíu til Evrópu um Rotterdam. Á hafnarsvæðinu öllu starfa í dag um 320 þúsund manns.

Viðburðir

breyta

International Film Festival Rotterdam er stærsta kvikmyndahátíð í Hollandi. Hún hefur verið haldin síðan 1972. Síðan 1995 hefur hátíðin verðlaunað bestu myndir hvaðanæva að úr heiminum. Veitt eru Tiger-verðlaunin fyrir fyrstu kvikmynd ungra leikstjóra. Einnig eru sýndar tölvuteiknimyndir og tónlistarmyndbönd.

North Sea Jazz Festival er jazzhátíð í Rotterdam. Hún var sett á laggirnar 1976 í Haag, en var flutt til Rotterdam 2006. Hátíðin fer fram aðra helgi í júlí og fara þá fram rúmlega 100 jazztónleikar. Margir af frægustu jazzgeggjurum heims mæta þar til leiks.

Karnival er haldið hvert sumar í Rotterdam. Hér er ekki um dæmigert evrópskt karnival að ræða (sem haldið er að vori þegar kalt er), heldur er hermt eftir kjötkveðjuhátíðunum í Suður-Ameríku. Klæðnaður er eftir sumri og heitu veðri. Síðan hátíðinni var hleypt af stokkunum 1984 hefur hún verið gríðarlega vel sótt. Um ein milljón manna koma þá sérstaklega til borgarinnar. Hátíðin stendur yfir í nokkra daga. Í lokin er drottning hátíðarinnar valin, en það er sú kona sem þykir bera af í skrautklæðum.

Íþróttir

breyta

Maraþonhlaupið í Rotterdam er fjölmennasta Maraþonhlaupið í Hollandi. Það hefur verið haldið í apríl síðan 1981 og er hlaupið í gegnum miðborgina. Þrisvar hefur verið sett heimsmet í greininni í Rotterdam: Carlos Lopes frá Portúgal 1985, Belayneh Dinsamo frá Eþíópíu 1988 og Tegla Loroupe frá Kenía 1998 í kvennahlaupinu.

Þrjú stór knattspyrnufélög eru í Rotterdam, auk nokkurra minni. Feyenoord, Sparta og Excelsior. Feyenoord er eitt þriggja helstu liða í Hollandi (ásamt PSV Eindhoven og Ajax Amsterdam). Liðið hefur fjórtán sinnum orðið hollenskur meistari (síðast 1999), ellefu sinnum bikarmeistari (síðast 2008) og þrisvar Evrópumeistari (síðast 2002). Af fyrrum þekktum leikmönnum félagsins má nefna Giovanni van Bronckhorst, Johan Cruyff, Ronald Koeman, Ruud Gullit, Robin van Persie og Danann Jon Dahl Tomasson. Íslendingurinn Pétur Pétursson lék með félaginu 1978-81 og aftur 1984-85. Sparta Rotterdam hefur sex sinnum orðið hollenskur meistari (síðast 1959) og þrisvar bikarmeistari (síðast 1966).

Í hjólreiðakeppninni Tour de France var Rotterdam ráspunkturinn árið 2010. Hjólað var af stað þann 4. júlí og var fyrsti áfangastaðurinn Brussel í Belgíu.

Vinabæir

breyta

Rotterdam viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar

breyta

Byggingar og kennileiti

breyta
 
Lárentínusarkirkjan er eina miðaldabyggingin sem eftir stendur í Rotterdam

Sökum þess að Rotterdam varð illa úti í loftárásum í heimstyrjöldinni síðari, skartar hún fáum gömlum, þekktum byggingum.

  • Lárentínusarkirkjan er eina bygging Rotterdams frá miðöldum. Hún var reist 14491525 og var þá kaþólsk. En 1572 eignaði sér reformeraða kirkjan hana í kjölfar siðaskiptanna. Í heimstyrjöldinni síðari gjöreyðilagðist kirkjan, ásamt allri miðborginni. Aðeins ytri múrarnir stóðu eftir uppi. Kirkjan var endurreist 19521968. Þar fara nú einnig fram tónleikar og ráðstefnur.
  • Erasmusbrúin er ein nýtískulegasta brú í Hollandi. Hún var smíðuð 1994-96 og gengur yfir Nieuwe Maas. Hinn tilkomumikli brúarsporður er eins og píla á að líta og er 139 metra hár. Brúin er 802 metra að lengd, en lengsta brúargólfið er 278 metrar. Erasmusbrúin er sú vestasta í Niewue Maas (Rín-Maas árfarveginum) áður en áin rennur til sjávar í Norðursjó
  • Euromast er útsýnisturn sem reistur var 1958-60 í tilefni af garðsýningunni Floriade. Turninn var upphaflega 101 metra hár og var þá hæsta bygging borgarinnar í skamman tíma. En 1970 var tilkomumiklu mastri bætt við, þannig að nú er turninn 186 metra hár og aftur orðinn hæsta bygging borgarinnar.

Heimildir

breyta