Thorstein Veblen
Thorstein Bunde Veblen (30. júlí 1857 – 3. ágúst 1929) var bandarískur hagfræðingur, félagsfræðingur[1], stofnanafræðingur[2] og heimspekingur.[1] Hann er þekktastur fyrir kenningu sína um makindastéttina (e. the leisure class) og varpaði hann einnig nýju ljósi á áhrif stórfyrirtækja á samfélagið. Hann gagnrýndi kenningar fyrrum hagfræðinga, þar með talið kenningum Marx og laissez-faire kenningu búauðgismannanna, auk þess sem hann gagnrýndi kapítalismann og sýnineyslu.[1] Veblen nálgaðist hagfræðina á annan hátt en áður hafði verið gert og lagði þannig grunn að stofnanahagfræði.[3] Þekktustu verk Veblen eru The Theory of the Leisure Class (1899) og The Theory of Business Enterprise (1904).[1]
Fæddur | 30. júlí 1857 |
---|---|
Wisconsin, Bandaríkin | |
Dáinn | 3. ágúst 1929 |
Kalífornía, Bandaríkin | |
Nám | Carleton College |
John Hopkins | |
Yale | |
Fræðigreinar | Hagfræði |
Heimspeki | |
Félagsfræði | |
Stofnanafræði |
Ævi og störf
breytaVeblen fæddist í Wisconsin, Bandaríkjunum. Foreldrar hans voru norskir innflytjendur og bjuggu þau saman í litlu samfélagi með öðrum Norðmönnum. Móðurmál Veblen er norska og lærði hann ekki ensku fyrr en hann hóf háskólanám, þá sautján ára.[1] Einnig vildi hann öðlast dýpri skilning á íslenskri menningu og dvaldi mörg sumur á eyju þar sem íslenskir innfytjendur höfðu sest að. Þar bjó hann hjá einni fjölskyldunni með því skilyrði að samskipti þeirra færu einungis fram á íslensku. Smám saman varð hann það fær í tungumálinu að hann þýddi Laxdælu sögu, Íslendingasögu frá tíundu öld, yfir á ensku.
Veblen var einkennilegur maður og skar sig úr hópnum með einkennandi útliti sínu og sérkennilega persónuleika. Hann var gríðarlega sérvitur, allt frá unga aldri; hann las mikið og hélt sig til hlés. Hann var einnig yfirburða gáfaður en lét þó sjaldan skoðanir sínar í ljós. Fræðimenn rökræddu því hvaða stefnu skoðanir hans aðhylltust, þó flestir telja að hann hafi hvað mest aðhyllst sósíalisma. Hann var ólíkur öðrum hagfræðingum; Adam Smith og Karl Marx, sem eru meðal áhrifamestu hagfræðinga sögunnar, tóku báðir virkan þátt í samfélaginu og höfðu skoðanir á mismunandi þáttum þess. Veblen, aftur á móti, tók ekki þátt í samfélaginu, hann virtist fjarlægur og áhugalaus.[1]
Veblen hóf akademíska feril sinn við Carleton College, en þar lærði hann hagfræði og heimspeki. Eftir útskriftina, árið 1880, fór hann í framhaldsnám í heimspeki við John Hopkins háskólann og fór í framhaldi þess í doktorsnám við Yale. Árið 1884 fékk hann dokstorsgráðu í heimspeki, með heimspeki sem aðalgrein og félagsfræði sem aukagrein. Eftir námið var hann staðráðinn í því að halda ferlinum áfram innan akademíunnar, en gekk það mjög illa hjá honum. Eftir að hafa verið atvinnulaus í sjö ár bauð James Laurence Laughlin honum starf við hagfræðideild Chicago háskólans. Laughlin var prófessor í hagfræði og deildarstjóri hagfræðideildarinnar, sem var þá nýstofnuð[1]. Þar starfaði Veblen þar til honum var sagt upp vegna lifnaðarhátta sinna, en hann var mjög kvensamur og skipti helgileiki hjónabands hann litlu máli. Árið 1906 hóf Veblen störf við hagfræðideild Stanford háskólans og kenndi hann þar í þrjú ár. Að lokum var honum einnig sagt upp þar af sömu ástæðum og áður.[3] Veblen gekk illa að halda athygli nemenda í fyrirlestrum, og var brottfall úr námskeiðum hans mikið. Einnig höfðu nemendur orð af því hve sérkennilegur hann var. Í framhaldi af því starfaði hann við háskólann í Missouri, við matvælastofnun Bandaríkjanna og í New School of Social Research í New York. Veblen hélst illa í starfi vegna óhefðbundinna skoðanna sinna, framkomu og kvensemi sinnar. Þegar að heilsu hans fór að hraka settist hann að í litlum kofa nálægt Stanford þar sem hann lést árið 1929.[1]
Helstu kenningar
breytaStofnanahagfræði (e. Institutional Economics)
breytaVeblen lagði grunninn að stofnanahagfræði með gagnrýni sinni á nýklassíska hagfræði.[4] Stofnanahagfræði er grein innan hagfræðinnar sem skoðar hvenrig efnahagslegar stofnanir (t.d. fyrirtæki, ríksstjórnir og reglur) móta hegðun einstaklinga og hópa. Hann tók mið af félagslegum, menningarlegum og sögulegum þáttum við að greina efnahagslífið, sem var ólkit hefðbundnum hagfræðikenningum. Veblen, og aðrir stofnanafræðingar, reyndu að útskýra hvernig smekkur, tækni og hagrænar ákvarðanir mótuðust af stofnunum, auk þess sem þeir reyndu að útskýra hvernig stofnanirnar mótuðu samfélagsskipan.[3] Veblen hafði mikla trú á því að hagkerfið væri að miklu leyti innbyggt í félagslegar stofnanir. Hann var þeirrar skoðunar að ekki ætti að aðskilja hagfræði og aðrar félagsgreinar, heldur ætti að skoða samband þessara greina nánar. Þessi hugmyndafræði gerði hagfræðingum kleift að skoða hagræn vandamál frá félagslegu- og menningarlegu sjónarhorni, en það hafði ekki verið gert áður.[1]
Makindastéttin (e. The Leisure Class)
breytaÍ bókinni The Theory of the Leisure Class frá árinu 1899 lagði Veblen fram hugtakið um Makindastéttina.[5] Með þessu hugtaki vísar Veblen til þeirra stéttar í samfélaginu sem nýtir auð sinn og vald ekki til framleiðslu eða vinnu, heldur til að stunda lífsstíl sem einkennist af iðjuleysi og sýnineyslu.[6] Hann taldi að makindastéttin lifði þannig á auðæfum sínum án þess að þurfa að taka þátt í raunverulegri framleiðslu eða skapa eigin verðmæti. Þessi stétt sýndi stöðu sína í samfélaginu með því að stunda iðjuleysi, klæðast fínni klæðum og eyða miklum peningum í munaðarvörur, allt til að undirstrika yfirburði sína og félagslega stöðu.[6]
Veblen gagnrýndi makindastéttina og leit á hana sem birtingarmynd sóunar í kapítalísku samfélagi, þar sem auðugir einstaklingar beindu fjármagni í óþarfa neyslu í stað þess að stuðla að raunverulegum framförum eða verðmætasköpun.[5] Hugmyndin um makindastéttina hefur haft mikil áhrif á umræðu um ójöfnuð, neysluhyggju og tengsl milli auðs og félagslegrar stöðu.[3]
Helstu verk
breytaThe Theory of the Leisure Class
breytaÁrið 1899 gaf Veblen út bókina The theory of the leisure class. Hún var umdeild og töldu margir hana vera árás á efri stéttir samfélagsins, eða makindastéttir eins og Veblen kallaði þær. Bókin fjallar um margvíslega þætti hvað varðar hagfræði og mannlega hegðun og undirstrikar hún hugmyndina um breytingu samfélagsins frá framleiðsluhagkerfi yfir í neysluhagkerfi. Hugmyndin var sú að leiðtogar samfélagsins sýndu ekki vald sitt og stöðu með því að stýra eða skapa heldur með sýnineyslu og sýndariðjuleysi.[7]
Sýnineysla vísar til eyðslu peninga í munaðarvörur og þjónustu eingöngu til að sýna öðrum efnahagslegan kraft sinn eða uppsafnaðan auð. Fyrir neytendur er slík opinber sýning á neyslu leið til að ná eða viðhalda tiltekinni félagslegri stöðu.[7] Eiginkonur viðskiptajöfra á 19. öld veita okkur dæmi um sýnineyslu þegar að þær voru klæddar demöntum einungis til sönnunar um auð og velgengni eiginmanna sinna.[5] Í dag sjáum við þetta skýrt í hip-hop menningu Bandaríkjanna, þar sem rapparar klæðast demantshálsmenum og öðru skarti sem þjónar engum tilgangi öðrum en að sýna auð þeirra.
Hugtakið Veblen vörur var kennt við Veblen þegar hann setti fram kenningar um sýnineyslu. Hann útskýrði hvernig sumir kaupendur eru tilbúnir að greiða hærri upphæðir fyrir vörur sem gefa til kynna efnahagslega getu þeirra og félagslega stöðu. Í þessu samhengi er varan ekki aðeins keypt fyrir hagnýtt gildi hennar, heldur til að senda skilaboð til annarra um efnahagslegan styrk eða lúxus. Því getur hækkandi verð aukið aðdráttarafl vörunnar fyrir ákveðinn hóp neytenda þar sem verðið virkar sem tákn fyrir gæði eða stöðu.[7]
Veblen vörur eru vörur þar sem eftirspurn eykst með hækkandi verði, þvert á það sem gerist hjá flestum öðrum vörum. Yfirleitt minnkar eftirspurn eftir vöru þegar verðið hækkar, en með Veblen vörur verða þær meira eftirsóknarverðar fyrir kaupendur þegar verð þeirra hækkar. Dæmi um slíkar vörur eru gjarnan dýrir skartgripir, merkjafatnaður og lúxusbílar.[1]
Þetta fyrirbæri sýnir hvernig sálfræðilegir og félagslegir þættir hafa áhrif á neysluhegðun og verðmat. Veblen vörur minna okkur á að neysla getur verið flókin og stjórnast ekki alltaf af rökrænum eða hagkvæmum ákvörðunum. Félagslegar væntingar og ímyndasköpun hafa einnig mikil áhrif á það hvernig vörur eru metnar og valdar.
Sýndariðjuleysi er þegar fólk sýnir fram á iðjuleysi til sönnunar um auð sinn.[6] Til að mynda fer fólk í löng frí til framandi landa og koma heim með minjagripi til sönnunar um ágæti ferðarinnar. Einnig lærir fólk dauð tungumál, eins og latínu, aðeins til þess að sýna öðrum að þau höfðu frítíma til að læra það. Þessi hegðun er í samræmi við öflugustu stéttirnar og leiðir hún lægri stéttir þannig til að dást að, frekar en að gera lítið úr, makindastéttinni.[8]
Með bókinni veitti Veblen ákveðið svar við því hvers vegna byltingin, sem Marx hafði spáð fyrir um í kenningum sínum um arðrán verkalýðsins, hafi ekki brotist út. Veblen vildi meina að verkalýðurinn hefði ekki áhuga á að kollvarpa kapítalistunum, heldur vildi hann líkjast þeim. Verkalýðurinn sjálfur sannfærir sig um að vinna þeirra sé einhvern veginn minna virðuleg en vinna kapítalistanna og markmið þeirra er því ekki að losa sig við þessa æðri stétt heldur að klifra upp til hennar og líkjast henni.[9]
The Theory of Business Enterprise
breytaÁrið 1904 gaf Veblen út bókina The theory of business enterprise og fjallaði hún um áhrif stórfyrirtækja á samfélagið. Sú bók hlaut mikla gagnrýni þar sem innihald hennar virtist stangast á við almenna þekkingu þess tíma. Allt frá tímum Adam Smith hafði kapítalistinn verið talinn drifkraftur hagkerfisins og ein helsta ástæðan fyrir efnahagslegum framförum. Í þessum skrifum tók Veblen aðra nálgun á kapítalistann og lýsti honum ekki lengur sem drifkrafti hagkerfisins, heldur frekar sem eins konar skemmdarvargi.[10] Hann gagnrýndi kapítalísk markaðshagkerfi þar sem hann taldi þau ala af sér sóun og beindu fjármagni sínu með óhagkvæmum hætti í óarðbærar fjárfestingar.
Á þessum tímum stjórnuðu fyrirtækjaskipstjórar (e. captains of industry) stórfyrirtækjum, greiddu laun og högnuðust af rekstrinum á meðan verkamennirnir framleiddu vöruna og sköpuðu þannig nytjar fyrir samfélagið. Veblen taldi stórfyrirtæki því ekki vera skilvirk þar sem þau voru einungis drifin áfram af hagnaðar hámarkandi aðgerðum sem mættu ekki þörfum neytenda með hagkvæmum hætti. Þessar aðgerðir komu oft niður á framleiðslunni, sköpuðu atvinnuleysi og mynduðu fyrirtækin þannig óstöðugleika í samfélaginu. Veblen færði því rök fyrir því hvers vegna verkfræðingar ættu að stýra fyrirtækjunum þar sem þeir þekktu vel framleiðsluferlið auk þess sem þeir höfðu hag samfélagsins að leiðarljósi. Þannig gætu verkfræðingarnir stuðlað að jafnvægi sem vegur á móti markaðstruflandi aðgerðum kapítalistanna, en kapítalistarnir hlaða ofvaxna yfirbyggingu skuldsetninga og yfirfjárfestinga ofan á framleiðsluna sem veldur óstöðugleika og krísum. Veblen taldi því að það þyrfti að endurhugsa efnahagslegt hlutverk fyrirtækjanna þar sem hann áleit verkfræðinga vera sönnu hetjurnar, en ekki kapítalista.[11]
The Engineers and the Price System
breytaÁrið 1921 gaf Veblen út bókina The Engineers and the Price System. Bókin fjallar um hvernig hægt væri að stjórna nútíma hagkerfi betur af verkfræðingum í stað viðskiptamönnum.[1]
Veblen hélt því fram að viðskiptamenn, sem stjórna stórum hluta hagkerfisins, hugsi fyrst og fremst um hagnað. Hann taldi að hagnaðardrifið hugarfar þeirra valdi óhagkvæmni og truflunum í hagkerfinu, sem hægði á raunverulegum framförum.[1]
Veblen trúði að verkfræðingar, sem hafa skilning á tækni- og framleiðsluferlum, ættu að vera þeir sem stjórna hagkerfinu. Að hans mati, leggja verkfræðingar mikla áherslu á hagkvæmni, raunhæfni og að bæta framleiðslu. Það gerir þá hæfari til að nota rökréttar og vísindalegar aðferðir, í stað þess að einblína á skammtíma gróða myndu verkfræðingar leggja áherslu á langtíma framfarir og þróun sem myndi gagnast öllu samfélaginu.[1]
Hugmynd Veblens um “tæknivald” var sú að verkfræðingar og aðrir tæknilegir sérfræðingar áttu að koma í stað viðskiptamanna sem leiðtogar hagkerfisins. Þetta kerfi myndi forgangsraða tæknilegri hagkvæmni fram yfir hagnað, sem myndi leiða til framleiðnari og réttlátara samfélags.[1]
Veblen varaði við því að ef hagkerfið héldi áfram að vera undir stjórn viðskiptamanna gæti það leitt til félagslegs óróa og að lokum til einræðislegs, fasísks kerfis. Hann spáði því að óreiðan sem skapast af gróðahyggju hagkerfisins gæti ýtt samfélaginu í átt að öfgakenndari, einræðislegri uppbyggingu þar sem viðskiptamenn noti vald til að halda stjórninni.[1]
Í þessu verki Veblens kemur fram framtíðarsýn hans þar sem sérfræðingar sem skilja tækni og framleiðslu koma í stað þeirra sem leitast við gróða, með það að markmiði að skapa hagkvæmara og réttlátara hagkerfi. Hagkerfið ætti að byggjast á vísindalegum aðferðum, þar sem langtíma framfarir, aukin framleiðni og betri nýting auðlinda yrðu í forgrunni, með það að markmiði að bæta lífsgæði allra í samfélaginu.[1]
Imperial Germany and the Industrial Revolution
breytaÁrið 1915 gaf Veblen út bókina Imperial Germany and The Industrial Revolution og er hún djúpstæð greining á hraðri iðnvæðingu Þýskalands undir lok 19. aldar og í byrjun 20. aldar. Bókina skrifar Veblen á fyrstu árum fyrri heimsstyrjaldarinnar en hann skoðar sambandið á milli iðnþróunar og herskárrar ríkisstjórnar Þýskalands í samanburði við önnur lönd og þá sérstaklega Bretland.[12][13] Þrátt fyrir að bókin hafi ekki fengið sömu móttökur og þekktari verk hans eins og The Theory of the Leisure Class og The Theory of Business Enterprise, þá geymir hún mikilvæga innsýn í hlutverk stofnana og efnahagslegra afla sem keyrðu þýska keisaradæmið áfram.[14]
Helstu hugmyndir og röksemdir
breytaÍ Imperial Germany and The Industrial Revolution heldur Veblen því fram að velgengni Þýskalands í að verða iðnveldi stafi ekki af meðfæddum menningar- eða kynþáttayfirburðum, heldur frekar getu þeirra til að tileinka sér og innleiða nútímatækni. Þar sem að Þýskaland var seint að tileinka sér tækniframfarir iðnbyltingarinnar hafði það tækifæri til að innleiða skilvirkari kerfi og forðast þá óhagkvæmni sem hafði þróast í eldri iðnveldum eins og Bretlandi.[15]
Veblen er gagnrýninn á Bretland og telur efnahaginn þar hafa staðnað vegna sýnineyslu og yfirlætis makindastéttarinnar. Hann upphefur venjur Þjóðverja og nefnir þar að þeir séu stoltir vinnumenn með sterka skyldutilfinningu til þýsku þjóðarinnar.[16] Þjóðverjar lifðu mínímalískum lífstíl og voru litlu vanir.[17] Hann gagnrýndi sérstaklega menninguna sem hafði myndast á Bretlandi í kringum óþarfa íþróttaiðkun og neysluhyggju, sem hann taldi að hefði dregið úr athygli fólksins og auðlindum, sem annars gætu farið í iðnframleiðslu.[16]
Hlutverk ríkisins og hernaðarstefna
breytaMikilvægur þáttur í greiningu Veblen er hlutverk þýska ríkisins, og nefnir hann sérstaklega Hohenzollern ættina, við að stýra iðnþróuninni.[18] Veblen trúði því að Þýskaland væri einstakt að því leyti að það nýtti tækniþróun sína til hernaðarlegra markmiða, sem gerði ríkinu kleift að mynda öflugt herskipulag. Járnbrautir, vegir og kaupskip voru hönnuð og byggð með stríð í huga.[19] Ólíkt Bretlandi, þar sem einkafyrirtæki og frjáls markaður spilaði stærra hlutverk, var þýska efnahagskerfinu þétt stjórnað af ríkinu með sterka áherslu á undirbúning fyrir stríð.[20]
Veblen benti á að þýska ríkinu hefði tekist að „rómantísera” ríkisvaldið og hernaðarstefnu þess, þar sem að einstaklingurinn væri einfaldlega lítill hluti af stærra markmiði ríkisins.[21] Þessi hugmyndafræði gerði Þýskalandi kleift að beina efnahagslegu og tæknilegu afli sínu að því að byggja upp öflugt herveldi og þar af leiðandi gerði Þýskaland að einu mesta iðn- og hernaðarveldi þess tíma.
Hnignun stofnana og óstöðugleiki í framtíðinni
breytaÞrátt fyrir að Veblen hafi dáðst að skilvirkni Þýskalands, þá spáði hann því að hernaðar- og skrifræði þeirra yrði á endanum óstöðugt. Hann trúði því að með tímanum myndi þýska skrifræðið verða jafn spillt og ríki eins og Rússland, Tyrkland, Íran og myndi svo að lokum staðna eins og Austurríki hafði gert.[22] Veblen hélt því fram að stofnanir sem byggja á stríði eigi til með að hnigna með tímanum, þar sem of mikil áhersla er lögð á venjur, hroka og óhagkvæmni.[23]
Veblen hafnaði einnig þeirri algengu trú og hugmynd, að uppgangur og hernaðarstefna Þýskalands væri óhjákvæmileg.[14] Hann taldi að ríkisstofnanir væru lykilþáttur í stefnumótun þjóða og að þýska ríkið gæti komið í veg fyrir stríð og eyðileggingu með því að endurskoða stefnur sína og breyta áherslum.
Samanburður við önnur lönd
breytaÍ bókinni ber Veblen stöðugt saman þróun Þýskalands við Bretland og Bandaríkin. Þó að hann fjalli mikið um Þýskaland og hernaðarstefnu þess, þá var Veblen einnig gagnrýninn á stefnur Bretlands og Bandaríkjanna. Hann hélt því fram að Bretar væru fastir í hefðum aðalsins, á meðan bandarískir viðskiptajöfrar voru meira uppteknir af spákaupmennsku og eigin hagsmunagæslu heldur en tækniframförum.[24]
Veblen hélt því fram að þrátt fyrir forskot Bandaríkjanna á Þýskaland hvað varðar auðlindir og umhverfi til nýsköpunar, hafi tækniþróun verið ómarkverð í samanburði. Á meðan hefðir og venjur bandamanna leiddu til þess að ráðstöfun auðlinda var ekki eins hagkvæm og hjá þýsku hernaðarstefnunni.[25]
Víðtækari gagnrýni Veblen á einræði og hernaðarstefnu
breytaGreining Veblen í Imperial Germany and The Industrial Revolution á þó ekki bara við Þýskaland eitt og sér. Hann tekur aðeins þýska ríkið fyrir sem dæmi um víðtækar stefnur og strauma í einræðis- og hernaðarstjórnum um allan heim, sem hann taldi að myndi á endanum mistakast og hrynja.[22] Veblen hélt því fram að nútímatækni myndi bæta efnahag þjóða, skapa betri lífskjör og að lokum grafa undan slíkum stjórnmálaháttum. Hann spáir því fyrir að hernaðarríki eins og Þýskaland og Japan muni á endanum falla en að viðvarandi stríð gæti þó seinkað þeirri niðurstöðu.[26]
Mikilvægi bókarinnar og arfleifð hennar
breytaEins og fram hefur komið þá fékk Imperial Germany and The Industrial Revolution ekki jafn góðar móttökur og önnur verk Veblen. Bókin var gefin út á meðan fyrri heimsstyrjöldin stóð yfir, og hlutlaus greining Veblen á Þýskalandi olli deilum, sérstaklega í löndum bandamanna og var póstdreifing bókarinnar í Bandaríkjunum bönnuð á meðan stríðið gekk yfir þar sem að hún var talin of hlutlaus.[27]
Þrátt fyrir að Imperial Germany and The Industrial Revolution sé minna þekkt en önnur verk Veblen, þá hefur hún að geyma mikilvæga innsýn í samband tækniframfara, ríkisvalds og hernaðarstefnu. Greining Veblen á uppgangi Þýskalands er viðeigandi enn þann dag í dag, sérstaklega til að skilja hvernig stofnanir og stefna ríkisins móta efnahagslega og pólitíska þróun þjóða. Áhersla og gagnrýni Veblen á hlutverk stofnana á efnahagsþróun og hernaðarstefnu ríkja hefur haft marktæk áhrif á síðari fræðimenn, bæði í hagfræði og stjórnmálafræði.[13]
Arfleifð og áhrif Veblens
breytaThorstein Veblen hefur haft djúpstæð áhrif á félagsvísindi og hagfræði, sérstaklega með gagnrýni sinni á neyslusamfélagið og þá hugmynd að neysla sé oft hvött af löngun til að sýna stöðu eða virðingu.[5] Veblen benti á að í iðnvæddum samfélögum væri oft ekki raunveruleg þörf á öllum þeim vörum sem fólk kaupir, heldur væri þetta hluti af sýnineyslu eða þeirri hegðun að kaupa hluti til að sýna fram á félagslega stöðu.[6]
Áhrif í hagfræði og félagsvísindum
breytaVeblen er gjarnan talinn vera einn af fyrstu félagsfræðingunum sem greindi hvernig efnahagskerfi tengist félagslegum gildum og menningu.[4] Hugmyndir hans um neysluhegðun og stöðu hafa verið teknar upp af mörgum fræðimönnum í hagfræði, sálfræði og félagsfræði.[3] Hann hafði áhrif á þróun stofnanahagfræði (e. institutional economics), sem leggur áherslu á áhrif stofnana og menningarlegra viðmiða á hagkerfið.[4]
Hugmyndir Veblens í samtímanum
breytaÍ dag er sýnineysla enn mjög viðeigandi hugtak í umræðunni um neyslusamfélagið, sérstaklega í ljósi aukinnar áherslu á sjálfbærni og áhrifa neyslu á umhverfið.[2] Veblen hefur því orðið að nokkurs konar forvera sjálfbærnissinnaðrar hagfræði og gagnrýni á kapítalisma.[10]
Menningarleg áhrif
breytaVeblen hafði einnig áhrif á menningarlega gagnrýni á neyslu og lífsstíl.[8] Í bókmenntum, kvikmyndum og listum birtist hugmyndin um að neysla geti verið táknræn – fólk kaupir hluti ekki aðeins til að uppfylla þarfir sínar, heldur til að undirstrika eigin sjálfsmynd og stöðu. Hugmyndir hans hafa orðið hluti af almennri orðræðu um hégómleika og neysluhyggju.[9]
Veblen sem innblástur fyrir samtímahreyfingar
breytaÞrátt fyrir að Veblen skrifaði á fyrri hluta 20. aldar, eru verk hans enn innblástur fyrir hreyfingar sem berjast gegn ójöfnuði og umhverfisógnunum sem fylgja neyslusamfélaginu.[10] Hugtakið "Veblen-vörur" (e. Veblen goods), sem vísar til vara sem verða eftirsóknarverðari með hærra verði, hefur enn áhrif á skilning okkar á tengslum verðs, virðis og félagsstöðu.[5]
Heimildir
breyta- ↑ 1,00 1,01 1,02 1,03 1,04 1,05 1,06 1,07 1,08 1,09 1,10 1,11 1,12 1,13 1,14 1,15 Robert L. Heilbroner (1999). The worldly philosophers - The lives, times, and ideas of the great economic thinkers. Simon & Schuster.
- ↑ 2,0 2,1 Bo Sandelin, Hans-Michael Trautwein, Richard Wundrak (2014). A short history of economic though. Routledge. bls. 73.
- ↑ 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 Bo Sandelin, Hans-Michael Trautwein, Richard Wundrak (2014). A short history of economic though. Routledge. bls. 74.
- ↑ 4,0 4,1 4,2 Hodgson, Geoffrey M. (2004). The Evolution of Institutional Economics: Agency, Structure, and Darwinism in American Institutionalism. Routledge.
- ↑ 5,0 5,1 5,2 5,3 5,4 Thorstein Veblen (2009). The Theory of the Leisure Class (Oxford World's Classics). OUP Oxford. bls. 18.
- ↑ 6,0 6,1 6,2 6,3 Thorstein Veblen (2009). The Theory of the Leisure Class (Oxford World's Classics). OUP Oxford. bls. 19.
- ↑ 7,0 7,1 7,2 Robert L. Heilbroner (1999). The worldly philosophers - The lives, times, and ideas of the great economic thinkers. Simon & Schuster. bls. 229.
- ↑ 8,0 8,1 Robert L. Heilbroner (1999). The worldly philosophers - The lives, times, and ideas og the great economic thinkers. Simon & Schuster. bls. 231.
- ↑ 9,0 9,1 Robert L. Heilbroner (1999). The worldly philosophers - The lives, times, and ideas og the great economic thinkers. Simon & Schuster. bls. 233.
- ↑ 10,0 10,1 10,2 Robert L. Heilbroner (1999). The worldly philosophers - The lives, times, and ideas og the great economic thinkers. Simon & Schuster. bls. 234.
- ↑ Thorstein Veblen (2004). The theory of business enterprise. OUP Oxford.
- ↑ Wallace, H. A. (1940, September). Veblen's "Imperial Germany and the Industrial Revolution". bls. 436
- ↑ 13,0 13,1 Mayer, O. G. (1990). Veblen's Imperial Germany Revisited. Intereconomics, 28, 72-78. bls. 73
- ↑ 14,0 14,1 Mayer, O. G. (1990). Veblen's Imperial Germany Revisited. Intereconomics, 28, 72-78. bls. 72
- ↑ Thorstein Veblen (1915). „Imperial Germany and The Industrial Revolution“. Batoche Books. bls. 37
- ↑ 16,0 16,1 Wallace, H. A. (1940, September). Veblen's "Imperial Germany and the Industrial Revolution". bls. 437
- ↑ Wallace, H. A. (1940, September). Veblen's "Imperial Germany and the Industrial Revolution". bls. 436
- ↑ Thorstein Veblen (1915). „Imperial Germany and The Industrial Revolution“. Batoche Books. bls. 34
- ↑ Thorstein Veblen (1915). „Imperial Germany and The Industrial Revolution“. Batoche Books. bls. 71
- ↑ Mayer, O. G. (1990). Veblen's Imperial Germany Revisited. Intereconomics, 28, 72-78. bls. 75
- ↑ Mayer, O. G. (1990). Veblen's Imperial Germany Revisited. Intereconomics, 28, 72-78. bls. 76
- ↑ 22,0 22,1 Wallace, H. A. (1940, September). Veblen's "Imperial Germany and the Industrial Revolution". bls. 438
- ↑ Wallace, H. A. (1940, September). Veblen's "Imperial Germany and the Industrial Revolution". bls. 439
- ↑ Wallace, H. A. (1940, September). Veblen's "Imperial Germany and the Industrial Revolution". bls. 441-442
- ↑ Wallace, H. A. (1940, September). Veblen's "Imperial Germany and the Industrial Revolution". bls.442
- ↑ Wallace, H. A. (1940, September). Veblen's "Imperial Germany and the Industrial Revolution". bls. 439-440
- ↑ Wallace, H. A. (1940, September). Veblen's "Imperial Germany and the Industrial Revolution". bls. 435