Spænska veikin

heimsfaraldur inflúensu frá 1918 til 1920

Spænska veikin var inflúensufaraldur sem gekk yfir heiminn árin 1918-20. Veirustofninn heitir H1N1 innan inflúensu af A-stofni. Spænska veikin er mannskæðasta farsótt sem sögur fara af. Talið er að 50 milljónir manna hafi dáið af völdum hennar.

Kort sem sýnir hvernig spænska veikin breiddist út

Lýsing á einkennum

breyta
 
Bændur í Alberta bera grímur til að smitast ekki (haust 1918)

Veikinni fylgdi jafnan lungnabólga og létust menn oft innan tveggja daga eftir að sóttarinnar varð vart. Veikinni fylgdu blæðingar, blóð streymdi úr nösum og upp úr lungum, niður úr þörmum, upp úr maga og gegnum þvagrás.

Veikin breiðist út í heiminum

breyta

Sóttin geisaði í þremum bylgjum. Fyrst kom veikin upp í bandarísku herstöðinni Camp Funston í Kansas. Þaðan barst hún með bandarískum hermönnum til Evrópu í apríl 1918. Um sumarið kom fram banvænna afbrigði. Þriðja bylgjan gekk yfir veturinn 1918-19. Spænska veikin blossaði upp um það bil er fyrri heimsstyrjöldinni er að ljúka og mótstöðuafl margra óbreyttra borgara og hermanna var því lítið vegna slæms aðbúnaðar. Ekki var til neitt bóluefni við þessum inflúensustofni og ekki var búið að finna upp pensilín þannig að lungnabólgan sem jafnan fylgdi sóttinni varð lífshættuleg.

Veikin breiðist út á Íslandi

breyta

Veikin er talin hafa borist til Íslands með skipunum Botníu frá Kaupmannahöfn og Willemoes frá Bandaríkjunum 19. október 1918, þann sama dag og fullveldi Íslands var samþykkt. Í byrjun nóvember höfðu margir tekið sóttina og þá er fyrsta dauðsfallið skráð. Miðvikudaginn 6. nóvember er talið að þriðjungur Reykvíkinga hafi veikst. Fimm dögum síðar er talið að tveir þriðju íbúa höfuðborgarinnar hafi verið rúmfastir.

Sérstök hjúkrunarnefnd var skipuð í Reykjavík 8. nóvember undir forystu Lárusar H. Bjarnasonar lagaprófessors og var gerð áætlun þar sem borginni var skipt í þrettán hverfi. Gengið var í hús til að leita að þeim sem voru hjálpar þurfi. Allt athafnalíf lamaðist í Reykjavík. Talið er að 484 Íslendingar hafi látist úr spænsku veikinni, þar af 258 í Reykjavík. Þann 20. nóvember voru þeir sem létust í sóttinni jarðsettir í fjöldagrafreitum. Þá var veikin tekin að réna.

Nafngift

breyta

Á styrjaldarárunum voru fjölmiðlar ritskoðaðir og það var auðveldara að skrifa um „spænsku veikina“ en tala um inflúensu sem geisaði alls staðar um Evrópu. Margar milljónir manns sýktust á Spáni strax í maí 1918. Í spænskum fjölmiðlum var veikin hins vegar kölluð „franska flensan“.

Rannsóknir

breyta
 
Endurgerður vírus sem ræktaður var úr manni sem lést árið 1918.

Veikin lagðist mun þyngra á yngra og miðaldra fólk og er talið að gamalt fólk hafi öðlast ónæmi við þessum inflúensustofni eftir skæða inflúensu sem gekk árið 1894. Með því að rannsaka jarðneskar leifar fólks sem lést af völdum veikinnar hefur tekist að finna vírusstofninn sem olli veikinni. Komið hefur í ljós að það er stökkbreytt afbrigði af flensustofn sem var upphaflega fuglaflensa. Tekist hefur að þróa bóluefni við H1N1 vírusnum. Vandamálið er hins vegar að framleiðsla bóluefnis tekur langan tíma og því erfitt að bregðast við stórfelldum faraldri. Rannsóknir á spænsku veikinni eru taldar gefa vísbendingu um hvaða áhrif fuglaflensan (H5N1) og fleiri slíkar sem síðar koma gætu haft ef veiran nær að stökkbreytast og berast milli manna.

Heimildir

breyta
  • „Hvað var spánska veikin?“. Vísindavefurinn.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Spanish flu“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 9. mars 2006.

Tenglar

breyta