Sjálfstæðisflokkurinn

Sjálfstæðisflokkurinn
Fálkinn.png
Fylgi Decrease2.svg 24,4%¹
Formaður Bjarni Benediktsson
Varaformaður Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir
Framkvæmdastjóri Þórður Þórarinsson
Þingflokksformaður Birgir Ármannsson
Ritari Jón Gunnarsson
Stofnár 1929
Höfuðstöðvar Valhöll
Stjórnmálaleg
hugmyndafræði
Frjálslynd íhaldsstefna, frjálshyggja, Hægristefna, frjálslyndi, íhaldsstefna
Einkennislitur blár     
Sæti á Alþingi
Sæti í sveitarstjórnum
Listabókstafur D
Vefsíða www.xd.is
¹Fylgi í síðustu Alþingiskosningum
„Sjálfstæðisflokkurinn“ getur einnig átt við Sjálfstæðisflokkinn stofnaðan 1907.

Sjálfstæðisflokkurinn er íslenskur stjórnmálaflokkur sem kennir sig við hægristefnu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengst af verið stærsti flokkur landsins sé miðað við kjörfylgi sem flokkurinn hefur fengið í kosningum bæði til þings og sveitarstjórna. Sjálfstæðisflokkurinn er einnig sá flokkur sem státar af flestum skráðum flokksmönnum. Mestu kosningu fékk flokkurinn árið 1933 48,0% en þá verstu árið 2009 23,7% eftir bankahrunið á Íslandi haustið 2008.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur setið í 22 af þeim 31 ríkisstjórnum sem myndaðar hefur verið frá stofnun hans og veitt 15 þeirra forystu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt tæplega 45% meðalfylgi í bæjar- og sveitarfélögum frá stofnun. Í Reykjavík hafði flokkurinn hreinan meirihluta um áratuga skeið, allt til 1978 og aftur 1982 til 1994.

HugmyndafræðiBreyta

Sjálfstæðisflokkurinn segir hlutverk sitt „að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.“. Hinn hluti Sjálfstæðisstefnunnar er söguleg arfleifð sjálfstæðisbaráttu Íslendinga um að Ísland eigi skilyrðislaust að vera sjálfstætt ríki.[1]

SagaBreyta

Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður 25. maí árið 1929 við sameiningu Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins. Fyrsti formaður flokksins var Jón Þorláksson, verkfræðingur og síðar borgarstjóri Reykjavíkur, til 1934 þegar Ólafur Thors tók við. Flokkurinn tók þátt í ríkisstjórn í fyrsta sinn frá miðju ári 1932 til miðs árs 1934.

Leiðtogar flokksinsBreyta

Núverandi formaður flokksins er Bjarni Benediktsson og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er varaformaður Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari flokksins. Flokkurinn hefur nú 16 sæti á Alþingi eftir alþingiskosningarnar 2017 en hafði 21 þingsæti fyrir þær kosningar. Allir formenn flokksins hafa gegnt embætti forsætisráðherra á Íslandi.

Jón Þorláksson var forsætisráðherra 1926-1927 (fyrir Íhaldsflokkinn) en var síðan formaður Sjálfstæðisflokksins frá stofnun til ársins 1934. Ólafur Thors var forsætisráðherra 1942, 1944-1947, 1949-1950, 1953-1956 og 1959-1963. Ólafur leiddi Sjálfstæðisflokkinn frá 1934 til 1961. Bjarni Benediktsson var forsætisráðherra á árunum 1963-1970. Jóhann Hafstein var forsætisráðherra 1970-1971, Jóhann gegndi formennsku í Sjálfstæðisflokknum til ársins 1973. Geir Hallgrímsson var forsætisráðherra 1974-1978 en formaður Sjálfstæðisflokksins til 1983. Geir sigraði Gunnar Thoroddsen í varaformannskjöri á landsfundi 1971 og tók við formennsku á Flokksráðsfundi árið 1973 er Jóhann Hafstein sagði af sér formennsku af heilsufarsástæðum. Þorsteinn Pálsson var forsætisráðherra 1987-1988 og Davíð Oddsson var forsætisráðherra á árunum 1991-2003. Geir H. Haarde tók við forsætisráðuneytinu 15. júní 2006. Davíð sigraði Þorstein í formannskjöri á landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 1991. Það var eina skiptið sem formaður Sjálfstæðisflokksins hefur tapað formannskjöri. Bjarni Benediktsson var forsætisráðherra 2017-2017. Auk þeirra var sjálfstæðismaðurinn Gunnar Thoroddsen forsætisráðherra á árunum 1980-1983. Sigurður Eggerz, einn af stofnendum Sjálfstæðisflokkins, var forsætisráðherra í tvígang, 1914-1915 og 1922-1924. Einar Arnórsson ráðherra Íslands 1915-1918, sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1931-1932. Magnús Guðmundsson, fyrsti varaformaður Sjálfstæðisflokksins, gegndi störfum forsætisráðherra frá andláti Jóns Magnússonar uns stjórn Jóns Þorlákssonar tók við sumarið 1926.

StyrkjamáliðBreyta

Aðalgrein: Styrkjamálið

Í aðdraganda Alþingiskosninganna árið 2009 var upplýst um að flokkurinn tók við háum styrktarfjárhæðum frá stórfyrirtækjum á Íslandi í desember árið 2006, einungis nokkrum dögum áður en lög tóku gildi sem takmörkuðu styrki til stjórnmálaflokka við 300 þúsund krónur frá einum lögaðila á ári hverju, og upp úr því spruttu upp miklar deilur bæði innan flokksins og utan.[2] Styrkirnir, sem komu frá Landsbankanum og FL Group, námu alls 55 milljónum króna. Landsbankinn lagði til 25 milljónir[3] en hafði áður á sama ári styrkt flokkinn um 5 milljónir króna.[4] FL Group styrkti flokkinn um 30 milljónir.[5][6] Þegar uppvíst varð um styrkina tók stjórn flokksins þá ákvörðun að skila styrkjunum að undanskildum fyrri styrk Landsbankans.[7] Geir H. Haarde, fyrrverandi formaður flokksins, kvaðst einn bera ábyrgð á að hafa veitt styrkjunum viðtöku[8] en mikið var rætt um hverjir hefðu vitað af styrkjunum. Andri Óttarsson, framkvæmdastjóri flokksins, lét af störfum vegna málsins enda þótt hann segðist hvorki hafa átt frumkvæði að því að afla styrkjanna né hafa tekið ákvörðun um að veita þeim viðtöku.[9][10] Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, sagðist telja að Andri og Kjartan Gunnarsson, sem lét af störfum sem framkvæmdarstjóri flokksins haustið 2006, hefðu báðir vitað af styrkjunum[11][12][13] en Kjartan neitaði að hafa vitað af styrkjunum.[14][15]

Í kjölfar styrkjamálsins spáði Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, að í kosningunum biði Sjálfstæðisflokkurinn hörmulegan kosningaósigur.[16] Gunnar Helgi benti einnig á að styrkirnir hefðu borist flokknum „nokkrum mánuðum áður en að fulltrúar flokksins komu að fyrirtækinu REI sem hafi væntanlega verið ábatasamt fyrir þá aðila sem voru að gefa flokknum þessa fjármuni“[17] en Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, sagðist telja að engin tengsl væru milli styrkjamálsins og REI-málsins.[18][19]

KjörfylgiBreyta

 

Tengt efniBreyta

HeimildirBreyta

 1. Um flokkinn
 2. „Styrkjamál Sjálfstæðisflokksins í hnotskurn“ Geymt 2011-09-24 í Wayback Machine á Vísi.is (Skoðað 16. apríl 2009).
 3. „Landsbankinn styrkti Sjálfstæðismenn um 25 milljónir“[óvirkur hlekkur] á Vísi.is (Skoðað 11. apríl 2009).
 4. „10 fyrirtæki veittu yfir 1 milljón“ á Mbl.is (Skoðað 11. apríl 2009).
 5. „30 milljóna styrkur“ á Mbl.is (Skoðað 11. apríl 2009).
 6. „FL Group styrkti Sjálfstæðisflokk um 30 milljónir“ á Vísi.is (Skoðað 11. apríl 2009).
 7. „Skilað til lögaðila“ á Mbl.is (Skoðað 11. apríl 2009).
 8. „Geir segist bera ábyrgðina“ á Mbl. is (Skoðað 11. apríl 2009).
 9. „Framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins hættir“ á Mbl.is (Skoðað 11. apríl 2009).
 10. „Framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins hættir“ á Vísi.is (Skoðað 11. apríl 2009).
 11. „Segir báða framkvæmdastjóra hafa vitað af styrkjunum“ á Mbl.is (Skoðað 11. apríl 2009).
 12. „Telur að Kjartan hafi vitað af risastyrkjum“[óvirkur hlekkur] á Vísi.is (Skoðað 11. apríl 2009).
 13. „Kjartan sagði ósatt ef marka má orð Bjarna“ á Vísi.is (Skoðað 12. apríl 2009).
 14. „Kjartan vissi ekki um FL styrkinn“ á Vísi.is (Skoðað 11. apríl 2009).
 15. „„Ég held ekki nei““ á Vísi.is (Skoðað 11. apríl 2009).
 16. „Hætta á einangrun Sjálfstæðisflokks“ á Mbl.is (Skoðað 11. apríl 2009).
 17. „Hætta á einangrun Sjálfstæðisflokks“ á Mbl.is (Skoðað 11. apríl 2009).
 18. „Bjarni Benediktsson: Risastyrkur ekki tengdur REI“ á Vísi.is (Skoðað 11. apríl 2009).
 19. „Upplýst verði um tengsl fjárstyrkjanna og REI“ á Vísi.is (Skoðað 12. apríl 2009).

TenglarBreyta

 
Wikimedia Commons er með margmiðlunarefni sem tengist