Kjarnorkuvopn
Kjarnorkuvopn eru tegund vopna sem nota orku sem myndast við kjarnahvarf en ekki efnaverkun eins og hefðbundnar sprengjur. Þau búa yfir gríðarlegum eyðingarmætti, jafnvel minnstu kjarnorkuvopn eru margfalt kraftmeiri en hefðbundnar sprengjur og þau stærstu geta þurrkað út heilar borgir. Kjarnorkusprengjan var þróuð í Manhattan verkefninu á árum seinni heimsstyrjaldar. Einungis tvisvar hefur kjarnorkusprengja verið notuð í hernaðarlegum tilgangi (þ.e., utan við sprengingar í tilraunaskyni), en það voru Bandaríkin í lok seinni heimstyrjaldar sem stóðu að því, og eyddu þeir japönsku borgunum Hiroshima og Nagasaki.
Þau lönd sem fullvíst er að eiga kjarnorkuvopn eru Bandaríkin, Rússland, Bretland, Frakkland, Alþýðulýðveldið Kína, Indland og Pakistan. Auk þess er almennt talið að Ísrael eigi kjarnorkuvopn og að Norður-Kórea og Íran stefni að því. Suður-Afríka var með kjarnorkuvopnaáætlun í gangi á 8. áratugnum en hefur síðan hætt slíku.
Gerðir kjarnavopna
breytaKjarnorkuvopn eru gjarnan flokkuð sem ýmist samruna- eða klofnunarvopn eftir því hvaðan þau fá meirihluta orku sinnar, en þó er þessi flokkun ekki alveg nákvæm sökum þess að næstum öll nútímakjarnavopn notast við báðar tegundir kjarnaverkana. Lítil kjarnaklofnun er sett af stað til að auka hitastigið og þrýstinginn nóg til þess að koma af stað kjarnasamruna. Á hinn bóginn eru klofnunarvopn mun skilvirkari þegar samrunakjarni er fyrst notaður til þess að auka orku vopnsins. Úr því bæði klofnunar- og samrunavopn fá orku sína úr breytingum á innri gerð atómkjarna er réttnefni fyrir allar tegundirnar kjarnorkuvopn, kjarnaorkuvopn eða kjarn(a)orkusprengjur
Kjarnaklofnunarvopn fá orku sína úr kjarnaklofnun. Á hún sér þannig stað að nifteindir sem skella á þungum kjörnum úrans eða plútóns valda því að þeir hreinlega tætast í sundur og mynda kjarna léttari frumefna úr brotunum. Þegar klofnun á sér stað í fyrstu frumeindinni losna margar nifteindir sem svo hrökkva í atómkjarnum í nágrenninu og koma þannig af stað keðjuverkun.
Stundum heyrist orðið atómsprengjur notað sem samheiti yfir kjarnorkusprengjur en það ætti í raun betur við um hefðbundnar sprengjur því í þeim losnar orka úr efnatengjum milli atóma.
Kjarnasamrunavopn byggjast á kjarnasamruna þar sem léttir kjarnar á borð við vetni og helín renna saman í þyngri frumefni og losa við það mjög mikla orku. Vopn sem byggja á samruna eru oftast þekkt sem vetnissprengjur sökum þess að vetni er helsta eldsneyti þeirra, eða varmakjarnavopn, þar er kjarnasamruna-keðjuverkun kemst aðeins af stað við mjög háan hita.
Nifteindasprengja er kjarnorkusprengja sem hönnuð er til að dreifa öflugri nifteindageislun um takmarkað svæði. Væri slíkri sprengju beitt, færust allar lífverur á því svæði en dauðir hlutir svo sem byggingar stæðu óhaggaðir. Notagildi sprengja af þessu tagi er umdeilt.
Skítug sprengja er nýlegt hugtak fyrir geislavirknivopn; vopn sem hefur enga kjarnaverkun en dreifir geislavirkum efnum sem pakkað var inn í sprengjuna yfir stórt svæði. Þegar slík sprengja springur verður til heilsufarsvandamál sem er svipað geislavirku úrfelli. Það hefur verið áhyggjuefni vestrænna stjórnvalda síðan í árásunum á Bandaríkin þann 11. september 2001 að hryðjuverkamenn gætu sprengt skítuga sprengju á þéttbýlissvæði. Skítugar sprengjur, líkt mörgum öðrum úrfellisvopnum, eru svæðisútrýmingarvopn sem að geta gert svæði óbyggileg í mörg ár eða áratugi eftir sprenginguna.
Þróaðri gerðir kjarnavopna
breytaStærstu nútímakjarnavopnin eru með ytri skel úr úrani. Við kjarnasamrunastig sprengingarinnar verður svo mikil nifteindalosun að jafnvel óvirkt úran tekur þátt í kjarnasamrunanum, sem margfaldar drægni vopnsins
Kóbaltsprengja hefur kóbalt í skel sinni, og samrunanifteindirnar breyta kóbaltinu í samsætuna kóbalt-60, sem er kraftmikill gamma-geislagjafi með helmingunartímann 5 ár. Þessi gerð sprengju er svokölluð söltuð sprengja. Fara áhrif geislavirka úrfellisins eftir því hvaða samsætur mynda söltin
Tengt efni
breytaTenglar
breyta- „Gætuð þið vísað mér í heimildir um kjarnorkusprengjuna, kjarnorkuvopnakapphlaupið, hver fann kjarnorkuna upp?“. Vísindavefurinn.
- „Hver fann upp kjarnorkusprengjuna?“. Vísindavefurinn.
- „Hvernig verka venjulegar kjarnorkusprengjur?“. Vísindavefurinn.
- „Af hverju eru kjarnorkusprengjur svona kraftmiklar?“. Vísindavefurinn.
- „Hversu öflug er öflugasta vetnissprengjan sem kjarnorkuveldi heimsins hafa í fórum sínum?“. Vísindavefurinn.
- „Er einhver munur á hvort kjarnorkusprengja springur á jörðu niðri eða í geimnum?“. Vísindavefurinn.