Grígoríj Zínovjev

Sovéskur byltingarmaður (1883-1936)

Grígoríj Jevsejevítsj Zínovjev (rússneska: Григорий Евсеевич Зиновьев), fæddur undir nafninu Ovsej-Gershon Aronovítsj Radomyslskíj (rússneska: Овсей-Гершон Аронович Радомысльский; 23. september 1883 – 25. ágúst 1936) var sovéskur byltingarmaður og stjórnmálamaður. Hann var einn gömlu bolsévikanna og náinn samstarfsmaður Vladímírs Lenín. Zínovjev var einn af valdamestu mönnum Sovétríkjanna á þriðja áratugnum og var jafnframt fyrsti formaður Alþjóðasambands kommúnista.

Grígoríj Zínovjev
Григорий Зиновьев
Grígoríj Zínovjev árið 1920.
Formaður Alþjóðasamtaka kommúnista
Í embætti
2. mars 1919 – 22. nóvember 1926
ForveriEmbætti stofnað
EftirmaðurNíkolaj Búkharín
Formaður Pétursborgarsovétsins
Í embætti
13. desember 1917 – 26. mars 1926
ForveriLev Trotskíj
EftirmaðurEmbætti lagt niður
Persónulegar upplýsingar
Fæddur23. september 1883
Jelízavetgrad, rússneska keisaradæminu (nú Kropyvnytskyj, Úkraínu)
Látinn25. ágúst 1936 (52 ára) Moskvu, rússneska sovétlýðveldinu, Sovétríkjunum
DánarorsökTekinn af lífi fyrir skotsveit
StjórnmálaflokkurKommúnistaflokkur Sovétríkjanna (1918–1927, 1928–1932, 1933–1934)
Sósíaldemókrataflokkur Rússlands (Bolsévikar) (1901–1918)

Eftir dauða Leníns myndaði Zínovjev þremenningabandalag með Lev Kamenev og Jósef Stalín sem fór með mest völd á næstu árum. Þeir unnu saman að því að jaðarsetja sameiginlegan keppinaut þeirra, Lev Trotskíj, en bandalagi þeirra lauk eftir að Trotskíj var gerður brottrækur. Í kjölfarið tókst Stalín að ryðja Zínovjev og Kamenev til hliðar og reka þá úr Kommúnistaflokknum.

Á tíma hreinsana Stalíns á fjórða áratugnum var Zínovjev handtekinn og sakaður um landráð. Hann sakfelldur í Moskvuréttarhöldunum og tekinn af lífi af skotsveit þann 25. ágúst 1938.

Æviágrip breyta

Grígoríj Zínovjev fæddist árið 1883 og var orðinn sannfærður kommúnisti þegar hann var sautján ára. Þegar rússneska kommúnistahreyfingin klofnaði í fylkingar bolsévika og mensévika tók Zínovjev afstöðu með bolsévikum.[1]

Zínovjev komst fljótt til metorða meðal bolsévika og var kjörinn í leynilega miðstjórn kommúnistaflokksins árið 1908. Hann varð þar hægri hönd bolsévikaleiðtogans Vladímírs Lenín og hjálpaði honum við stjórn flokksins eftir að þeir urðu báðir að flýja frá Rússlandi til að forðast handtöku keisarastjórnarinnar.[1]

Byltingarárin breyta

Í apríl árið 1917, eftir febrúarbyltinguna í Rússlandi og á meðan fyrri heimsstyrjöldin var enn í fullum gangi, hjálpuðu Þjóðverjar Lenín að snúa aftur til Rússlands í lokaðri lest í von um að Lenín myndi hefja byltingu í heimalandinu og þannig neyða Rússa til að draga sig úr styrjöldinni. Zínovjev var einn af 31 samverkamanni Leníns sem var honum samferða í lestinni heim til Rússlands.[2]

Á júlídögunum svokölluðu varð Zínovjev, ásamt Lenín, Lev Trotskíj og Jósef Stalín, að reyna að lægja öldur byltingar til að koma í veg fyrir að reiðir verkamenn, sem höfðu lent í götubardögum við stjórnvöld í Petrograd, hæfu byltingu áður en bolsévikar voru tilbúnir til að taka völdin í landinu. Æsingurinn á júlídögunum varð slíkur að Lenín og Zínovjev urðu að fara í felur.[2]

Í aðdraganda októberbyltingarinnar lagðist Zínovjev, ásamt Lev Kamenev og fleirum, gegn því að bolsévikar létu til skarar skríða og hæfu vopnaða uppreisn gegn rússnesku stjórninni. Lenín var æfur yfir andstöðu þeirra og kallaði þá „svikara við byltinguna“. Lenín fékk sínu framgegnt eftir tíu stunda umræður við miðstjórn flokksins en Zínovjev og Kamenev voru áfram gagnrýnir í garð áætlunar hans.[2]

Þvert á væntingar Zínovjevs og Kamenevs heppnaðist októberbyltingin og bolsévikum tókst að kollvarpa rússnesku stjórninni. Stjarna Zínovjevs lækkaði nokkuð vegna andstöðu hans við byltinguna en hann hélt þó sæti sínu í miðstjórninni og hlaut jafnframt sæti í nýstofnaðri stjórnmálanefnd kommúnistaflokksins. Í kjölfar byltingarinnar varð Zínovjev jafnframt formaður sovétsins í Petrograd og síðan formaður framkvæmdanefndar hins nýstofnaða Alþjóðasambands kommúnista.[1]

Valdaferill breyta

Árið 1924 komst nafn Zínovjevs á allra varir í Bretlandi þegar bréf sem var undirritað með nafni hans var birt í breska dagblaðinu Daily Mail stuttu fyrir þingkosningar. Bréfið, sem var stílað á breska kommúnistann Arthur MacManus, var áskorun til breskra kommúnista um að hefja stjórnarbyltingu og vinna ýmis hryðjuverk. Ramsay MacDonald, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, sendi harðorða aðvörun til rússnesku stjórnarinnar vegna bréfsins en Zínovjev harðneitaði því að hafa skrifað það. Talið er að breskir Íhaldsmenn hafi falsað bréfið í því skyni að gera Verkamannaflokkinn og breskar sósíalistahreyfingar tortryggilegar í aðdraganda kosninganna.[3]

Eftir dauða Leníns árið 1924 gerðu þeir Zínovjev og Kamenev bandalag við Stalín á móti Trotskíj, sem hafði víðast hvar verið álitinn eðlilegur arftaki Leníns sem leiðtogi byltingarinnar.[4] Þríeykinu tókst að ryðja Trotskíj til hliðar en í kjölfarið myndaði Stalín bandalag við Níkolaj Búkharín og hægriandstöðu hans og tókst að gera Zínovjev og Kamenev áhrifalausa. Zínovjev hóf þá stuðning við Trotskíj á ný og studdi hugmyndir hans um „stöðuga byltingu“ erlendis í stað sósíalismans í einu landi sem Stalín boðaði.[5] Stalín varð ofan á í valdabaráttunni með því að etja keppinautum sínum hverjum gegn öðrum og árið 1927 var Zínovjev rekinn úr Kommúnistaflokknum að undirlagi hans.[5]

Hreinsanir Stalíns breyta

 
Lögreglumyndir af Zínovjev eftir handtöku hans.

Hreinsanir Stalíns byrjuðu árið 1934 eftir að Sergej Kírov, einn valdamesti meðlimur Kommúnistaflokksins, var myrtur í Leníngrad. Stalín notaði morð Kírovs sem átyllu til að skera upp herör gegn meintum og raunverulegum andstæðingum sínum. Zínovjev og Kamenev voru báðir sakaðir um hlutdeild í morðinu en voru sýknaðir af ákærunum í janúar 1935. Þeir urðu hins vegar báðir að gangast við „siðferðislegri og pólitískri ábyrgð“ á aðgerðum stuðningsmanna sinna gegn flokknum og voru dæmdir til langrar fangelsisvistar.[6]

Árið 1936 voru Zínovjev og Kamenev aftur ákærðir ásamt fleiri sakborningum, í þetta sinn fyrir samsæri og hryðjuverkastarfsemi á vegum Trotskíjs, sem hafði þá verið gerður útlægur. Meðal annars voru þeir sakaðir um að hafa lagt á ráðin um að myrða Stalín samkvæmt skipun Trotskíjs. Zínovjev var þvingaður til að játa á sig glæpina og var tekinn af lífi af skotsveit þann 25. ágúst árið 1936.[6]

Tilvísanir breyta

  1. 1,0 1,1 1,2 „Þessir óðu rakkar verði skotnir, allir sem einn“. Tíminn. 28. mars 1982. bls. 28-30.
  2. 2,0 2,1 2,2 „Vladímír Lenín“. Samvinnan. 1. apríl 1970. bls. 12-18.
  3. „Stjórnarskifti á Englandi“. Heimskringla. 5. nóvember 1924. bls. 4.
  4. Edward Crankshaw (4. ágúst 1979). „Stálmaðurinn Stalín“. Morgunblaðið. bls. 16.
  5. 5,0 5,1 Guðmundur Halldórsson (12. janúar 1992). „Skuggi Stalíns“. Morgunblaðið. bls. 12-13.
  6. 6,0 6,1 „Hreinsanirnar miklu í Rússlandi“. Alþýðublaðið. 29. apríl 1979. bls. 28.