Vestmannaeyjar

sveitarfélag og eyjaklasi suður af Íslandi
(Endurbeint frá Vestmannaeyjabær)

Vestmannaeyjar eru eyjaklasi suður af Íslandi, samtals 15 eyjar og um 30 sker og drangar. Syðsta eyjan er Surtsey og sú nyrsta er Elliðaey. Heimaey er stærst eyjanna og sú eina sem er byggð, en þar er Vestmannaeyjabær með um 4.639 íbúa (2024). Heitið Vestmannaeyjar er oft notað sem samheiti yfir Vestmannaeyjabæ.

Vestmannaeyjabær
Vestmannaeyjabær
Vestmannaeyjabær
Skjaldarmerki Vestmannaeyjabæjar
Staðsetning Vestmannaeyjabæjar
Staðsetning Vestmannaeyjabæjar
Hnit: 63°26′00″N 20°17′00″V / 63.43333°N 20.28333°V / 63.43333; -20.28333
LandÍsland
KjördæmiSuðurkjördæmi
ÞéttbýliskjarnarVestmannaeyjabær
Stjórnarfar
 • BæjarstjóriÍris Róbertsdóttir
Flatarmál
 • Samtals16 km2
 • Sæti59. sæti
Mannfjöldi
 (2024)
 • Samtals4.444
 • Sæti13. sæti
 • Þéttleiki277,75/km2
Póstnúmer
900, 902
Sveitarfélagsnúmer8000
Vefsíðavestmannaeyjar.is
Kort af eyjunum.

Á Vestmannaeyjum búa rúmlega fjögur þúsund manns, sem þýðir að Vestmannaeyjar eru 12. fjölmennasta byggðin á Íslandi. Sjávarútvegur er helsta atvinnugrein Vestmanneyinga. Hin árlega Þjóðhátíð um Verslunarmannahelgi er ein vinsælasta útihátíðin á Íslandi, hana sækja þúsundir manna á hverju ári.

Sex einstaklingar hafa synt hið svokallaða Eyjasund, þ.e. frá Heimaey til Landeyjasands[1].

Eyjarnar

breyta

Eyjarnar eru þessar:

Enn fremur eru nokkur sker, sem þykja öðrum fremri:

Saga eyjanna

breyta

Sagnir um nafngift og landnám

breyta
 
Séð yfir höfnina í Vestmannaeyjum, Heimaklettur til vinstri. Bjarnarey sést bak við Eldfellshraun til hægri.

Fyrstu heimildir um Vestmannaeyjar eru í Landnámu (Sturlubók), þar sem segir frá Ingólfi Arnarsyni, fyrsta landnámsmanninum. Þegar hann kom til landsins dvaldist hann einn vetur á Ingólfshöfða, og hélt svo vestur með landinu í leit að öndvegissúlunum sínum. Þá fann hann bæ Hjörleifs, fóstbróður síns, og var hann þar látinn; hafði hann þá verið myrtur af þrælum sínum. Úti af Hjörleifshöfða sá hann eyjaklasa suður af Landeyjum og datt honum til hugar að þrælarnir hafi farið þangað. Eyjarnar voru þá nefndar eftir þrælunum, en þeir voru af írsku bergi brotnir og Írar og Skotar voru gjarnan kallaðir Vestmenn á þessum tíma. Ingólfur elti þrælana uppi og drap þá, og eru mörg örnefni á eyjunum gefin eftir þrælunum. Meðal þeirra er Helgafell, nefnt eftir Helga sem var veginn þar, og Dufþekja í Heimakletti, en hún er nefnd eftir Dufþaki sem sagður er hafa hoppað þar niður til að komast hjá því að falla fyrir sverði Ingólfs. Eins og segir í Landnámu:

Ingólfur gekk þá upp á höfðann og sá eyjar liggja í útsuður til hafs; kom honum það í hug, að þeir mundu þangað hlaupið hafa, því að báturinn var horfinn; fóru þeir að leita þrælanna og fundu þá þar sem Eið heitir í eyjunum. Voru þeir þá að mat, er þeir Ingólfur komu að þeim. Þeir urðu felmtsfullir, og hljóp sinn veg hver. Ingólfur drap þá alla. Þar heitir Dufþaksskor, er hann lést. Fleiri hljópu þeir fyrir berg, þar sem við þá er kennt síðan. Vestmannaeyjar heita þar síðan, er þrælarnir voru drepnir, því að þeir voru Vestmenn.

Samkvæmt Hauksbók var fyrsti landnámsmaður eyjanna Herjólfur Bárðarson, sonur Bárðar Bárekssonar. Hann settist að í Herjólfsdal á 10. öld og hafa margar kenningar verið uppi um hvar í dalnum þessi fyrsta byggð var staðsett. Margrét Hermanns Auðardóttir fornleifafræðingur hóf uppgröft í Herjólfsdal sumarið 1971 og vann þar fimm sumur. Við uppgröftinn kom í ljós að byggð í Herjólfsdal var mun eldri en áður hefur verið talið eða frá því snemma á 9. öld.

Í Sturlubók, sem er eldri heimild en Hauksbók, segir hins vegar að Ormur auðgi Bárðarson, bróðir Herjólfs, hafi fyrstur byggt Eyjar. Hauksbók segir að Ormur auðgi hafi verið Herjólfsson.

Herjólfur er sagður hafa átt dótturina Vilborgu, sem eftir grjóthrun sem lagði bæ Herjólfs í eyði fluttist á Vilborgarstaði við vatnsbólið Vilpu. Samkvæmt sögunni varaði hrafn Vilborgu við grjóthruninu og bjargaði þannig lífi hennar.

Frá tíma Herjólfs Bárðarsonar hefur verið byggð samfellt á eyjunni, þó svo að íbúafjöldinn hafi tekið stórar dýfur þrisvar síðan þá — fyrst um helmingsfækkun íbúa þegar að um þrjú hundruð manns voru numin á brott í Tyrkjaráninu árið 1627, svo í ungbarnadauðanum á 18. öld, og loks í Heimaeyjargosinu 1973 þegar að yfir 6 mánaða skeið bjuggu eingöngu um 200 manns á Heimaey. Þegar gosið hófst var íbúafjöldi bæjarins hins vegar 5.273 (1. desember 1972).

Kirkjuvaldið

breyta

Í Kristnisögu segir frá því að Ólafur Tryggvason hafi sent Hjalta Skeggjason og Gissur Teitsson með viði til kirkjubyggingar til Íslands og sagt þeim að reisa kirkju þar sem þeir kæmu fyrst að landi. Samkvæmt því reistu þeir kirkju á Hörgaeyri í Vestmannaeyjum árið 1000 úr norskum viðum, en hvorki er vitað hvar sú eyri hefur verið né hversu lengi kirkjan hefur staðið. Tvær kirkjur voru síðar reistar í Vestmannaeyjum, að Kirkjubæ og Ofanleiti.

Á árunum 1130-1148 komust allar jarðir í Vestmannaeyjum í eigu Skálholtsstóls að undirlagi Magnúsar Einarssonar biskups og urðu kirkjujarðir. Eftir það voru því landsetar í Eyjum leiguliðar næstu aldirnar. Í Vestmannaeyjum voru að jafnaði átján býli og mikið af hjáleigum (en fjöldi þeirra gat verið breytilegur eftir árferði), auk tómthúsa- og verbúðarbyggðar við höfnina, sem er líklega einn elsti vísir að eiginlegu þorpi á Íslandi.

Náttúra

breyta

Jarðfræði

breyta
 
Þrídrangar.

Vestmannaeyjar liggja um 10 km suður undan Landeyjasandi. Eyjaklasinn er 15 eyjar, auk um 30 dranga og skerja. Eyjarnar eru sæbrattar og víðast hvar þaktar graslendi. Af þeim er Heimaey langstærst, um 13,4 km², og sú eina sem er byggð. Helstu og stærstu eyjarnar í kringum Heimaey eru Elliðaey og Bjarnarey norðaustur af Heimaey og til suðvesturs Suðurey, Álsey, Brandur, Hellisey og Surtsey.

Eyjarnar eru ungar á jarðsögulegan mælikvarða og hafa allar myndast í eldgosum, þær elstu fyrir u.þ.b. 12 þúsund árum. Flestar eyjarnar eru gíglaga móbergsstapar og á sumum þeirra eru gjallgígar.

Vestmannaeyjar eru á umfangsmiklu eldgosasvæði sem er um 38 km langt og 30 km breitt með 70-80 eldstöðvum eða leifum þeirra.

Surtsey

breyta

Surtsey varð til í miklu neðansjávargosi sem hófst árið 1963 og lauk 1967. Það er lengsta eldgos á Íslandi frá því að sögur hófust. Við upphaf gossins mynduðust tvær eyjar og fengu þær nöfnin Syrtlingur og Jólnir. Jólnir kom upp úr sjó rétt fyrir Þorláksmessu í gosi sem stóð fram yfir jólin 1963. Syrtlingur stóð mun lengur. Leifar þessarra eyja eru sitt hvoru megin Surtseyjar, Jólnir að suðvestan og Syrtlingur að norðaustan.

Strax að loknu gosinu var Surstey friðuð og voru jarðfræðingar jafnt sem líffræðingar forvitnir um þróun lífríkisins á eyjunni og eyjunnar sjálfrar. Strax á fyrstu árunum eftir gosið fóru ýmsar lífverur að taka sér bólfestu á eynni.

Eyjan er alfriðuð og er í umsjá Surtseyjarfélagsins, sem starfar í umboði umhverfisráðuneytisins fyrir hönd íslenska ríkisins. Allar mannaferðir um eyjuna án sérstaks leyfis eru harðbannaðar. Friðlandið umhverfis eyjuna hefur verið stækkað og er nú unnið að því að koma Surtsey á heimsminjaskrá UNESCO.

Heimaeyjargosið

breyta
 
Ráðhús Vestmannaeyja; Eldfell í bakgrunni

Eldgos hófst á Heimaey þann 23. janúar árið 1973 og eyðilagði og/eða skemmdi um það bil 60% af öllum húsum bæjarins. Nálægt þriðjungur allra húsa fór undir hraun. Í gosinu voru nær allir heimamenn fluttir upp á land. Íbúar voru 5.273 talsins fyrir gosið og sneru flestir þeirra aftur að því loknu, og margir fyrr. Einn maður lét lífið af gaseitrun, sem má tengja gosinu. Þó lést hann ekki fyrr en gosinu loknu og nálgast kraftaverk að mun fleiri skyldu ekki farast.

Eftir stóð eldfjallið Eldfell, sem margir Vestmannaeyingar vildu kalla Kirkjufell, rétt norðaustan Helgafells. Frá því stendur Eldfellshraun sem teygir sig frá Skarfatanga í suðri að Skansinum í norðri, og stækkaði það Heimaey um eina 3 ferkílómetra. Eldfellshraun er basískt apalhraun að mestu, með nokkrum helluhraunsblettum; mestallt hraunið er vikur.

Gosinu var lýst lokið 3. júlí sama ár og það hófst, en þá tóku við gríðarlegar hreinsunarframkvæmdir á eyjunni, enda höfðu um 300 hús farið undir hraun og afgangur bæjarins lá undir þykku öskulagi.

Í eldgosinu 1973 fóru 11 götur innanbæjar ýmist að öllu eða einhverju leyti undir hraun: Austurvegur, Bakkastígur, Formannabraut, Heimagata, Kirkjuvegur, Landagata, Njarðarstígur, Sjómannasund, Strandvegur, Urðarvegur og Víðisvegur.

Allt frá árinu 1998 hefur Goslokahátíðin verið haldin í Eyjum til að minnast goslokanna. Fimmta hvert ár eru hátíðirnar stærri en árin á milli.

Veðurfar

breyta
 
Faxastígur að vetrarlagi

Í Vestmannaeyjum er fremur hlýtt, úrkomu- og vindasamt og markast það af legu eyjanna undan suðurströnd landsins. Hitamunur milli árstíða er tiltölulega lítill og þoka setur svip sinn á veðráttuna. Veðurfar við Vestmannaeyjar flokkast undir hafrænt úthafsloftslag, nokkuð hlýtt og rakt miðað við meðaltal á fastalandinu. Veðrabrigði eru snögg og breytist veðrið stundum oft á dag. Gjarnan er sagt að ekki sé veður í Vestmannaeyjum, heldur eingöngu veðurprufur.

Samfelldar veðurathuganir hafa verið gerðar á Stórhöfða síðan árið 1921 og einnig við flugvöllinn síðan um 1960. Árið 1998-1999 voru gerðar sjálfvirkar mælingar á Eldfellshrauni sem stóðu yfir í tæpt ár. Munur á úrkomu og hitastigi milli veðurstöðva á Heimaey hefur reynst óverulegur og er því miðað við Stórhöfða nema annað sé tekið fram. Árið 2002 var svo sett upp sjálfvirk veðurstöð í Vestmannaeyjabæ, við botn Löngulágar, þar sem vindmælingar á Stórhöfða gefa oft ekki rétta mynd af veðrinu inni í bænum.

 
Kvöldsól sest í norðri; listaverk unnið úr sveifarás úr skipsvél í forgrunni.

Á veturna er meðalhiti hvergi hærri á landsvísu en víða er hlýrra yfir sumarið. Á tímabilinu 1961-2000 var meðalárshiti 4,9 °C á Stórhöfða, en hæsti meðalhiti á einu ári var 5.5 °C árið 1984. Milt hitastig í sjó í kringum Eyjarnar er ástæða fyrir háum meðallofthita og lítilli hitasveiflu milli árstíða og daga. Hiti hefur aldrei mælst yfir 20 °C á Stórhöfða, en í júni árið 1999 mældist hitinn 19,3 °C og er það mesti hiti sem hefur mælst í eyjunum. Frost mældist að meðaltali 82 daga á ári yfir vetrarmánuðina á árunum 1961-1990. Mesta frost sem mælst hefur var -16,9 °C í april árið 1968. Að jafnaði var frost allan sólarhringinn 18 daga á ári á sama tímabili. Lægsti loftþrýstingur á Íslandi mældist á Stórhöfða 919,7 hPa 2. desember 1929.

Úrkoma er fremur mikil í Vestmannaeyjum. Á Stórhöfða rignir að meðaltali um 129 mm á mánuði, sem er mikið miðað við aðra landshluta. Meðalúrkoma á ári var 1.556 mm á tímabilinu 1961-2000. Úrkoman er mjög árstíðabundin. Mesta úrkoma er yfir vetrarmánuðina en minnst á tímabilinu apríl — júlí. Mesta úrkoma á einum sólarhring var 146 mm í október árið 1979. Úrkomudagar hafa verið að jafnaði 246 á ári og þar af eru 82 dagar snjókoma eða slydda. Jörð var að meðaltali alhvít 40 daga á ári en alautt var að meðaltali 285 daga á tímabilinu 1961-1990.

Þoka var að jafnaði 86 daga á ári við Stórhöfða en þar voru fleiri þokudagar en á nokkrum öðrum stað á Íslandi á tímabilinu 1961-1990. Gera má ráð fyrir að þokudagar séu talsvert færrri í kaupstaðnum sem liggur neðarlega. Alskýjað var að jafnaði 192 daga á ári og heiðskýrt 22 daga. Meðal skýjahula var 6/8 himinhvolfsins á tímabilinu 1961-1990. Meðalrakastig er 82% og þrumudagar voru 4 á ári að jafnaði á sama tímabili.

Stórhöfði er vindsamasta veðurstöð landsins. Veðurstöðin er í 120 m hæð yfir sjávarmáli og opin fyrir öllum vindáttum. Meðalvindhraði yfir allt árið var 11,03 m/s á árunum 1961-2000. Talsverður munur er á vindhraða milli árstíða, í júlí er meðalvindhraði 8 m/s en 13,2 m/s í janúar.

Lífríki

breyta
 
Lundaveiðimaður í Suðurey

Í Vestmannaeyjum er mjög fjölbreytt lífríki, þá einkum fuglar og plöntur. Stærsta lundabyggð heims er í Vestmannaeyjum, en meira en tíu milljón lundar búa á eyjunum. Gjöful fiskimið eru umhverfis eyjarnar og ofgnótt hvala, en lítið er af spendýrum á eyjunum sjálfum að undanskildum manninum. En stærsta lundabyggðin á Heimaey á undir höggi að sækja þar sem kanínur eru að yfirtaka Sæfell. Kanínum þessum var sleppt út í náttúruna í kringum 1985.

Jarðvegur er víðast hvar grunnur í Vestmannaeyjum en þó eru á stöku stað skilyrði fyrir túnrækt. Víðast hvar er jarðvegur grýttur og stutt er niður á hraun.

Jarðvegur á Heimaey telst vera sandorpinn móajarðvegur þar sem eldfjallaska er í bland við lífræn jarðvegsefni. Gamlar uppþornaðar mýrar má meðal annars finna í Lyngfellisdal, Torfmýri og Bleiksmýrardal.

Árið 1771, þegar verið var að flytja fyrstu hreindýrin til Íslands, voru 13 hreindýr flutt til Vestmannaeyja. Stendur þá í Árbókum Espólíns (10. deild, bls. 101) að „Þat sumar komu 13 hreindýr í Vestmannaeyjum at undirlagi Ólafs amtmanns Stephánssonar, dóu 10 í vesöld um vetrinn eftir, en þrjú lifdu“. Önnur eldri og ítarlegri frásögn er í Islandske Maaneds-Tidender, 2. árg., bls. 55-59, og heimildarmaðurinn er Sigurður Sigurðsson landþingsskrifari á Hlíðarenda.

Atvinna, menntun og menning

breyta

Vestmannaeyjar hafa verið mikilvægasta verstöð landsins í fjölda ára og byggist afkoma heimamanna að mestu leyti á fiskvinnslu og útgerð. Auk þess eru ört vaxandi atvinnuvegir eyjaskeggja í dag ferðaþjónusta, skipaviðgerðir og menntun.

Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum er stöðugt að stækka við sig þrátt fyrir að oft reynist erfitt að lokka námsmenn til Eyja. Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri eru báðir búnir að koma sér upp útibúum á Heimaey. Í Vestmannaeyjum eru tveir grunnskólar; Barnaskólinn í Vestmannaeyjum og Hamarsskóli Vestmannaeyja. Sameining skólanna er nú fyrirhuguð. Verið er að undirbúa byggingu nýs sex deilda leikskóla, en fyrir eru þrír leikskólar í eyjunum: Rauðagerði, Kirkjugerði og Sóli.

 
Rannsóknarsetrið í Vestmannaeyjum

Mörg söfn eru í Vestmannaeyjum, en Safnahús Vestmannaeyja, sem stendur við Ráðhúströð, hýsir Héraðsskjalasafn Vestmannaeyja, Bókasafn Vestmannaeyja og Byggðasafn Vestmannaeyja. Einnig er þar til húsa Ljósmyndasafn. Við Heiðarveg stendur Náttúrugripasafn Vestmannaeyja, en það er eina safnið af sinni gerð á Íslandi. Við Skansfjöru er húsið Landlyst, sem var áður staðsett á Tanganum, suður af Básaskersbryggju, en það hús var fyrsta fæðingarheimilið á Íslandi, og er það nú notað til listsýninga af ýmsu tagi. Ríkisstjórn Íslands keypti nýlega afnotarétt af myndum Sigmunds, sem hafa birst í áraraðir í Morgunblaðinu, og eru áætlanir um að setja upp safn þeirra í fyrirætluðu menningarhúsi.

Orðaforði og málfar

breyta

Algengt er að eldri Vestmannaeyingar tali með flámæli, en það er óalgengara meðal yngri kynslóðanna. Í einangruðum samfélögum á borð við það sem er í Vestmannaeyjum má búast við að nokkuð sértækur orðaforði verði til, en þó er flestan orðaforða eyjaskeggja hægt að finna annars staðar. Nokkur dæmi um algeng orð í tali Vestmannaeyinga:

  • peyji eða peyi — ungur strákur. Kom fyrst fram á 17. öld, ekki er vitað um upphaflegt stofnsérhljóð eða rétta ritmynd, en uppruni er óljós. Að öllum líkindum ekki tökuorð úr sænska orðinu poike eða danska orðinu pog. Uppruni mögulega tengdur orðinu pegi (sem þýðir „snáði“, „náungi“, „lítill kálfur“ eða „gemlingur“).[2]
  • pæja eða pæa — ung stúlka, tökuorð úr amerísku slangri pie (sem þýðir „baka“ eða „skorpusteik“), notað í óeiginlegri merkingu og á við sæta stelpu (samanber cutie pie or sweety pie)[3]
  • tríkot — íþróttagalli. Líklega tilkomið af nafni fransks fyrirtækis sem framleiddi íþróttagalla.
  • útsuður — suðvestur, í átt að eyjunum sem eru þar. Þekkt úr forneskju.
  • landnorður — norðaustur, í átt að meginlandi Íslands. Þekkt úr forneskju.
  • kar — það sem oftast er kallað ker (en þó stundum kar) á meginlandi Íslands.
  • tuðra — slöngubátur.
  • Norðurey — heiti yfir Ísland

Fleiri dæmi mætti tína til.

Þekktir Vestmannaeyingar

breyta
Sjá einnig, lista yfir bæjarstjóra Vestmannaeyja

Margir Vestmannaeyingar eru þekktir á landsvísu. Hér eru nefndir nokkrir þeirra:

Sjá einnig lengri lista yfir þekkta Vestmannaeyinga.

Þjóðhátíð

breyta

Fræg er þjóðhátíð Eyjamanna, sem haldin er ár hvert um verslunarmannahelgi og dregur til sín fólk alls staðar að af landinu. Til hennar var fyrst stofnað árið 1874, þegar eyjaskeggjar komust ekki til hátíðahalda í landi í tengslum við 1.000 ára afmæli Íslandsbyggðar og móttöku fyrstu stjórnarskrár landsins úr hendi Kristjáns IX, Danakonungs á Þingvöllum. Þá ákváðu Vestmannaeyingar að halda sína eigin hátíð. Sú hefð hefur verið að íþróttafélög bæjarins, áður Þór og Týr til skiptis en eftir sameiningu þeirra ÍBV, sjái um framkvæmd þjóðhátíðarinnar, og hljóti gróðann af henni.

Hátíðin er haldin í Herjólfsdal fyrstu helgina í ágúst og eru fastir liðir brenna, flugeldasýning og brekkusöngur, sem hefur verið undir stjórn Árna Johnsen í um áratug, að einu ári slepptu á meðan hann sat í fangelsi, en þá var Róbert Marshall fenginn til þess að hlaupa í skarðið.

Ginklofinn

breyta

Stífkrampafaraldur var í Vestmannaeyjum í margar aldir, sökum bágrar stöðu heilbrigðismála á landsvísu. Dánartíðni var há meðal ungabarna, um 60-80% barna dóu úr stífkrampa, sem kallaður var ginklofi, en annars staðar á Íslandi dóu um 30% barna úr þessum sjúkdómi, og 15-20% í Danmörku.

Thomas Klog, fyrsti landlæknir Íslands, var sendur til Vestmannaeyja með konunglegri tilskipun árið 1810 til þess að rannsaka orsakir ginklofans, og birti hann niðurstöður sínar í skýrslunni Indberettninger om Börnesygdommen Ginklofi. Seinna varð staða héraðslæknis í Vestmannaeyjum til, og gegndu Carl Ferdinand Lund, Carl Hans Ulrich Balbroe, Andreas Steener Iversen Haaland, August Ferdinand Schneider og Philip Theodor Davidsen því embætti hver á fætur öðrum frá árinu 1828. Þrátt fyrir héraðslæknana breyttist ástandið lítið, og engin breyting varð á dánartíðni barna þó svo að almenn heilsa Vestmannaeyinga skánaði.

Árið 1847 var Peter Anton Schleisner sendur til Vestmannaeyja til þess að rannsaka ginklofann. Hann hafði ritað grein um barnafarsótt árinu áður, og er það líkleg ástæða þess að hann var sendur. Hann setti á laggirnar fæðingarheimili í húsinu Landlyst, sem var þá fyrsta fæðingarheimili Íslands. Hann lagði til breytingar á hreinlæti við fæðingar, og benti líka á að hengja upp þvott til þerris á þvottasnúrum frekar en að láta hann liggja í grasinu — það kom svo í ljós að það var aðalorsök faraldursins, þar sem að sýkillinn clostridum tetani lifir í jarðvegi, og smitaðist yfir í fötin, og frá þeim inn um naflastreng barnanna.

Samgöngur

breyta
 
Herjólfur á leið til hafnar.

Farþegaskipið Herjólfur siglir til Vestmannaeyja. Aðeins eitt flugfélag stundar flugferðir til og frá til Vestmannaeyjum og er það Flugfélagið Ernir sem flýgur á Hornafjörð, Sauðárkrók, Bíldudal, Gjögur og Reykjavík. Forveri þess var Flugfélag Vestmannaeyja, sem missti rekstrarleyfi sitt í maí 2010.[4]

Á Heimaey eru 66 götur innan bæjarmarkanna, og nokkrar utan þeirra. Lengsta gatan heitir Vestmannabraut, en hét áður Breiðholtsvegur. Flestir íbúar búa við Áshamar en fæstir við Austurgerði, Njarðarstíg og Ofanleitisveg. Í götuheitum í Vestmannaeyjum er að finna nokkur íslensk heiti yfir götu eða veg. Orðin eru eru vegur, stígur, slóð, gata, braut, stræti, sund og traðir.

Á síðustu árum hafa miklar vangaveltur verið um hvort mögulegt sé að gera jarðgöng til Vestmannaeyja og hefur áhugamannafélagið Ægisdyr verið stofnað um gerð slíkra ganga. Vestmannaeyingar eru ekki allir sammála um að göng séu rétta lausnin, en þó eru eyjamenn upp til hópa sammála um að samgöngur milli lands og eyja þurfi að bæta.

Tilvísanir

breyta
  1. Sverrisson, Ólafur Björn. „Synti frá Eyjum í land til styrktar börnum á á­taka­svæðum - Vísir“. visir.is. Sótt 10. september 2022.
  2. Ásgeir Blöndal Magnússon (3. prentun mars 2008). Íslensk orðsifjabók. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. ISBN 978-9979-654-01-8. á blaðsíðu 708 undir „peyi“.
  3. Ásgeir Blöndal Magnússon (3. prentun mars 2008). Íslensk orðsifjabók. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. ISBN 978-9979-654-01-8. á blaðsíðu 734 undir „pæ(j)a“.
  4. Flugfélag Vestmannaeyja missti sjúkraflugið Geymt 14 júní 2011 í Wayback Machine Skoðað þann 10. desember 2010

Tenglar

breyta

Vísindavefurinn

breyta