Gary Becker

Gary Stanley Becker (fæddur 2. desember 1930; d. 3. mai 2014) var bandarískur hagfræðingur, sem kunnur er fyrir frumlega útfærslu hagfræðilegrar greiningar á ýmis svið mannlífsins, en fyrir hana hlaut hann Nóbelsverðlaun í hagfræði 1992. Hann er einn Chicago-hagfræðinganna svonefndu, frjálshyggjumaður og fyrrverandi forseti Mont Pèlerin-samtakanna, alþjóðlegs málfundafélags frjálslyndra fræðimanna.

Gary Becker

Becker fæddist í Pottsville í Pennsylvaníu-ríki og lauk doktorsprófi í hagfræði í Chicago-háskóla 1955. Doktorsritgerð hans, The Economics of Discrimination (1957), þótti mjög frumleg, en varð líka umdeild. Þar tók hann til rannsóknar mismunun (e. discrimination), aðallega vegna kynþáttar, og komst að þeirri niðurstöðu, að hún bitnaði ekki síður á gerandanum en þolandanum. Gerandinn bæri til dæmis kostnað af því að ráða ekki hæfustu umsækjendur í vinnu, heldur láta undan eigin hleypidómum. Becker kenndi í Columbia-háskóla 1957-1968, þegar hann sneri aftur til Chicago. Hann hefur meðal annars rannsakað fjölskylduna sem neyslu- og fjárfestingareiningu. Hann hefur til dæmis spurt, hvað valdi tilhneigingunni til að eignast börn: Hvort eru þau fjárfesting eða neysla? Ein kenning Beckers er um flagðið í fjölskyldunni (e. the rotten kid). Það borgar sig fyrir það að halda sjálfselsku sinni leyndri (bregða yfir sig fögru skinni) til þess að njóta áfram hylli foreldranna. Það borgar sig síðan fyrir foreldrana að fresta í lengstu lög fégjöfum til barna sinna til að halda þeim í skefjum. Önnur kenning Beckers er, að frá hagfræðilegu sjónarmiði séð sé ekkert athugavert við fjölkvæni og fjölveri, svo að vandséð sé, hvaða rök hnígi að banni við þessu. Becker hefur líka rannsakað glæpahneigð. Niðurstaða hans er, að hún ráðist af kostnaðinum af glæpum, en hann felist aðallega í þyngd refsinga og líkum á því, að upp komist um glæpina. Þetta merkir, að í landi, þar sem miklar líkur eru á, að upp komist um glæpi (til dæmis Íslandi), geta refsingar verið mildari en í landi, þar sem minni líkur eru á því (hugsanlega til dæmis Bandaríkjunum).

Tvö önnur svið, sem Becker hefur látið sig varða, eru mannauðsmyndun (e. human capital) og neysla fíkniefna. Mannauður myndast, þegar menn fjárfesta í sjálfum sér, aukinni þekkingu og kunnáttu. Hagfræðingar höfðu fram eftir 20. öld ekki veitt þessu næga athygli, heldur horft um of á áþreifanleg og sýnileg gæði eins og land. Ástæðan til þess, að neysla fíkniefna er forvitnilegt rannsóknarefni hagfræðinga, er hins vegar, að sú hegðun virðist óskynsamleg og órökrétt, en ein meginforseta Chicago-hagfræðinga eins og Beckers er, að menn bregðist við kostnaði af verkum sínum og hegði sér skynsamlega. Það sé engin skýring á mannlegri hegðun, að hún sé óskynsamleg, heldur aðeins lýsing á skoðun umsegjandans. Becker skýrir neyslu fíkniefna ekki síst með því, að neytandinn standi vegna fortíðar sinnar andspænis færri kostum en flestir aðrir. Til dæmis kann að vera, að maður, sem geti aðeins valið um það tvennt að stytta sér aldur með byssukúlu eða eiga nokkur sæluár í heróínvímu, breyti skynsamlega, þegar hann verði heróínneytandi.

Hin hlífðarlausa hagfræðilega greining Beckers á ýmsum hliðum mannlífsins, sem venjulega eru ekki talin lúta lögmálum frjálsra viðskipta, hefur stundum verið nefnd „hagfræðileg landvinningastefna“ (e. economic imperialism) og vakið andúð og furðu. Becker nýtur þó almennrar viðurkenningar sem snjall fræðimaður. Becker hefur skrifað margt um fræði sín í blöð og tímarit og var forseti Mont Pèlerin-samtakanna 1990-1992. Becker og annar fjölhæfur fræðimaður, Richard Posner, dómari og lagaprófessor, hafa frá árslokum 2004 haldið saman úti heimasíðu, sem vakið hefur mikla athygli, þar sem þeir skrifa hugleiðingar um það, sem efst er á baugi. Becker er tvíkvæntur og á tvær dætur frá fyrra hjónabandi og tvo stjúpsyni frá hinu síðara. Hannes Hólmsteinn Gissurarson birti við hann viðtal í bókinni Lausnarorðið er frelsi (1994).

Nokkur verkBreyta

  • Gary Becker og Kevin M. Murphy: „A Theory of Rational Addiction,“ The Journal of Political Economy, 96. árg. (1988). Bls. 675-700.
  • Gary Becker og George J. Stigler: „De Gustibus Non Est Disputandum,“ The American Economic Review, 67. árg. (1977). Bls. 76-90.
  • Gary Becker og H. Gregg Lewis (1973): „On the Interaction between the Quantity and Quality of Children,“ The Journal of Political Economy, 81. árg. (1973). Bls. S279-S288.

TenglarBreyta