Johann Sebastian Bach

(Endurbeint frá Bach)

Johann Sebastian Bach (21. mars 168528. júlí 1750) var þýskt tónskáld og orgelleikari. Hann er talinn til helstu tónskálda Barokk-tímabilsins og í raun allrar vestrænnar tónlistar. Hann er þekktastur fyrir hin veraldlegu verk sín, svo sem Brandenborgarkonsertana og Aría á G-streng, en hann var þar að auki eitt afkastamesta kirkjutónskáld allra tíma.

Málverk af J. S. Bach árið 1748, tveimur árum áður en hann lést

Hann var orðinn kirkjuorgelleikari 17 ára gamall og var í miklum metum sem slíkur, en kom sér ekki alls staðar vel. Um nám hans og uppvöxt er vitað að hann mun fyrst hafa lært eitthvað hjá föður sínum, sem dó þegar Johann Sebastian var 9 ára gamall. Skömmu síðar dó móðir hans einnig. Þá fór hann til eldri bróður síns, sem hét Johann Christoph Bach og var orðinn orgelleikari við Mikjálskirkjuna í Ohrdruf. Hjá honum lærði hann formlega til 15 ára aldurs. Eftir það fór hann til Lüneburg og gæti hafa verið í námi hjá Georg Böhm, en það er ekki vitað fyrir víst. 17 eða 18 ára varð hann orgelleikari í Neue Kirche í Arnstadt og var þar í tvö ár. Hann hafði þar tvöfalt hærri laun en eftirmaður hans fékk og segir það sína sögu um mat manna á honum. Um tvítugt lagði hann á sig langa göngu til þess að sjá og heyra einn mesta orgelsnilling þessa tíma, Dietrich Buxtehude, sem spilaði í Lübeck og varð fyrir miklum áhrifum af honum.

Eftir að starfi hans í Arnstadt lauk, fór hann til Mühlhausen, en þar var laus staða orgelleikara við Blasíusarkirkjuna. Þar var hann í um það bil eitt ár og á þeim tíma giftist hann. Kona hans var Maria Barbara Bach og voru þau þremenningar að skyldleika. Nú lá leið hans til Weimar og starfaði hann þar til 1717 eða í 9 ár. Eftir það var hann í Köthen í sex ár og svo að síðustu í Leipzig, en þar starfaði hann við fjórar kirkjur allt til dauðadags 1750.

Heimild

breyta
   Þetta æviágrip sem tengist Þýskalandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.