Fidel Castro

Kúbverskur byltingarmaður og einræðisherra (1926-2016)

Fidel Alejandro Castro Ruz (13. ágúst 192625. nóvember 2016) var fyrrverandi forseti Kúbu og ríkti sem einræðisherra. Hann leiddi byltinguna á Kúbu, ásamt Che Guevara og fleirum, og hafði sigur 1. janúar 1959. Hann varð forsætisráðherra Kúbu 18. febrúar það ár. Brátt kólnuðu samskipti Kúbu og Bandaríkjanna þegar stjórn Castros hóf að taka eignarnámi land sem tilheyrði bandarískum stórfyrirtækjum eins og United Fruit. Stjórnin hallaði sér þá að Sovétríkjunum og undirritaði olíukaupasamning við þau 1960. Castro og stjórn hans breyttu Kúbu smám saman í flokksræði þar sem komið var á samyrkjubúum í landbúnaði, land tekið eignarnámi og iðnaður þjóðnýttur.

Fidel Castro
Fidel Castro árið 2003.
Forseti Kúbu
Í embætti
2. desember 1976 – 24. febrúar 2008
VaraforsetiRaúl Castro
ForveriOsvaldo Dorticós Torrado
EftirmaðurRaúl Castro
Forsætisráðherra Kúbu
Í embætti
16. febrúar 1959 – 2. desember 1976
ForsetiManuel Urrutia Lleó
Osvaldo Dorticós Torrado
ForveriJosé Miró Cardona
EftirmaðurHann sjálfur sem forseti
Persónulegar upplýsingar
Fæddur13. ágúst 1926
Birán, Kúbu
Látinn25. nóvember 2016 (90 ára) Havana, Kúbu
StjórnmálaflokkurKommúnistaflokkur Kúbu (1965–2016)
MakiMirta Diaz-Balart (g. 1948; skilin 1955)
Dalia Soto del Valle (g. 1980)
Börn11
StarfByltingarmaður, stjórnmálamaður
Undirskrift

Innrásin í Svínaflóa

breyta

Strax 1961 voru Bandaríkjamenn orðnir staðráðnir í að koma honum frá völdum og CIA skipulagði innrásina í Svínaflóa sem mistókst gersamlega. 1. maí sama ár lýsti Castro því yfir að Kúba væri sósíalískt ríki og afnam frjálsar kosningar. 7. febrúar 1962 settu Bandaríkin algjört viðskiptabann á Kúbu.

Kúbudeilan

breyta
 
Ljósmynd frá heimsókn Castros til Washington árið 1959.

Spennan magnaðist enn árið 1962 þegar Kúbudeilan hófst við það að skip frá Sovétríkjunum reyndu að flytja miðdrægar eldflaugar til Kúbu. Bandaríkjamenn brugðust við með því að mynda varnarhring skipa um Kúbu sem stöðvuðu og leituðu í öllum skipum sem hugðust sigla til eyjunnar. Kúbverjar óttuðust innrás Bandaríkjamanna svo á endanum varð samkomulag milli Sovétríkjanna og Bandaríkjanna að Sovétríkin hættu við uppsetningu eldflauganna á Kúbu gegn því að Bandaríkjamenn hyrfu á brott frá ströndum Kúbu og að þeir fjarlægðu sams konar eldflaugar sem beindust gegn Sovétríkjunum á Ítalíu og í Tyrklandi. Deilan er almennt talin það einstaka atvik á tímum Kalda stríðsins sem helst hefði getað leitt til kjarnorkustyrjaldar.

Eftir Kúbudeiluna var Kúba örugglega á áhrifasvæði Sovétríkjanna sem keyptu útflutningsvörur þeirra og styrktu efnahag landsins með ýmsum hætti. Eftir fall Sovétríkjanna 1989 lenti Kúba í alvarlegum efnahagsþrengingum þegar viðskiptabannið fór fyrir alvöru að segja til sín. Frá 1991 hefur allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fordæmt viðskiptabannið á hverju ári.

Einræðisstjórn Castros

breyta

Strax eftir valdatöku sína lét Castro taka af lífi helstu stuðningsmenn forvera síns, einræðisherrans Fulgencio Batista, líklega um 600 manns. Á sjöunda áratug voru milli sjö og tíu þúsund manns teknir af lífi af stjórnmálaástæðum á Kúbu og um 30 þúsund fangelsaðir fyrir stjórnmálaskoðanir sínar. Fljótlega eftir valdatöku Castros voru settar upp vinnubúðir, til dæmis El Manbu í Camagüey-héraði, þar sem þrjú þúsund stjórnmálafangar voru vistaðir. Talið er, að samtals hafi í stjórnartíð Castros um 100 þúsund Kúbverjar setið í fangelsi eða vinnubúðum og milli 15 og 17 þúsund manns verið teknir af lífi vegna stjórnmálaskoðana sinna. Fyrsta stjórnarár Castros flýðu um 50 þúsund manns lands, aðallega menntamenn, læknar, lögfræðingar og kennarar. Samtals er talið, að um tvær milljónir Kúbverja (af ellefu) séu landflótta erlendis, aðallega í Bandaríkjunum. Castro lét fyrstu stjórnarár sín handtaka marga fyrrverandi stuðningsmenn sína, meðal annars Hubert Matos, og halda yfir þeim sýndarréttarhöld. Stofnuð var stjórnmálalögregla til að hafa gætur á hugsanlegum andstæðingum sósíalistastjórnarinnar, Dirección General de Contra-Inteligencia (DGCI), sem stundum var kölluð „Rauða Gestapó“. Flugumenn Castro myrtu ýmsa andstæðinga hans erlendis, til dæmis Elias de la Torriente í Miami og Aldo Vera í Puerto Rico. Báðir höfðu þeir barist eins og Castro gegn Batista. Castro þrengdi frá upphafi mjög að kaþólsku kirkjunni. Í maí 1959 lokaði hann öllum háskólum hennar, og í september sama ár rak hann á annað hundrað presta úr landi. Njóta Kúbverjar enn mjög takmarkaðs trúfrelsis. Stjórnvöld á Kúbu hafa líka verið mjög fjandsamleg samkynhneigðu fólki. Ritskoðun stjórnvalda bitnaði einnig á rithöfundum. Skáldið Herberto Padilla flýði Kúbu 1980 og skáldið Reinaldo Arenas, sem hafði lengi setið í fangelsi fyrir skoðanir sínar, hvarf úr landi sama ár. Castro sendi kúbverskar hersveitir til Angóla, þar sem geisaði borgarastríð 1975-1989, og féllu milli sjö og ellefu þúsund hermenn hans þar.[1]

Veikindi og afsögn sem forseti

breyta

21. júlí 2006 veiktist Castro alvarlega og lá sjúkralegu fram til 2. desember. Á meðan sat bróðir hans, Raúl Castro, um stjórnartaumana en í desember tilkynnti Fidel að hann væri á ný tekinn við sem forseti. Fidel ríkti fram til 19. febrúar 2008 þegar hann ákvað að segja af sér.[2]

Tilvísanir

breyta
  1. The Black Book of Communism: Crimes, Terror, Repression (1999), ed. Stéphane Courtois, Harvard: Harvard University Press.
  2. „Kastró segir af sér“. Mbl.is. 19. febrúar 2008.


Fyrirrennari:
José Miró Cardona
Forsætisráðherra Kúbu
(16. febrúar 19592. desember 1976)
Eftirmaður:
Hann sjálfur sem forseti
Fyrirrennari:
Osvaldo Dorticós Torrado
Forseti Kúbu
(2. desember 197624. febrúar 2008)
Eftirmaður:
Raúl Castro