Suður-Ossetía, opinberlega Lýðveldið Suður-Ossetía - Alaníuríki, eða Tskinvali-hérað, er fullvalda ríki í Suður-Kákasusfjöllum. Héraðið var áður sjálfstjórnarhérað innan Sovétlýðveldisins Georgíu og flest ríki heims líta svo á að landið sé enn hluti af Georgíu. Hluti héraðsins hefur verið stjórnað sér sjálft óháð ríkisstjórn Georgíu frá því á 10. áratugnum þegar íbúar þar lýstu yfir sjálfstæði. Átök Georgíu og Ossetíu komu til vegna vaxandi þjóðernishyggju bæði Georgíumanna og Osseta eftir hrun Sovétríkjanna 1989. Íbúar Suður-Ossetíu eru rúmlega 50.000 og er svæðið um 3.900 km² að stærð. Höfuðstaður héraðsins er Tskinval.

Республикӕ Хуссар Ирыстон
სამხრეთი ოსეთი
Республика Южная Осетия
Fáni Suður-Ossetíu Skjaldarmerki Suður-Ossetíu
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Þjóðsöngur Suður-Ossetíu
Staðsetning Suður-Ossetíu
Höfuðborg Tsinkval
Opinbert tungumál ossetíska, rússneska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Anatoliy Bibilov
Forsætisráðherra Gennady Bekoyev
Sjálfstæði frá Georgíu
 • Yfirlýst 28. nóvember 1991 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)

3.900 km²
~0
Mannfjöldi
 • Samtals (2015)
 • Þéttleiki byggðar
212. sæti
53.532
13,7/km²
Gjaldmiðill rússnesk rúbla
Tímabelti UTC+3
Landsnúmer +995 34

Georgía viðurkennir ekki núverandi stjórn Suður-Ossetíu og því er engin georgísk stjórnsýslueining sem samsvarar núverandi landsvæði (þótt Georgía hafi stofnað Bráðabirgðastjórn Suður-Ossetíu í viðleitni sinni til að ná sátt um stöðu svæðisins). Mest af landinu er innan héraðsins Shida Kartli. Í Georgíu og innan alþjóðastofnana er oft vísað til landsins sem Tskinvali-héraðs, þótt það njóti engrar opinberrar stöðu.

Sjálfstjórnarhéraðið Suður-Ossetía, sem var stofnað árið 1922, lýsti yfir sjálfstæði frá Sovétlýðveldinu Georgíu árið 1991. Ríkisstjórn Georgíu brást við með því að afnema sjálfstjórn Suður-Ossetíu og reyna að ná stjórn á landsvæðinu með hervaldi, sem leiddi til Stríðsins um Suður-Ossetíu 1991-2. Átök blossuðu aftur upp 2004 og 2008. Þau leiddu til Stríðs Rússlands og Georgíu, þar sem aðskilnaðarsinnar í Suður-Ossetíu náðu fullri stjórn á landsvæðinu með fulltingi rússneska hersins. Eftir stríðið 2008 hefur Georgía og flest önnur lönd heims litið á Suður-Ossetíu sem land hernumið af rússneska hernum.

Þann 26. ágúst 2008 viðurkenndi Dímítrí Medvedev forseti Rússlands sjálfstæði Suður-Ossetíu og Abkasíu í kjölfar stríðs Rússlands og Georgíu. Síðan þá hafa Níkaragva, Venesúela, Nárú og Túvalú bæst í hóp ríkja sem viðurkenna sjálfstæði Suður-Ossetíu. Suður-Ossetía er að miklu leyti háð hernaðarlegum og fjárhagslegum stuðningi frá Rússlandi.[1][2]

Landfræði

breyta
 
Kort af Georgíu sem sýnir Suður-Ossetíu (fjólublá) og Abkasíu (græn).

Suður-Ossetía er er miðjum Kákasusfjöllum á mótum Asíu og Evrópu. Landið er í suðurhlíðum Stór-Kákasusfjalla og við fjallsræturnar í Kartalindal.[3] Landið er mjög fjalllent. Likifjöll eru í miðri Suður-Ossetíu[4] og hásléttan sem er líka um það bil í miðju landinu nefnist Kákasus-Íbería.

Stór-Kákasusfjöll mynda norðurlandamæri Suður-Ossetíu að Rússlandi og helstu vegirnir gegnum fjöllin til Rússlands liggja að Rokigöngunum milli Suður- og Norður-Ossetíu og Darakigjárinnar. Rokigöngin voru eina beina leiðin gegnum Kákasusfjöll sem Rússlandsher gat notað í Suður-Ossetíustríðinu 2008.

Suður-Ossetía er um 3.900 km2 að stærð[5] og fjöllin skilja milli hennar og hinnar fjölmennari Norður-Ossetíu (sem er hluti Rússlands). Suður-Ossetía teygir sig í suður næstum að ánni Mtkvari í Georgíu. Yfir 89% af Suður-Ossetíu er í yfir 1.000 metra hæð yfir sjávarmáli. Hæsti tindurinn er Kalatsafjall, 3.938 metrar á hæð.[6]

Eldkeilan Kazbek-fjall, sem er 5.047 metra hátt, er nálægt landamærum Suður-Ossetíu. Milli Kazbek og Shkhara, á um 200 km svæði meðfram Kákasusfjöllum, eru margir jöklar. Af þeim 2.100 jöklum sem nú eru í Kákasusfjöllum eru 30% innan Georgíu.

Litlu-Kákasusfjöll eru fjalllend hálendissvæði í suðurhluta Georgíu sem tengjast Stór-Kákasus meðfram Likifjöllum. Allt svæðið einkennist því af samtengdum fjallgörðum, mest eldfjöllum, og hásléttum sem ná ekki yfir 3.400 metra hæð.

Suður-Ossetía er að mestu innan Kura-dældarinnar, en lítill hluti er í Svartahafsdældinni. Likifjöll og Racha-fjöll skilja milli þessara tveggja vatnasviða. Helstu árnar í Suður-Ossetíu eru Stóra-Liakhvi og Litla-Liakhvi, Ksani, Medzhuda, Tlidon, Saltanis-skurðurinn, Ptsa og margar minni þverár.[6]

Efnahagslíf

breyta

Aðalatvinnuvegur í Suður-Ossetíu er landbúnaður, þótt aðeins 10% landsins sé ræktarland. Helstu framleiðsluvörur eru kornvörur, ávextir og vín. Þar er líka stunduð nytjaskógrækt og nautgriparækt. Nokkrar iðnverksmiðjur starfa í landinu, aðallega í kringum höfuðborgina, Tskinval. Eftir átökin við Georgíu hefur Suður-Ossetía átt í efnahagsörðugleikum. Verg landsframleiðsla var áætluð 15 milljónir bandaríkjadala, eða aðeins 250 dalir á mann, árið 2002. Erfitt er að finna vinnu og aðföng. Georgía stöðvaði rafmagnsveitu til héraðsins svo stjórn landsins varð að koma upp rafstreng til Norður-Ossetíu í Rússlandi. Langflestir íbúar lifa af sjálfsþurftarbúskap. Eina auðlindin sem landið býr yfir er yfirráð yfir Roki-göngunum milli Georgíu og Rússlands, en þaðan er talið að stjórn Suður-Ossetíu hafi haft þriðjung tekna sinna með tollum á flutninga fyrir stríðið.

Forsetinn Eduard Kokoity hefur viðurkennt að landið sé algjörlega háð aðstoð frá Rússum.[7]

Fátæktarmörk í Suður-Ossetíu voru 3.062 rúblur á mánuði árið 2007, sem var 23,5% undir meðaltalinu í Rússlandi, meðan tekjur landsmanna eru miklu lægri en í Rússlandi.[8]

Árið 2017 áætlaði stjórn Suður-Ossetíu að verg landsframleiðsla væri nærri 0,1 milljarður bandaríkjadala.[9]

 

Tilvísanir

breyta
  1. „South Ossetia Looking Much Like a Failed State“. Associated Press. Afrit af uppruna á 8. júlí 2010. Sótt 12. júlí 2010.
  2. Smolar, Piotr (8. október 2013). „Georgia wary of Russian encroachment“. The Guardian. Afrit af uppruna á 6. mars 2017. Sótt 16. desember 2016.
  3. „About the Republic of South Ossetia“. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. nóvember 2013. Sótt 31. desember 2012.
  4. „Georgia:Geography“. Cac-biodiversity.org. 2003. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. maí 2011. Sótt 3. júlí 2011.
  5. „South Ossetia“. Hartford-hwp.com. Afrit af uppruna á 19. janúar 2012. Sótt 18. febrúar 2012.
  6. 6,0 6,1 „South Ossetia Maps: Climate“. ALTIUS.com. Afrit af uppruna á 5. nóvember 2013. Sótt 31. desember 2012.
  7. „South Ossetia, center of conflict between Russia and Georgia, struggles a year after war“. Associated Press. Sótt 8. ágúst 2009.[óvirkur tengill]
  8. Delyagin, Mikhail (Mars 2009). „A Testing Ground for Modernization and a Showcase of Success“. Russia in Global Affairs. Afrit af uppruna á 18. október 2015. Sótt 23. október 2015.
  9. „Валовой внутренний продукт“. Afrit af uppruna á 13. apríl 2018. Sótt 12. apríl 2018.
   Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.