Samfélag

einstaklingar sem hafa samskipti sín á milli

Samfélag er hópur fólks sem á með sér innbyrðis samskipti sem hópur og deilir stað, viðmiðum, trú, gildum, venjum og sjálfsmynd. Samfélag fólks nær yfir allt frá minnstu hópum, eins og einni fjölskyldu eða vinahóp; að stærri einingum eins og netsamfélögum, þjóðum og alþjóðasamfélaginu. Þjóðfélag er ein tegund samfélags sem byggist á tilteknum stofnunum eins og sameiginlegu stjórnkerfi, trúarbrögðum eða tungumáli.[1] Einstaklingar eru þátttakendur í mörgum ólíkum samfélögum á hverju skeiði lífsins þar sem þeir gegna ólíkum hlutverkum. Að mynda félagsleg tengsl í ólíkum samfélögum er mikilvægur hluti af félagsmótun fólks sem á sér stað alla ævi.

Tiltekinn áhugahópur kemur saman ár hvert á sumarsólstöðum við Stonehenge á Englandi.

Samfélag er grundvallarhugtak í fjölmörgum fræðigreinum eins og félagsfræði, félagsráðgjöf, mannfræði, þjóðfræði, félagsmálfræði, félagssálfræði, sagnfræði, fornleifafræði, fötlunarfræðum, samskiptafræði og mörgum fleirum. Notkun hugtaksins er stundum gagnrýnd fyrir að breiða yfir ólíka stöðu einstaklinga innan samfélaga, ólíka hagsmuni og valdabaráttu sem þar fer fram.[2] Samfélagshugtakið er oft notað í samsettum hugtökum eins og samfélagsábyrgð, samfélagsáhrif og sjálfbært samfélag sem dæmi.

Íslenska orðið „samfélag“ kemur fyrir í Nýjatestamentisþýðingu Odds Gottskálkssonar frá 16. öld sem þýðing á gríska orðinu κοινωνία koinonia[3] sem hefur líka verið þýtt sem „félagsskapur“. Þegar rætt er um hópa lífvera, jurta eða dýra, sem deila sama umhverfi er talað um líffélag.[4]

Greining samfélaga breyta

 
Ferdinand Tönnies (1855-1936).
 
Kimberlé Crenshaw (f. 1959).

Þýski félagsfræðingurinn Ferdinand Tönnies setti fram hina frægu og langlífu aðgreiningu milli samfélags (Gemeinschaft) og þjóðfélags (Gesellschaft) í ritgerð árið 1887.[5] Samfélag er samkvæmt þessari skilgreiningu félagsskapur sem byggist á nánum fjölskyldu- og vinatengslum í staðbundnum litlum samfélögum, meðan þjóðfélag byggist á samningum og valkvæðum félagslegum tengslum sem fólk myndar út frá hagsmunum. Margir félagsfræðingar hafa tengt þessi tvö hugtök við ólík þróunarstig samfélaga þar sem fyrra hugtakið á við eldri samfélög en það síðara við nútímasamfélög, fjöldasamfélög eða borgarsamfélög. Herbert Spencer bjó til þannig skilgreiningu þegar hann setti fram hugmyndina um herská samfélög og iðnaðarsamfélög, þar sem þau fyrrnefndu byggðust á stigveldi og hlýðni, en þau síðarnefndu á samningum og skyldum sem fólk tæki á sig sjálfviljugt.[6] Bandaríski félagsfræðingurinn Charles Horton Cooley setti fram svipaða aðgreiningu milli fyrsta stigs samfélaga og annars stigs samfélaga, þar sem þau fyrrnefndu byggðust á samskiptum augliti til auglitis, en þau síðarnefndu á formlegum tengslum.[7] Cooley leit ekki á fyrsta stigs samfélög sem eldri eða frumstæðari, heldur væru þau fyrsta samhengið sem félagsmótun einstaklinga færi fram í og væru þannig undirstaða annars konar félagslegra tengsla. Cooley leit svo á að sjálf einstaklinga mótaðist í félagslegum samskiptum.

Rannsóknir á málsamfélögum urðu áberandi á 7. áratugnum með verkum bandarískra félagsmálfræðinga á borð við William Labov, William Alexander Stewart og Dell Hymes. Þær sýndu hvernig samfélagslegir þættir hafa áhrif á málnotkun, framburð og málþróun.[8] Félagsmálfræðingar eins og Labov fengust oft við rannsóknir á upprunahópum og götugengjum. Árið 1964 kom út hin áhrifamikla greining E. P. Thompson á mótun stéttavitundar meðal verkalýðs á Englandi í The Making of the English Working Class. Réttindabarátta og áberandi aðgerðir þjóðfélagshreyfinga á 7. og 8. áratugnum höfðu áhrif í þá veru að auka áherslu á rannsóknir á samfélögum sem byggðust á sameiginlegri sjálfsmynd, fremur en sameiginlegum stað eða stétt.[9]

Bandaríski sálfræðingurinn Seymour B. Sarason setti árið 1974 fram hugmyndina um félagskennd, það er upplifun einstaklinga, skilning og afstöðu til samfélags.[10] Félagskennd vísar til þeirrar tilfinningar að tilheyra samfélagi, að einstaklingurinn skipti máli innan þess og að þörfum hans verði mætt með gagnkvæmri skuldbindingu meðlima gagnvart hverjum öðrum.[11] Um svipað leyti mótaði pólski félagssálfræðingurinn Henri Tajfel hugmyndina um nærhóp og fjarhóp („við og hinir“) til að lýsa ólíkri afstöðu einstaklinga gagnvart hópum sem þeir tilheyra og tilheyra ekki.[12]

Árið 1979 setti kanadíski félagsfræðingurinn Barry Wellmann fram hugmyndina um félagsnet byggða á rannsóknum sínum á hópum sem tengdust með ólíkum félagslegum tengslum, eins og vinahópum, fjölskyldum og stuðningshópum.[13] Hann greindi hvernig ólík samfélög sem einstaklingur tekur þátt í geta veitt honum ólíkan stuðning. Árið 1983 kom svo út hin áhrifamikla greining Benedict Anderson á þjóðum sem ímynduðum samfélögum, þar sem við ímyndum okkur að við tilheyrum samfélagi sem er samt of stórt til að við getum haft beina reynslu af því.[14] Rannsóknir á netsamfélögum hófust með bók bandaríska rithöfundarins Howard Rheingold, The Virtual Community, sem kom út árið 1993. Þessar rannsóknir sýna hvernig félagskennd, stuðningur, upplýsingar, vinátta og samþykki getur átt sér stað í samfélögum ókunnugs fólks sem myndast á tölvunetum óháð staðsetningu.[15]

Með femínismanum undir lok 20. aldar komu fram nýjar áherslur sem ýttu undir gagnrýni á samfélagshugtakið og lögðu aukna áherslu á atbeina einstaklinga, valdatengsl innan samfélaga og valdeflingu undirokaðra hópa. Árið 1989 setti bandaríski lögfræðingurinn Kimberlé Crenshaw fram hugtakið samtvinnun til að lýsa því hvernig ólíkir hagsmunir fólks innan samfélaga geta rekist á. Þannig getur verið erfitt fyrir einstakling að berjast gegn kynjamisrétti sem hann upplifir innan síns samfélags, en á sama tíma að berjast gegn kynþáttamisrétti sem meðlimir þess samfélags verða fyrir.[16] Með aukinni gagnrýni verður áherslan á það hvernig samfélagið verður til og er viðhaldið með samskiptum fremur en að lýsa því sem fyrirfram gefnum félagslegum veruleika.[17][18]

Flokkun samfélaga breyta

 
Fjölskylda borðar hádegismat í Úganda.
 
Þátttakendur í útihátíð í Melbourne í Ástralíu.

Til er ógrynni af hugtökum til að lýsa ólíkum tegundum samfélaga. Dæmi um það eru nærsamfélag, tilbúin samfélög, ættbálkasamfélög, hagsmunasamfélög, rannsóknarsamfélög, málsamfélög, starfssamfélög, skólasamfélagið, hinsegin samfélagið, vísindasamfélagið og alþjóðasamfélagið. Mismunandi samfélagsform hafa oft komið upp í sögunni, eins og klausturlífi, samyrkjubú, kommúna, vistþorp, lokað hverfi og eftirlaunahverfi. Þessar ólíku tegundir samfélaga hafa verið flokkaðar á ýmsan hátt af ýmsum höfundum. Til dæmis er algengt að flokka byggðasamfélög eftir byggðaformi í sveitasamfélög, borgarsamfélög og úthverfasamfélög. Breski félagsfræðingurinn Gerard Delanty nefnir eftirfarandi þrjá flokka:[19]

 1. Staðbundin samfélög: Samfélög sem eru skilgreind út frá stað, til dæmis þorpssamfélag eða hverfi.
 2. Sjálfsmyndarsamfélög: Samfélög sem eru skilgreind út frá tiltekinni sjálfsmynd, eins og fjölskyldur, stéttir, upprunahópar, fatlaðir, frumbyggjar, múslimar, Íslendingar, vísindasamfélagið og alþjóðasamfélagið.
 3. Skipulögð samfélög: Samfélög sem markast af tilteknu skipulagi, stjórnkerfi og innviðum, eins og klaustur, íþróttafélög, stjórnmálaflokkar, félagasamtök og þjóðfélög.

Delanty nefnir að gallinn við þessar skilgreiningar er að þær gera ráð fyrir því að þau félagslegu hugtök sem þær byggjast á séu óháð samfélögunum sem þau skilgreina, meðan raunin er að hugtökin verða til um leið og samfélögin. Hugtök eins og kynþáttur eða trú skilgreina tiltekna hópa. Auk þess skarast þessir flokkar að miklu leyti.

Ástralski stjórnmálafræðingurinn Paul James hefur stungið upp á annars konar þrískiptingu með meiri áherslu á tengslin sem samfélögin byggjast á:[20]

 1. Jarðbundin samfélög: Samfélög sem snúast um tiltekna jörð eða land sem skilgreinir sjálfsmyndina.
 2. Lífstílssamfélög: Samfélög sem byggjast á sameiginlegri lífssýn, siðferðisviðmiðum, hagsmunum eða nánd.
 3. Meðvituð samfélög: Samfélög sem eru markvisst búin til í tengslum við tiltekin búsetuform, starfsemi eða verkefni.

Þessi samfélög skarast raunar líka auk þess sem ein tegund samfélags getur innihaldið aðrar. Tiltekið borgarsamfélag (staðbundið samfélag) getur þannig innihaldið mörg upprunasamfélög (sjálfsmyndarsamfélög); og fólk sem telur sig umhverfissinna (lífstílssamfélag) getur stofnað til nýrra búsetuúrræða eins og vistþorpa (meðvitað samfélag).

Tilvísanir breyta

 1. „Hvað er samfélag?“. Vísindavefurinn.
 2. Shuman, A. (1993). „Dismantling local culture“. Western Folklore. 52 (2/4): 345–364.
 3. „Samfélag“. Ritmálssafn. Sótt 18.1.2023.
 4. „Líffélag“. Íðorðabankinn. Sótt 18.1.2023.
 5. Ferdinand Tönnies (1887). Gemeinschaft und Gesellschaft: Abhandlung des Communismus und des Socialismus als empirischer Culturformen. Leipzig: Fues's Verlag.
 6. Herbert Spencer (1898). The Principles of Sociology, in Three Volumes. New York: D. Appleton and Company.
 7. Charles Horton Cooley (1909). Social Organization: A study of the larger mind. New York: Charles Scribner's Sons.
 8. „Sociolinguistics | Linguistic Society of America“. linguisticsociety.org. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. maí 2023. Sótt 10. maí 2023.
 9. Lykes, Brinton og Crosby, Alison (2014). „Feminist practice of action and community research“. Í Sharlene Nagy & Hesse-Biber (ritstjóri). Feminist Research Practice: A Primer. bls. 145-181.
 10. Sarason, S. B. (1974). The psychological sense of community: Prospects for a community psychology. Jossey-Bass.
 11. McMillan and Chavis (1986). „Sense of Community: A Definition and Theory“. Journal of Community Psychology. 14: 9.
 12. Tajfel, H. (1974). „Social identity and intergroup behaviour“. Social science information. 13 (2): 65–93.
 13. Wellman, B. (1979). „The community question: The intimate networks of East Yorkers“. American journal of Sociology. 84 (5): 1201–1231.
 14. Anderson, Benedict R. (1991). Imagined Communities: Reflections on the Origin and Spread of Nationalism. London: Verso. bls. 6–7. ISBN 978-0-86091-546-1. Sótt 5. september 2010.
 15. Rheingold, H. (1993). The Virtual Community: Homesteading on the Electronic Frontier. Addison-Wesley Publishing Co.
 16. Crenshaw, K. (1989). „Demarginalizing the Intersection of Race and Sex: A Black Feminist Critique of Antidiscrimination Doctrine, Feminist Theory and Antiracist Politics“. University of Chicago Legal Forum. 1989 (1): 139–167.
 17. Delanty, G. (2013). Community. Routledge.
 18. Fortier, A. M. (1999). „Historicity and communality: Narratives about the origins of the Italian 'community'in Britain“. Identity and affect: Experiences of identity in a globalising world. bls. 199–223.
 19. Gerhard Delanty (2003). Community. Routledge.
 20. James, Paul; Nadarajah, Yaso; Haive, Karen; Stead, Victoria (2012). Sustainable Communities, Sustainable Development: Other Paths for Papua New Guinea (pdf download). Honolulu: University of Hawaii Press.
 
Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu