Sovétlýðveldið Rússland
Sovéska sambandslýðveldið Rússland (rússneska: Росси́йская Сове́тская Федерати́вная Социалисти́ческая Респу́блика; umritað Rossíjskaja Sovetskaja Federatívnaja Sotsíalístítsjeskaja Respúblíka; skammstafað RSFSR) var sovétlýðveldi sem var til frá 1917 til 1991. Lýðveldið var eitt af fimmtán lýðveldum Sovétríkjanna og var bæði langstærsta og voldugasta aðildarríki þeirra. Alls náði rússneska sovétlýðveldið yfir þrjá fjórðu af landsvæði Sovétríkjanna og taldi til sín rúman helming íbúafjöldans, tvo þriðju af iðnaðinum og um helming landbúnaðarframleiðslunnar.
Sovétlýðveldið Rússland | |
Российская Советская Федеративная Социалистическая Республика (Rossíjskaja Sovetskaja Federatívnaja Sotsíalístítsjeskaja Respúblíka) | |
Fáni 1918-1937 | Skjaldarmerki 1918-1920 |
Fáni 1954-1991 | Skjaldarmerki 1920-1991 |
Kjörorð: Пролетарии всех стран, соединяйтесь! (umritun: Proletaríj vsekh stran, sojedínjajtes!) (Rússneska) Verkamenn allra landa sameinist! | |
Þjóðsöngur: Internatsjónalinn (1918–1944) Gímn Sovetskogo Sojúza | |
Höfuðborg | Petrograd (1917–1918) Moskva (1918–1991) |
Opinbert tungumál | Ekkert; rússneska í reynd |
Stjórnarfar | Flokksræði
|
Þjóðhöfðingi | Lev Kamenev (fyrstur) Borís Jeltsín (síðastur) |
Ríkisstjórnarleiðtogi | Vladímír Lenín (fyrstur) Ívan Sílajev (síðastur) |
Sovétlýðveldi, sambandslýðveldi | |
• Októberbyltingin | 7. nóvember 1917 |
• Sovétríkin stofnuð | 30. desember 1922 |
• Nafni breytt í Rússneska sambandsríkið | 25. desember 1991 |
• Sovétríkin leyst upp | 26. desember 1991 |
Flatarmál • Samtals |
17.125.200 km² |
Mannfjöldi • Samtals (1989) • Þéttleiki byggðar |
147.386.000 8,6/km² |
Gjaldmiðill | sovésk rúbla |
Þjóðarlén | .su |
Stofnun
breytaEftir febrúarbyltinguna og afsögn Nikulásar 2. Rússakeisara þann 15. mars 1917 tók bráðabirgðastjórn við völdum í Rússlandi undir forystu Aleksandrs Kerenskíj. Nýja stjórnin lofaði stjórnskipunarumbótum en reyndi jafnframt að standa við skuldbindingar Rússlands gagnvart bandamönnum (Frakklandi, Bretlandi o. fl.) með því að halda áfram þátttöku í fyrri heimsstyrjöldinni. Bolsévikar nýttu sér óvinsældir þessarar stefnu og tókst þann 7. nóvember 1917 að kollvarpa stjórninni í Petrograd (þáverandi höfuðborg landsins, nú Sankti Pétursborg) í októberbyltingunni. Ný stjórn bolsévika skrifaði undir friðarsamkomulag við Miðveldin (Brest-Litovsk-samninginn) en varð að láta af hendi mikil landsvæði (meðal annars Pólland, hluta af Úkraínu, Eystrasaltsríkin o. fl.) til að geta hætt þátttöku í stríðinu.
Þann 23. janúar 1918 lýsti þriðja alrússneska ráðsamkoman því yfir að Rússland yrði þaðan af nefnt Sovétlýðveldið Rússland (RSR) (frá afsögn keisarans árið 1917 hafði landið heitið Lýðveldið Rússland). Stjórnlaganefnd undir formennsku Jakovs Sverdlov samdi síðan nýja stjórnarskrá fyrir ríkið, sem var þar nefnt Sovéska sambandslýðveldið Rússland (RSFSR), og var hún fullgilt af fimmtu alrússnesku ráðsamkomunni þann 10. júlí 1918.
Næstu þrjú árin stóð yfir borgarastyrjöld í Rússlandi á milli rauðliða sovétlýðveldisins og hvítliða (sem ýmist voru einveldissinnar eða lýðveldissinnar og töldu meðal annars til sín hershöfðingjana Krasnov, Deníkín og Kornílov). Eftir sigur rauðliða í borgarastyrjöldinni söfnuðu þeir saman stjórnum sovétlýðveldanna sem höfðu verið stofnuð á gömlum yfirráðasvæðum rússneska keisaradæmisins og sameinuðu lýðveldin þann 22. desember 1922 undir formerkjum Sambandsríkis sósíalískra sovétlýðvelda. Rússneska sovétlýðveldið var þaðan í frá eitt af aðildarríkjum Sovétríkjanna.
Árið 1920 hafði hið svokallaða Fjarausturlýðveldi í Austur-Síberíu lýst sig sjálfstætt en hafði þó í reynd áfram lotið stjórn bolsévika, sem vildu hafa landsvæðið sem hlutlaust svæði svo þeir yrðu ekki að berjast beint við her bandamanna sem hafði gripið inn í borgarastyrjöldina í Síberíu. Hvítliðum tókst að leggja undir sig Fjarausturlýðveldið með aðstoð Japana árið 1921 en lýðveldið lýsti aftur yfir sjálfstæði sínu með aðstoð bolsévika næsta ár og var síðan limað beint inn í rússneska sovétýðveldið. Aðeins norðurhluti eyjunnar Sakhalín var áfram undir hernámi Japana til ársins 1925 (en suðurhluti eyjunnar hafði verið undir stjórn Japana frá sigri þeirra í stríðinu við Rússland árið 1905). Hvorki gamla Fjarausturlýðveldið né Sakhalín fengu sjálfsstjórn innan rússneska sovétlýðveldisins, heldur voru þau bæði gerð að venjulegum fylkjum.
Þann 13. apríl 1941 undirritaði rússneska sovétlýðveldið griðarsáttmála við Japani samhliða griðarsáttmála Sovétmanna við Þjóðverja. Jósef Stalín, sem fór þá með alræðisvald í landinu, vonaðist til að landið gæti þannig viðhaldið hlutleysi í seinni heimsstyrjöldinni, en þann 22. júní 1941 rufu Þjóðverjar samninginn og gerðu innrás í vestanverð Sovétríkin. Stalín staðfesti engu að síður samninginn við Japani og fullvissaði þá um að hlutleysis yrði gætt í Austurlöndum fjær svo að nýjar vígstöðvar myndu ekki opnast. Til að verja berskjölduð landsvæði lét Stalín flytja evrópsk þjóðarbrot nauðungarflutningum til Austur-Síberíu og Norður-Sakhalín.[1]
Stalín rauf griðarsáttmálann við Japani þann 9. ágúst 1945, sjö dögum fyrir uppgjöf Japana. Á þessum sjö dögum tóku Sovétmenn yfir suðurhluta Sakhalín og Kúrileyjar, sem þeir limuðu inn í rússneska sovétlýðveldið. Þessi landsvæði eru enn undir yfirráðum Rússlands í dag.[2]
Lýðfræði
breytaÁrið 1989 voru íbúar rússneska sovétlýðveldisins 147.400.537 talsins.[3] Lýðveldið var þar með langfjölmennasta aðildarríki Sovétríkjanna með um 51,4 % alls íbúafjöldans.
Rússland við upplausn Sovétríkjanna
breytaMíkhaíl Gorbatsjov, sem varð leiðtogi Sovétríkjanna og sovéska kommúnistaflokksins árið 1985, hafði þá stefnu að koma á umbótum í stjórn landsins með því að vinna bug á efnahagslegri stöðnun og gera út af við leifar stalínismans. Umbótaherferð hans, sem bar nafnið perestrojka („endurskipulagning“), náði ekki markmiðum sínum heldur jók hún vöruskort og ójöfnuð. Varð þetta enn skýrara með auknu gegnsæi (glasnost) sem stjórn Gorbatsjovs boðaði. Þessir erfiðleikar voru sem vatn á myllu aukinnar þjóðernishyggju hinna ýmsu þjóðarbrota og aðildarríkja Sovétríkjanna, sem var litin hornauga meðal Rússa.
Árið 1989 voru haldnar frjálsar kosningar í fyrsta sinn á tíma Sovétríkjanna og stofnun stjórnmálaflokka var leyfð árið 1990. Þessar breytingar gerðu þjóðernisminnihlutum innan Sovétríkjanna auðveldara að krefjast fullveldis og sjálfstæðis undan stjórninni í Kreml. Árið 1991 var í reynd orðið til tvöfalt stjórnkerfi í Moskvu. Völd ríkisstofnana rússneska sovétlýðveldisins, sem þá laut stjórn Borísar Jeltsín, höfðu stóraukist eftir að valdaeinokun kommúnistaflokksins leið undir lok. Jeltsín og fylgismenn hans áttu þá í harðsvírugum deilum við sovésku og kommúnísku yfirstjórnina, sem þeir álitu „úrelta“ og „íhaldssama“. Gorbatsjov reyndi að viðhalda einingu Sovétríkjanna með því að draga úr völdum rússneska sovétlýðveldisins en Jeltsín brást við með því að láta lýsa yfir fullveldi Rússlands þann 22. júní 1990.[4]
Þann 25. ágúst 1991 var kommúnistaflokkurinn leystur upp[5] og flest aðildarlýðveldi Sovétríkjanna lýstu yfir sjálfstæði sínu á næstu dögum og vikum. Sovétríkin liðu formlega undir lok með Minsk-sáttmálanum þann 8. desember 1991 og Alma-Ata-yfirlýsingunni þann 21. desember 1991.[6]
Rússneska sovétlýðveldið erfði frá Sovétríkjunum um þrjá fjórðunga landsvæðisins, rúman helming íbúafjöldans, tvo þriðju iðnaðarins og helming landbúnaðarframleiðslunnar. Ríkið varð lagalegur arftaki Sovétríkjanna og tók við sætum þeirra í flestum alþjóðastofnunum, meðal annars fastasæti þeirra í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Ríkið tók jafnframt við fjárhagslegum skuldbindingum Sovétríkjanna. Þann 8. desember 1991 var nýtt stjórnmála- og efnahagsbandalag, Samveldi sjálfstæðra ríkja, stofnað að undirlagi Rússlands, Úkraínu og Hvíta-Rússlands til að reyna að viðhalda sambandi fyrrum sovétlýðveldanna. Sovétríkin voru formlega leyst upp þann 26. desember 1991.
Þann 21. apríl 1992 var nafni rússneska sovétlýðveldisins formlega breytt í Rússneska sambandsríkið.[7]
Tilvísanir
breyta- ↑ Sergueï Sigatchev, Le Système des camps de redressement par le travail en URSS, Centre d’information scientifique et de vulgarisation « Memorial », Moscou, 1998 ; Collectif, Les Amis de la vérité sur l’URSS (Boris Souvarine et al.), bilan de la terreur en URSS : faits et chiffres, Librairie du travail, Paris 1936.
- ↑ Boris Laurent, La guerre totale à l'Est, éditions Nouveau monde, Paris 2014, pp. 523 à 530.
- ↑ „Всесоюзная перепись населения 1989 г.“ (rússneska). Демоскоп Weekly.
- ↑ Ludovic Royer (2002). „De la Russie soviétique à la Russie de Poutine“. Hérodote. Éditions La Découverte. 1 (104).
- ↑ „Histoire de la Russie“. kondratieff.org. Sótt 29. júní 2020.
- ↑ Nina Bachkatov (2011). „Dissolution chaotique de l'URSS“. Le Monde diplomatique: 5. ISSN 0026-9395.
- ↑ „Закон РФ от 21 апреля 1992 г. N 2708-I "Об изменениях и дополнениях Конституции (Основного Закона) Российской Советской Федеративной Социалистической Республики" (прекратил действие)“. constitution.garant.ru (rússneska). Sótt 28. apríl 2023.