Wikipedia:Grein mánaðarins/11, 2013

Gamli skóli, elsta hús Menntaskólans á Akureyri.

Menntaskólinn á Akureyri (latína: Schola Akureyrensis) er íslenskur framhaldsskóli sem er á Brekkunni á Akureyri. Skólinn á sér langa sögu og hafa margir frægir Íslendingar haft viðkomu þar í gegnum tíðina. Í dag er skólinn bóknámsskóli sem býður upp á fjögurra ára nám til stúdentsprófs.

Upphaf Menntaskólans á Akureyri er yfirleitt rakið til stofnunar Möðruvallaskóla á Möðruvöllum í Hörgárdal 1880. Þó má líta á skólann sem beint framhald af því skólahaldi sem fór fram á Hólum í Hjaltadal allt frá biskupstíð Jóns Ögmundssonar um 1106 og stóð til 1802 þegar Hólaskóli var lagður niður með konungsbréfi.