Hagfræði

félagsvísindagrein
(Endurbeint frá Hagfræðingur)

Hagfræði er félagsvísindagrein sem fæst við það hvernig einstaklingar, fyrirtæki og samfélög ráðstafa takmörkuðum auðlindum og gæðum. Hagfræðingar rannsaka meðal annars hvernig framleiðendur og neytendur skiptast á gæðum og framleiðsluþáttum, hvernig hagrænir hvatar hafa áhrif á ákvarðanatöku, hvernig starfsemi í samfélögum þróast yfir tíma og hvernig yfirvald getur haft áhrif á ráðstöfun aðfanga og gæða.

Fátæklegur timburkofi framan við háhýsi í Taílandi. Hagfræði fæst meðal annars við þróun lífsgæða og ráðstöfun takmarkaðra auðlinda og gæða.

Helsta forsenda margra hagfræðilíkana er að einstaklingar hugsi rökrétt og að fyrirtæki hafi það eina markmið að hámarka hagnað. Að þessum forsendum gefnum komast ríkjandi hagfræðikenningar að þeirri niðurstöðu að markaðir séu venjulega hagkvæmasta leiðin til að stýra efnahagsstarfsemi en að inngrip af hálfu ríkisvalds geti stundum bætt niðurstöðu markaða. Hagvöxt má auka með auknum sparnaði, hagkvæmni og tækni, og ríkisvald getur, að minnsta kosti til skamms tíma, haft áhrif á hagstærðir á borð við verðbólgu og atvinnuleysi. Rekstrarhagfræði fæst við rannsóknir á einstökum mörkuðum en þjóðhagfræði á hagkerfum í heild sinni.

Heimspekingar hafa skrifað um hagfræðileg málefni frá fornöld, en hagfræðin varð til sem eiginleg fræðigrein á 18. öld. Adam Smith, David Ricardo, Thomas Malthus og fleiri tilheyrðu klassíska tímabilinu í hagfræði. Nýklassísk hagfræði bætti á kenningar þeirra með jaðargreiningu og forsendunni um hagræna rökvísi. Nútíma þjóðhagfræði varð til í byrjun 20. aldar og varð að miklu leyti vinsæl fyrir tilstuðlan John Maynard Keynes. Í dag starfa hagfræðingar á ýmsum sviðum atvinnulífsins og sem ráðgjafar við opinbera stefnumótun.

Viðfangsefni og aðferðafræði

breyta

Hagfræði fæst við það hvernig einstaklingar og samfélög taka ákvarðanir um ráðstöfun takmarkaðra gæða á borð við tíma, vinnuafl, fjármagn og náttúruauðlindir. John Stuart Mill skilgreindi hagfræði sem „þá fræðigrein sem fæst við framleiðslu og úthlutun gæða upp að því marki sem þær eru háðar mannlegu eðli.”[1] Önnur þekkt skilgreining á hagfræði er eignuð Lionel Robbins sem sagði hagfræði vera „vísindagrein sem fæst við mannlega hegðun sem samband á milli ákveðinna markmiða og takmarkaðra aðfanga sem hafa mismunandi notamöguleika.”[2] Hugmyndin um skort liggur í flestra huga í kjarna hagfræðinnar, en ekki eru allir sammála því. Michael Mandel telur að á mörgum sviðum hagfræðinnar sé skortur ekki mikilvægur og leggur til að áhersla sé frekar lögð á það hlutverk hagfræðinnar að bæta lífsgæði.[3]

 
Hagkerfistafla franska hagfræðingsins François Quesnay frá 1759. Aðferðafræði hagfræðinnar hefur tekið miklum breytingum í gegnum söguna.

Nýklassísk hagfræði hefur verið ráðandi aðferðafræðileg nálgun innan fræðigreinarinnar undanfarna áratugi, en teikn eru á lofti um að það sé að breytast og að meginstraumshagfræði sé í auknum mæli samblanda af ýmsum nálgunum.[4] Grunnforsenda nýklassískrar hagfræði og leikjafræði, að einstaklingar leitist við að hámarka nyt og fyrirtæki að hámarka hagnað (homo oeconomicus), er umdeild. Gagnrýnendur hennar halda því fram að ákvarðanataka einstaklinga sé flókið ferli sem ekki sé mögulegt að einfalda í fræðilegri umfjöllun, en fylgismenn hennar telja margir hverjir að forsendur líkana séu ekki aðalatriði ef niðurstöður þeirra samræmast raunveruleikanum.[5]

Vegna nýklassískrar hagfræði hefur notkun stærðfræði í hagfræði aukist mjög undanfarna áratugi. Hagrannsóknir er undirgrein tölfræði sem fjallar um hvernig hægt er að mæla samhengi hagstærða og ákvarða hvort á milli þeirra sé fylgni eða orsakasamband. Stærðfræði er notuð til grundvallar mörgum hagfræðilegum líkönum. Umdeilt er hversu viðeigandi stærðfræðinotkun er í hagfræði. Margir telja að stærðfræðinotkun hafi verið til gagns, en aðrir telja að stærðfræðinotkun hafi ekki hjálpað til við framþróun fræðigreinarinnar og hafi gert hana fjarlægari raunveruleikanum.[6]

Störf hagfræðinga

breyta

Hagfræðingar rannsaka hugtök á borð við verð, kostnað, framboð, eftirspurn, verðbólgu, atvinnuleysi og hagvöxt. Ólíkt flestum öðrum vísindagreinum er sjaldnast hægt að gera tilraunir í hagfræði vegna þess að hagfræðin fæst við samfélagslega hegðun í stóru samhengi.[7] Þess í stað notast hagfræðingar við raungögn úr hagkerfinu, svo sem þjóðhagsmælingar, til þess að búa til líkön sem lýsa sambandi hinna ýmsu hagfræðilegu hugtaka. Sum hugtök, eins og verðbólgu, er hægt að mæla beint, en önnur hugtök, eins og eftirspurn, er ekki hægt að mæla nema með óbeinum og óljósum hætti.

Hagfræðingar starfa við rannsóknir í háskólum, hjá hinu opinbera, hjá félagasamtökum og víða í einkageiranum. Þeir sérhæfa sig gjarna á einu ákveðnu sviði, svo sem á sviði fjármála, vinnumarkaðar eða náttúruauðlinda. Fjármálastofnanir, tryggingafélög, verkalýðsfélög, ýmsar ríkisstofnanir og fyrirtæki notast við ráðgjöf hagfræðinga á einu eða fleiri sviðum við ákvarðanatöku um verðlagningu og stefnumótun. Þá starfa margir hagfræðingar hjá seðlabönkum og öðrum stofnunum við að spá fyrir um hagþróun og meta efnahagsstefnu stjórnvalda.[8] Háskóli Íslands býður upp á bæði grunnnám og framhaldsnám í hagfræði.[9] Þess er í auknum mæli krafist að umsækjendur um störf á sviði hagfræði hafi lokið meistara- eða doktorsnámi.

Saga og kenningaskólar

breyta

Hagfræði á fornöld og miðöldum

breyta

Heimspekingar hafa skrifað um hagfræðileg málefni allt frá fornöld. Hið enska heiti á hagfræði, economics, er dregið af gríska orðinu oikonomia sem þýðir „stjórn heimila” eða „góðir stjórnarhættir”. Gríski heimspekingurinn Xenofon skrifaði um verkaskiptingu og minnkandi jaðarnytjar. Aristóteles lýsti viðskiptum tveggja einstaklinga og taldi að viðskiptin gætu aðeins verið hagkvæm ef báðir aðilar að viðskiptunum myndu hagnast á þeim. Hann greindi á milli virðis í notum og virðis í viðskiptum, og taldi að ef upp kæmi ágreiningur á milli tveggja aðila um verðmæti gæða í viðskiptum þyrfti ríkið að grípa inn í viðskiptin og ákvarða verðin. Aristóteles var jafnframt fyrsti maðurinn til að lýsa því hvaða skilyrði gjaldmiðill yrði að uppfylla; hann taldi að gjaldmiðill yrði að vera einsleitur, varanlegur, hafa innra virði og vera handhægur. Verk Platons Ríkið fjallar einnig að nokkru leyti um hagfræðileg málefni, en Plató var almennt andvígur einkaeignarrétti því hann taldi að eina leiðin til að viðhalda stöðugleika væri sterkt ríkisvald.[10]

Hinn kínverski heimspekingur Konfúsíus taldi að skattar ættu að vera lagðir á framleiðslu einstaklinga, að ríkisútgjöld ættu að fylgja tekjum ríkisins, að lifnaðarhættir ættu að fara eftir samfélagsstétt og að hið opinbera ætti ekki að hafa óþarflega mikil afskipti af atferli einstaklinga. Hinn arabíski fræðimaður Abu Hamid al-Ghazali skrifaði um samfélagsleg velferðarföll, verkaskiptingu, og um það hvernig markaðir spretta upp náttúrulega í mannlegu samfélagi.[11]

 
Kaupskaparstefna er kenning um utanríkisviðskipti sem gengur út á að hámarka vöruskiptajöfnuð.

Á miðöldum var kirkjan ríkjandi þjóðfélagsstofnun í Evrópu og hafði hún mikinn áhuga á réttlæti í viðskiptum, en til að mynda bannaði hún álagningu vaxta. Skólamennirnir rýndu í kenningu Aristótelesar um réttlæti í viðskiptum og skrifuðu talsvert um kenninguna. Albertus Magnus var sá fyrsti til að setja fram þá hugmynd að virði hagrænna gæða væri bundið í vinnunni sem færi í að framleiða gæðin, og setti hann þar með fram vinnuverðgildiskenninguna sem átti eftir að hafa mikil áhrif á framgang hagfræðinnar í skrifum manna á borð við David Ricardo og Karl Marx. Tómas frá Akvínó taldi að hagræn gæði hefðu náttúrulegt virði, en ólíkt Albertus Magnus taldi hann að verðið gæti sveiflast frá náttúrulegu virði sínu ef þarfir fólks fyrir gæðin breyttust. Skólamennirnir skrifuðu bæði um eftirspurnar- og framboðshliðar markaða, en ólíkt ríkjandi hagfræðikenningum nútímans litu þeir ekki á markaðsjafnvægi sem samspil þessara tveggja hliða.[12]

Kaupskapar- og búauðgisstefna

breyta

Kaupskaparstefna er kenningaskóli og efnahagsstefna sem naut vinsælda meðal Vestur-Evrópuþjóða frá sextándu öld og fram á þá átjándu. Í kaupskaparstefnunni fólst að þjóðir ættu að reyna að selja sem mest af vörum til útlanda og fá sem minnstar vörur til baka, en nota vöruskiptajöfnuðinn þess í stað í að safna gulli og öðrum auðmálmum. Talsverður áherslumunur var á milli landa, en almennt má segja að kaupskaparmenn hafi viljað gjörnýta alla framleiðsluþætti landsins, banna allan innflutning nema á millistigsvörum sem notaðar eru til framleiðslu á útflutningsvörum og banna útflutning á auðmálmum. Kaupskaparstefnan var hluti af vaxandi þjóðernisstefnu í V-Evrópu á þessu tímabili. Samkvæmt ríkjandi hagfræðikenningum nútímans er meirihlutinn af þeirri efnahagsstefnu sem fylgt var á tímum kaupskaparstefnunnar óæskilegur.[13]

Búauðgisstefna er efnahagskenning sem á rætur að rekja til Frakklands og lítur á hagkerfið sem hringrás sem drifin er áfram af náttúrunni. Búauðgismenn töldu að allur virðisauki ætti sér stað í landbúnaði og að hann væri þannig grundvöllur allrar annarrar efnahagsstarfsemi. Þeir lögðu til breytingar á skattkerfi síns tíma með það að leiðarljósi að auka framleiðni í landbúnaði. Búauðgisstefnan er oft talin vera fyrsta heilsteypta kenningin um gangverk hagkerfisins, en líkt og kaupskaparstefnan er hún ekki í samræmi við hagfræðiþekkingu nútímans.[14]

 
Adam Smith var klassískur hagfræðingur og einn áhrifamesti hagfræðingur allra tíma.

Klassísk hagfræði

breyta
Sjá einnig: Adam Smith, Thomas Malthus og David Ricardo

Hagfræðin sem fræðigrein varð til á 18. öld. Richard Cantillon var með fyrstu mönnum til að skrifa um hagkerfið sem samverkandi heild og ásamt David Hume er hann talinn hafa verið með þeim fyrstu til að lýsa því sambandi peningamagns, veltuhraða og verðlags sem nú heitir peningamagnskenningin. Klassísk hagfræði er notað yfir ákveðinn hóp kenninga sem varð til á 18. og 19. öld. Meðal helstu kenninga sem taldar eru til klassísku hagfræðinnar eru peningamagnskenningin, kenningin um launasjóðinn, fólksfjöldakenning Malthusar og landrentukenningin.

Klassíska tímabilið í hagfræði er yfirleitt talið hefjast með útgáfu bókar Adams Smith Auðlegð þjóðanna árið 1776, en bókin er almennt talin eitt áhrifamesta hagfræðirit allra tíma. Meginkenning Smith var að ósamhæfðar ákvarðanir óháðra einstaklinga, sem hver um sig hugsar aðeins um eigin hag, sé besta leiðin til velferðar í samfélaginu öllu. Smith hafnaði þeirri kenningu kaupskaparstefnunnar að viðskipti einstaklinga eða þjóða feli í sér að einn græði og annar tapi og hélt því þvert á móti fram að allir græði af viðskiptum. Sem boðberi upplýsingarinnar taldi Smith að samfélagslega þróun mætti útskýra út frá náttúrulegum lögmálum sem giltu alltaf og almennt. Hann taldi í því samhengi að hinn frjálsi markaður væri náttúruleg skipan sem kæmist á að öðru jöfnu. Þá taldi hann að eiginhagsmunahyggja, einkaeignarréttur og verkaskipting væru drifkraftar hagvaxtar.[15]

Árið 1798 kom út ritið Ritgerð um lögmál sem stýra mannfjöldanum eftir Thomas Malthus, þar sem hann setti fram þá kenningu að fólksfjöldi vaxi með veldisvexti en að fæðuframleiðsla vaxi línulega og að það leiði til hungursneyðar nema hömlur séu settar á fólksfjölgunina. Malthus taldi að slíkar hömlur væru til staðar í formi hjónabanda, getnaðarvarna og almenns siðgæðis. Því kæmi ekki til hungursneyðar af völdum offjölgunar.[16] David Ricardo taldi að í landbúnaði væru til staðar svokallaðar „innri jaðar-“ og „ytri jaðar“ rentur sem rynnu til landeigenda þegar verð á korni hækkaði, og kenning hans um hlutfallslega yfirburði veitti aukinn rökstuðning fyrir þeirri skoðun Adams Smith að verkaskipting væri af hinu góða. Bæði Ricardo og Malthus eru þekktir fyrir ýmis önnur hugtök og kenningar, þar á meðal vinnuverðgildiskenningu Ricardos, járnlög um laun og jafngildiskenningu Ricardos.[17][18]

Ýmsir aðrir hagfræðingar eru taldir til klassíska tímabilsins. Jean-Baptiste Say er þekktastur fyrir lögmál Say sem segir að heildarframboð sé alltaf jafnt heildareftirspurn. Nassau Senior er þekktur fyrir vísindalega nálgun sína á hagfræðileg álitaefni, fyrir að gera fyrstur hagfræðinga grein fyrir áhrifum tækniframfara á framleiðni og fyrir að líta á vexti sem greiðslu fyrir notkun tíma. John Stuart Mill samræmdi klassíska hagfræði, útskýrði þróun jafnvægisverðs, lýsti tekjudreifingu samfélagsins og útskýrði hlutverk ríkisins í hagkerfinu. Margir klassískir hagfræðingar trúðu á kenningu um launasjóð, en árið 1869 setti Mill fram rökstuddar efasemdir um kenninguna og er það gjarna talið marka enda klassíska tímabilsins í hagfræði.[19]

Sósíalísk hagfræði og marxismi

breyta
 
Karl Marx var upphafsmaður marxisma og einn af upphafsmönnum kommúnisma.

Um aldamótin 1800 setti hinn franski Saint-Simon fram þá kenningu að framþróun þekkingarinnar myndi leiða til stjórnarhátta þar sem samfélaginu væri stjórnað af vísindaráði með það að markmiði að hámarka iðnframleiðslu. Pierre-Joseph Proudhon var á öndverðum meiði; hann er oft talinn hafa verið fyrsti anarkistinn og taldi hann að afnema bæri allt ríkisvald. Báðir voru þeir þó sammála um að hagsmunir einstaklinga í samfélaginu væru í grundvallaratriðum samþættir og að fólki bæri að vinna saman að sameiginlegum markmiðum.[20]

Karl Marx var ásamt samstarfsmanni sínum Friedrich Engels upphafsmaður marxismans og höfðu þeir gríðarleg áhrif á hagþróun víða hvar í heiminum í gegnum áhrif sín á þróun kommúnisma. Hagfræðikenning marxismans kemur hvað skýrast fram í bók Marx Auðmagnið sem kom út í hlutum árin 1867 og 1894. Kenningin er grundvölluð á þýskri söguspeki og gengur út á að framþróun mannlegs samfélags muni ná hápunkti í byltingu þar sem stétt fjármagnseigenda verði vikið frá völdum og stétt verkafólks öðlast yfirráð yfir öllu fjármagni. Samkvæmt marxisma eru samfélagslegar stofnanir á borð við trúarbrögð og stjórnvald grundvölluð á framleiðsluháttum, sér í lagi verkaskiptingu og einkaeignarrétti. Samkvæmt vinnuverðgildiskenningu Marx má rekja allt virði til vinnu verkamannsins; allur mismunur markaðsverðs framleiðslu og vinnulauna sé arðrán af hálfu fjármagnseigandans. Síaukin verkaskipting leiði til firringar sem hljóti að enda í byltingu.[21]

Sósíalískar hagfræðikenningar héldu áfram að gerjast á 20. öld. Oskar Lange og Abba Lerner lýstu sósíalísku og miðstýrðu hagkerfi þar sem ráðstjórn býr til staðgengilsmarkaði fyrir vöru og þjónustu. Í kerfinu væri ríkisfyrirtækjum fyrirskipað að jafna útsöluverð við jaðarkostnað og jafnframt að lágmarka meðalkostnað. Lange taldi að slíkt kerfi væri enn hagkvæmara en markaðsbúskapur; öll vandamál tengd einokun væru sjálfkrafa leyst.[22]

Nýklassísk hagfræði

breyta

Nýklassísk hagfræði er heilsteypt kenning um hagrænt atferli sem snýst um að einstaklingar hámarki nytjar og að fyrirtæki hámarki hagnað með því að jafna jaðarkostnað og jaðarábata. Ólíkt klassískri hagfræði, þar sem virði hluta fer eftir framleiðslukostnaði, er í nýklassískri hagfræði gert ráð fyrir að virði hluta sé huglægt og að markaðsverð hagrænna gæða fari eftir samspili framboðs og eftirspurnar. Jaðarframleiðni, jaðarnytjar, hagræn rökvísi, fórnarkostnaður og Pareto-hagkvæmni eru önnur mikilvæg hugtök í nýklassískri hagfræði.[23][24]

Nýklassísk hagfræði varð til í mörgum skrefum á nítjándu öld og í byrjun þeirrar tuttugustu. Árið 1838 birti franski stærðfræðingurinn A.A. Cournot líkan sitt um hagnaðarhámörkun einkasala og nýtur það viðurkenningar enn þann dag í dag. Verkfræðingurinn Jules Dupuit var sá fyrsti til að lýsa eftirspurnarferli sem byggir á jaðarnytjum og hafði framsæknar hugmyndir um kostnaðar- og ábatagreiningu. Á seinni hluta átjándu aldar átti sér stað svokölluð „jaðarbylting” þegar ýmsir hagfræðingar komu á svipuðum tíma fram með kenningar um jöfnun jaðarnytja og jaðarkostnaðar. Carl Menger og W.S. Jevons lýstu því hvernig einstaklingar ráðstafa tekjum sínum þannig að jaðarnyt allra gæða séu jöfn. Jevons var jafnframt sá fyrsti til að aðgreina með skýrum hætti á milli jaðarnytja og heildarnytja. Léon Walras bjó til fyrsta heildarjafnvægislíkanið í hagfræði og Eugen Böhm-Bawerk setti fram öndvegiskenningar um vexti og fjármagn.[25]

 
Joan Robinson endurbætti nýklassískar kenningar um einokun og var með helstu fylgismönnum John Maynard Keynes.

Í bók sinni Principles of Economics sem kom út árið 1890 samræmdi hinn enski hagfræðingur Alfred Marshall nýklassískar kenningar um samkeppni og markaðsjafnvægi. Líkan hans um samspil framboðs og eftirspurnar til langs og skamms tíma, um kostnaðarferla fyrirtækja og um jafnvægi í fullkominni samkeppni eru með þekktustu og mest notuðu niðurstöðum í hagfræði. Marshall og nemandi hans A.C. Pigou lýstu grundvallarhugtökum í velferðarhagfræði, þ.e. neytenda- og framleiðendaábata og ytri áhrifum.[26] Á þriðja og fjórða áratug 20. aldar tóku ýmsir hagfræðingar þátt í að bæta fyrri kenningar um markaði með því að lýsa markaðsformum sem höfðu eiginleika bæði einokunar og samkeppni. Edward H. Chamberlin lýsti líkaninu um einkasölusamkeppni og Joan Robinson endurbætti fyrri kenningar Cournot og Dupuit um einkasölu og verðmismunun.[27]

Þróun þjóðhagfræði á 20. öld

breyta
Sjá einnig: John Maynard Keynes og Milton Friedman

Þjóðhagfræði varð til sem sérstök undirgrein hagfræði í byrjun 20. aldar. Irving Fisher endurbætti peningamagnskenninguna og hinn sænski Knut Wicksell skrifaði um samspil heildarframboðs og heildareftirspurnar, auk þess að lýsa ferlinu þar sem aukning peningamagns veldur aukinni eftirspurn eftir vöru og þjónustu. Á fjórða áratug 20. aldar olli John Maynard Keynes straumhvörfum í hagfræði með bók sinni Almenna kenningin um atvinnu, vexti og peninga. Bókinni var ætlað að útskýra hvers vegna kreppan mikla hefði orðið jafn djúp og raunin var og hvernig þjóðir heims ættu að bregðast við henni. Keynes hafnaði hinu svokallaða lögmáli Say sem segir að verðlag muni ávallt jafna heildarframboð og heildareftirspurn, og taldi að jafnvel þó hagkerfið væri í jafnvægi gæti viðhaldist töluvert atvinnuleysi vegna þess að nafnlaun væru tregbreytanleg. Meginniðurstaða Keynes var að hið frjálsa markaðshagkerfi gæti ekki komist úr kreppunni á eigin spýtur; ríkisinngrip væru nauðsynleg. Meðal mikilvægra hugtaka úr smiðju Keynes eru fjárfestingarmargfaldari, jaðarneysluhneigð og lausafjárgildra. Fylgismenn Keynes þróuðu kenningar hans í ýmsar áttir. John Hicks og Albert Hansen þróuðu IS-LM líkanið sem lýsir samspili peningamarkaðar og vörumarkaðar. Þar er meiri áhersla lögð á peningamálastefnu en í upprunalegum kenningum Keynes. Póstkeynesismi hélt hins vegar fast í þá skoðun Keynes að ríkisfjármál væru mikilvægasta tæki hagstjórnar.[28]

 
Milton Friedman var einn áhrifamesti hagfræðingur 20. aldarinnar.

Árið 1956 setti Chicago-hagfræðingurinn Milton Friedman fram endurbætta útgáfu af peningamagnsjöfnunni þar sem áhersla er lögð á langtímavæntingar um tekjur og verðlag og árið 1968 setti hann fram kenningu um lóðrétta Philipskúrfu. Niðurstaða Friedman var að aukning peningamagns muni ekki leiða til aukningar framleiðslu til langs tíma heldur muni einungis valda varanlegri hækkun verðbólgu. Kenningar hans nutu vaxandi viðurkenningar á sjöunda og áttunda áratug 20. aldar þegar atvinnuleysi og verðbólga jukust samtímis víða á Vesturlöndum. Ásamt öðrum fylgismönnum frjálshyggju lagði Friedman til að ríkið minnki afskipti sín af hagkerfinu til þess að stuðla að aukinni skilvirkni.[29] Nútíma þjóðhagfræði byggir bæði á keynesískum og nýklassískum grunni. Þjóðhagfræðingar reyna að spá fyrir um þróun efnahagsstærða með flóknum tölfræðilegum líkönum sem byggja meðal annars á forsendu um ræðar vændir.[30]

Aðrir straumar á 20. öld

breyta
Sjá einnig: Austurrísku hagfræðingarnir

Austurrísk hagfræði er kenningarskóli sem véfengir aðferðafræði hefðbundinnar, nýklassískrar hagfræði. Austurrísk hagfræði leggur áherslu á sjónarhorn einstaklingsins frekar en hópsins og hafnar stærðfræðilegum og raunvísindalegum nálgunum á hagfræðileg álitaefni. Austurrískir hagfræðingar telja ekki einungis að virði sé huglægt heldur sé kostnaður það einnig. Fórnarkostnaður, sem er mikilvægt hugtak í nútímahagfræði, á þannig rætur sínar að rekja til austurríska hagfræðingsins Friedrich von Wieser. Ludwig von Mises fjallaði um peningamál frá sjónarhóli einstaklingsins og um áhrif breytinga í peningaframboði á eftirspurn. F.A. Hayek bætti ofan á kenningar Mises og lýsti austurrísku kenningunni um hagsveiflur, sem byggist á breytingum í samsetningu heildarframleiðslu. Ásamt Hayek var Joseph Schumpeter brautryðjandi í að lýsa því hvernig verðkerfið miðlar upplýsingum um hagkerfið. Schumpeter lýsti jafnframt því hlutverki samkeppnismarkaða að vera vettvangur frumkvöðla til þess að stuðla að framþróun samfélagsins.[31]

Stofnanahagfræði er í senn undirgrein hagfræði og sjálfstæður kenningaskóli. Stofnanahagfræði á rætur sínar að rekja til söguhyggju í hagfræði sem naut nokkurra vinsælda á 19. öld, sér í lagi í Þýskalandi. Báðar þessar nálganir leitast við að skilja hvernig þjóðfélagsstofnanir hafa áhrif á hagrænt atferli einstaklinga. Hinn bandaríski hagfræðingur Thorstein Veblen, sem skrifaði í byrjun 20. aldar, lýsti því hvernig kapítalískir framleiðsluhættir ýttu undir neysluhyggju og spáði vaxandi ítökum viðskiptalífsins í stjórnmálum.[32] Gunnar Myrdal og Gary Becker skrifuðu um hagrænar ástæður og afleiðingar kynþáttamismununar í Bandaríkjunum, og Becker fjallaði jafnframt um hagræna eiginleika fjölskyldunnar sem stofnunar.[33] Elinor Ostrom benti á að skilvirkar stofnanir geti með hagkvæmum hætti séð um ráðstöfun sameiginlegra náttúruauðlinda, þvert á spár nýklassískrar hagfræði. [34]

Helstu kenningar

breyta

Aðferðafræði hagfræðinnar hefur verið beitt við rannsóknir á mörgum sviðum mannlegs atferlis. Þróuðustu kenningar hagfræðinnar eru almenns eðlis og gera tilraun til að útskýra viðskipti og markaðshegðun í stóru og smáu samhengi. Slíkum kenningum er gjarna beitt til að útskýra sértækari fyrirbæri, til dæmis fjármálamarkaði og vinnumarkaði. Ríkjandi kenningar hagfræðinnar eru misumdeildar. Í mörgum tilfellum hafa fleiri en ein hagfræðikenning verið þróuð til að útskýra sama fyrirbærið; sósíalísk hagfræði, stofnanahagfræði og austurrísk hagfræði eru dæmi um kenningalegar nálganir sem komast oft að gagnstæðri niðurstöðu við meginstraumskenningar.

Framleiðslujaðar og ábatinn af viðskiptum

breyta
 
Hugmyndin um framleiðslujaðar er gjarna útskýrð með tveimur hagrænum gæðum. Tækniframfarir útvíkka jaðarinn.

Ein helsta forsenda hagfræðinnar er að flest gæði eru af skornum skammti. Framleiðsluþættir, sem notaðir eru til að framleiða vörur og þjónustu, eru þar engin undantekning. Margir framleiðsluþættir eru notaðir í hagkerfum, þar á meðal vélar, landsvæði, byggingar og síðast en ekki síst vinnuafl. Staðkvæmd er hugtak sem lýsir því hversu vel hagræn gæði geta gagnast í staðinn fyrir hvort annað. Til að nefna dæmi þá geta sérhæfðar vélar í fataframleiðslu ekki notast til að framleiða mat, en vinnuafl í fataframleiðslu getur með réttri þjálfun einnig framleitt mat. Framleiðslujaðar lýsir möguleikum hagkerfisins til að framleiða vörur og þjónustu að því gefnu að allir framleiðsluþættir séu í notkun. Vegna þess að ekki er fullkomin staðkvæmd á milli framleiðsluþátta er framleiðslujaðarinn boginn, eða hvelfdur. Tækniframfarir sem auka hagkvæmni og minnka auðlindanotkun útvíkka framleiðslujaðarinn.[35]

 
Í hagkvæmustu stöðu er jaðarskiptahlutfall jafnt jaðarnotahlutfalli.
 
Íslendingar hafa hlutfallslega yfirburði í sjávarútvegi og flytja út sjávarafurðir í skiptum fyrir önnur gæði.

Samfélaglegt velferðarfall er stærðfræðileg framsetning á samanlögðum valröðunum allra einstaklinga í samfélaginu í neyslu hagrænna gæða. Samfélagsleg jafnnotalína lýsir öllum mögulegum samsetningum hagrænna gæða sem veita samfélaginu sömu velferð þegar þeirra er neytt. Rétt eins og með framleiðsluþætti má ætla að það sé takmörkuð staðkvæmd í neyslu hagrænna gæða; ætla má að samfélagið vilji frekar neyta einhverrar samblöndu af mat og fötum heldur en að einungis sé neytt matar eða öfugt.

Staðkvæmdarhlutfall tveggja hagrænna gæða lýsir því hversu mikið af einni tegund gæða þarf að fórna í skiptum fyrir aðra tegund gæða. Staðkvæmdarhlutfall er bæði skilgreint fyrir framleiðslu og neyslu. Hagkvæmasta samsetning framleiðslu og neyslu einkennist af því að staðkvæmdarhlutfall í framleiðslu er jafnt staðkvæmdarhlutfalli í neyslu. Þetta hlutfall er skilgreint sem verðhlutfall hinna hagrænu gæða.[36] Öll samfélög - hvort heldur heimili, landsvæði eða þjóðir - geta hagnast af viðskiptum við hvort annað. Þetta er vegna þess að verðhlutföll innan samfélaga eru sjaldnast hin sömu. Vegna mismunandi verðhlutfalla hafa samfélög og einstaklingar hlutfallslega yfirburði í framleiðslu mismunandi gæða. Þetta gerir það að verkum að með sérhæfingu í framleiðslu og viðskiptum sín á milli geta samfélög og einstaklingar notið neyslusamsetningar sem er utan við framleiðslujaðar þeirra.[37]

Kenningin um hlutfallslega yfirburði hefur notið almennrar viðurkenningar síðan á 19. öld, en þó að viðskipti auki alltaf velferð samfélaga í heild sinni getur verið að frívæðing viðskipta komi illa við suma einstaklinga innan hagkerfisins. Þetta er gjarnan raunin í atvinnugreinum þar sem verð lækka við frívæðingu viðskipta. Hagrænar ákvarðanir eru kallaðar Pareto-bætandi ef þær auka velferð að minnsta kosti eins aðila í hagkerfinu án þess að skaða velferð neins annars. Aðstæður eru kallaðar Pareto-hagkvæmar ef ekki er hægt að auka velferð neins í hagkerfinu án þess að skaða velferð einhvers annars.[38]

Markaðir

breyta
Sjá einnig: Markaður
 
Samspil framboðs og eftirspurnar ræður markaðsverði. Á þessari mynd er framboðið teygnara en eftirspurnin.

Markaður er félagsleg og hagræn stofnun þar sem kaupendur og seljendur eiga í viðskiptum með tiltekna vöru, þjónustu eða framleiðsluþátt. Markaðir eru almennt taldir þjóna lykilhlutverki í samhæfingu framleiðslu og neyslu í hagkerfinu en stundum koma markaðsbrestir í veg fyrir að markaðir skili skilvirkri niðurstöðu. Við slíkar aðstæður geta ríkisinngrip leitt til hagkvæmari niðurstöðu en ella.[39] Á sumum mörkuðum, eins og mörkuðum með stóra gjaldmiðla, eru þúsundir eða milljónir aðila og hátækni tryggir hagkvæmni, hraða og öryggi í viðskiptum. Á öðrum mörkuðum, eins og skiptibókamarkaði í litlu bæjarfélagi, eru ef til vill fáir aðilar sem eiga í viðskiptum og hraðinn lítill. Þá er mismunandi hvort vörur séu einsleitar eða misleitar. Fasteignir eru til að mynda mismunandi og verð þeirra þar af leiðandi einnig. Hrávörur eins og olía eru hins vegar einsleitar og einungis eitt verð ríkjandi á markaðnum. Rannsóknir á einstökum mörkuðum eru á verksviði rekstrarhagfræði.

Framboð, eftirspurn og verð

breyta

Framboð er hugtak sem lýsir sambandinu á milli verðs og framboðins magns, sem er það magn sem seljendur á markaði vilja selja. Seljendur eru einungis tilbúnir til þess að selja vöruna, þjónustuna eða framleiðsluþáttinn sem um ræðir ef markaðsverðið er hærra en sem samsvarar framleiðslukostnaði. Framleiðslukostnaður felur í sér bæði raunveruleg útgjöld og fórnarkostnað. Almennt gildir að hærra markaðsverð leiðir til hærra framboðins magns. Helstu þættir sem hafa áhrif á framboð eru framleiðslukostnaður, tæknistig, stærð markaðar og væntingar.[40]

Eftirspurn lýsir sambandinu á milli verðs og eftirspurðs magns, sem er það magn sem kaupendur á markaði vilja kaupa. Kaupendur eru einungis tilbúnir til þess að eiga í viðskiptum ef markaðsverðið er lægra en sem samsvarar kaupvilja. Ef um vöru eða þjónustu er að ræða fer kaupvilji eftir þeim notum sem fást, en ef um framleiðsluþátt er að ræða fer kaupvilji eftir jaðarframleiðni framleiðsluþáttarins. Helstu þættir sem hafa áhrif á eftirspurn eru tekjur kaupenda, smekkur þeirra, stærð markaðarins, væntingar og verð stoð- og staðkvæmdarvara.[41]

Samspil framboðs og eftirspurnar ræður markaðsverði. Teygni er hugtak sem lýsir því hversu næmt framboðið eða eftirspurt magn er fyrir breytingum í markaðsverði. Framboð og eftirspurn eru teygin ef lítil breyting í markaðsverði leiðir til mikillar breytingar í framboðnu eða eftirspurðu magni. Alla jafna er eftirspurn teygnari eftir því sem úrval staðkvæmdarvara er meira, eftir því sem um meiri lúxusvöru er að ræða og eftir því sem litið er til lengri tíma. Framboð er teygið ef framleiðsluþættir geta verið notaðir í mismunandi framleiðslu og ef litið er til langs frekar en skamms tíma. Ef framboð eða eftirspurn eru teygin koma breytingar á framboði og eftirspurn frekar fram í magnbreytingum en verðbreytingum, en öfugt ef framboð eða eftirspurn eru óteygin. Neytendaábati lýsir muninum á kaupvilja neytenda og markaðsverði. Framleiðendaábati lýsir muninum á framleiðslukostnaði og markaðsverði, það er hagrænum hagnaði seljenda.[42]

Fullkomin samkeppni

breyta
 
Stórir verðbréfamarkaðir komast nærri því að uppfylla skilyrði fullkominnar samkeppni.

Fullkomin samkeppni er hagfræðilegt líkan sem lýsir sambandi framboðs, eftirspurnar og framleiðslukostnaðar á tilteknum markaði til langs tíma. Í líkaninu eru nokkrar forsendur gefnar. Gert er ráð fyrir að öll fyrirtæki hafi það að markmiði að hámarka hagnað. Gert er ráð fyrir að mjög margir kaupendur og seljendur séu á markaðnum þannig að enginn aðili hafi markaðsvald. Gert er ráð fyrir að varan sem gangi kaupum og sölum sé einsleit og að engar aðgangshömlur séu á markaðnum. Þá er gert ráð fyrir að allir aðilar hafi fullkomnar upplýsingar og að viðskiptakostnaður sé enginn.[43] Að þessum forsendum gefnum má sýna fram á að til langs tíma er framboðsferillinn flatur, eða fullkomlega teyginn, við það verð sem samsvarar lágmarki langtímameðalkostnaðar. Í langtímajafnvægi er hagrænn hagnaður allra fyrirtækja enginn.[44]

Þó líkanið um fullkomna samkeppni sé mikið notað í fræðilegri umfjöllun, er það ekki mjög gagnlegt þegar raunverulegir markaðir eru skoðaðir. Forsendur líkansins bregðast nær alltaf; vörur eru oft misleitar, ytri áhrif eru stundum til staðar, oftast hafa einhverjir aðilar markaðsvald og viðskipta- og upplýsingakostnaður er nær alltaf til staðar. Þeir markaðir sem komast næst líkaninu um fullkomna samkeppni eru hrávörumarkaðir og gjaldmiðlamarkaðir.[45]

Einokun og fákeppni

breyta
Sjá einnig: Markaðsvald
 
Á Íslandi er einkasala í heildsölu með mjólk, en fákeppni í smásölu með skyr.

Einokun er þegar einungis einn seljandi er á markaði. Það getur gerst ef mikilvægt hráefni er í eigu einungis eins aðila, ef ríkisvaldið veitir einkasöluleyfi eða vegna náttúrulegrar einokunar. Einkasali getur stjórnað markaðsverðinu og velur það með það að markmiði að hámarka eigin hagnað. Einokun hefur í för með sér allratap sem hægt er að draga úr með verðmismunun eða með því að beita samkeppnislöggjöf. Einkeypi er þegar einungis er einn kaupandi á markaði; það hefur svipaðar afleiðingar og einokun.[46]

Fákeppni er þegar fáir seljendur eru á markaði. Það hefur það í för með sér að allir seljendur hafa hvorn annan í huga þegar þeir taka ákvörðun um verðlagningu eða sölumagn. Verðsamráð eru algeng á slíkum mörkuðum en krefjast þess að þátttakendur geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart hvor öðrum. Cournot-líkanið um fákeppni spáir því að verð á fákeppnismarkaði sé þeim mun hærra sem seljendur eru færri. Bertrand-líkanið spáir því að verð á fákeppnismarkaði sé eins og í fullkominni samkeppni.[47][48]

Einkasölusamkeppni er þegar margir seljendur eru á markaði, en varan sem seld er er misleit. Þetta er algengt markaðsform og á við um flestar neysluvörur og t.d. veitingastaði. Langtímajafnvægi í einkasölusamkeppni svipar til jafnvægis í fullkominni samkeppni, nema að fyrirtæki geta verið rekin með hagrænum hagnaði og þau framleiða minna magn en það sem lágmarkar meðalkostnað. Auglýsingar má útskýra hagfræðilega sem tilraun til að gera vörur misleitar og þannig auka markaðsvald.[49]

Markaðsbrestir

breyta
 
Flugeldasýningar eru dæmi um samgæði. Hægt er að njóta flugelda án þess að þurfa að borga fyrir þá með beinum hætti.

Markaðsbrestir eru frávik frá forsendum fullkominnar samkeppni sem valda allratapi. Markaðsvald, þegar einokun eða fákeppni er á markaðnum, er dæmi um markaðsbrest. Önnur dæmi um markaðsbresti eru ytri áhrif, óútilokanleiki og ófullkomnar eða ósamhverfar upplýsingar. Oft má bæta úr markaðsbrestum með ríkisinngripum, en ágæti slíkra ríkisinngripa eru þó meðal helstu álitamálanna í nútíma hagfræði.

Ytri áhrif verða þegar hagrænt atferli hefur í för með sér ábata eða kostnað fyrir þriðja aðila án þess að sá aðili hafi valið að hljóta ábatann eða kostnaðinn. Þau eru ýmist jákvæð eða neikvæð eftir því hvort um er að ræða ábata eða kostnað fyrir þriðja aðilann. Ytri áhrif verða vegna þess að viðskiptakostnaður og/eða skortur á vel skilgreindum eignarrétti veldur því að þeir sem valda ytri áhrifunum og þeir sem verða fyrir þeim geta ekki samið sín á milli um lausn. Í slíkum tilfellum er oft hægt að auka samfélagslega velferð með ríkisinngripum, svo sem Pigou-sköttum eða kvótakerfum.[50]

Óútilokanleg gæði eru þau þar sem ómögulegt er að koma í veg fyrir að einstaklingar njóti gæðanna. Samgæði og náttúrulegar auðlindir eru tveir flokkar óútilokanlegra gæða. Almennt er ómögulegt að krefjast endurgjalds fyrir neyslu óútilokanlegra gæða nema til komi einhvers konar ríkisvald. Án ríkisvalds er of lítið eða ekkert veitt af samgæðum og of mikið notað af náttúrulegum auðlindum.[51]

Ófullkomnar upplýsingar eru þar sem aðilar í viðskiptum hafa lélegar upplýsingar um markaðinn og hefur það í för með sér leitarkostnað. Ósamhverfar upplýsingar eru þar sem aðilar í viðskiptum hafa mismiklar upplýsingar um það sem átt er í viðskiptum með. Hrakval er þegar upplýsingar eru ósamhverfar áður en viðskipti eiga sér stað og veldur því að einungis myndast markaður með gallagripi eða að einungis er átt í kostnaðarsömum viðskiptum. Freistnivandi er þegar upplýsingar eru ósamhverfar eftir að viðskipti eiga sér stað og er algengt vandamál á tryggingamörkuðum. Markaðsaðilar reyna að leysa þessi vandamál með aðskilnaði og merkjagjöf.[52]

Þjóðhagsmælingar og hagvöxtur

breyta
 
Þróun vergrar landsframleiðslu á mann á kaupmáttarkvarða á Íslandi og í heiminum öllum.

Hagkerfi eru samsett úr mörgum, samtengdum mörkuðum, svo sem vörumörkuðum, vinnumörkuðum og peningamörkuðum. Þjóðhagfræði er sú grein hagfræðinnar sem fæst við þróun heilla hagkerfa. Rannsóknir í þjóðhagfræði notast að miklu leyti við gögn sem safnað er úr öllu hagkerfinu, svokallaða þjóðhagsreikninga eða hagtölur. Verg landsframleiðsla er mælikvarði á efnahagsumsvif í hagkerfi og er ein mest notaða hagtalan. Hún er skilgreind sem summa einkaneyslu, fjárfestingar, samneyslu og útflutnings vöru og þjónustu að frádregnum innflutningi. Allir þessir hlutar vergrar landsframleiðslu hafa vægi í sjálfu sér og er grannt fylgst með þróun þeirra milli mánaða og ára. Meðal annarra mikilvægra hagtalna eru verðbólga, atvinnuleysi, viðskiptajöfnuður, jöfnuður þáttatekna og sparnaðarhlutfall. Þar að auki eru væntingavísitölur og kennitölur úr einstökum atvinnugreinum talsvert notaðar til að spá fyrir um hagþróun. Á Íslandi er hagtölum safnað saman af ýmsum aðilum, aðallega Hagstofu Íslands og Seðlabanka Íslands. Talsverður fjöldi hagtalna er aðgengilegur á vefsíðum þessara aðila.

Gríðarlegur munur er á vergri landsframleiðslu á mann milli landa. Þannig er verg landsframleiðsla á mann á kaupmáttarkvarða um þrjú hundruð sinnum hærri í Katar heldur en Austur-Kongó.[53] Sterk fylgni er á milli vergrar landsframleiðslu á mann og annarra mælikvarða á lífskjör, svo sem lífslíkna, ungbarnadauða, menntunarstigs, stöðugleika í stjórnarfari, frelsis í viðskiptum og hamingju. Þessi fylgni er oftast túlkuð sem tvíhliða orsakasamband; verg landsframleiðsla hefur áhrif á þessa þætti, en ýmsir þættir í samfélaginu hafa jafnframt jákvæð áhrif á verga landsframleiðslu.[54][55]

Hagvöxtur er vöxtur vergrar landsframleiðslu milli ára að teknu tilliti til verðbreytinga. Samkvæmt ytri hagvaxtarlíkönum ákvarðast hagvöxtur til langs tíma eingöngu af fólksfjölgun og tæknibreytingum. Slíkar kenningar spá því að lífskjör í fátækum og ríkum löndum jafnist út þegar til langs tíma er litið, en raungögn benda ekki eindregið til þess að það sé að gerast. Samkvæmt innri hagvaxtarlíkönum stendur hagvöxtur í jákvæðu sambandi við sparnaðarhlutfall, tækniframfarir og aukna hagkvæmni. Slíkar kenningar benda til þess að stjórnvöld og þjóðir geti haft áhrif á hagvöxt til langs tíma með þeim ákvörðunum sem teknar eru í samfélaginu.[56][57] Í dag er talið að fjárfestingar í innviðum, fjármagnsstofni og mannauði, tækniframfarir, framleiðni, frelsi í viðskiptum, lág verðbólga og lítil spilling séu helstu aflvakar hagvaxtar. Umdeildara er hvaða áhrif fólksfjölgun og tekjujöfnuður hafa á hagvöxt.[58]

Verðbólga, atvinnuleysi og hagstjórn

breyta
 
Sveiflur í fjárfestingu, til að mynda í byggingariðnaði, eru mikilvægur þáttur hagsveiflunnar og hafa mikil áhrif á atvinnuleysi.

Hagsveiflur eru skammtímasveiflur í efnahagsumsvifum þar sem landsframleiðsla og atvinnuleysi eru frábrugðin jafnvægisgildum sínum. Í uppsveiflum er hagvöxtur meiri en hann er að jafnaði og atvinnuleysið minna, en í niðursveiflum er þessu öfugt háttað. Meðal líkana sem notuð eru til að útskýra hagsveiflur eru IS-LM líkanið og líkanið um heildareftirspurn og heildarframboð. Í IS-LM líkaninu er lögð áhersla á vaxtastig og peningastefnu hins opinbera. Samkvæmt því ræðst frávik vergrar landsframleiðslu frá jafnvægi af samspili peningamarkaðar og markaða með vöru og þjónustu. Í líkaninu um heildareftirspurn og heildarframboð er gerður greinarmunur á eftirspurnarskellum, sem orsakast af breyttum væntingum eða peningastefnu, og framboðsskellum, sem orsakast af tæknibreytingum, breytingum á verði framleiðsluþátta eða t.d. uppskerubrestum og aflabrestum. Í eftirspurnarskellum er jákvætt samband á milli breytinga í verðbólgu og landsframleiðslu, en í framboðsskellum er sambandið öfugt.[59][60]

Í keynesískri þjóðhagfræði, sem liggur til grundvallar bæði IS-LM líkaninu og líkaninu um heildareftirspurn og heildarframboð, er gert ráð fyrir því að verðlag og laun séu tregbreytanleg til skamms tíma. Jafnframt hafi auknar tekjur í hagkerfinu margfaldaraáhrif. Samkvæmt þessu geta ríki og seðlabanki aukið framleiðslustig í hagkerfinu með því að lækka stýrivexti, auka ríkisútgjöld eða lækka skatta. Hagfræðingar nú á dögum telja almennt að orsakasamhengið á milli ríkisinngripa og framleiðslustigs sé flóknara en þetta, og sér í lagi að væntingar skipti miklu máli.[61] Philipskúrfan er sú kenning að verðbólga og atvinnuleysi á hverjum tíma standi í öfugu sambandi við hvort annað. Nú til dags er almennt talið að þessi kenning standist til skamms tíma, en að til langs tíma ráðist verðbólga af vexti peningamagns og atvinnuleysi af ýmsum kerfislægum þáttum á vinnumarkaði, svo sem stærð verkalýðsfélaga og umfangi atvinnuleysistrygginga.[62][63]

Hagstjórn er tilraun af hálfu hins opinbera til að hafa áhrif á framleiðslustig í hagkerfi. Umdeilt er hvort slíkar tilraunir séu af hinu góða. Þau rök sem oftast eru talin virkri hagstjórn til tekna eru að djúpar hagsveiflur séu slæmar fyrir vellíðan og lífsgæði alls almennings, þær orsakist oft af ytri þáttum svo sem væntingum og að hægt sé að bregðast við þeim með réttum aðgerðum. Þeir sem andvígir eru virkri hagstjórn telja að hagsveiflur orsakist oft af eðlilegri aðlögun í hagkerfinu sem skaðlegt sé að hafa áhrif á. Einnig er bent á að hagstjórnaraðgerðir, svo sem lækkun stýrivaxta, hafi oft ekki áhrif fyrr en mörgum mánuðum eftir að ráðist er í þær. Því geti hagstjórn ýkt sveiflur frekar en dregið úr þeim. Sjálfvirkir sveiflujafnarar eru hagstjórnaraðgerðir sem krefjast ekki ákvarðanatöku og virka samstundis, en ekki með töf. Vel hönnuð skattkerfi og atvinnuleysistryggingar eru dæmi um slíka sveiflujafnara.[64][65]

Alþjóðaviðskipti

breyta
 
McDonalds-veitingastaður í Marokkó. Hnattvæðing er bæði orsök og afleiðing aukinna alþjóðaviðskipta á undanförnum áratugum.

Í opnum hagkerfum er átt í viðskiptum við önnur hagkerfi með vörur, þjónustu og fjármagn. Viðskiptajöfnuður lýsir mismuni útflutnings og innflutnings á hverjum tíma ásamt jöfnuði þáttatekna, sem eru launa- og vaxtatekjur erlendra aðila innan hagkerfisins. Fjármagnsjöfnuður er fjárflæði erlendra eigna og skulda.[66] Ef innflutningur er meiri en útflutningur er viðskiptajöfnuður neikvæður, sem þýðir að hagkerfið í heild sinni tekur lán til að fjármagna fjárfestingar eða neyslu. Ef útflutningur er meiri en innflutningur eru hinar aukalegu tekjur notaðar til að fjárfesta erlendis. Þannig geta þjóðir jafnað út sveiflur í neyslu á milli tíma með því ýmist að taka lán eða fjárfesta í útlöndum. Miklar sviptingar í innstreymi og útstreymi fjármagns geta þó einnig leitt til ýktari sveiflna en ella.

Þjóðir heims nota mismunandi gjaldmiðla. Verð gjaldmiðils í samanburði við aðra gjaldmiðla er kallað nafngengi, en verð vöru, þjónustu og framleiðsluþátta í samanburði við önnur lönd er kallað raungengi. Lágt raungengi þýðir að innlendar vörur eru ódýrar miðað við erlendar. Ákveðið samband er á milli raungengis og viðskiptajöfnuðar; ef raungengi er hátt er innflutningur vöru, fjármagns og þjónustu iðulega meiri en útflutningur, en þessu er öfugt háttað ef raungengi er lágt. Hollenska veikin er ákveðin tegund efnahagsörðugleika þegar mikil auðlindagnótt veldur verðbólgu og háu raungengi. Lönd hafa ýmist flotgengi eða fastgengi. Í flotgengisfyrirkomulagi ræðst verð gjaldmiðils af viðskiptum á frjálsum markaði, en í fastgengisfyrirkomulagi deila lönd gjaldmiðli eða binda verð gjaldmiðla sinna við aðra gjaldmiðla. Samkvæmt kenningunni um hagkvæm myntsvæði er æskilegt fyrir lönd að nota sama gjaldmiðil ef hagkerfi þeirra sveiflast í takt og ef vinnuafl og fjármagn geta auðveldlega ferðast á milli landanna.[67][68]

Svið hagfræðinnar

breyta

Rekstrar- og þjóðhagfræði

breyta

Hagfræði er gjarna skipt í tvennt:

  • Rekstrarhagfræði rannsakar hegðun einstakra einstaklinga, fyrirtækja og markaða. Í rekstrarhagfræði er þannig litið á gangverk efnahagslífsins frá sjónarhóli einstakra aðila í hagkerfinu. Kenningar um hagnaðar- og nytjahámörkun, framboð og eftirspurn eru allar á sviði rekstarhagfræði.
  • Þjóðhagfræði rannsakar gangverk efnahagslífsins í heild sinni. Í þjóðhagfræði eru rannsakaðar þær efnahagslegu hræringar sem allir aðilar í hagkerfinu verða fyrir. Rannsóknir á hagtölum eins og hagvexti og verðbólgu eru á sviði þjóðhagfræði.

Vert er að hafa í huga að rekstrarhagfræði og þjóðhagfræði rannsaka sömu fyrirbærin, en frá mismunandi sjónarhorni. Þessi tvö svið hagfræðinnar hafa því mikla skörun. Skilningur á tilteknum fyrirbærum getur krafist bæði rekstrar- og þjóðhagfræðilegrar nálgunar.[69]

Undirgreinar

breyta

Í hagfræði eru ýmsar undirgreinar, sem hver um sig rannsakar tiltekna gerð hagræns atferlis frá rekstrar- og/eða þjóðhagfræðilegu sjónarhorni. Sumar af þeim greinum sem taldar eru upp hér að neðan eru þverfaglegar, þ.e. á mörkum hagfræði og annarra fræðigreina.

  • Alþjóðahagfræði fæst við eðli og hlutverk alþjóðaviðskipta.
  • Atferlishagfræði er á mörkum hagfræði og sálfræði og rannsakar það að hvaða leiti einstaklingar víkja frá forsendu nýklassískrar hagfræði um rökrétta hegðun og hvaða áhrif það hefur á efnahagsstarfsemi.
  • Fjármálahagfræði fæst við fjármálamarkaði og ýmislegt þeim tengt, svo sem afleiðuviðskipti og verðmat verðbréfa.
  • Hagfræði hins opinbera fæst annars vegar við það hvert hlutverk ríkisins í hagkerfinu er, til að mynda í framleiðslu almannagæða og dreifingu tekna, og hins vegar við það hvernig samfélög taka sameiginlegar ákvarðanir um hagræn málefni í gegnum ríkisvaldið.
  • Hagrannsóknir eru á mörkum hagfræði og tölfræði og fást við að rannsaka sambandið á milli hagfræðilegra breyta með aðferðum stærðfræðinnar.
  • Hagsaga er á mörkum hagfræði og sagnfræði og leitast við að útskýra sögulega þróun með tækjum hagfræðinnar.
  • Heilsuhagfræði fjallar um heilbrigðisþjónustu, framleiðslu og neyslu lyfja og þá hagrænu hvata sem einstaklingar standa frammi fyrir þegar kemur að því að hugsa um heilsuna.
  • Peningahagfræði og bankahagfræði fást við hlutverk og eðli peninga, fjármálastofnana, vaxta og fjármálastöðugleika.
  • Skipulagshagfræði fjallar um hagkvæmni í ráðstöfun landsvæðis, skipulag borga og umferðarmannvirkja og um það hvers vegna fyrirtæki og einstaklingar kjósa að festa rætur á tilteknum stöðum.
  • Stofnanahagfræði fæst við rannsóknir á stofnanalegu umhverfi hagkerfa, svo sem muninum á kapítalískum og kommúnískum hagkerfum.
  • Umhverfishagfræði fjallar um hagkvæma notkun náttúruauðlinda, um verðmat umhverfisins og um hlutverk hagrænna hvata í því að skapa og leysa umhverfisvandamál.
  • Vinnumarkaðshagfræði fæst við atvinnuleysi, lágmarkslaun, hagræna hvata einstaklinga á vinnumarkaði og við það hvernig atvinnurekendur, launþegar og verkalýðsfélög semja sín á milli um laun. Vinnumarkaðshagfræði fæst einnig við það hvernig heimili taka hagrænar ákvarðanir.
  • Þróunarhagfræði fæst við hagþróun í víðu samhengi og við það hvernig þróunarlönd geta iðnvæðst og dregið úr fátækt með sem bestum hætti.[70][71]

Tilvísanir

breyta
  1. Mill (1844): V.30
  2. Library of Economics and Liberty. What is economics?
  3. Library of Economics and Liberty. Is Economics All About Scarcity?
  4. Davis (2006)
  5. Haraldur Þórir Proppé Hugosson (2013)
  6. Boland (n.d.)
  7. Library of Economics and Liberty. Is Economics a Science?
  8. U.S. Department of Labor. What do economists do?
  9. Háskóli Íslands. Námsleiðir í hagfræðideild.
  10. Ekelund og Hébert (2007): 8-22
  11. Ekelund og Hébert (2007): 22-25
  12. Ekelund og Hébert (2007): 26-35
  13. Ekelund og Hébert (2007): 44-61
  14. Ekelund og Hébert (2007): 77-84
  15. Ekelund og Hébert (2007):101-122
  16. Hver var Thomas Malthus og fyrir hvað er hann helst þekktur? Vísindavefurinn.
  17. Ekelund og Hébert (2007):143-150
  18. Hvert var framlag Davids Ricardos til hagfræðinnar? Vísindavefurinn.
  19. Ekelund og Hébert (2007): 155-182
  20. Ekelund og Hébert (2007):220-223, 231-234
  21. Ekelund og Hébert (2007): 243-260
  22. Ekelund og Hébert (2007): 528
  23. E. Roy Weintraub. Neoclassical Economics.
  24. Moshe Adler. Neoclassical economics.
  25. Ekelund og Hébert (2007):267-335, 381-392
  26. Ekelund og Hébert (2007):344-376
  27. Ekelund og Hébert (2007): 452-468
  28. Ekelund og Hébert (2007): 471-499
  29. Ekelund og Hébert (2007): 500-508
  30. Milani, F. og Rajbhandari, A. Expectation formation and monetary DSGE models: beyond the rational expectations paradigm.
  31. Ekelund og Hébert (2007): 512-526
  32. Ekelund og Hébert (2007):425-439
  33. Ekelund og Hébert (2007): 599
  34. On the Commons. Elinor Ostrom's 8 Principles for Managing A Commmons [sic].
  35. Mankiw og Taylor (2008): 25-26
  36. Chen. Lecture 20. Production Possibilities Frontier and Output Market Efficiency
  37. Mankiw og Taylor (2008): 45-53
  38. Facchini, G. og Willman, G. Pareto gains from trade.
  39. Mankiw og Taylor (2008): 9-10
  40. Mankiw og Taylor (2008): 70-74
  41. Mankiw og Taylor (2008): 65-69
  42. Mankiw og Taylor (2008): 87-106, 142
  43. Mankiw og Taylor (2008): 268
  44. Mankiw og Taylor (2008): 278-280
  45. Tutor2you. The model of perfect competition.
  46. Mankiw og Taylor (2008): 287-313
  47. Mankiw og Taylor (2008): 319-342
  48. Judd (1996)
  49. Mankiw og Taylor (2008): 347-359
  50. Mankiw og Taylor (2008): 189-205
  51. Mankiw og Taylor (2008): 207-221
  52. Mankiw og Taylor (2008): 446-450
  53. World Bank. GDP per capita, PPP (constant 2011 international $).
  54. Perkins et al. (2013)
  55. Weil (2005)
  56. Perkins et al. (2013): 121-127
  57. Gottfries (2013): 112-145
  58. Weil (2005)
  59. Gottfries (2013): 209-229
  60. Mankiw og Taylor (2008): 681-699
  61. Már Guðmundsson (2004)
  62. Mankiw og Taylor (2008): 735-747
  63. Gottfries (2013): 151-202
  64. Mankiw og Taylor (2008): 727-729
  65. Gottfries (2013): 465-466
  66. Seðlabanki Íslands. Greiðslujöfnuður.
  67. Mankiw og Taylor (2008): 637-675
  68. Gottfries (2013): 323-436
  69. Mint.com. The difference between macro and microeconomics.
  70. Federal Reserve Bank of New York. Fields of study in economics.
  71. Dumas. Economics as a profession.

Heimildir

breyta

Sjá einnig

breyta


Tenglar

breyta

* „Hver er talinn vera mesti frumkvöðull hagfræðinnar fyrr og síðar?“. Vísindavefurinn.