Greinar mánaðarins:

2005 · 2006 · 2007 · 2008 · 2009 · 2010 · 2011 · 2012 · 2013 · 2014 · 2015 · 2016 · 2017 · 2018 · 2019 · 2020 · 2021 · 2022 · 2023 · 2024

Janúar

Helmut Kohl var þýskur stjórnmálamaður. Hann var kanslari Vestur-Þýskalands frá 1982 til 1990 og sameinaðs Þýskalands frá 1990 til 1998. Hann varð formaður Kristilega demókratasambandsins 1973, eins stærsta stjórnmálaflokks Þýskalands. Sextán ára kanslaratíð hans nær yfir endalok kalda stríðsins og var sú lengsta í sögu Þýskalands frá valdatíð Ottos von Bismarck.

Kohl var leiðandi í sameiningarferli Þýskalands og, ásamt François Mitterrand Frakklandsforseta, er eignaður heiðurinn af því að hafa komið á Maastrichtsáttmálanum og þar með Evrópusambandinu. Ásamt Jean Monnet og Jacques Delors er Kohl eini maðurinn sem hefur verið sæmdur heiðursnafnbótinni Heiðursborgari Evrópu.


skoða - spjall - saga


Febrúar

Bódísea var keltnesk drottning þjóðflokks Ísena sem bjuggu þar sem nú er Norfolk í Englandi. Hún leiddi uppreisn gegn hernámsliði Rómverja á Bretlandi árið 60 eða 61.

Ritað var um uppreisn Bódíseu í verkum sagnaritaranna Tacitusar og Cassiusar Dio. Þessi verk voru enduruppgötvuð á endurreisnartímanum en á Viktoríutímabilinu var í auknum mæli farið að bera Bódíseu saman við Viktoríu Bretadrottningu og henni lyft upp á stall sem bresku þjóðartákni og þjóðhetju.


skoða - spjall - saga


Mars

Alsírstríðið, einnig kallað alsírska sjálfstæðisstríðið eða alsírska byltingin var stríð á milli Frakklands og alsírsku Þjóðfrelsisfylkingarinnar sem háð var frá 1954 til 1962.

Stríðið leiddi til þess að Alsír hlaut sjálfstæði frá Frakklandi. Stríðið einkenndist af beitingu skæruhernaðar og af útbreiddri notkun pyntinga hjá báðum stríðsaðilum. Stríðið var aðallega háð í Alsír, sem þá var undir frönskum yfirráðum.

Undir lok stríðsins var Frakkland á barmi herforingjabyltingar. Alsírstríðið leiddi til þess að fjórða franska lýðveldið hrundi og stjórnarskrá Frakklands var endurrituð.


skoða - spjall - saga


Apríl

Oda Nobunaga var einn af valdamestu lénsherrum (daimyo) í Japan á sextándu öld. Það tímabil hefur verið nefnt sengoku-öldin eða þriggja ríkja öldin, í sögu Japans.

Sengoku-öldin einkenndist af blóðugum átökum borgarastyrjaldar. Nobunaga bar aðeins titilinn lénsherra en var þó valdameiri en bæði keisarinn og sjóguninn, sem var yfirmaður hersins. Ævi hans var undirlögð af bardögum og átökum við aðra valdamenn ríkisins. Flest öllum átökunum lauk með sigri Nobunaga en farsæld hans á bardagavellinum hjálpaði honum að leggja grunninn að sameiningu Japans undir eina stjórn. Sérviska hans og ráðsnilld hefur gert Nobunaga að einni þekktustu persónu japanskrar sögu.


skoða - spjall - saga


Maí

Stúdentauppreisnin er heiti á hrinu mótmæla og óeirða sem hófust í París í maí árið 1968 og breiddust út til annarra hluta Frakklands. Í daglegu tali eru óeirðirnar gjarnan kenndar við maímánuð 1968 og einfaldlega vísað til þeirra sem „maí '68“ (franska: Mai 68). Óeirðirnar entust í um sjö vikur og einkenndust á þeim tíma af allsherjarverkföllum og yfirtökum stúdenta og verkamanna í háskólum og verksmiðjum. Þegar mótmælin stóðu sem hæst óttuðust ráðamenn í Frakklandi að þau væru byrjun á borgarastyrjöld eða byltingu.

Mótmælin í Frakklandi voru tengd mótmælahreyfingu í fleiri löndum sem var áberandi á árinu 1968. Atburðirnir þetta ár skildu eftir sig djúp spor í franskri menningu og þátttakendur í óeirðunum eru gjarnan kenndir við „68-kynslóðina“.


skoða - spjall - saga


Júní

Annie Ernaux er franskur rithöfundur og prófessor í bókmenntafræði. Verk hennar eru flest með sjálfsævisögulegu ívafi og áhrifum af félagsfræði. Ernaux hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2022 fyrir „hugrekki og skarpskyggni í skrifum sínum,“ sem „afhjúpa rætur, fráhvörf og fjötra persónulegra minninga.“

Frumraun Annie Ernaux í bókmenntum var bókin Les Armoires vides árið 1974, sem var sjálfsævisöguleg skáldsaga. Árið 1984 hlaut hún Renaudot-verðlaunin fyrir annað verk með sjálfsævisögulegu ívafi, La Place.

Árið 2008 gaf Ernaux út bókina Les Années, þar sem hún skrifaði um tímabilið frá eftirstríðsárunum fram til samtímans. Hún hlaut fjölda verðlauna fyrir bókina og næsta ár hlaut hún Verðlaun franskrar tungu fyrir ævistörf sín.


skoða - spjall - saga


Júlí

Aleksandra Kollontaj var marxísk byltingarkona úr röðum mensévika og síðan bolsévika frá árinu 1915. Á árunum 1917–1918 var Kollontaj þjóðfulltrúi heilbrigðismála í ríkisstjórn bolsévika eftir rússnesku byltinguna. Hún var fyrsta kona í heimi sem hlaut ráðherrastöðu í ríkisstjórn lands. Árið 1922 varð Kollontaj meðlimur í sendinefnd Sovétríkjanna til Noregs og varð brátt formaður hennar. Hún var ein fyrsta kona í heimi sem fór fyrir slíkri nefnd.


skoða - spjall - saga


Ágúst

Spaugstofan var íslenskur grín-sjónvarpsþáttur sem var sýndur á RÚV frá 1989 til 2010 og á Stöð 2 frá 2010 til 2014. Þættirnir urðu 472 talsins. Þessir þættir gerðust á mestu leiti í fréttastofu lítillar sjónvarpsstöðvar sem hét Stöðin. Þátturinn var á dagskrá á laugardagskvöldum og gekk yfirleitt út á að sýna atburði liðinnar viku í spaugilegu ljósi. Spaugstofuna skipuðu þeir Karl Ágúst Úlfsson, Pálmi Gestsson, Sigurður Sigurjónsson, Örn Árnason og Randver Þorláksson.


skoða - spjall - saga


September

Þykjustustríðið var átta mánaða tímabil í upphafi seinni heimsstyrjaldarinnar þar sem allt var með kyrrum kjörum á vesturvígsstöðvum. Aðeins ein hernaðaraðgerð átti sér stað þegar Frakkar gerðu tilraun til sóknar í Saarland. Átök styrjaldaraðila voru að mestu bundin við sjóinn.

Tímabilið hófst þann 3. september 1939 — tveimur dögum eftir innrás Þjóðverja í Pólland — en þann daginn höfðu Bretar og Frakkar sagt Þjóðverjum stríð á hendur. Þetta tímabil stóð yfir þar til orrustan um Frakkland hófst þann 10. maí 1940.


skoða - spjall - saga


Október

Mexíkó (spænska: México; nahúamál: Mēxihco), formlega Mex­íkóska ríkja­sam­band­ið (spænska: Estados Unidos Mexicanos), er land í sunnanverðri Norður-Ameríku. Mexíkó á landamæri að Bandaríkjunum í norðri, Kyrrahafinu í vestri og suðri, Mexíkóflóa og Karíbahafi í austri og Belís og Gvatemala í suðaustri. Landið þekur tæplega tvær milljónir ferkílómetra og er 13. stærsta land heims að flatarmáli. Landið er það fimmta stærsta í Norður- og Suður-Ameríku. Íbúafjöldi er talinn vera yfir 129 milljónir og er landið því 10. fjölmennasta land heims, fjölmennasta spænskumælandi land heims og næstfjölmennasta land Rómönsku Ameríku á eftir Brasilíu.


skoða - spjall - saga


Nóvember

Eldgosin við Sundhnúksgíga er eldgosahrina sem hófst í desember 2023 við Sundhnúksgíga norðan Grindavíkur og austan Svartsengis. Goshrinan hófst eftir að kvikusöfnun hófst undir Svartsengi í lok október 2023 og stór kvikugangur myndaðist í nóvember. Nú hafa orðið sjö sprungugos á kvikuganginum þar sem hraunrennsli er mest fyrstu klukkustundirnar þegar gýs á langri sprungu en gosin hafa svo dregist saman á fáein gosop sem hafa sum verið virk í margar vikur. Sjöunda eldgos hrinunnar stendur nú yfir.

Eldgosahrinan og jarðhræringar í aðdraganda hennar eru á meðal stærstu náttúruhamfara sem gengið hafa yfir á Íslandi. Grindavíkurbær var rýmdur þegar kvikugangurinn myndaðist 10. nóvember 2023 og þar hefur orðið verulegt eignatjón á fasteignum og innviðum, aðallega vegna sprunguhreyfinga. Hraun frá eldgosunum hefur runnið yfir vegi og lagnir og ráðist hefur verið í gerð mikilla varnargarða til að verja bæði Grindavíkurbæ og Svartsengisvirkjun.


skoða - spjall - saga


Desember

Grikkland hið forna

Grikkland hið forna vísar til hins grískumælandi heims í fornöld. Það er ekki eingöngu notað um það landsvæði sem Grikkland nær yfir í dag, heldur einnig lönd þar sem grískumælandi fólk bjó í fornöld: Kýpur og Eyjahafseyjar, Jóníu í Litlu Asíu, Sikiley og Suður-Ítalíu og ýmsar grískar nýlendur, til dæmis í Kolkis, Illyríu, í Þrakíu, Egyptalandi, Kýrenæku, suðurhluta Gallíu, á austan- og norðaustanverðum Íberíuskaga, í Íberíu og Táris.

Tímaskeið Grikklands hins forna nær frá því að grískumælandi menn settust fyrst að í Grikklandi á 2. árþúsundi f.Kr. til loka fornaldar og upphafs kristni (kristni varð til áður en fornöld lauk, en kristin menning er venjulega ekki talin til klassískrar fornaldarmenningar Grikklands). Flestir sagnfræðingar telja að í Grikklandi hinu forna liggi rætur vestrænnar menningar. Grísk menning hafði mikil áhrif á Rómaveldi, sem miðlaði menningunni áfram til margra landa Evrópu. Aukinheldur hafði enduruppgötvun Vestur-Evrópubúa á forngrískri menningu á 14.17. öld afgerandi áhrif á evrópska menningu. Hún hefur haft gríðarlega mikil áhrif á tungumál, stjórnmál, menntun, heimspeki, vísindi og listir Vesturlanda. Hún var megininnblástur endurreisnarinnar í Vestur-Evrópu og hafði aftur mikil áhrif á ýmsum nýklassískum skeiðum á 18. og 19. öld í Evrópu og Norður-Ameríku.


skoða - spjall - saga


Greinar mánaðarins:

2005 · 2006 · 2007 · 2008 · 2009 · 2010 · 2011 · 2012 · 2013 · 2014 · 2015 · 2016 · 2017 · 2018 · 2019 · 2020 · 2021 · 2022 · 2023 · 2024