Miðveldin voru Mið-Evrópuríkin Þýskaland, Austurríki-Ungverjaland, Tyrkjaveldi og Búlgaría, sem börðust gegn Bandamönnum í Fyrri heimsstyrjöldinni.

Kort sem sýnir bandalög Evrópuþjóða árið 1915. Miðveldin eru sýnd með rauðum lit.

Bandalag milli Þýskalands og Austurríkis-Ungverjalands var formlega stofnað 7. október 1879. 20. maí 1889 varð Ítalía aðili að bandalaginu (Þríveldin), en þegar Ítalía hóf þátttöku í styrjöldinni í maí árið 1915 gerði hún það í bandalagi við Breta.

Eftir að styrjöldin braust út í ágúst 1914 tóku Tyrkir afstöðu gegn Rússum í október sem olli því að löndin sem aðild áttu að Samúðarbandalaginu lýstu þeim stríði á hendur. Síðastir gerðust Búlgarir aðilar að bandalaginu árið 1915 og réðust inn í Serbíu, ásamt herjum Þjóðverja og Austurríkismanna.

Búlgarir urðu fyrstir til að undirrita vopnahléssamkomulag við Bandamenn 29. september 1918. Tyrkir fylgdu í kjölfarið 30. október og Austurríki og Ungverjaland undirrituðu aðskilda vopnahléssamninga í byrjun nóvember. Stríðinu lauk svo með undirritun Þjóðverja 11. nóvember.

  Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.