David Ricardo
David Ricardo (18. apríl 1772 í London á Englandi — 11. september 1823) var breskur stjórnmálafræðingur og hagfræðingur af portúgölskum gyðingaættum. Honum er oft eignaður heiðurinn á því að hafa kerfisbundið hagfræðina en hann var ásamt þeim Thomasi Malthus og Adam Smith einn áhrifamesti hagfræðingur sögunnar. Ricardo var einnig viðskiptamaður, fjárfestir og auðmaður.
Jarðrenta
breytaRicardo kom fyrstur orðum að því sem að aðrir höfðu ef til vill veitt athygli að framboð á landi, það er jörðum héldist nokkurn veginn fast. Þess vegna væri það þannig að þegar eftirspurn á landi eykst þá hækkaði verðið og öfugt. Þar sem þessi verðbreyting verður án nokkurs vinnuframlags af hálfu eiganda jarðarinnar kallaði hann þetta jarðrentu. Seinna meir átti bandarískur hagfræðingur, Henry George, eftir að veita þessu athygli og leggja til að jarðir yrðu skattlagðar með sérstökum auðlindaskatti.
Hlutfallslegir yfirburðir
breytaEin helsta hugmynd Ricardos leit að hlutfallslegum yfirburðum (e. comparative advantage) í verkaskiptingu. Þá er átt við að sökum náttúrulegra orsakna, til dæmis gena eða misjafnri dreifingu náttúruauðlinda, hentar það mismunandi einstaklingum að sérhæfa sig á því sviði þar sem framleiðni þeirra er sem mest.
Þetta gæti virst sjálfgefið við fyrstu sín en á 18. öld var Ricardo fyrstur til að yfirfæra þessa hugmynd yfir á þjóðhagfræði. Til dæmis að þar sem Íslendingar hafa gjöful fiskimið og Spánverjar framleiða mikið af víni væri það hagkvæmt að Íslendingar slepptu framleiðslu víns og Spánverjar einbeittu sér frekar að því en að veiða og viðskipti þjóðanna á milli séu til þess að báðar hefðu gnótt af hvoru.
Vinnugildiskenningin
breytaDavid Ricardo er mikilvægasti höfundur vinnugildiskenningarinnar (e. Labour Theory of Value). Adam Smith hafði snert á þessu málefni en Ricardo var á margan hátt ósammála skilgreiningu Smith. Smith taldi að tími sem tæki til að framleiða vöru, og þar með laun, léku mikilvægt hlutverk við verðmyndun, en taldi þó aðra þætti mikilvægari. Ýmsir þættir aðrir sem ekki væri hægt að gera grein fyrir með efnahagslegum skýringum léku stórt hlutverk. Ricardo taldi hins vegar að verð mætti að endingu skýra nánast að fullu með magni þess vinnuafls sem farið hafði í að framleiða hana.
Ricardo segir verð myndast á tvo vegu. Annars vegar eftirspurn og hins vegar magni þess vinnuafls sem þarf til framleiðslu. Hann notaði málverk og fornar styttur sem dæmi um fyrra tilfellið. Verð þeirra ákvarðast af eftirspurn, þar sem ekki er hægt að endurframleiða meira af vörun, þ.e. framboðið eykst ekki og er algjörlega óteygið. Á slíkum mörkuðum ræðst verðið af eftirspurninni einni og sér. Ricardo fjallaði lítið um slíka markaði en einbeitti sér í staðinn að samkeppnismarkaði þar sem framboð á vörunni er teygjanlegt. Þar ákvarðist verð af kostnaði framleiðsluþátta, sem hann taldi að ákvarðaðist að endingu af framboði vinnuafls.
Ricardo setti þó aldrei fram fullmótaða vinnugildiskenningu. Hann viðurkenndi einnig að vinnan sé ekki eina verðgildi vöru og þess sem hefur áhrif á verðbreytingar, heldur væru breytingar á verði og framboði annarra efnahagslegra þátta mikilvægar. Bandaríski hagfræðingurinn George Stigler, hefur haldið því þó fram að kenning Ricardo sé "93% vinnugildiskenning", þ.e. að hann geri ráð fyrir að 93% af verðbreytingum vara sé hægt að útskýra með breytingum í magni þeirrar vinnu sem þarf til framleiðslunnar.
Kenningar Ricardo um hlutverk vinnu og launa við verðmyndun höfðu mikil áhrif á Karl Marx, sem fullkomnaði kenningar Ricardo. Í Auðmagninu gerði Marx vinnugildiskenninguna að einu hryggjarstykkja greiningar sinnar á kapítalismanum og arðráni verkalýðsins.