Greinar mánaðarins:

2005 · 2006 · 2007 · 2008 · 2009 · 2010 · 2011 · 2012 · 2013 · 2014 · 2015 · 2016 · 2017 · 2018 · 2019 · 2020 · 2021 · 2022 · 2023 · 2024

Janúar
Gervihnattamynd frá 2003 af svæðinu.

Palestína (latína: Palæstina; hebreska: ארץ־ישראל Eretz-Yisra'el, áður einnig nefnt פלשתינה Palestina; arabíska: فلسطين Filasṭīn, Falasṭīn) er eitt margra heita landsvæðis á milli Miðjarðarhafsins og árinnar Jórdan svo og nokkurra aðliggjandi landsvæða.

Síðustu árþúsund hafa margar mismunandi landfræðilegar skilgreiningar verið notaðar til þess að afmarka það svæði sem kallað er Palestína. Þær skilgreiningar eru allar umdeildar í stjórnmálum. Víðasta skilgreiningin er sú sem notuð var af Bretum þegar þeim var veitt umboð af Þjóðabandalaginu á millistríðsárunum til þess að stjórna Palestínu en það svæði skiptist nú á milli Ísrael og heimastjórnarsvæða Palestínumanna. Frá stofnun Ísraels hefur orðið algengara að heitið Palestína vísi aðeins til þess síðarnefnda.


skoða - spjall - saga


Febrúar
Aristóteles

Aristóteles (gríska: Αριστοτέλης Aristotelēs; 3847. mars 322 f.Kr.) var forngrískur heimspekingur frá borginni Stagíru. Hann var nemandi Platons og kennari Alexanders mikla. Aristóteles er, ásamt Platoni, af mörgum talinn áhrifamesti hugsuður í vestrænni heimspeki. Hann var einnig mikilvirkur vísindamaður og fékkst við flestar greinar vísinda síns tíma. Hann skrifaði fjölmargar bækur m.a. um rökfræði (fræðigrein sem hann fann upp), verufræði, frumspeki, eðlisfræði, sálfræði, líffræði, líffærafræði, lífeðlisfræði, dýrafræði, grasafræði, mælskufræði, skáldskaparfræði, siðfræði, stjórnmálafræði og sögu heimspekinnar fram að hans tíma. Bróðurhluti þess efnis sem Aristóteles skrifaði hefur týnst, enduruppgötvast og týnst á ný í gegnum aldirnar. Talið er að aðeins um fimmtungur af verkum hans hafi varðveist.

Fyrri mánuðir: PalestínaAdam SmithKommúnismi


skoða - spjall - saga


Mars
Fáni Frakklands

Lýðveldið Frakkland eða Frakkland (franska République française eða France) er land í Vestur-Evrópu sem nær frá Miðjarðarhafi í suðri að Ermarsundi í norðri og frá Rín í austri að Atlantshafi í vestri. Vegna lögunar landsins gengur það oft undir heitinu „sexhyrningurinn“ (fr. Hexagone) hjá Frökkum sjálfum. Í Evrópu á Frakkland landamæri að Belgíu, Lúxemborg, Þýskalandi, Sviss, Ítalíu, Mónakó, Spáni og Andorra, en handanhafssýslur þess í öðrum heimsálfum eiga landamæri að Brasilíu, Súrínam og Hollensku Antillaeyjum. Landið tengist Bretlandseyjum gegnum Ermarsundsgöngin.

Frakkland er meðlimur í Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu og á fast sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Fyrri mánuðir: AristótelesPalestínaAdam Smith


skoða - spjall - saga


Apríl
San Francisco

San Francisco er fjórða stærsta borg Kaliforníuríkis og er á vesturströnd Bandaríkjanna. Hún liggur á milli San Francisco-flóa og Kyrrahafsins. Þar búa 744.041 manns (1. júlí 2006) en ef borgin San Jose, sem liggur þétt upp að San Francisco, er talin með búa um 7 milljónir á svæðinu og er það þá fjórða fjölmennasta svæði Bandaríkjanna. Helstu kennileiti eru Golden Gate-brúin, Alcatraz, Transamerica Pyramid-byggingin og sporvagnarnir.

Borgin liggur á norðurodda San Francisco-skagans, sem myndar San Francisco-flóa. Borgarmörkin afmarkast í norðri af Golden Gate-brúnni, í vestri af Kyrrahafinu, í austri af San Francisco-flóanum og í suðri af hinum 300m háu Twin-Peaks-hólum, sem spænskir trúboðar nefndu vegna útlits síns Los Pechos de la Chola eða Brjóst Indíánastelpunnar.


skoða - spjall - saga


Maí
Kris Kristofferson árið 2006.

Kris Kristofferson (f. 22. júní 1936) er bandarískur kántrýsöngvari, laga- og textahöfundur og kvikmyndaleikari. Hann er þekktastur fyrir lög á borð við „Me and Bobby McGee“, „Sunday Mornin' Comin' Down“ og „Help me make it through the Night“. Flest lög sín hefur hann samið einn en stöku sinnum í samvinnu við aðra.

Kris fæddist í Brownsville í Texas. Foreldrar hans voru á faraldsfæti en settust loks að í San Mateo í Kaliforníu þar sem Kris lauk framhaldsskólanámi. Faðir hans var yfirmaður í bandaríska flughernum og reyndi að beina syni sínum út á braut hermennskunnar án árangurs. Kris var vaxandi rıthöfundur á þessum tíma og fékk skólastyrk við Merton College í Oxford á Englandi, en hafði áður gengið í Pomona College í Bandaríkjunum.


skoða - spjall - saga


Júní
Evrópa í nálægt því réttum litum. Gígurinn neðarlega til hægri heitir Pwyll og dekkri svæði þýða að þar hefur ísyfirborðið meira steinefnainnihald en þau ljósari. Myndin var tekin 7. september 1996 af Galíleó-geimfarinu.

Evrópa (Júpíter II), er sjötta innsta fylgitungl Júpíters og hið minnsta af hinum fjórum Galíleótunglum. Þó er það eitt af stærri tunglum sólkerfisins. Galíleó Galílei fann Evrópu fyrstur manna árið 1610 svo að vitað sé en mögulega fann Simon Marius tunglið einnig um svipað leyti. Miklar athuganir á tunglinu hafa farið fram síðan þá í gegnum sjónauka á jörðinni en frá og með áttunda áratug 20. aldar hafa jafnframt farið fram athuganir með ómönnuðum geimförum.

Evrópa er aðeins minni að þvermáli en tungl jarðarinnar (máninn) og er að uppistöðu til úr silíkat bergi, sennilega með járnkjarna. Hún hefur þunnan lofthjúp sem samanstendur aðallega af súrefni. Yfirborð Evrópu er úr vatnsís og er eitt það sléttasta sem þekkist í sólkerfinu. Yfirborðið er þó þakið sprungum og rákum en tiltölulega lítið er um gíga eftir árekstra loftsteina sem gefur til kynna að yfirborð tunglsins sé ungt.


skoða - spjall - saga


Júlí
Umfjöllun Helgarpóstsins 6. júní 1985.

Hafskipsmálið var umfangsmikið gjaldþrotamál Hafskip hf., skipafélags sem veitti Eimskipafélaginu samkeppni, á miðjum níunda áratugnum. Útvegsbanki Íslands, viðskiptabanki fyrirtækisins, tapaði háum fjárhæðum og var lagður niður í kjölfarið. Mikil og neikvæð umfjöllun fjölmiðla um Hafskipsmálið var líkt við ofsóknir. Geir H. Haarde á að hafa sagt í viðtali að Hafskip hafi mögulega verið neytt í gjaldþrot.

Stjórnendur Hafskips og Útvegsbankans voru kærðir. Dómsmálið vatt mikið upp á sig og lauk í júní 1991, fimm árum eftir gjaldþrotið, með því að fjórir æðstu menn fyrirtækisins voru dæmdir sekir um brot á lögum. Margir vildu meina að stjórnmálamenn hefðu haft óeðlileg áhrif á framvindu mála. Albert Guðmundsson, þáverandi iðnaðarráðherra, sagði af sér 24. mars 1987 vegna þáttar síns í málinu og ósættis innan Sjálfstæðisflokksins í kjölfarið.

Fyrri mánuðir: EvrópaKris KristoffersonSan Francisco


skoða - spjall - saga


Ágúst
Tákn stjórnleysisstefnu

Saga stjórnleysisstefnu er venjulega talin hefjast í uppafi 18. aldar en sumir telja þó að stjórnleysisstefnu–fyrirkomulag hafi verið að finna í forsögulegum menningarsamfélögum (það er þó afar umdeilt). Hugmyndir sem telja má líkar komu fram í fornöld og hafa sumir stjórnleysingjar tileinkað sér Taóisma sem auðuga uppsprettu hugmynda. Einnig er hægt að finna svipaðar hugmyndir meðal heimspekinga Forn-Grikkja, þ.á m. Zenons, upphafsmanns stóuspekinnar. Nokkrir stjórnleysingjar hafa enn fremur dregið hugmyndir sínar úr kristni.

Fyrsti nútímahöfundurinn sem mælti með aflagningu ríkisvalds var William Godwin, en sú skoðun kom fram í Fyrirspurn varðandi pólitískt réttlæti, sem kom út 1793. Stjórnleysi var notað sem móðgandi heiti gegn vinstri vængnum í frönsku byltingunni, en prentarinn Pierre-Joseph Proudhon tók það upp til að lýsa stefnu sinni í ritinu Hvað er einkaeign? árið 1840.

Fyrri mánuðir: HafskipsmáliðEvrópaKris Kristofferson


skoða - spjall - saga


September
Eris (fyrir miðju) og Dysnómía (til vinstri). Mynd tekin af Hubble-geimsjónaukanum.

Eris er þyngsta dvergreikistjarnan í sólkerfinu og níunda þyngsta fyrirbærið sem er á sporbaugi um sólu. Hún er talin hafa þvermál upp á 2.326 km (±12) og vera 27% þyngri en Plútó eða um það bil 0,27% af massa jarðarinnar.

Eris fannst í janúar 2005 í Palomar-stjörnuathugunarstöðinni af teymi sem starfaði undir stjórn Mike Brown og tilvist hennar var staðfest síðar það ár. Hún er útstirni handan brautar Neptúnusar og tilheyrir einnig flokki dreifstirna sem eru útstirni sem ganga um sólina eftir mjög ílöngum brautum. Eina þekkta tungl hennar er Dysnómía. Árið 2011 var Eris stödd 96,6 stjarnfræðieiningar (AU) frá sólinni eða þrisvar sinnum fjær sólu en Plútó. Ef frá eru skildar sumar halastjörnur þá eru Eris og Dysnómía fjarlægustu þekktu fyrirbæri sólkerfisins.


skoða - spjall - saga


Október
Pólýfónkórinn í Kristskirkju árið 1979.

Pólýfónkórinn var blandaður kór sem starfaði í Reykjavík frá 1957 til 1988. Stofnandi hans og stjórnandi alla tíð var Ingólfur Guðbrandsson. Kórinn hélt um 400 tónleika á ferli sínum og fór í níu söngferðir út fyrir landsteinana. Tónleikar kórsins voru margir teknir upp af Ríkisútvarpinu og kórinn kom nokkrum sinnum fram í Sjónvarpi. Pólýfónkórinn var fyrstu árin skipaður milli 40 og 50 kórfélögum en síðustu árin oft yfir 100 manns. Þátttakendur voru flestir á jólatónleikum kórsins árið 1978, 150 talsins.

Mikil áhersla var lögð á flutning kirkjulegrar barokk tónlistar frá 16. og 17. öld og kórinn tókst á við stór verkefni á borð við Jólaóratoríu, Jóhannesarpassíu, Mattheusarpassíu og H-moll messu Bachs og Messías Händels. Í nokkrum tilvikum frumflutti kórinn þessi stóru verk á Íslandi og stóð fyrir óstyttum flutningi þeirra í fyrsta sinn hér á landi. Töluverð áhersla var lögð á íslenska og erlenda nútímatónlist og stóð kórinn að frumflutningi nokkurra nútímaverka hér á landi.


skoða - spjall - saga


Nóvember
Gamli skóli, elsta hús Menntaskólans á Akureyri.

Menntaskólinn á Akureyri (latína: Schola Akureyrensis) er íslenskur framhaldsskóli sem er á Brekkunni á Akureyri. Skólinn á sér langa sögu og hafa margir frægir Íslendingar haft viðkomu þar í gegnum tíðina. Í dag er skólinn bóknámsskóli sem býður upp á fjögurra ára nám til stúdentsprófs.

Upphaf Menntaskólans á Akureyri er yfirleitt rakið til stofnunar Möðruvallaskóla á Möðruvöllum í Hörgárdal 1880. Þó má líta á skólann sem beint framhald af því skólahaldi sem fór fram á Hólum í Hjaltadal allt frá biskupstíð Jóns Ögmundssonar um 1106 og stóð til 1802 þegar Hólaskóli var lagður niður með konungsbréfi.


skoða - spjall - saga


Desember
Verkið Sannleikur eftir Frakkann Jules Joseph Lefebvre.

Sannleikur (eða sannleiki) er heimspekilegt hugtak, sem gegnir mikilvægu hlutverki í málspeki og þekkingarfræði, en er auk þess hluti af hversdagslegum orðaforða okkar og er eitt mesta grundvallarhugtak sem við búum yfir.

Þegar einhver er sammála fullyrðingu, segir hann að hún sé „sönn“. Þekkingarfræði, sem fjallar um eðli og uppsprettu þekkingar, leitar lausna á fjölmörgum heimspekilegum gátum um „sannleika“ en auk þess er sannleikshugtakið gríðarlega mikilvægt í málspeki og er nátengt merkingarhugtakinu.

Fyrsti vandi heimspekingsins er að ákveða hvers konar hlutir geti verið sannir eða ósannir, það er að segja að finna svonefnda sannbera. Í húfi er orðaforðinn, sem við notum til að fjalla um sannleikann. Síðan eru til fjölmargar kenningar um hvað geri sannberana sanna.


skoða - spjall - saga


Greinar mánaðarins:

2005 · 2006 · 2007 · 2008 · 2009 · 2010 · 2011 · 2012 · 2013 · 2014 · 2015 · 2016 · 2017 · 2018 · 2019 · 2020 · 2021 · 2022 · 2023 · 2024