Thomas Malthus

enskur prestur, hagfræðingur og félagsfræðingur (1766-1834)

Thomas Robert Malthus (13. febrúar 176623. desember 1834) var enskur prestur, hagfræðingur og félagsfræðingur. Malthus er þekktastur fyrir hugmyndir sínar um mannfjöldaþróun og lýðfræði.

Thomas Malthus

Þekktasta rit Malthusar er Ritgerð um lögmál sem stýra mannfjölda (e. Essay on the Principle of Population) sem út kom árið 1798. Þar heldur hann því fram að fæðuframboð ykist eftir línulegum vexti en að mannfjöldi ykist eftir veldisvexti. Þessi ályktun hans leiddi svo að annarri ályktun, sem nefnd hefur verið Gildra Malthusar, þess efnis að tekjur fólks hafi lítið batnað fram að Iðnbyltingunni vegna þess að allar tæknilegar og félagslegar framfarir hafi ávallt orðið til aukinnar fólksfjölgunar frekar en batnandi lífsgæða.

Æviágrip

breyta

Thomas Robert Malthus var breskur hagfræðingur og prestur. Hann fæddist í Surrey á Englandi í febrúar árið 1766. Malthus kom af efnaðri fjölskyldu, hann var annar sonur föður síns, Daniels Malthus.[1][2] Á yngri árum fékk Malthus menntun sína heiman frá og árið 1784 fékk hann inngöngu í Jesus College í Cambridge. Þaðan útskrifaðist hann árið 1788 með fyrstu einkunn í stærðfræði og árið 1791 útskrifaðist hann úr sama skóla með meistaragráðu. Malthus fékk stöðu sem félagi (e. fellow) við fyrrnefndan háskóla árið 1793 og gengdi þeirri stöðu þar til hann gekk í hjónaband við Harriet Eckersall árið 1804.[3] Þau áttu saman tvær dætur og einn son. Malthus eyddi ævi sinni í allskyns rannsóknar vinnu, frá 1805 til dauðadags starfaði hann sem fyrsti prófessor í stjórnmálahagfræði við East Indian College sem er staðsettur nálægt London og hann var einnig prófessor í sagnfræði við sama skóla.[4]

Meðfram starfi sínu sem prófessor sinnti Malthus hinum ýmsu störfum. Árið 1819 var hann kjörinn félagi (e. fellow) í Konunglega Breska Vísindafélagið (e. Royal Society) og árið 1821 varð hann meðlimur í Political Economy Club, á meðal meðlima þar voru hagfræðingarnir David Ricardo og James Mill.[5] Árið 1834 stofnaði Malthus London Statistical Society ásamt öðrum enskum fræðimönnum. Thomas Malthus lést þann 23.desember sama ár í Bath, England.[6] Malthus var hvað þekktastur fyrir bók sína Ritgerð um lögmál sem stýra mannfjölda, þar kom fram kenningin um að mannfjölgun mun ávallt yfirgnæfa vöxt matvælaframboðs, sem á endanum mun leiða til hungurs.[4]

Framlög til hagfræðinnar

breyta

Kenningar um mannfjöldaþróun

breyta

Malthus vakti fyrst athygli með ritgerð sinni An Essay on the Principle of Population (1798). Ritgerðin hans var skrifuð sem svar við kenningum útópíska sósíalistans William Godwin annars vegar og gagnrýni yfir bjartsýnum sjónarmiðum sem faðir hans og vinir föður hans höfðu gagnvart framtíðarbata samfélagsins hins vegar.[4]

Í fyrstu útgáfu ritsins lagði Malthus fram tvær forsendur um eðli mannkyns. Sú fyrri var að matur sé nauðsynlegur fyrir tilveru mannkyns og sú seinni var að ástríða á milli kynja sé nauðsynleg og helst óbreytt.[7]

Malthus komst að þeirri niðurstöðu að fólksfjölgun eykst hraðar en framboð á fæðu. Það er, fólkfjölgun eykst rúmfræðilega (e.geometrically) (1, 2 ,4 ,8…) en framboð eftir fæðu reikningslega (e. arithmetically) (1, 2, 3, 4 …). Því hélt hann fram að það væru valdaþættir fátækni og eymd þar sem ekki er hægt að framleiða fæðu fyrir alla.[7]

Að setja fram hindranir var lausn Malthusar til að draga úr fólksfjölgun og ná jafnvægi á milli þessara tveggja þátta. Hann setti fram tvær hindranir sem skiptar voru í afdráttarlausar (e. postive) og fyrirbyggjandi (e. preventive) hindrun. Afdráttarlausar hindranir endurspeglast í aukinni dánartíðni, sem dæmi hungursneyð, stríð og barnadauði. Fyrirbyggjandi hindrun endurspeglast í lækkun fæðingartíðni, þar sem einstaklingar meta fyrirsjáanlegan kostnað við uppeldi barna, sem dæmi seinkun hjónabanda og getnaðarvarnir.[7]

Í niðurstöðunum gerði Malthus sér ekki grein fyrir möguleikanum á tækniþróun í landbúnaði. Það var ekki var tekið tillit til Lögmálsins um minnkandi afrakstur í landbúnaði en hann gerði sér þó grein fyrir því að land sé takmörkuð auðlind. Það voru einnig engar tölfræðilegar sannanir á bakvið fullyrðingar hans um fólksfjölgun og framboð eftir fæðu.[7]

Seinni útgáfur

breyta

Margar spurningar vöknuðu eftir fyrstu útgáfu ritsins og var það fyrir mikilli gagnrýni. Malthus gaf út sex útgáfur af þessu riti á tímabilinu 1798 til 1826 og var hver útgáfa endurskoðuð með tilliti til samtímans. Það kom fram uppfærðar upplýsingar með tilliti til gagnrýninnar og kom hann breyttum sjónarmiðum sínum á viðfangsefnum á framfæri.[7]

Seinni útgáfa ritgerðarinnar kom út árið 1803 og var tilgangur verksins, aðferðafræðin, röksemdir og niðurstöðurnar frá fyrstu útgáfunni endurskoðaðar. Tilgangur Malthusar var ekki lengur gagnrýni á skoðunum föður hans og Godwin, heldur var tilgangurinn sá að skoða vandann við fólksfjölgun  út frá vísindalegu sjónarhorni með fyrirliggjandi gögn. Niðurstöður og fullyrðingar voru rökstuddar af tölfræðilegum gögnum sem ekki voru til staðar í fyrri útgáfu.[7]

Í fyrstu útgáfunni var niðurstaðan sú að hindranir leiddu til fátæktar og eymdar, en niðurstöður breyttust í annarri útgáfu ritsins þar sem Malthus tilgreindi nýja hindrun, siðferðilegt aðhald. Siðferðilegt aðhald er þegar seinkun er á hjónabandi án ástríðu á milli kynja fyrir hjónabands. Malthus komst að þeirri niðurstöðu að seinkun hjónabands myndi einungis leiða til siðspillingu og eymdar, þar sem ástríða fyrir hjónabands myndi alltaf eiga sér stað. Hindrunin myndi ekki hafa áhrif á eymd einstaklinga svo lengi sem grunnforsendur hans um eðli mannkynsins héldust. Þessi röksemd fer gegn þeim rökum sem Malthus hafði gegn útópistum en hann hélt því fram að þetta myndi draga úr fátækt lægri stétta.[7]

Í síðari útgáfum lagði hann áherslu á mannlega eymd sem mun ávallt hrjáa samfélagið og myndu aukin lífskjör draga úr fólksfjölgun. Ritgerðin hans Malthusar málar upp erfiðan raunveruleika mannsins og í ljósi þess hafa einstaklingar vísað í hagfræðina sem „hin döpru vísindi“ (e. dismal science).[7]

Járnlögin

breyta

Járnlögin eiga rætur sínar að rekja til kenningu Malthusar um fólksfjölgun. Sú kenning gaf það til kynna að fólksfjölgun eykst hraðar en framboð fæðu. Þegar raunlaun hækka meira en eðlilega byrja manneskjur að fjölga sér hraðar en venjulega en matarframboð eykst ekki jafn hratt því gæði jarðarinnar eru takmörkuð. Þetta mun á endanum leiða til þess að raunlaun lækka aftur og ná þar af leiðandi jafnvægi.[8]

Kornlögin

breyta

Á tímum Napóleonsstyrjaldanna, þá hafði verið ákveðin stöðnun á innflutningi og útflutningi á korni. Þetta leiddi til þess að almennt hafði verðlag hækkað. Þetta gerði það að verkum að kaupmennirnir gátu rukkað hærri verð fyrir kornið, og þar af leiðandi gátu landeigendur rukkað kaupmenn um hærra verð fyrir afnot af landinu sínu. En þegar fór að líða undir lok stríðsins þá höfðu bæði kaupmennirnir og landeigendurnir áhyggjur af því að verðin ættu eftir að lækka með aukningu á innflutningi á korni til Bretlands. Fóru þeir þá til þingsins og kröfðust verndar, og upp úr því voru sett lög sem settu verulegar hömlur á innflutning á korni, í þeim tilgangi að vernda innlenda framleiðslu og halda verðinu uppi.[7]

Malthus var ákafur í því að sýna að hann gæti lagt sitt af mörkum í umræðunni um opinber málefni. Árið 1814 gaf hann út bæklinginn Observations on the effects of the Corn laws, en fyrir Malthus þá var tilgangurinn með þessum bæklingi ekki að segja hvort hann hafi verið með eða á móti kornlögunum, heldur að koma á framfæri helstu kosti og ókosti við kornlögin. Það var ekki fyrr en í þriðju útgáfu Observations sem að Malthus tók sér afstöðu með kornlögunum.[9]

Hann hafði miklar áhyggjur af því að fæðuframboð Bretlands yrði framleitt í öðrum löndum. Einnig sagði hann líka að ef kornlögin yrðu fjarlægð þá gæti skyndileg lækkun í kornverði haft skaðleg áhrif á samfélag í Bretlandi, þar helst myndu verð lækka og þar með myndu laun vinnuaflsins einnig lækka. Hann taldi að kornlögin þýddu meiri stöðugleika í verðum ef þau væru rétt framkvæmt og að þau væru betri heldur en alveg frjáls viðskipti, þar sem erfitt væri að sjá fyrir einhverri þróun.[10]

Deilur Malthusar og Ricardo

breyta

Malthus og hagfræðingurinn Ricardo voru góðir vinir en þó voru þeir ekki sammála um allt. Helsta deilan þeirra á milli er deilan um kornlögin. Sama ár og kornlögin voru sett á byrjuðu Malthus og Ricardo að skrifast á og deila um ýmis málefni. Þetta hófst með því að Ricardo sendi Malthus bréf þar sem hann lýsti yfir skoðun sinni um að með mannfjölgun og auknu fjármagni mun hagnaður bónda lækka vegna takmarkaðra auðlinda. Malthus var hins vegar ósammála þessu og í bréfum þeirra á milli tókust þeir á um þetta málefni. Þetta leiddi allt til þess að þeir fóru að deila á um kornlögin. Malthus var þeirrar skoðunar að kornlögin væru nauðsynleg fyrir landbúnað landsins en Ricardo var hins vegar þeirrar skoðunar að Kornalögin væru að hindra vöxt landbúnaðar landsins. Malthus og Ricardo komust aldrei að sameiginlegri niðurstöðu um kornlögin, en þrátt fyrir það voru þeir góðir vinir.[11]

Ný-malthusismi

breyta

Ný-malthusismi byggir á kenningum Malthusar um að á ákveðnum tímapunkti þá muni aukningin í fólksfjölgun vera komin það langt fram úr aukningu í framleiðslu fæðu að dánartíðni mun aukast vegna næringarskorts og muni því draga aftur úr mannfjöldanum. Þeir sem aðhyllast þessum hugsunarhætti eru talsmenn þess að notkun getnaðarvarna sé leiðin til að bjarga mannfólki frá þessum hættum og það sé ekkert annað sem mannfólkið gæti gert til þess að bjarga sjálfu sér frá hamförum. Malthus sjálfur, sem var prestur, talaði þó fyrir því að sjálfstjórnun eða kynlífsbindindi væri æskilegri leið heldur en getnaðarvarnir.[7]

Talið er að þessi hugsunarháttur hafi lagt grunninn fyrir þvingunarstefnur á sviðum getnaðarvarna.[12] Sem dæmi má nefna eins barns stefnuna sem Kína setti á laggirnar 1980. Þessi stefna bannaði fólki að eignast fleira en eitt barn og ef fólk reyndist brjóta þessa stefni, þá gæti það mögulega sætt háum sektum, þvingaðri fóstureyðingu eða átt í hættu að missa vinnuna sína. Yfirvöld töluðu fyrir því að þetta væri lykilþáttur í að styðja við uppsveifluna í efnahagi Kína. Kínverjar hafa síðan slakað á þessari stefnu og nu er fólki leyft að eignast þrjú börn.[13]

Ný-malthusismi hefur sætt mikilli gagnrýni alveg frá því að þessi hugsunarháttur kom fyrst á sjónarsviðið, þá sérstaklega fyrir sínar neikvæðu spár um framtíð mannkynsins. Hagfræðingurinn Julian L. Simon hélt því fram í bókinni sinni “The Ultimate Resource” að ný-malthusistar væru fastir í fortíðinni og væru ekki að taka til greina þær framfarir sem hafa átt sér stað á sviði landbúnaðar og matarframleiðslu.[14]

Tenglar

breyta
  • „Hver var Thomas Malthus og fyrir hvað er hann helst þekktur?“. Vísindavefurinn.
  • „Hvaða áhrif hafði Thomas Malthus á hagfræðina?“. Vísindavefurinn.
  • Faðir hinna döpru vísinda, Viðskiptablað Morgunblaðsins 15. júní 2006

Tilvísunarlisti

breyta
  1. „Hver var Thomas Malthus og fyrir hvað er hann helst þekktur?“. Vísindavefurinn. Sótt 1. september 2022.
  2. „Thomas Malthus (1766 - 1834)“.
  3. „Thomas Robert Malthus“. www.jesus.cam.ac.uk (enska). Sótt 1. september 2022.
  4. 4,0 4,1 4,2 Robert L. Heilbroner (1999). The Worldly Philosophers. Simon & Schuster. ISBN 978-0-684-86214-9.
  5. „Thomas Malthus (1766-1834)“. www.historyhome.co.uk. Sótt 1. september 2022.
  6. „Thomas Malthus | Biography, Theory, Overpopulation, Poverty, & Facts | Britannica“. www.britannica.com (enska). Sótt 1. september 2022.
  7. 7,00 7,01 7,02 7,03 7,04 7,05 7,06 7,07 7,08 7,09 Harry Landreth; David C. Colander (2002). The History of Economic Thought. Houghton Mifflin.
  8. „HET: The Natural Wage“. www.hetwebsite.net. Sótt 15. september 2022.
  9. John Pullen (2001). „Observations on the Effects of the Corn Laws, 1814“ (PDF). University of New England.
  10. „The Corn Law debates“. Marginal Revolution University (enska). 9. september 2013. Sótt 15. september 2022.
  11. Dorfman, Robert (1. ágúst 1989). „Thomas Robert Malthus and David Ricardo“. Journal of Economic Perspectives (enska). 3 (3): 153–164. doi:10.1257/jep.3.3.153. ISSN 0895-3309.
  12. „Neo‐Malthusianism and Coercive Population Control in China and India: Overpopulation Concerns Often Result in Coercion“. Cato Institute. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. janúar 2024. Sótt 1. september 2022.
  13. „What was China's one-child policy and why was it so controversial?“. South China Morning Post (enska). 1. júní 2021. Sótt 1. september 2022.
  14. Rosenfel, Stephen S. (23. október 1981). „The Anti-Malthusians“. Washington Post (bandarísk enska). ISSN 0190-8286. Sótt 1. september 2022.
   Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.