Jón Ögmundarson
Jón Ögmundarson – eða Jón Ögmundsson – (1052 – 23. apríl 1121), fyrsti biskup á Hólum í Hjaltadal.
Jón var sonur hjónanna Ögmundar Þorkelssonar og Þorgerðar Egilsdóttur, en þau bjuggu á Breiðabólstað í Fljótshlíð. Jón lærði fyrst hjá Ísleifi biskupi Gissurarsyni í Skálholti og hélt svo til frekara náms í Danmörku og Noregi. Hann varð samferða Sæmundi fróða Sigfússyni er þeir komu til landsins að loknu námi ytra.
Biskup á Hólum
breytaJón bjó á Breiðabólstað þegar hann var tekinn til biskups á Hólum, fyrstur manna. Hafði Gissur biskup Ísleifsson þar hönd í bagga að því er sagt er. Jón fór utan eftir tilnefninguna og hélt til Rómar á fund páfa, sem gaf út skipun um að hann skyldi vígður til biskups. Hann var vígður 29. apríl 1106. Jón gerðist brátt umsvifamikill og lét mjög til sín taka í embættinu. Meðal þess sem hann kom til leiðar í embætti eru íslensku daganöfnin, en hann lét taka upp þau daganöfn, sem enn eru notuð í stað hinna fornu, sem hann taldi hafa heiðinn blæ. Jón rak skóla á Hólum og hélt þar erlenda kennara.
Um Jón var rituð saga, Jóns saga Hólabiskups eða Jóns saga helga, sem segir frá ævi og störfum biskupsins og mannlífi á Hólastað.
Jón var tvíkvæntur en átti ekki börn. Á alþingi var tekin upp helgi hans árið 1200, en hún hefur aldrei verið staðfest af páfastóli. Jón er verndari Kristskirkju í Reykjavík, og í kaþólsku kirkjunni á Íslandi er messudagur hans 3. mars, en þann dag voru bein hans tekin úr jörðu. Hann er sömuleiðis sagður helgur maður í dýrlingatali kaþólsku kirkjunnar í Noregi, þar minnst 23. apríl.
Heimildir
breyta- Peter Foote (útg.): Biskupasögur 1, Rvík 2003. Hið íslenska fornritafélag.
- Páll Eggert Ólason: Íslenskar æviskrár III, Reykjavík 1950
- Árni Daníel Júlíusson, Jón Ólafur Ísberg o.fl. (ritstj.): Íslenskur söguatlas 1, Iðunn, Rvík 1991
- Jón Þorkelsson: Íslenzkar ártíðaskrár, bls. 74-78 og víðar, Kaupmannahöfn 1893 – 1896.
Tenglar
breyta- Hann var sannur faðir allra fátækra manna; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1970
- Jón biskup og dansinn; grein í Lögberg-Heimskringlu 1980
- Odden, séra Per Einar @ Den Katolske Kirke i Norge: Den hellige Jón Ögmundsson. Skoðað 8. september 2010.
- Ökumenisches Heiligenlexikon: Jón Ögmundsson. Skoðað 8. september 2010.
Fyrirrennari: Enginn |
|
Eftirmaður: Ketill Þorsteinsson |