Gautaborg
Gautaborg (sænsku: ⓘ) er borg í Vestur-Gautlandi í Svíþjóð. Hún er næststærsta borg landsins og stærsta borgin á vesturströndinni. Íbúar eru tæplega 600.000 í sjálfri borginni (2019) og samanlagt rúmlega milljón með samvöxnum sveitarfélögum (2019).
Gautaborg
Göteborg (sænska) | |
---|---|
Hnit: 57°42′27″N 11°58′03″A / 57.70750°N 11.96750°A | |
Land | Svíþjóð |
Hérað | Vestur-Gautland, Bohuslän og Halland |
Flatarmál | |
• Samtals | 447,76 km2 |
Hæð yfir sjávarmáli | 12 m |
Mannfjöldi (2019) | |
• Samtals | 603.325 |
• Þéttleiki | 1.300/km2 |
Tímabelti | UTC+1 (CET) |
• Sumartími | UTC+2 (CEST) |
Póstnúmer | 40xxx – 41xxx – 421xx – 427xx |
Svæðisnúmer | (+46) 31 |
Vefsíða | goteborg |
Saga
breytaGautaborg rekur sögu sína aftur til 12. aldar, en þá stóð kaupangur miklu ofar en nú og hélt áfram að færast til þar til borgin staðfestist. Á miðöldum var borgin Lödöse mikilvægur verslunarstaður og gluggi til vesturs, hún var um 40 kílómetra norður af núverandi Gautaborg upp með Gautafljóti (Göta älv). Lengi vel var öll eða mest öll núverandi vesturströnd Svíþjóðar hluti af Noregi (eða Dansk-norska ríkinu) allt fram á 17. öld. Það var einungis í kringum árminni Gautafljóts sem Svíaríki náði fram að sjó vestanmegin. Margar tilraunir voru gerðar til að stofna bæi nær hafinu en Lödöse, en það var ekki fyrr en 1621 sem Gústaf 2. Adólf Svíakonungi tókst að stofna borgina Gautaborg á eyjunni Hisingen. Styrjaldir í kjölfarið leiddu til þess að Danmörk neyddist til að afsala sér 1658 héruðunum Halland, suður af Gautaborg og Bohuslän norður af borginni fyrir utan Skán.
Það voru Hollendingar sem einkum settu svip sinn á hina núverandi Gautaborg í fyrstu. Enn sér þessa merki, því að hin eldri og meiri háttar hús eru með hollensku byggingarlagi, og sundin inni í borginni, svo sem Stora Hamnkanalen eru eftir hollenskri fyrirmynd. Þegar til þess er litið að í fyrstu bæjarstjórn Gautaborgar sátu 7 Svíar, einn Skoti og tíu Hollendingar, sést vel hvílík ítök Hollendingar höfðu í borginni. Hollendingar kölluðu einnig borgina um tíma: „Nýja Amsterdam“.
Efnahagslíf
breytaFrá upphafi hefur Gautaborg haft afar gott hafnarstæði, þar er nú stærsta höfn á Norðurlöndum. Kaupmennska og skipaútgerð hafa verið mikilvægur þáttur í efnahagslífinu, þar að auki hafa mörg stærstu stóriðnaðfyrirtæki Svíþjóðar haft aðsetur í Gautaborg með stórar verksmiðjur eins og til dæmis SKF, Volvo og Ericsson, en einnig minni fyrirtæki eins og Hasselblad. Á allra síðustu áratugum hefur atvinnulífið tekið miklum stakkaskiptum með lokun allra helstu skipasmiðja og fleiri stærri verksmiðja. Í stað þess hafa komið ýmiss konar minni hátæknifyrirtæki og þjónustufyrritæki.
Stjórnmál
breytaJafnaðarmenn hafa lengi haft meirihluta í sveitarstjórnarkosningum í Gautaborg en þar hafa einning frjáslyndir verið fjölmennir. Kommúnistar hafa einning verið óvenju öflugir og kom ein grein þeirra aðeins við íslenska stjórnmálasögu á áttunda áratugnum en flestir forsprakkar KSML - KFÍ-ml höfðu stundað nám í Gautaborg og tekið þátt í starfi KFML(r) sem síðar varð KPML(r). Sá flokkur hefur enn fulltrúa í sveitarstjórn Gautaborgar.
Íþróttir
breytaIFK Göteborg, Örgryte IS, GAIS og BK Häcken eru helstu fótboltaliðin. Á hverju ári er haldið ungmennamót í knattspyrnu Gothia Cup í borginni. Frölunda HC er íshokkílið Gautaborgar.
Menntun
breytaHelstu háskólar eru Gautaborgarháskóli og Chalmersháskóli.
Menning og afþreying
breytaSkemmtigarðurinn Liseberg er eitt helsta aðdráttarafl Gautaborgar. Kvikmyndahátíðin í Gautaborg er árleg og virt hátíð.
Í tónlistarsenu borgarinnar hafa indítónlist og þungarokk verið frjór geiri. Melódískt dauðarokk rekur rætur sínar til borgarinnar (At The Gates, In Flames o.fl.) og er Metaltown Festival er tveggja daga þungarokkshátíð.
Íslendingar í Gautaborg
breytaStór hópur íslendingar flutti búferlum til Gautaborgar í atvinnuleit í lok sjöunda og byrjun áttunda áratugs síðustu aldar, þegar sem mest atvinnuleysi var á Íslandi. Fóru flestir þeirra í störf hjá stóru verksmiðjufyrirtækjunum. Mjög margir þeirra hafa ílenst og er fjölmenn nýlenda Íslendinga og athafnasamt Íslendingafélag í borginni. Eru þá ótaldir allir þá námsmenn sem stundað hafa og stunda nám við hina ýmsu háskóla. Á þessum áratug hafa margir unglæknar flutt til Gautaborgar til að verða sérlæknar. Á Sahlgrenska Universitetssjukhuset eru margir íslenskir læknar.
Myndasyrpa
breyta-
Heimsmenningarsafnið í Gautaborg
-
Óperan í Gautaborg
-
Skansen Kronan
-
Austurindíafarinn siglir frá Gautaborg
-
Liseberg
-
Haga
-
Listasafn Gautaborgar
-
Grasagarður Gautaborgar
-
Virkið í Älvsborg
-
Síkin
Tilvísanir
breytaTenglar
breyta- „Skemmtilegasta höfuðborg Svíþjóðar“; grein í DV 1992
- „Gestkomandi í nokkrum erlendum borgum“; grein í Alþýðublaðinu 1938
erlendir
- Gothenburg & Co. Opinber ferðamannavefur
- Gothenburg Geymt 24 febrúar 2006 í Wayback Machine - Vefur Gautaborgar