Sólkerfið

Sólkerfi

Sólkerfið er heiti á sólkerfi því sem sólin og jörðin tilheyra. Til sólkerfisins heyra reikistjörnurnar ásamt tunglum þeirra, dvergreikistjörnur, smástirni, loftsteinar, halastjörnur og aðrir litlir sólkerfishlutir. Tveir fylgihnettir sólkerfisins eru stærri en minnsta reikistjarnan, Merkúríus.

Sólin og reikistjörnurnar (fjarlægðir ekki réttar).

Sólkerfið myndaðist fyrir 4,6 milljörðum ára við þyngdarhrun risastórs sameindaskýs. Megnið af massa sólkerfisins er í sólinni og megnið af því sem eftir er í reikistjörnunni Júpíter. Innri reikistjörnurnar fjórar, Merkúríus, Venus, Jörðin og Mars eru jarðstjörnur, aðallega gerðar úr bergi og málmum. Ytri reikistjörnurnar fjórar eru risareikistjörnur, miklu stærri en innri reikistjörnurnar. Tvær þeirra, Júpíter og Satúrnus, eru gasrisar, aðallega gerðar úr vetni og helíni. Ystu reikistjörnurnar tvær, Úranus og Neptúnus, eru ísrisar gerðir úr efnum með tiltölulega hátt bræðslumark, eins og vatni, ammóníaki og metani. Reikistjörnurnar átta ganga umhverfis sólina á sporöskjulaga sporbrautum sem liggja nokkurn veginn á sama fleti sem nefnist sólbaugur.

Í sólkerfinu eru margir hlutir sem eru minni en reikistjörnur. Loftsteinabeltið liggur á milli brauta Mars og Júpíters og inniheldur aðallega hluti úr svipuðu efni og innri reikistjörnurnar, bergi og málmum. Utan við sporbaug Neptúnusar liggja Kuiper-beltið og dreifða skífan sem aðallega innihalda útstirni úr ís. Handan við þau hafa nýlega uppgötvast sednusstirni. Meðal þessara hluta eru nokkrir nógu massamiklir til að hafa rúnnast vegna eigin þyngdarafls, þótt enn sé deilt um hversu margir þeir geti verið.[1][2] Slíkir hlutir eru þekktir sem dvergreikistjörnur. Eina dvergreikistjarnan sem fullvissa ríkir um er Plútó, en talið er að Eris sé það líklega og hugsanlega líka Seres. Auk þessara tveggja svæða eru ýmis önnur smáhlutaský, halastjörnur, kentárar og nærgeimsrykský, sem ferðast milli þeirra. Sex af reikistjörnunum, sex stærstu dvergreikistjörnurnar og margir minni hlutir eru með fylgihnetti sem ganga á braut umhverfis þær. Allar ytri reikistjörnurnar eru með plánetuhringi úr ryki og öðrum hlutum.

Sólvindur, stöðugur straumur af öreindum sem flæðir frá sólinni, myndar sólvindshvolf utan um sólkerfið, sem er eins og loftbóla í miðgeimsefninu. Mörk sólvindshvolfsins eru við sólvindshvörf, þar sem þrýstingur sólvindsins verður jafnmikill og þrýstingur miðgeimsefnisins. Sólvindshvörfin liggja við ytri brún dreifðu skífunnar. Utan við þau er Oort-skýið þar sem talið er að langferðahalastjörnur eigi upptök sín. Oort-skýið gæti náð þúsund sinnum lengra frá sólinni en sólvindshvörfin. Sólkerfið er 26.000 ljósárum frá miðju Vetrarbrautarinnar, í Óríonsarmi þar sem flestar stjörnurnar sem sjást á næturhimninum eru staðsettar. Næstu stjörnukerfi eru innan staðarbólunnar í Óríonsarminum. Næsta stjarna við sólina er Proxima Centauri í 4,25 ljósára fjarlægð.

TilvísanirBreyta

  1. Grundy, W.M.; Noll, K.S.; Buie, M.W.; Benecchi, S.D.; Ragozzine, D.; Roe, H.G. (December 2018). „The Mutual Orbit, Mass, and Density of Transneptunian Binary Gǃkúnǁʼhòmdímà (229762 2007 UK126)“ (PDF). Icarus. 334: 30–38. doi:10.1016/j.icarus.2018.12.037. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. apríl 2019.
  2. Mike Brown (23. ágúst 2011). „Free the dwarf planets!“. Mike Brown's Planets.

TenglarBreyta


   Þessi stjörnufræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.