Sankti Pétursborg

Borg í Rússlandi
(Endurbeint frá Leníngrad)

Sankti Pétursborg (rússneska: Санкт-Петербург Sankt-Peterburg; áður þekkt sem Petrograd 1914-1924 og Leníngrad 1924-1991) er borg sem stendur á Kirjálaeiðinu við ósa árinnar Nevu þar sem hún rennur út í Kirjálabotn í Norðvestur-Rússlandi. Um 5,6 milljónir bjuggu í borginni árið 2021.

Svipmyndir.

Pétur mikli Rússakeisari stofnaði borgina árið 1703 sem evrópska stórborg og var hún höfuðborg Rússlands fram að októberbyltingunni 1917. Borgin heitir þó ekki eftir Pétri mikla heldur Pétri postula. Borgin var reist þar sem áður stóð sænska virkið Nyenschantz sem Rússar höfðu lagt undir sig í norðurlandaófriðnum mikla árið 1702. Í Rússlandi tengist borgin því stofnun rússneska keisaradæmisins og upphafinu á stórveldistíma Rússlands í Evrópu. Borgin var höfuðborg keisaradæmisins frá 1713 til 1918. Eftir októberbyltinguna 1917 fluttu bolsévikar höfuðborgina til Moskvu.

Í fyrri heimstyrjöldinni árið 1914 var borgin nefnd Petrograd á rússnesku eða „Pétursborg“. Þýsku orðin „sankt“ og „burg“ voru fjarlægð úr nafninu. Fimm dögum eftir andlát Vladímírs Leníns, 26. janúar 1924 var borgin nefnd Leníngrad eftir honum. Í fyrstu forsetakosningunum í Rússlandi 19. júní 1991 völdu íbúar borgarinnar í atkvæðagreiðslu að nafni hennar yrði breytt til fyrra horfs.

Miðbær borgarinnar er á heimsminjalista UNESCO. Þar á meðal er Vetrarhöllin. Nýbyggingin Lakhta-miðstöðin er hæsta bygging Evrópu (463 metrar). Yfir 200 söfn eru í borginni.

  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.