Greinar mánaðarins:

2005 · 2006 · 2007 · 2008 · 2009 · 2010 · 2011 · 2012 · 2013 · 2014 · 2015 · 2016 · 2017 · 2018 · 2019 · 2020 · 2021 · 2022 · 2023 · 2024

Janúar

Anne Bonny var írskur sjóræningi sem rændi skip á Karíbahafi á 18. öld. Hún er einn þekktasti kvenkyns sjóræningi allra tíma. Flestar heimildir um líf hennar koma úr bókinni A General History of the Pyrates eftir Charles Johnson skipstjóra.

Einhvern tímann á bilinu 1714 til 1718 fluttu Anne eiginmaður hennar, James Bonny, til Nassá á New Providence í Bahamaeyjum, sem þá var nokkurs konar griðarstaður fyrir enska sjóræningja. Margir íbúar borgarinnar hlutu náðun konungsins eða komust hjá refsingu fyrir gamla glæpi. James kom upp um starfsemi fjölmargra sjóræningja á svæðinu með því að leka upplýsingum í landstjórann og kom þeim þannig í fangelsi. Anne var ekki hrifin af því að eiginmaður hennar ynni fyrir Rogers landstjóra á þennan máta.

Á meðan hjónin bjuggu á Bahamaeyjum kynntist Anne John „Calico Jack“ Rackham, skipstjóra sjóræningjaslúppunnar Revenge, og gerðist ástkona hans. Að endingu flúðu Anne og Rackham saman frá eyjunni og Anne Bonny gekk til liðs við sjóræningjaáhöfn Rackhams. Þegar Anne varð ólétt skildi Rackham hana eftir á eyjunni Kúbu, þar sem hún eignaðist son. Eftir fæðinguna gekk Bonny aftur til liðs við áhöfn Rackhams. Bonny, Rackham og Mary Read stálu skipinu William frá höfninni í Nassá, héldu til hafs. Næstu mánuðina rændu þau fjölmörg skip og söfnuðu talsverðum auðæfum.

Í október árið 1720 réðst slúppa undir stjórn skipstjórans Jonathans Barnet á skip Rackhams með handtökuheimild frá landstjóra Jamaíku upp á vasann. Sagt er að Read og Bonny hafi barist með kjafti og klóm og tekist að bægja burt áhöfn Barnets í stuttan tíma. Að endingu var öll áhöfn Rackhams handtekin og flutt til Jamaíku, þar sem sjóræningjarnir voru dæmdir til hengingar. Eftir að dómur var felldur báðust Read og Bonny báðar vægðar með þem röksemdum að þær væru óléttar. Anne var áfram í fangelsi þar til hún fæddi barn og var í kjölfarið sleppt.

Sögusagnir eru til um að Bonny hafi látist í fangelsi en aðrar segja að hún hafi sloppið úr fangelsi og gerst sjóræningi á ný. Engar ritaðar heimildir eru til um dauða Bonny en sumir sagnfræðingar telja að hún hafi látist í apríl árið 1782 í Suður-Karólínu.


skoða - spjall - saga


Febrúar

Desembristauppreisnin var gerð í rússneska keisaradæminu þann 26. desember árið 1825. Í uppreisninni leiddu rússneskir herforingjar um það bil 3.000 hermenn til þess að mótmæla valdatöku Nikulásar 1. Rússakeisara eftir að eldri bróðir hans, Konstantín, afsalaði sér tilkalli sínu til krúnunnar. Þar sem uppreisnin var gerð í desember voru uppreisnarmennirnir kallaðir desembristar.

Hersveitir sem héldu tryggð við Nikulás börðu niður uppreisnina á Péturstorgi í Sankti Pétursborg. Árið 1925 breyttu sovésk stjórnvöld nafni torgsins í Desembristatorg til þess að fagna hundrað ára afmæli uppreisnarinnar. Árið 2008 var nafni torgsins aftur breytt í upprunalegt horf og það kallað Þingtorgið.


skoða - spjall - saga


Mars

Áhrif erlendra hvalveiðimanna á íslenskt samfélag voru talsverð á þeim stöðum sem hvalveiðimennirnir reistu hvalstöðvar sínar.

Fyrstu heimildir um hvalveiðar í atvinnuskyni á Íslandi eru veiðar Baska og Hollendinga upp úr aldamótunum 1600. Baskar byggðu að minnsta kosti þrjár landstöðvar, en aðeins hvalstöðin á Strákatanga hefur verið grafin upp af fornleifafræðingum. Á Strákatanga fannst mikið magn tóbakspípa (krítarpípur), sem er til marks um að hvalveiðimennirnir hafi komið með varning frá Nýja-heiminum, eins og tóbak, til Íslands og stundað þar ólöglega verslun við Íslendinga á tímum einokunarverslunarinnar.

Hvalveiðar Norðmanna á 19. öld voru veiðar af áður óþekktri stærðargráðu við Íslandsstrendur. Átti vera þeirra eftir að hafa talsverð áhrif á íslenskt þjóðfélag og kenna Íslendingum hvernig standa skyldi að stórútvegi. Að auki áttu norsku hvalveiðimennirnir eftir að hafa áhrif á efnahags- og menningarlegt líf Íslendinga.


skoða - spjall - saga


Apríl

Surtur er eldjötunn í norrænni goðafræði. Hann kemur úr Múspellsheimi og í Ragnarökum ríður hann um jörðina ásamt Múspellssonum og brennir jörðina með glóandi sverði. Þegar þeir ríða yfir Bifröst, brúna sem tengir Miðgarð og Ásgarð, brotnar hún; svo verður Surtur Frey að bana.

Þekktustu örnefni á Íslandi í höfuðið á Surti eru hraunhellirinn Surtshellir, lengsti hellir landsins, og Surtsey, eyja skammt frá Vestmannaeyjum sem varð til í eldgosi á árunum 1963-1967.

Textafræðingurinn Rudolf Simek telur hugmyndina um Surt mjög gamalgróna og bendir á vísanir í nafn hans í kvæðum eftir Eyvind skáldaspilli og Hallfreð vandræðaskáld frá 10. öld því til stuðnings. Hann bendir jafnframt á að í Landnámabók sé þegar minnst á hellinn Surtshelli og telur það vera til marks um að íslenskir landnemar hafi snemma þekkt til Surts. Simek bendir einnig á að venjulega sé talað um að jötnar komi að austan í norrænum goðsögum, en að Surtur komi hins vegar að sunnan. Þetta sé vafalaust til marks um það að hann sé tengdur við eld og hita. Simek segir að Íslendingar hafi vafalaust séð Surt fyrir sér sem voldugan jötun sem réð yfir eldi jarðarinnar og telur að hugmyndin um Surt sem óvin guðanna sé ekki upprunnin á Íslandi.


skoða - spjall - saga


Maí

Dred Scott-málið (formlega nefnt Dred Scott gegn Sandford) var dómsmál sem fór fyrir hæstarétt Bandaríkjanna í ákæru Dreds Scott gegn John F. A. Sanford árið 1857. Í málinu var dæmt gegn Dred Scott, svörtum þræl sem hafði reynt að gera tilkall til frelsis síns í ljósi þess að hann hefði búið um hríð í fylki þar sem þrælahald var bannað með lögum.

Í dómi hæstaréttarins var úrskurðað að Dred og eiginkona hans, Harriet, ættu ekki heimtingu á frelsi sínu og jafnframt að blökkumenn gætu ekki undir neinum kringumstæðum verið bandarískir ríkisborgarar. Í dómnum var enn fremur kveðið á um að öll lög sem kæmu í veg fyrir að þrælaeigendur færu með þræla sína hvert sem þá lysti innan Bandaríkjanna væri andstæð stjórnarskrá landsins. Þar með voru ýmis gömul lög sem höfðu átt að stemma stigu við útbreiðslu þrælahalds til nýrra bandarískra landsvæða felld úr gildi.

Á seinni dögum hefur ákvörðunin fengið á sig það orð að vera eitt versta glappaskot í sögu hæstaréttarins og er jafnvel talað um hana sem eina kveikjuna að bandarísku borgarastyrjöldinni.


skoða - spjall - saga


Júní

München-sáttmálinn var milliríkjasamningur sem gerður var milli Bretlands, Frakklands, Ítalíu og Þýskalands árið 1938. Samningurinn var undirritaður þann 30. september 1938 í kjölfar ráðstefnu í München sem ætlað var að finna friðsamlega lausn á deilum þjóðanna um Súdetaland, sem Þjóðverjar gerðu tilkall til en var þá innan landamæra Tékkóslóvakíu.

Tilgangur ráðstefnunnar var að ræða um tilkall sem Adolf Hitler, einræðisherra Þýskalands, hafði gert til Súdetalands. Þar sem Súdetaland var aðallega byggt þýskumælandi fólki hélt Hitler því fram að það tilheyrði Þýskalandi með réttu og hótaði að gera innrás í Tékkóslóvakíu til að innlima það.

Forsætisráðherrar Bretlands og Frakklands, Neville Chamberlain og Édouard Daladier, vildu fyrir alla muni forðast stríð gegn Þýskalandi og því kölluðu þeir með milligöngu Benito Mussolini, forsætisráðherra Ítalíu, til ráðstefnu til að ræða um stöðu Súdetalands. Niðurstaðan varð sú að Chamberlain og Daladier lögðu blessun sína við að Þjóðverjar innlimuðu þýskumælandi héruð Tékkóslóvakíu.

Bretar og Frakka vonuðust til þess að koma í veg fyrir stríð gegn Þjóðverjum með samningnum. Undanlátsstefna þeirra frestaði stríði þó ekki lengi því næsta ár réðust Þjóðverjar inn í Pólland og Chamberlain og Daladier neyddust því til að lýsa yfir stríði. Með þessu hófst seinni heimsstyrjöldin.


skoða - spjall - saga


Júlí

Tanzimat („endurskipulagningin“) er tímabil í sögu Tyrkjaveldis (Ottómanveldis) sem stóð frá 1839 til 1876 og markaðist af endurskipulagningu hersins, réttarbótum og umbótum í menntamálum og stjórnarfari.

Markmiðið var að nútímavæða ríkið svo það gæti tekist betur á við uppgang Evrópuríkja út á við og þjóðernishreyfinga innan ríkisins. Til að ná þessum þessum markmiðum sáu ráðamenn ríkisins þörf fyrir umbótum og endurskipulagninu, sérstaklega í hermálum.

Umbótaskeiðið er almennt talið hefjast um 1839 með útgáfu Rósaherbergis-tilskipunarinnar (sjá mynd). Árið 1856 var gefin út Humayun-tilskipunin. Þessar tvær tilskipanir gjörbreyttu stöðu minnihlutahópa innan ríkisins. Jafnrétti var lofað öllum borgurum og kristnum var leyft að ganga í herinn eða gegna embætti. Ofan á þetta átti að stemma stigu við spillingu, standa vörð um eignarréttinn og endurskipuleggja menntakerfið og skattkerfið. Árið 1876 leið Tanzimat-tímabilið undir lok með gildistöku nýrrar stjórnarskrár sem átti að tryggja frelsi og jafnrétti allra borgara heimsveldisins. Stjórnarskráin skapaði líka fyrsta þing Tyrkjaveldis sem kom saman ári seinna. Þingið hafði ásett sér að halda áfram með umbæturnar en það hafði ekki erindi sem erfiði því sama ár leysti nýi soldáninn, Abdul Hamid 2., þingið upp og afnám stjórnarskrána.


skoða - spjall - saga


Ágúst

Policarpa Salavarrieta (26. janúar 1795 – 14. nóvember 1817), einnig þekkt undir nafninu La Pola, var nýgranadísk saumakona sem njósnaði fyrir ameríska byltingarmenn um hersveitir spænska heimsveldisins á 19. öld. Spænskir konungssinnar handsömuðu hana að lokum og létu taka hana af lífi fyrir landráð. Hún er í dag talin meðal sjálfstæðishetja Kólumbíu og kólumbíski konudagurinn er tileinkaður henni.

Þar sem fæðingarvottorð hennar hefur aldrei fundist er óvíst hvert skírnarnafn hennar var. Faðir hennar kallaði hana Apoloniu í erfðaskrá sinni og presturinn Salvador Contreras, sem lögfesti hana þann 13. desember 1802, staðfesti þá nafngift. Nánasti ættingi hennar var bróðir hennar, Bibiano, þar sem hún hafði tekið hann í gæslu sína eftir að foreldrar þeirra létust. Þegar hersveitir í Guaduas fóru að leita að henni tók hún upp viðurnefnið Policarpa.

Í fölsuðu vegabréfi sem Policarpa notaði til þess að komast inn og út úr Bogotá árið 1817 notaði hún nafnið „Gregoria Apolinaria“. Andrea Ricaurte de Lozano, sem Policarpa bjó með og vann fyrir í Bogotá, og skæruliðaforinginn Ambrosio Almeyda, kölluðu hana einnig þessu nafni. Samtímamenn hennar kölluðu hana einfaldlega La Pola, en hún er þekktust í dag undir nafninu Policarpa Salavarrieta.



skoða - spjall - saga


September

Nes við Seltjörn er fornbýli á Seltjarnarnesi. Þar hafa fundist mannvistarleifar sem spanna langt tímabil en talið er að búið hafi verið á jörðinni allt frá því um 900 eða tiltölulega fljótlega eftir landnám Íslands. Staðurinn er nú einna þekktastur fyrir Nesstofu, bústað fyrsta landlæknisins og þar hefur til skamms tíma verið rekið Lækningaminjasafn Íslands.

Elsta heimildin sem getur um Nes er frá því um 1200. Í kirknatali Páls biskups Jónssonar er talin kirkja með prestskyldu í Nesi. Fyrstu nafngreindu ábúendurnir í Nesi voru Hafurbjörn Styrkársson og Guðrún Þorláksdóttir, en þau bjuggu þar á síðari hluta 13. aldar. Hafurbjörn var kominn af Ásbirni Össurarsyni í beinan karllegg, en Ásbjörn var bróðursonur Ingólfs Arnarsonar. Hjónanna Hafurbjörns og Guðrúnar er getið í Árna sögu biskups þar sem segir að þau hafi verið stórauðug af peningum. Veturinn 1280-1281 hafði Loðinn leppur, sem konungur hafði sent til Íslands með Jónsbók, vetursetu hjá þeim hjónum. Þess var getið að í Nesi hafi verið hið ríkmannlegasta heimili á landinu og hið mesta höfuðból.

Óljóst er um eignarhald á jörðinni á miðöldum, eða frá 1341 og fram undir siðaskipti 1550. Við siðaskiptin komst jörðin í eigu Skálholtsstóls. Árið 1556 eignaði konungur sér Nes og á meðan jörðin var í hans eigu bjuggu þar aðallega prestar og veraldlegir embættismenn. Bjarni Pálsson var skipaður fyrsti landlæknirinn á Íslandi með konungsúrskurði árið 1760. Í fyrstu bjó hann á Bessastöðum en árið 1761 hófst bygging Nesstofu við Seltjörn. Þar skyldi vera bústaður og vinnustaður landlæknis. Nesstofa var fullbyggð árið 1763. Hún var bústaður fimm fyrstu landlæknanna og fjögurra fyrstu lyfsalanna.


skoða - spjall - saga


Október

Friedrich Christian zu Schaumburg-Lippe (5. júní 1906 – 20. september 1983) var þýskur aðalsmaður og nasisti sem vann lengi sem aðstoðarmaður þýska áróðursmálaráðherrans Josephs Goebbels á stjórnarárum Adolfs Hitlers.

Árið 1938 gerði sendinefnd þriggja Íslendinga í Berlín Friedrich tilboð um að gerast konungur Íslands eftir áætluð sambandsslit Íslands við dönsku krúnuna. Friedrich tók boðinu alvarlega og þáði það að endingu með því skilyrði að það hlyti velþóknun þýskra stjórnvalda. Goebbels var að orðinu til samþykkur því að Friedrich tæki við konungdómi á Íslandi en utanríkisráðherrann Joachim von Ribbentrop var mótfallinn hugmyndinni og því runnu þessar ráðagerðir út í sandinn og fóru endanlega út um þúfur þegar seinni heimsstyrjöldin braust út og Ísland var hertekið af Bretum. Friedrich hafði þó áfram áhuga á upphefð á Íslandi og kom meðal annars í heimsókn til landsins árið 1973 til að þreifa fyrir sér í þeim efnum.

Á síðari æviárum sínum hóf Friedrich bréfaskipti við íslensk stjórnvöld og minnti á tilboðið um konungdóm sem honum hafði verið gert árið 1938. Friedrich gerði sér vonir um að Íslendingar sýndu honum einhverja sæmd, til dæmis með því að sæma hann íslenskum ríkisborgararétti samhliða hinum þýska og skipa hann íslenskan ræðismann ævilangt til þess að styrkja samband Íslands við Vestur-Þýskaland. Jafnframt stakk hann upp á því að stjórn Íslands sæmdi hann séríslenskum aðalstitli, t.d. greifi af Reykjavík (graf von Reykjavík).


skoða - spjall - saga


Nóvember

York (stundum nefnd Jórvík á íslensku) er borg í Norður-Yorkshire í Englandi. Hún hefur lengst af tilveru sinnar verið höfuðborg, fyrst rómverska hluta Englands, en síðar konungsríkjanna Norðymbralands (engilsaxa), Jórvíkur (víkinga) og nú síðast Yorkshire. Mikil saga og menning einkenna borgina. Íbúar eru rétt tæplega 200 þús.

Á tímum Rómverja hét borgin Eboracum. Ekki hefur tekist svo öruggt sé að skýra heitið, enda upprunnið í keltnesku. Ekki er ólíklegt að það sé dregið af trjátegundinni ýviði. Það voru engilsaxar sem tóku heitið hljóðfræðilega upp og breyttu því í Eoforwic á 7. öld. Fyrri hluti heitisins merkir göltur. Þegar Danir hertóku borgina 866 kölluðu þeir borgina Jórvík. Þannig er hún enn gjarnan kölluð á íslensku í dag. Heitið styttist hins vegar í ensku og kemur fram í ýmsum myndum, s.s. Yerk, Yourke, Yarke og loks York, en síðastnefnda heitið kom fyrst fram á 13. öld.


skoða - spjall - saga


Desember

Fjallkonan er þjóðartákngervingur Íslands. Þjóðartákngervingar eru manngervingar þjóðar eða lands. Frægir erlendir þjóðartákngervingar eru Sámur frændi, tákngervingur Bandaríkjanna, og Britannía, tákngervingur Bretlands. Á rómantíska tímabilinu kom upp í Evrópu hugmyndin um konu sem þjóðartákn. Á þessum tíma urðu til frægar táknmyndir eins og Híbernía, þjóðartáknmynd Írlands, Maríanne, þjóðartáknmynd Frakklands, og Germanía, þjóðartáknmynd Þýskalands. Hugmyndin um kventákngerving lands og þjóðar var þó ekki ný af nálinni en eldri dæmi eru til dæmis Róma, tákngervingur Rómaborgar á tímum Rómaveldis, og Britannía. Ólíkt kventákngervingum frá síðari öldum, þar á meðal Fjallkonunni, voru kventákngervingar fyrri aldar jafnan gyðjur. Kventákngervingar landa og þjóða hafa stundum verið tengdir við hugmyndina um móðir jörð

Fyrsta þekkta notkun orðsins fjallkona er í kvæði Bjarna Thorarensen, Íslands minni. Hugmyndin um konu sem tákn Íslands er þó eldri en kvæði Bjarna Thorarensens. Elsta varðveitta dæmið um hugmyndina birtist samhliða kvæði Eggerts Ólafssonar Ofsjónir við jarðarför Lóvísu Drottningar 1752. Með kvæðinu fylgdi myndræn framsetning ofsjónarinnar, gerð af Eggerti sjálfum. Myndin sjálf hefur glatast enda gat Eggert ekki fengið hana prentaða vegna fjárskorts. Elsta þekkta myndin af Fjallkonunni var forsíðumynd á bók enskra þýðinga íslenskra þjóðsagna, gefin út af Eiríki Magnússyni og G. E. J. Powell, Icelandic Legends, Collected by Jón Arnason (1846-66). Myndin er gerð eftir vatnslitamynd þýska myndlistamannsins Johann Baptist Zwecker eftir lýsingu Eiríks. Málverkið sjálft er varðveitt í háskólanum í Aberstwyth, Wales.


skoða - spjall - saga


Greinar mánaðarins:

2005 · 2006 · 2007 · 2008 · 2009 · 2010 · 2011 · 2012 · 2013 · 2014 · 2015 · 2016 · 2017 · 2018 · 2019 · 2020 · 2021 · 2022 · 2023 · 2024