Wikipedia:Grein mánaðarins/06, 2013
Evrópa (Júpíter II), er sjötta innsta fylgitungl Júpíters og hið minnsta af hinum fjórum Galíleótunglum. Þó er það eitt af stærri tunglum sólkerfisins. Galíleó Galílei fann Evrópu fyrstur manna árið 1610 svo að vitað sé en mögulega fann Simon Marius tunglið einnig um svipað leyti. Miklar athuganir á tunglinu hafa farið fram síðan þá í gegnum sjónauka á jörðinni en frá og með áttunda áratug 20. aldar hafa jafnframt farið fram athuganir með ómönnuðum geimförum.
Evrópa er aðeins minni að þvermáli en tungl jarðarinnar (máninn) og er að uppistöðu til úr silíkat bergi, sennilega með járnkjarna. Hún hefur þunnan lofthjúp sem samanstendur aðallega af súrefni. Yfirborð Evrópu er úr vatnsís og er eitt það sléttasta sem þekkist í sólkerfinu. Yfirborðið er þó þakið sprungum og rákum en tiltölulega lítið er um gíga eftir árekstra loftsteina sem gefur til kynna að yfirborð tunglsins sé ungt.