Sovétríkin

fyrrum ríki í Evrasíu
(Endurbeint frá CCCP)

Sovétríkin eða Ráðstjórnarríkin (rússneska: Советский Союз Sovetskíj Sojúz), formlegt heiti Sambandsríki sósíalískra sovétlýðvelda (Союз Советских Социалистических Республик Sojúz Sovetskíkh Sotsíalístítsjeskíkh Respúblík, skammstafað СССР SSSR) var sambandsríki með sósíalíska stjórnarskrá í Austur-Evrópu og Asíu sem var stofnað árið 1922 og leystist upp árið 1991.

Sambandsríki sósíalískra sovétlýðvelda
Союз Советских Социалистических Республик
(Sojúz Sovetskíkh Sotsíalístítsjeskíkh Respúblík)
Fáni Sovétríkjanna Skjaldarmerki Sovétríkjanna
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Пролетарии всех стран, соединяйтесь! (Rússneska)
Verkamenn allra landa sameinist!
Þjóðsöngur:
Internatsjónalinn (til 1944)

Gímn Sovetskogo Sojúza
Staðsetning Sovétríkjanna
Höfuðborg Moskva
Opinbert tungumál Ekkert (rússneska í reynd)
Stjórnarfar Flokksræði

Leiðtogi Vladímír Lenín (fyrstur)
Míkhaíl Gorbatsjov (síðastur)
Nýtt ríki
 • Stofnun 1922 
 • Upplausn 1991 
Flatarmál
 • Samtals
1. sæti
22.402.200 km²
Mannfjöldi
 • Samtals (1991)
 • Þéttleiki byggðar
3. sæti
293.047.571
13,08/km²
VLF (KMJ) áætl. 1990
 • Samtals 2.700 millj. dala (2. sæti)
 • Á mann 9.200 dalir
Gjaldmiðill sovésk rúbla
Tímabelti UTC +3 til +11
Þjóðarlén .su

Stjórnmálakerfi Sovétríkjanna var einsflokkskerfi þar sem Kommúnistaflokkur Sovétríkjanna var við völd fram til ársins 1990. Enda þótt Sovétríkin ættu að heita sambandsríki sovétlýðvelda (sem voru 15 talsins eftir 1956) með Moskvu sem höfuðborg, var í raun um að ræða ríki sem alla tíð var mjög miðstýrt frá Rússlandi. Aðrar helstu borgir Sovétríkjanna voru Leníngrad, Kíev, Minsk, Taskent, Alma-Ata og Novosíbírsk. Sovétríkin voru stærsta ríki heims á sínum tíma, rúmlega 22.400.000 km² að stærð, og náðu yfir ellefu tímabelti.

Upptökin að stofnun ríkisins lágu í októberbyltingunni árið 1917 þegar Bolsévikar steyptu bráðabirgðastjórn Rússlands sem hafði verið mynduð eftir febrúarbyltinguna af stóli, og síðasti keisari Rússlands, Nikulás 2., sagði af sér. Eftir valdarán Bolsévika undir forystu Vladimírs Lenín, stofnuðu þeir Rússneska sósíalíska sambandslýðveldið, fyrsta stjórnarskrárbundna sósíalistaríkið. Áframhaldandi átök innan landsins leiddu til hins blóðuga borgarastríðs. Eftir því sem Bolsévikar náðu undir sig meira landsvæði, stofnuðu þeir ný sósíalistaríki sem voru sjálfstæð að nafninu til. Í desember 1922 voru þessi ríki sameinuð í ein Sovétríki. Eftir dauða Leníns árið 1924 komst Jósef Stalín til valda. Stalín hóf hraða iðnvæðingu og samyrkjuvæðingu í Sovétríkjunum sem leiddu til hagvaxtar, en líka hungursneyðar 1930-1933 þar sem milljónir létu lífið. Nauðungarvinna í Gúlaginu var aukin verulega á þessum tíma. Stalín hóf hreinsanirnar miklu til að losa sig við raunverulega og meinta andstæðinga. Þegar síðari heimsstyrjöld braust út gerðu Þjóðverjar innrás í Sovétríkin. Samanlagt mannfall hermanna og almennra borgara í Sovétríkjunum í síðari heimsstyrjöld er áætlað hafa verið yfir 20 milljónir, sem var meirihluti mannfalls meðal bandamanna í stríðinu. Eftir stríðið voru sovésk leppríki stofnuð á hernámssvæðum Rauða hersins.

Eftir styrjöldina hófst kalda stríðið þar sem Austurblokkin tókst á við Vesturblokkina. Ríkin í Vesturblokkinni tóku flest þátt í stofnun Atlantshafsbandalagsins (NATO) 1949 og mörg ríkin í Austurblokkinni tóku þátt í stofnun Varsjárbandalagsins 1955. Þar sem Sovétríkin höfðu bæði herlið og mikil pólitísk ítök í flestum ríkjum Austurblokkarinnar var litið á stofnun Varsjárbandalagsins sem formsatriði. Yfirmenn NATO kölluðu það „pappakastala“. Bandalögin tvö áttu aldrei í beinum stríðsátökum, en tókust á á pólitískum vettvangi og í leppstríðum. Bæði bandalögin juku hernaðarumsvif innan blokkanna tveggja. Mestu hernaðarátök innan Varsjárbandalagsins voru innrás Varsjárbandalagsins í Tékkóslóvakíu í ágúst 1968 með þátttöku allra aðildarríkja nema Albaníu og Rúmeníu. Albanía dró sig úr bandalaginu í kjölfarið. Eftir dauða Stalíns árið 1953 tók við tímabil af-Stalínsvæðingar undir forystu Níkíta Khrústsjov. Sovétmenn tóku forystuna snemma í geimkapphlaupinu með því að skjóta Spútnik 1 á braut um jörðu, fyrsta mannaða geimskotinu og með því að lenda fyrsta könnunarfarinu á yfirborði annarrar plánetu (Venus).

Á 8. áratug 20. aldar var þíða í samskiptum risaveldanna um stutt skeið, en spennan óx á ný í kjölfar innrásar Sovétmanna í Afganistan árið 1979. Um miðjan 9. áratuginn reyndi síðasti leiðtogi Sovétríkjanna, Míkhaíl Gorbatsjov, að koma á umbótum í stjórnkerfi landsins með stefnunum glasnost og perestrojka. Undir lok kalda stríðsins, árið 1989, var kommúnistastjórnum í nokkrum ríkjum Austurblokkarinnar steypt af stóli. Því fylgdi bylgja þjóðernishyggju og aðskilnaðarhreyfinga í Sovétríkjunum. Árið 1991 var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla sem sovétlýðveldin Litáen, Lettland, Eistland, Armenía, Georgía og Moldavía sniðgengu. Meirihluti kjósenda samþykktu því endurnýjað sambandsríki. Í ágúst 1991 reyndu harðlínumenn innan Sovéska kommúnistaflokksins að fremja valdarán til að steypa Gorbatsjov af stóli. Valdaránið misheppnaðist og borgarstjóri Moskvu, Borís Jeltsín, vakti athygli fyrir framgöngu sína við að stilla til friðar. Í kjölfarið var Sovéski kommúnistaflokkurinn bannaður og sambandsríkið Rússland tók við af Sovétríkjunum. Hin sovétlýðveldin urðu sjálfstæð ríki og fyrrum sovétlýðveldi við upplausn Sovétríkjanna.

Efnahagskerfi Sovétríkjanna byggðist á áætlanabúskap. Sovétríkin voru í reynd ráðandi í mótun efnahagsstefnu fyrir flest ríkin í Austurblokkinni. Hagkerfi Sovétríkjanna var það annað stærsta í heimi og þaðan komu margar nýjungar á sviði tækni og vísinda. Sovéski herinn var stærsti herafli heims. Sovétríkin voru kjarnorkuveldi sem áttu líklega stærsta vopnabúr kjarnavopna í heimi. Sovétríkin voru stofnaðili að Sameinuðu þjóðunum og áttu einn af fimm fastafulltrúum í Öryggisráðinu. Áður en ríkið leystist upp var það annað af tveimur risaveldum heims, ásamt Bandaríkjunum.

Byltingin og stofnun Sovétríkjanna (1917-1927)

breyta
 
Lenín, Trotskíj og Kamenev fagna 2ja ára afmæli októberbyltingarinnar árið 1919.

Rætur Sovétríkjanna liggja í pólitískum óróa innan Rússaveldis sem braust fyrst upp á yfirborðið í desembristauppreisninni 1825. Eftir rússnesku byltinguna 1905 var Nikulás 2. keisari neyddur til að samþykkja stofnun fulltrúadeildar rússneska þingsins, Dúmunnar. Keisarinn stóð gegn tilraunum til að koma á þingbundinni konungsstjórn. Röð ósigra rússneska keisarahersins í fyrri heimsstyrjöld og matarskortur í borgum rússlands jók enn á óróa innanlands. Þann 8. mars 1917 hófust mótmæli gegn háu brauðverði í Petrograd sem leiddu til febrúarbyltingarinnar og afsagnar Nikulásar og keisarastjórnarinnar. Við tók sósíaldemókratísk bráðabirgðastjórn sem hugðist standa fyrir kosningum til stjórnlagaþings og halda áfram bardögum við hlið Bandamanna. Þetta reyndist mjög óvinsæl ákvörðun. Á sama tíma spruttu upp verkamannaráð, kölluð sovét, víða um land. Það stærsta og áhrifamesta, verkamannaráðið í Petrograd, deildi völdum með bráðabirgðastjórninni.

Bolsévikar undir forystu Vladimírs Lenín börðust fyrir valdaráni sovétanna. Þann 7. október 1917 gerði rauði vörðurinn, herlið Bolsévika, áhlaup á Vetrarhöllina og handtók meðlimi bráðabirgðastjórnarinnar. Lenín lýsti yfir valdatöku sovétanna í því sem síðar var kallað októberbyltingin. Bolsévikar undirrituðu fljótt vopnahléssamninga við Miðveldin og drógu sig formlega úr stríðinu í mars 1918 með friðarsamningunum í Brest-Litovsk.

 
Fórnarlömb hungursneyðar í Saratov í Rússlandi 1921.

Eftir valdarán Bolsévika hófst langvinnt og blóðugt borgarastríð sem stóð frá 1917 til 1923. Meðal þess sem gerðist í borgarastríðinu var að bandamenn gerðu innrás í Rússland til stuðnings hvítliðum, Bolsévikar myrtu fyrrverandi keisarann og fjölskyldu hans og um fimm milljónir létust í hungursneyð 1921-1922.[1] Sovét-Rússland reyndi að leggja undir sig öll þau lönd sem áður höfðu heyrt undir keisaradæmið, en höfðu fengið sjálfstæði við lok stríðsins. Rauði herinn lagði undir sig Úkraínu, afganginn af Hvíta-Rússlandi (utan þann hluta sem gekk til Póllands með friðarsamningum), Armeníu, Aserbaísjan og Georgíu; en Eistland, Lettland, Litáen og Finnland hrundu árásum þeirra. Rauði herinn gerði matvæli upptæk sem leiddi til margra uppreisna meðal bænda, eins og Tambovuppreisnarinnar 1920-1922 sem rauði herinn braut á bak aftur.

Borgarastyrjöldin lék efnahag landsins grátt. Rúblan hrundi í verði og fólk tók aftur upp vöruskiptaverslun, auk þess sem svartamarkaðsbrask blómstraði þrátt fyrir beitingu herlaga gegn því. Árið 1921 hafði þungaiðnaður dregist saman um 20%, 90% af launum voru greidd með vörum í stað peninga, 70% af járnbrautarlestum þurftu viðgerða við, og hungursneyðin sem stafaði bæði af stríðsrekstri og þurrkum dró milli 3 og 10 milljónir manna til dauða. Rauða ógnin, ofsóknir Bolsévika gegn meintum og raunverulegum óvinum, stóð frá 1918 til 1922. Tsjeka, leynilögregla Bolsévika, stóð fyrir ofsóknum, pyntingum og morðum, sem talin eru hafa orðið milli 50.000 og 200.000 að bana.[2]

 
Undirskriftir á samningnum um stofnun Sovétríkjanna.

Þann 28. desember var samningur um stofnun Sambands sósíalískra sovétlýðvelda undirritaður af fulltrúum Sovétlýðveldisins Rússlands, Sovétlýðveldisins Transkákasus, Sovétlýðveldisins Úkraínu og Sovétlýðveldisins Hvíta-Rússlands.[3] Stofnun Sovétríkjanna var formlega lýst yfir á sviði Bolsojleikhússins í Moskvu 30. desember 1922.

Enduruppbygging landsins fór fram samkvæmt GOELRO-áætluninni sem rússnesku sovétin höfðu samþykkt árið 1920 og varð fyrirmynd að fimm ára áætlunum Sovétríkjanna. Samkvæmt henni átti iðnvæðing landsins að byggjast á rafvæðingu Rússlands.[4] Þegar borgarastyrjöldinni lauk var stöku einkafyrirtækjum leyft að starfa í landinu, samhliða þjóðnýttum iðnfyrirtækjum, og matarskattur tók við af upptöku matvæla í sveitum.

Stjórn Bolsévika byggðist á flokksræði Kommúnistaflokksins sem átti að verja landið fyrir endurkomu arðráns kapítalista. Opinber stefna stjórnarinnar var lýðræðisleg miðstýring, en umdeilt er hversu virk sú stefna var í reynd. Eftir lát Leníns 1924 urðu deilur um efnahagsstefnu ríkisins og átök um völdin milli meðlima þríeykisins sem tók við af honum: Lev Kamenev fulltrúa Sovétlýðveldisins Rússlands, Grígoríj Zínovjev fulltrúa Sovétlýðveldisins Úkraínu, og Jósefs Stalín fulltrúa Sovétlýðveldisins Transkákasus.

Stalínstíminn (1927-1953)

breyta

Þann 3. apríl 1922 tók Stalín við sem aðalritari Kommúnistaflokksins. Áður hafði Lenín skipað hann yfirmann stjórnsýslueftirlitsnefndarinnar Rabkrin sem færði honum mikil völd.[5] Smám saman náði Stalín að sölsa undir sig öll völd og losa sig við keppinauta innan flokksins. Undir lok 3. áratugarins var stjórn hans orðin alræðisstjórn. Í október 1927 voru helstu keppinautar hans, Zínovjev og Lev Trotskíj, reknir úr miðnefnd flokksins og hraktir í útlegð.

 
Fangar frá Dalstroj í nauðungarvinnu við Kolymaveginn í Jakútíu sem var nefndur „beinavegurinn“.

Árið 1928 lagði Stalín fram fyrstu fimm ára áætlun Sovétríkjanna. Hann setti fram kenninguna um sósíalisma í einu landi í stað kenningarinnar um alheimsbyltingu sem Lenín aðhylltist. Ríkið tók yfir stjórn allra iðnfyrirtækja og hröð iðnvæðing hófst. Stalín neyddi allan landbúnað inn í samyrkjubúskap. Afleiðingin var útbreidd hungursneyð sem talin er hafa dregið milli 3 og 7 milljónir til dauða. Kúlakkar (vel stæðir bændur) voru ofsóttir og margir sendir í nauðungarvinnu í Gúlagið.[6] Pólitískur órói hélt áfram fram yfir miðjan 4. áratuginn, en við upphaf síðari heimsstyrjaldar höfðu Sovétríkin byggt upp öflugan iðnað.

Snemma á 4. áratugnum jókst samstarf Sovétríkjanna og Vesturlanda. Sovétríkin tóku þátt í Afvopnunarráðstefnunni í Genf 1932 til 1934 og árið 1933 tóku Bandaríkin upp stjórnmálasamstarf við þau. Í september 1934 gerðust Sovétríkin aðildarríki Þjóðabandalagsins. Þegar spænska borgarastyrjöldin braust út árið 1936 studdu Sovétríkin lýðveldissinna gegn þjóðernissinnum sem fengu stuðning frá Ítalíu og Þýskalandi.[7] Í desember 1936 kynnti Stalín nýja stjórnarskrá sem á yfirborðinu virtist framsæknari en flestar vestrænar stjórnarskrár sem þá voru í gildi. Aðeins ári síðar stóðu hreinsanirnar miklu sem hæst og í „algjörlega lýðræðislegum“ kosningum til fyrsta æðstaráðs Sovétríkjanna voru aðeins óumdeildir frambjóðendur leyfðir. Þau borgaralegu réttindi, persónufrelsi og lýðræði sem stjórnarskráin boðaði reyndust því orðin tóm.[8]

 
Stalín og Lavrentíj Beríja (með dóttur Stalíns, Svetlönu í fanginu) árið 1931. Beríja bar ábyrgð á framkvæmd pólitískra ofsókna sovéska innanríkisráðuneytisins.

Hreinsanirnar miklu sem stóðu frá ágúst 1936 til mars 1938 urðu til þess að margir gamlir Bolsévikar sem höfðu tekið þátt í októberbyltingunni voru handteknir. Samkvæmt opnum skjölum sovéska innanríkisráðuneytisins var yfir ein og hálf milljón manna handtekin 1937 og 1938, og af þeim voru 681.692 tekin af lífi.[9] Á þessum tveimur árum voru aftökurnar fleiri en þúsund á dag.[10]

Eftir að hafa án árangurs reynt að gera varnarsamninga við Bretland og Frakkland gegn Þýskalandi, gerðu Sovétríkin óvænt samkomulag við Þýskaland með Molotov-Ribbentrop-sáttmálanum[11] um það bil ári eftir að Bretland og Þýskaland undirrituðu München-samkomulagið. Samningurinn innihélt leyniákvæði um hernám samningsaðila í Austur-Evrópu[12] og í kjölfarið gerðu Sovétríkin innrásir í Austur-Pólland, Finnland, Eystrasaltslöndin, Bessarabíu og Norður-Búkóvínu. Þann 1. september hófu Þjóðverjar innrás í Pólland og þann 17. réðust Sovétríkin inn austanfrá. Þann 6. október gafst Pólland upp og Sovétmenn afhentu Þjóðverjum hluta hernámssvæðis síns. Sovétríkin innlimuðu pólsku héruðin Galisíu og vesturhluta Hvíta-Rússlands. Seint í nóvember hófst Vetrarstríðið þegar Finnar neituðu að láta undan landakröfum Sovétríkjanna. Þann 14. desember voru Sovétríkin rekin úr Þjóðabandalaginu vegna innrásarinnar í Finnland.[13] Í austri unnu Sovétmenn nokkra mikilvæga sigra á Japan í átökum um landamæri að japanska leppríkinu Mansjúkúó, en 1941 gerðu ríkin samning Sovétríkjanna og Japans um gagnkvæmt hlutleysi sem tryggði að Japan gerði ekki innrás í Sovétríkin til stuðnings Þjóðverjum síðar.

Þann 22. júní 1941 rauf Þýskaland Molotov-Ribbentrop-sáttmálann og hóf innrás í Sovétríkin. Bardagar á austurvígstöðvunum voru kallaðir „föðurlandsstríðið mikla“ í Sovétríkjunum. Þjóðverjar sendu hundruð herdeilda inn í Sovétríkin í þremur fylkingum og náðu fljótt miklu landsvæði á sitt vald. Rauði herinn náði að stöðva framsókn þeirra í orrustunni um Moskvu í janúar 1942. Ósigur Þjóðverja í orrustunni um Stalíngrad 1943 var vendipunktur í stríðinu. Eftir það náðu Sovétmenn undirtökum og sóttu fram inn í Austur-Evrópu, allt til Berlínar fram að uppgjöf Þjóðverja 8. maí 1945. Bandaríkin studdu Sovétríkin ötullega í átökunum með lögum um lán og leigu á hergögnum fyrir allt að 11 milljarða bandaríkjadala sem voru flutt með skipalestum um Norðurhöf, Indlandshaf og Kyrrahaf. Eftir Jaltaráðstefnuna í febrúar 1945 rufu Sovétmenn samninginn við Japan og gerðu innrás í Mansjúkúó og önnur japönsk hernámssvæði 9. ágúst 1945.

 
Íbúar í Leníngrad við eyðilagðar byggingar eftir loftárásir Þjóðverja í desember 1942.

Mannfall í Sovétríkjunum í síðari heimsstyrjöld var gríðarlegt. Áætlað er að um 20 milljónir hafi látið lífið vegna átakanna, þar af 8,7 milljón hermenn.[14][15] 2,8 milljónir sovéskra stríðsfanga létust vegna hungurs, illrar meðferðar eða aftaka á aðeins átta mánuðum 1941 til 1942.[16][17] Yfir tvær milljónir manna í Hvíta-Rússlandi létu lífið meðan á hernámi Þjóðverja stóð; um fjórðungur allra íbúa landsins.[18] Meðal þeirra voru yfir hálf milljón gyðinga sem létu lífið í Helförinni.[19] Rauði herinn framdi líka stríðsglæpi í Þýskalandi. Sagnfræðingar hafa áætlað að allt að tveimur milljónum þýskra kvenna og stúlkna hafi verið nauðgað af bakvarðasveitum Rauða hersins.[20]

Í stríðinu urðu Sovétríkin hluti af fjórveldunum, ásamt Bandaríkjunum, Bretlandi og Kína.[21] Þessi fjögur ríki urðu síðar kjarninn í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.[22] Eftir styrjöldina var smám saman tekið að líta á Sovétríkin sem risaveldi og undir lok 5. áratugarins höfðu þau tekið upp stjórnmálasamband við nær öll ríki heims. Sovétríkin hertu tökin á stjórnum ríkja í Austurblokkinni eftir stríðið og gerðu þau í reynd að leppríkjum. Deilur um stjórn hernámssvæða bandamanna í Evrópu leiddu til upphafs kalda stríðsins 1947. Varsjárbandalagið og COMECON voru stofnuð sem svar við stofnun NATO og Evrópubandalagsins. Sovétríkin hertóku mikið af innviðum Þýskalands, Búlgaríu, Rúmeníu og Ungverjalands sem stríðsskaðabætur og komu á samningum við þessi lönd sem hygldu Sovétríkjunum á þeirra kostnað. Talið er að flutningar á framleiðslutækjum og vörum frá Austur-Evrópu til Sovétríkjanna hafi verið svipaður að umfangi og Marshall-aðstoðin sem Vestur-Evrópuríki nutu á sama tíma, eða 15 til 20 milljarðar bandaríkjadala að andvirði.[23]

Stalínstímanum í sögu Sovétríkjanna lauk með dauða Stalíns 5. mars 1953. Strax í valdatíð Níkíta Khrústsjov hófst uppgjör við þennan tíma og þá persónudýrkun sem fylgdi nafni Stalíns. Sagnfræðingar hafa deilt um umfang afbrigðilegrar dánartíðni á Stalínstímanum. Robert Conquest nefndi töluna 20 milljónir í bókinni The Great Terror frá 1968.[24][25] Þessi tala hefur oft verið gagnrýnd, og í endurskoðaðri útgáfu frá 2007 lækkaði Conquest hana í 15 milljónir.[26] Þótt tölurnar séu nokkuð á reiki, er víst að margar milljónir létu lífið í valdatíð Stalíns beinlínis vegna pólitískra ofsókna og stefnu sem leiddi til manngerðra hörmunga á borð við hungursneyðina í Úkraínu 1932-1933 (Holodomor). Bandaríski sagnfræðingurinn Ben Kiernan áleit valdatíð Stalíns hafa verið þá blóðugustu í allri sögu Rússlands.[27]

Þíða Khrústsjovs (1953-1964)

breyta

Strax eftir andlát Stalíns tók nýtt þríeyki við völdum: Lavrentíj Beríja innanríkisráðherra, Georgíj Malenkov forsætisráðherra og Vjatsjeslav Molotov utanríkisráðherra. Fljótlega var Beríja handtekinn og tekinn af lífi fyrir ýmsar sakir. Eftir það tókust Malenkov og aðalritari flokksins, Níkíta Khrústsjov, á um völdin. Því lauk með valdatöku Khrústsjovs árið 1956. Á flokksþingi kommúnistaflokksins í febrúar það ár gagnrýndi Khrústsjov harðlega Jósef Stalín og valdatíð hans, sérstaklega hreinsanirnar miklu, og fyrir að hafa ýtt undir persónudýrkun sem var andstæð hugsjónum kommúnismans. Þá hófst tímabil af-Stalínsvæðingar þar sem flokkurinn losaði um tök sín á sovésku samfélagi um leið og minnismerki um Stalín voru fjarlægð og lík hans flutt úr grafhýsi Leníns. Á sama tíma leituðust Sovétríkin við að herða tökin á leppríkjunum í Austurblokkinni og uppreisnin í Ungverjalandi í nóvember 1956 var barin niður með mikilli hörku. Seint á 6. áratugnum varð klofningur milli Kína og Sovétríkjanna vegna bættra samskipta Sovétríkjanna við Vesturlönd. Mörg kommúnistaríki, eins og Albanía, Kambódía og Sómalía, ákváðu í kjölfarið að styðja heldur Kína. Innrásin í Ungverjaland varð líka til þess að draga úr stuðningi við Sovétríkin meðal vestrænna kommúnista, og margir þeirra kusu heldur að líta til Mao Zedong sem leiðtoga alþjóðakommúnismans.

Á þessum árum tóku Sovétríkin forystu í geimkapphlaupinu. Bandarískt samfélag varð fyrir áfalli þegar Sovétmönnum tókst að senda Spútnik 1 á braut um jörðu 4. október 1957. Hundurinn Laika fór á braut um jörðu sama ár. Þann 12. apríl 1961 tókst þeim svo að senda mannað geimfar út í geim, þegar Júríj Gagarín fór heilan hring um jörðina um borð í Vostok 1 og Valentína Tereshkova endurtók leikinn 1963. Alexej Leonov fór í fyrstu geimgönguna árið 1965. Fyrsta mjúka lendingin á tunglinu var þegar ómannaða sovéska geimfarið Luna 9 lenti þar 1966. Sovétmenn sendu líka fyrstu geimbílana til tunglsins, Lunokod 1 árið 1970 og Lunokod 2 árið 1973.

Í valdatíð Khrústsjovs hófst þíða Khrústsjovs sem olli breytingum á sovésku samfélagi, stjórnmálum og menningu. Landið varð opnara gagnvart öðrum ríkjum og ný efnahagsstefna leiddi til betri lífskjara og aukinnar einkaneyslu, um leið og hagvöxtur hélst hár. Slakað var á ritskoðun. Umbætur Khrústsjovs í landbúnaði og stjórnkerfinu báru samt lítinn árangur. Árið 1962 leiddu tilraunir hans til að senda eldflaugar til Kúbu til Kúbudeilunnar við Bandaríkin. Deilan leystist þegar Sovétríkin samþykktu að flytja eldflaugar sínar frá bæði Kúbu og Tyrklandi. Atvikið olli Khrústsjov álitshnekki og leiddi til þess að valdaklíka innan flokksins, undir forystu Leoníd Brezhnev og Aleksej Kosygin, steypti honum af stóli í október 1964.

Stöðnunin (1964-1985)

breyta

Þá tók við Brezhnev-tímabilið, seinna stöðnunartímabilið. Brezhnev lagði mjög mikla áherslu á vopnaframleiðslu, til þess að halda í við Bandaríkjamenn í vopnakapphlaupinu. Þessi aukna framleiðsla á vopnum kom niður á framleiðslu neysluvarnings, sem var allur í höndum ríkisins. Þessi aukna vopnaframleiðsla kom hinsvegar ekki bara niður á neysluvarningi, heldur líka tækni- og vísindaþróun. Þetta naut ekki mikilla vinsælda meðal alþýðu í landinu.

Í kjölfar andláts Brezhnevs árið 1982 tóku við Júríj Andropov og Konstantín Tsjernenko, en þeir voru báðir háaldraðir menn og voru við völd í mjög stuttan tíma. Eftir andlát Tsjernenko urðu loksins breytingar á stjórnarfari kommúnistaflokksins, og stöðnunartímabilið sem Brezhnev hafði komið á 20 árum fyrr var loks á enda þegar Míkhaíl Gorbatsjov tók við sem síðasti aðalritari Sovétríkjanna árið 1985. Valdaklíkan innan flokksins samanstóð á þessum tíma nánast eingöngu af háöldruðum flokksmönnum sem höfðu alist upp innan klíkunnar í áratugi í skjóli Brezhnevs. Brezhnev-klíkan var upphaflega aðferð hans til að minnka einveldi aðalritarans innan flokksins eins og tíðkast hafði áður fyrr en breyttist fljótlega í nokkuð spillt stjórnarráð fárra manna.

Gorbatsjov, sem varð fyrsti leiðtogi Sovétríkjanna sem var fæddur eftir byltinguna, hafði ekki verið áberandi innan Brezhnev-klíkunnar en var þó náinn samstarfsmaður Andropovs og í samstarfi við hann náði Gorbatsjov að koma á töluverðum breytingum. Þessar breytingar fólust meðal annars í því að 20% af yfirstjórn kommúnistaflokksins, öldruðum brezhnevistum, var skipt út fyrir yngri róttæka kommúnista. En þrátt fyrir róttækni Andropovs og Gorbatsjovs varð hinn 72 ára gamli Tsjernenko að aðalritara við dauða Andropovs og hélt áfram með stefnu Brezhnevs í þetta eina ár sem hann var við stjórn.

Perestrojka og Glasnost (1985-1991)

breyta

Framtíð Sovétríkjanna var því ekki björt þegar Gorbatsjov tók við þeim, og þrátt fyrir að hafa eytt gríðarlegur fjárhæðum í hernað og vopnaframleiðslu, höfðu þeir orðið undir Bandaríkjamönnum í vopnakapphlaupinu. Vegna þess hve miklu Bandaríkin og Sovétríkin eyddu í hernað, drógust þau aftur úr öðrum iðnríkjum í tækniþróun. Tækniþróunin var orðin svo ör á þessum tíma að þó svo að Sovétríkin framleiddu tæknivörur fyrir almennan markað voru þau alltaf langt á eftir samtíma sínum. Þannig héldust miðstýrða hagkerfið og hernaðariðnaður í hendur við að draga Sovétríkin smátt og smátt aftur úr Vestur Evrópu og lama efnahagskerfið. Áhrifin urðu þó minni í Bandaríkjunum þar sem kapítalisminn bætti upp tapið með því að græða á heimsvaldastefnunni.

Gorbatsjov sá hversu illa stríðskommúnismi hefði farið með ríkið og vildi koma fram breytingum. Gorbatsjov fannst vera þörf fyrir að opna og betrumbæta sovéskt samfélag sem var orðið staðnað. Hann vildi breyta pólitísku kerfi Sovétríkjanna og dreifa efnahag landsins betur.

Til þess gerði hann þrjár áætlanir:

  1. Glasnost („opnun“) sem snerist um að auka gagnsæi í hinu sovéska kerfi gagnvart almenningi. Leynd hvíldi ekki lengur yfir stjórnarathöfnum og dregið var úr ritskoðun. Hætt var að bæla þjóðina niður og fékk fólk nú útrás fyrir uppsafnaða gremju.
  2. Perestrojka („endurskipulagning“) snerist um endurskoðun og endurskipulagning á hinu staðnaða sovéska framleiðslukerfi og hinu pólitíska kerfi.
  3. Demokratízatsíja („lýðræðisvæðing“) var kynnt árið 1987. Hún snerist um að opna fyrir fleiri en einn frambjóðanda innan hins kommúnistíska kerfis en ekki koma á fjölflokkakerfi. Þjóðin fékk í fyrsta sinn síðan 1917 að kjósa um opinbera fulltrúa þjóðarinnar.[28][29]
 
Míkhaíl Gorbatsjov

Hann byrjaði að draga úr hernaðargjöldum og vildi enda deiluna milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Hann samdi við Bandaríkjamenn um afvopnun og kallaði herinn heim frá Afganistan, sem stuðlaði að bættum samskiptum við vesturveldin. Einnig gerði Gorbatsjov miklar breytingar á kommúnistaflokknum sjálfum, þar sem hann skipti helmingnum af flokksforystunni út fyrir yngri stjórnmálamenn sem voru sammála hugmyndum hans. Gorbatsjov gerði miklar breytingar á efnahagskerfinu og tók að mestu leiti upp markaðshagkerfi. Hann lagði mikla áherslu á það að hann væri ekki að reyna að skemma hið kommúníska kerfi sem ríkið var byggt á, heldur gera það skilvirkara. Einnig kynnti Gorbatsjov stefnu sem átti að auka tjáningarfrelsi almúgans, auka flæði upplýsinga frá ríkisstjórninni til hans og leyfa opna og gagnrýna umræðu um ríkið auk þess að efla þáttöku fólks í stjórnmálum og auk þess var kosningakerfið innan kommúnistaflokksins gert lýðræðislegra.

Í kjölfar þess að gefa aukið tjáningarfrelsi fékk flokkurinn þó nokkurra gagnrýni. Fólk fór að krefjast frekari lífsgæða og meira frelsis og nýtti tækifærið til að mótmæla. Flokkurinn missti einnig tök á fjölmiðlum eftir að hafa slakað á ritskoðun og pólitísk og efnahagsleg vandamál sem flokkurinn hafði átt við og haldið leyndu komu upp á yfirborðið. Auk þess urðu til þjóðernislegar umbótahreyfingar í sovétlýðveldunum og árið 1990 var krafa um sjálfstæði orðin hávær. Sama ár tók miðstjórn kommúnistaflokksins þá ákvörðun að leggja niður einflokkakerfið.

Á svipuðum tíma hófust átök innan flokksins og ríkisstjórnarinnar. Annars vegar voru þar frjálslyndir kommúnistar sem vildu flýta fyrir endurbótunum og hins vegar gamlir íhaldssamir kommúnistar sem fannst endurbæturnar vera svik við kommúnismann. Óánægja meðal hersins, KGB og íhaldssamra kommúnista var orðin svo mikil að hún leiddi til valdaránstilrauna KGB undir stjórn Vladímírs Krjútsjkov. 18. ágúst, tveimur dögum áður en skrifa átti undir lög sem myndu minnka völd alríkisins og auka völd sovétlýðveldanna, var Gorbatsjov, sem staddur var á Krímskaga, tjáð að hann skyldi segja af sér, en þegar hann neitaði var hann tekinn til fanga og það gefið út að hann hefði sagt af sér vegna heilsubrests.

 
Vytautas Landsbergis

Eystrasaltslöndin: Eistland, Lettland og Litháen voru undir stjórn Sóvétríkjanna og urðu sjálfstæð ríki á árunum 1988-1990 og síðan Úkraína árið 1991.[28]

Árið 1991 var skrifað undir frumvarp sem bannaði kommúnistaflokkinn m.a. vegna aðildar hans að valdaráninu. Í framhaldi af því skrifuðu öll fyrrum sovétlýðveldin undir samning um stofnun SSR, Samveldi sjálfstæðra ríkja, en það var samningur um stjórnmálalega og efnahagslega samvinnu í kjölfar hrunsins, og 21. desember skrifuðu fulltrúar allra sovétlýðveldanna undir Alma-Ata yfirlýsinguna sem staðfesti niðurlagningu Sovétríkjanna. Fjórum dögum seinna sagði Gorbatsjov loks af sér sem forseti Sovétríkjanna og aðalritari flokksins og færði öll völd embættis síns í hendur rússneska forsetaembættinu. Daginn eftir viðurkenndi æðstaráð Sovétríkjanna hrunið formlega og sagði af sér.

Upplausn og eftirmálar

breyta

Sovétlýðveldin 12 sem eftir voru í sambandsríkinu héldu áfram viðræðum um framhald ríkjasambandsins, en í desember 1991 höfðu þau öll líka lýst yfir sjálfstæði, nema Rússland og Kasakstan. Á þessum tíma tók Jeltsín yfir það sem eftir var af stjórnkerfi Sovétríkjanna, þar á meðal Kreml í Moskvu. Lokahöggið kom svo 1. desember þegar íbúar Úkraínu, öflugasta lýðveldisins, samþykktu að lýsa yfir sjálfstæði með yfirgnæfandi meirihluta. Eftir brotthvarf Úkraínu var enginn raunhæfur möguleiki á að viðhalda sambandsríkinu. Þann 8. desember undirrituðu forsetar Úkraínu, Hvíta-Rússlands og Rússlands Belavetsa-sáttmálann um upplausn Sovétríkjanna og stofnun Samveldis sjálfstæðra ríkja. Þann 21. desember undirrituðu fulltrúar allra sovétlýðveldanna nema Georgíu og Eystrasaltslandanna, Alma-Ata-bókunina, sem staðfesti sáttmálann. Þann 25. desember sagði Gorbatsjev af sér og lýsti því yfir að embætti forseta Sovétríkjanna væri lagt niður og vald hans gengi til forseta Rússlands. Þá nótt var Sovétfáninn felldur í hinsta sinn og fáni Rússlands dreginn að húni. Daginn eftir kaus æðstaráð Sovétríkjanna að leggja sjálft sig og þar með Sovétríkin niður. Sovétherinn var áfram undir sameiginlegri stjórn, en dreifðist smám saman á ríkin.

Eftir upplausn Sovétríkjanna var Rússland viðurkennt af alþjóðasamfélaginu sem löglegur arftaki Sovétríkjanna. Rússland tók því við erlendum eignum og skuldum Sovétríkjanna. Samkvæmt Lissabonviðaukanum tók Rússland einnig við stjórn allra kjarnavopna á landsvæði fyrrum sovétlýðvelda. Úkraína hefur síðan þá dregið þessa stöðu Rússlands í efa og reynt að ná yfirráðum yfir sínum hluta af eigum Sovétríkjanna. Eftir upplausnina fór flókið ferli í gang í 15 fyrrum sovétlýðveldum. Almennt er litið svo á að Rússland sé arftaki Sovétríkjanna. Það hélt öllum sendiráðum Sovétríkjanna, kjarnavopnum þeirra og fékk sæti þeirra í Öryggisráðinu. Aðeins Úkraína hafði samþykkt lög sem lýstu landið bæði arftaka Sovétlýðveldisins Úkraínu og Sovétríkjanna sjálfra.[30] Úkraína samþykkti að taka á sig 16,37% af erlendum skuldum Sovétríkjanna í staðinn fyrir hlut af erlendum eignum þeirra, en Rússland fer með yfirráð yfir þeim eignum. Ríkin deila enn um þessar eignir.[31]

Nær öll fyrrum sovétlýðveldin gengu í gegnum efnahagskreppu vegna lostmeðferðar eftir umbreytingu hagkerfisins.[32] Fátækt tífaldaðist í kjölfarið.[33] Hagfræðingurinn Steven Rosefielde rekur 3,4 milljón ótímabær andlát í Rússlandi milli 1990 og 1998 til þessarar lostmeðferðar.[34]

Auk fyrrum sovétlýðvelda eru sex umdeild ríki sem urðu til á svæðum sem aðskilnaðarhreyfingar náðu á sitt vald í kjölfar upplausnar Sovétríkjanna. Þetta eru Abkasía, Transnistría, Suður-Ossetía og Artsaklýðveldið (Nagornó-Karabak). Við þau bættust nýlega Alþýðulýðveldið Donetsk og Alþýðulýðveldið Luhansk. Að auki eru starfandi hreyfingar aðskilnaðarsinna í Téténíu, Gagásíu og Talisj.

Stjórnsýsluskipting

breyta

Samkvæmt stjórnarskrá landsins voru Sovétríkin sambandsríki aðgreindra sovétlýðvelda, sem voru ýmist einingarríki eins og Úkraína og Hvíta-Rússland, eða sjálf sambandsríki eins og Rússland eða Transkákasía.[35] Þessi fjögur ríki voru stofnlýðveldin sem undirrituðu sáttmálann um stofnun Sovétríkjanna í desember 1922. Árið 1924, við landsafmörkun í Mið-Asíu, voru sovétlýðveldin Úsbekistan og Túrkmenistan stofnuð upp úr hlutum sjálfsstjórnarlýðveldisins Túrkestan innan Rússlands og tveimur sovéskum hjáríkjum, Kórasmíu og Búkhara. Árið 1929 var Tadsíkistan klofið frá úsbeska sovétlýðveldinu. Þegar stjórnarskrá ársins 1936 tók gildi var transkákasíska sovétlýðveldið leyst upp og aðildarlýðveldi þess, Armenía, Georgía og Aserbaísjan, fengu stöðu aðildarríkja Sovétríkjanna. Þá voru Kasakstan og Kirgistan klofin frá rússneska sovétlýðveldinu og fengu sömu stöðu innan ríkjasambandsins.[36]

Í ágúst árið 1940 var moldavíska sovétlýðveldið stofnað upp úr Úkraínu og hernámssvæðum Sovétmanna í Bessarabíu. Sovétríkin innlimuðu jafnframt Eystrasaltslöndin Eistland, Lettland og Litáen og gerðu þau að sovétlýðveldum. Innlimun Eystrasaltsríkjanna var ekki viðurkennd af meirihluta alþjóðasamfélagsins og var álitin ólöglegt hernám. Eftir innrás Sovétríkjanna í Finnland stofnuðu Sovétmenn Sovétlýðveldi Kirjála og Finna á hernámssvæði þeirra í mars 1940 en limuðu það síðan sem sjálfsstjórnarlýðveldi inn í rússneska sovétlýðveldið árið 1956. Frá júlí 1956 til september 1991 voru fimmtán aðildarlýðveldi í Sovétríkjunum (sjá kortið að neðan).[37]

Þótt Sovétríkin hafi að nafninu til verið bandalag jafningjaþjóða réðu Rússar í reynd langmestu um stjórn ríkisins. Yfirburðir Rússa voru svo greinilegir að mestallan þann tíma sem Sovétríkin voru til var algengt (en rangt) að fólk kallaði ríkið einfaldlega „Rússland“. Formlega séð var rússneska sovétlýðveldið aðeins eitt aðildarríki innan sambandsríkisins en það var bæði langstærst (bæði landfræðilega og með tilliti til íbúafjölda), voldugast og þróaðast. Rússneska sovétlýðveldið var jafnframt iðnkjarni Sovétríkjanna. Sagnfræðingurinn Matthew White skrifaði að það hafi verið opið leyndarmál að sambandsstjórnarfyrirkomulagið væri aðeins „gluggaskraut“ fyrir yfirstjórn Rússa. Þess vegna hafi íbúar Sovétríkjanna gjarnan verið kallaðir Rússar fremur en Sovétmenn þar sem „allir vissu hver fór í raun með stjórnina“.[38]

Lýðveldi Kort af lýðveldum Sovétríkjanna frá 1956 til 1991
1   Sovétlýðveldið Rússland  
2   Sovétlýðveldið Úkraína
3   Sovétlýðveldið Hvíta-Rússland
4   Sovétlýðveldið Úsbekistan
5   Sovétlýðveldið Kasakstan
6   Sovétlýðveldið Georgía
7   Sovétlýðveldið Aserbaísjan
8   Sovétlýðveldið Litáen
9   Sovétlýðveldið Moldavía
10   Sovétlýðveldið Lettland
11   Sovétlýðveldið Kirgistan
12   Sovétlýðveldið Tadsíkistan
13   Sovétlýðveldið Armenía
14   Sovétlýðveldið Túrkmenistan
15   Sovétlýðveldið Eistland

Tilvísanir

breyta
  1. Mawdsley, Evan (1. mars 2007). The Russian Civil War. Pegasus Books. bls. 287. ISBN 978-1-933648-15-6.
  2. Lincoln, W. Bruce (1989). Red Victory: A History of the Russian Civil War. Simon & Schuster. bls. 384. ISBN 0671631667. „... the best estimates set the probable number of executions at about a hundred thousand.“
  3. Sakwa, Richard (1999). The Rise and Fall of the Soviet Union, 1917–1991: 1917–1991. Routledge. bls. 140–143. ISBN 978-0-415-12290-0.
  4. Lapin, G. G. (2000). „70 Years of Gidroproekt and Hydroelectric Power in Russia“. Hydrotechnical Construction. 34 (8/9): 374–379. doi:10.1023/A:1004107617449. S2CID 107814516.
  5. „Joseph Stalin – Biography, World War II & Facts – History“. 12. nóvember 2009. Afrit af uppruna á 12. september 2018. Sótt 6. desember 2021.
  6. Courtois, Stéphane; Mark Kramer (15. október 1999). Livre noir du Communisme: crimes, terreur, répression. Harvard University Press. bls. 206. ISBN 978-0-674-07608-2. Afrit af uppruna á 22. júní 2020. Sótt 25. maí 2020.
  7. Casanova, Julián (2007). República y Guerra Civil. Vol. 8 de la Historia de España, dirigida por Josep Fontana y Ramón Villares (spænska). Barcelona: Crítica/Marcial Pons. bls. 271–274. ISBN 978-84-8432-878-0.
  8. Getty, J. Arch (1991). „State and Society Under Stalin: Constitutions and Elections in the 1930s“. Slavic Review. 50 (1): 18–35. doi:10.2307/2500596. JSTOR 2500596. S2CID 163479192.
  9. Thurston, Robert W. (1998). Life and Terror in Stalin's Russia, 1934–1941. Yale University Press. bls. 139. ISBN 978-0-300-07442-0.
  10. Gleason, Abbott (2009). A companion to Russian history. Wiley-Blackwell. bls. 373. ISBN 978-1-4051-3560-3. Afrit af uppruna á 5. september 2015. Sótt 25. maí 2020.
  11. Yegorov, Oleg (26. september 2019). „Why didn't the USSR join Allies in 1939?“. Russia Beyond. Afrit af uppruna á 6. febrúar 2022. Sótt 5. febrúar 2022.
  12. Andrew Roth (23. ágúst 2019). „Molotov-Ribbentrop: why is Moscow trying to justify Nazi pact?“. The Guardian.
  13. USSR expelled from the League of Nations Geymt 14 september 2021 í Wayback Machine. www.history.com. 5 November 2009
  14. Hosking, Geoffrey A. (2001). Russia and the Russians: a history. Harvard University Press. bls. 469. ISBN 978-0-674-00473-3.
  15. Министерство обороны Российской Федерации, MOD Russian Federation. „On Question of war Losses (in Russian)“. MOD Russian Federation. Sótt 12. nóvember 2017.
  16. Goldhagen, Daniel. Hitler's Willing Executioners. bls. 290. „2.8 million young, healthy Soviet POWs" killed by the Germans, "mainly by starvation ... in less than eight months" of 1941–42, before "the decimation of Soviet POWs ... was stopped" and the Germans "began to use them as laborers.“
  17. „The Treatment of Soviet POWs: Starvation, Disease, and Shootings, June 1941 – January 1942“. encyclopedia.ushmm.org. Afrit af uppruna á 6. nóvember 2018. Sótt 9. mars 2019.
  18. „Belarus – World War II“. Library of Congress Country Studies.
  19. Waitman Wade Beorn (6. janúar 2014). Marching into Darkness. Harvard University Press. bls. 28. ISBN 978-0-674-72660-4.
  20. Norman M., Naimark, Norman M. (1995). The Russians in Germany: A History of the Soviet Zone of Occupation, 1945–1949. Cambridge: Belknap Press. bls. 70.
  21. Brinkley, Douglas (2003). The New York Times Living History: World War II, 1942–1945: The Allied Counteroffensive. Macmillan, 2004. ISBN 978-0-8050-7247-1. Afrit af uppruna á 15. ágúst 2021. Sótt 15. október 2020.
  22. Urquhart, Brian. Looking for the Sheriff. New York Review of Books, 16 July 1998.
  23. Mark Kramer, "The Soviet Bloc and the Cold War in Europe," in Larresm, Klaus, ritstjóri (2014). A Companion to Europe Since 1945. Wiley. bls. 79. ISBN 978-1-118-89024-0.
  24. Robert Conquest. The Great Terror. NY Macmillan, 1968 p. 533 (20 million)
  25. Anton Antonov-Ovseyenko, The Time of Stalin, NY Harper & Row 1981. p. 126 (30–40 million)
  26. Conquest, Robert (2007) The Great Terror: A Reassessment, 40th Anniversary Edition, Oxford University Press, in Preface, p. xvi: "Exact numbers may never be known with complete certainty, but the total of deaths caused by the whole range of Soviet regime's terrors can hardly be lower than some fifteen million."
  27. Kiernan, Ben (2007). Blood and Soil: A World History of Genocide and Extermination from Sparta to Darfur. Yale University Press. bls. 511. ISBN 9780300100983. OCLC 2007001525.
  28. 28,0 28,1 Richard Pipes (2014). Kommúnisminn – Sögulegt ágrip. Ugla útgáfa.
  29. „Hverjar voru helstu ástæðurnar fyrir hruni Sovétríkjanna?“. Vísindavefurinn. Sótt 27. apríl 2021.
  30. "ЗАКОН УКРАЇНИ Про правонаступництво України" Geymt 23 nóvember 2019 í Wayback Machine (úkraínska).
  31. „Ни по-честному, ни по-братски – Москва и Киев не могут поделить советскую собственность за рубежом“. Рамблер/новости. Afrit af uppruna á 15. júlí 2020. Sótt 14. júlí 2020.
  32. Weber, Isabella (2021). How China escaped shock therapy : the market reform debate. Abingdon, Oxon: Routledge. bls. 6. ISBN 978-0-429-49012-5. OCLC 1228187814.
  33. Study Finds Poverty Deepening in Former Communist Countries, New York Times, October 12, 2000
  34. Rosefielde, Steven (2001). „Premature Deaths: Russia's Radical Economic Transition in Soviet Perspective“. Europe-Asia Studies. 53 (8): 1159–1176. doi:10.1080/09668130120093174. S2CID 145733112.
  35. Sakwa, Richard. Soviet Politics in Perspective. 2nd ed. London – N.Y.: Routledge, 1998.
  36. Adams, Simon (2005). Russian Republics. Black Rabbit Books. bls. 21. ISBN 978-1-58340-606-9. Afrit af uppruna á 12. maí 2015. Sótt 20. júní 2015.
  37. Feldbrugge, Ferdinand Joseph Maria (1993). Russian Law: The Rnd of the Soviet system and the Role of Law. Martinus Nijhoff Publishers. bls. 94. ISBN 978-0-7923-2358-7. Afrit af uppruna á 12. maí 2015. Sótt 20. júní 2015.
  38. White, Matthew (2012). The Great Big Book of Horrible Things. W. W. Norton. bls. 368. ISBN 978-0-393-08192-3.

Tenglar

breyta
   Þessi sagnfræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.