Kýrenæka
Kýrenæka (úr grísku: Κυρηναϊκή Kyrenaike) eftir borginni Kýrene, er fornt heiti á austurhluta Líbíu. Kýrenæka var upphaflega grísk nýlenda stofnuð um 630 af fólki frá eyjunni Þeru. Grikkir stofnuðu þar fimm borgir: Kýrene (sem var stærst), Apollóníu, Tákeira eða Arsinóe (nú Tocra), Evesperídes eða Bereníke (nú Benghazi) og Barke (nálægt núverandi Marj). Austan við borgirnar fimm var svæðið Marmaríka. Kýrenæka var helsta framleiðsluland kryddsins silfíums sem var mjög eftirsótt í Rómaveldi.[1] Á 1. öld f.o.t. varð Kýrenæka hluti af rómverska skattlandinu Krít og Kýrenæka. Múslimar lögðu landið undir sig um miðja 7. öld og gerðu Barke að höfuðborg.
Ítalar lögðu Kýrenæku undir sig í Trípólístríðinu 1911. Árið 1919 var landið gert að ítalskri nýlendu. Árið 1934 voru ítölsku nýlendurnar Trípólítana, Kýrenæka og Fezzan sameinaðar í eina nýlendu sem var nefnd Líbía. Þar fóru fram harðir bardagar í síðari heimsstyrjöld og eftir stríð fóru Bretar með völd þar til 1951 þegar Konungsríkið Líbía var stofnað.
Tilvísanir
breyta- ↑ Ring, Trudy, Robert M. Salkin and Sharon La Boda (1996). „Cyrene (Gebel Akhdar, Libya)“. International Dictionary of Historic Places, Volume 4: Middle East and Africa. Chicago and London: Fitzroy Dearborn Publishers.