Kommúnistaflokkur Íslands (m-l)
Kommúnistaflokkur Íslands (marxistarnir-lenínistarnir) (sem voru þekktari sem KFÍ m-l) var stjórnmálahreyfing sem starfaði frá byrjun áttunda áratugs tuttugustu aldar fram undir miðjan níunda áratuginn. Þau áttu upptök hjá íslenskum námsmönnum í Gautaborg í Svíþjóð á árunum kring um 1970. Þeir höfðu þar tengst maóistasamtökum þeim sem nefnd voru KFML(r)(sv), hópurinn kallaði sig upphaflega ýmist Gautaborgarhópinn eða Kommúnistahreyfingin marxistarnir-lenínistarnir (KHML). Formleg samtök voru stofnuð 1972 og voru þá nefnd Kommúnistasamtökin marxistarnir-lenínistarnir (sem varð þekktara sem KSML). Lögð var mikil áhersla á að nema fræðikenninguna og beita henni á íslenskan veruleika. Undir kjörorðinu "stétt gegn stétt" var sérlega reynt að skilgreina hvaða þjóðfélagshópar væru byltingarsinnaðir í eðli sínu. Var Jósef Stalín einkum hampað sem fyrirmynd og pólitískum leiðtoga.
Starf samtakana fyrstu árin einkenndist mjög af viðleitni til að halda pólitísku línunni hreinni með ströngum aga og afneituðu þau öllu samstarfi við aðra aðila svo sem innan samtaka herstöðvaandstæðinga eða verkalýðsfélaga. KSML lagði þess vegna mikla áherslu að berjast gegn Alþýðubandalaginu en þó sérlega EIK (m-l) og Fylkingunni.
KSML bauð einu sinni fram í Alþingiskosningum, árið 1974, en fengu einungis 121 atkvæði. Þrátt fyrir það þótti félagsmönnum að samtökunum hafði svo vaxið fiskur um hrygg að ákveðið var 1975 að breyta honum í lenínískan flokk og var hann nefndur Kommúnistaflokkur Íslands marxistarnir-lenínistarnir.
Þrátt fyrir þetta fór mjög að fækka í flokknum á næstu árum og gengu allmargir fyrrverandi félagar þess í stað í EIK (ml). Þessi tvö samtök voru svo sameinuð 1979 í Kommúnistasamtökunum (KS), en við sameininguna hættu margir félagar beggja samtakanna starfi. KS voru lögð niður árið 1985. Málgagn KSML og KFÍ-ml var tímaritið Stéttabaráttan.
Heimildir
breyta- '68 Hugarflug úr viðjum vanans. Gestur Guðmundsson, Kristín Ólafsdóttir. Tákn,1987.
- Óvinir ríkisins, Guðni Th. Jóhannesson, Mál og menning, 2006. ISBN 9979-3-2808-8