Herjólfsdalur
Herjólfsdalur er dalur norðvestarlega á Heimaey í Vestmannaeyjum. Þar er þjóðhátíð Vestmannaeyja haldin ár hvert, fyrstu helgi í ágúst (verslunarmannahelgi).
Dalurinn er sagður kenndur við Herjólf, son Bárðar Bárekssonar og er hann talinn landnámsmaður Vestmannaeyja í Melabók og Hauksbók Landnámabókar og sonur hans hafi heitið Ormur auðgi. Þar segir að Herjólfur hafi búið í Herjólfsdal „fyrir innan Ægisdyr, þar sem nú er hraun brunnið“. Sturlubók segir aftur á móti að Ormur ánauðgi hafi verið landnámsmaðurinn og verið sonur Bárðar Bárekssonar, en áður en hann nam eyjarnar hafi þar verið veiðistöð og engra manna veturseta.
Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum hefur frá upphafi 1874 verið haldin í Herjólfsdal, nema árin 1973 og 1974, þegar dalurinn var svo illa farinn eftir Vestmannaeyjagosið að hún var haldin á Breiðabakka.
Fornleifarannsóknir
breytaÁrið 1924 gróf Matthías Þórðarson, fyrsti þjóðminjavörður Íslands, í tóftir sunnan megin við tjörnina í Herjólfsdal. Að hans mati voru þar þrjár rústir, eitt aðalhús eða langhús og svo tvö minni hús. Langhúsið var vallgróið og virtist vera eldra en hinar tvær tóftirnar. Hann var sannfærður um að þetta hafi verið bær sem Herjólfur Bárðarson byggði sjálfur.[1][2]
Á árunum 1971-1983 var gerður umfangsmikill uppgröftur í Herjólfsdal undir stjórn Margrétar Hermanns- Auðardóttur á sama stað og Matthías hafði grafið áður. Hún vann við uppgröftinn í 5 sumur en rannsóknin tafðist vegna elgoss í Heimaey árið 1973. Uppgraftarsvæði Margrétar var um 1300 m². Hún fann ummerki um 4-5 byggingarskeið sem innihéldu átta hús og garðhleðslur. Leifar dýrabeina úr húsdýrum, fuglum og fiskum fundust og varpa ljósi á efnhag hinna fyrstu Vestmannaeyinga. Margrét studdist ekki einungis við uppgröft á mannvistarleifum heldur einnig frjókornagreiningar sem sýna fram á verulegar breytingar á gróðurfari vegna ágangs manna. Á grundvelli rannsókna sinna setti Margrét fram þá kenningu að elstu leifarnar í Herjólfsdal væru frá 8. eða jafnvel 7. öld, og taldi hún að Ísland hefði almennt verið numið um það leyti en ekki í lok 9. aldar eins og flestir aðrir hafa talið.
Mikið hefur verið deilt um kenningu Margrétar[3] enda myndi hún gerbreyta upphafi Íslandssögunnar. Deilan snýst einkum um túlkun hennar á aldursgreiningum á geislakoli en hún taldi að þær sýndu að landnámsgjóskan sem lá undir mannvistarleifunum væri mun eldri en frá því um 900 eins og álitið var meðan rannsóknin var gerð. Seinna var sýnt fram á landnámsgjóskan féll um árið 871,[4] og hljóta því mannvistarleifarnar í Herjólfsdal að vera yngri en það, en ennþá er deilt um hvort mark eigi að taka á kolefnisaldursgreiningunum[5]
Í dag eru rústirnar í Herjólfsdal hluti af golfvelli heimamanna. Í október 2005 með frumkvæði Lista- og menningarfélagi Herjólfsdalsbæjar var hafist handa við að byggja nýja eftirlíkingu af Herjólfsbæ í anda upprunalega bæjarins og var takmarkið að hann yrði líkastur þeim bæ sem getið er í heimildum. Þeir sem stóðu að framkvæmdum bæjarins voru Árni Johnsen, Þórður Guðnason, Þorsteinn D. Rafnsson, Esra Ó. Víglundsson og Víglundur Kristjánsson.[6]
Tilvísanir
breytaHeimildir
breyta- „Fornleifar og ferðaþjónusta á Íslandi. Af ferlir.is. Skoðað þann 21. febrúar 2012“.
- Árný E. Sveinbjörnsdóttir 2010, '14C aldursgreiningar og nákvæm tímasetning fornleifa.‘ Árbók hins íslenzka fornleifafélags 2010, 5-28.
- Fornminjar í Herjólfsdal „Fornminjar í Herjólfsdal. Af ismennt.is. Skoðað þann 20. febrúar 2012“.
- Herjólfsbær.„Herjólfsbær. Af heimaslod.is. Skoðað þann 21. febrúar 2012“.
- „Herjólfsdalur. Af heimaslod.is. Sótt 6. febrúar 2010“.
- Kristján Már Unnarsson.„Ísland numið á árunum 700 til 750. Af visir.is. Skoðað þann 21. febrúar 2012“.
- Margrét Hermanns-Auðardóttir 1989, Islands tidiga bosättning. Studier med utgångspunkt i merovingertida-vikingatida gårdslämningar i Herjólfsdalur, Vestmannaeyjar, Island, (Studia archaeologica Universitatis Umensis, I), Umeå.
- Margrét Hermanns-Auðardóttir 1991, ‘The Early Settlement of Iceland: Results based on Excavations of a Merovingian and Viking Farm Site at Herjólfsdalur in the Westman Islands, Iceland.’ Norwegian Archaeological Review 24, 1-9.
- Matthías Þórðarson.„Herjólfsdalur. Af tímarit.is. Skoðað þann 24. febrúar 2012“.
- Páll Theódórsson 1997, ‘Aldur landnáms og geislakolsgreiningar.’ Skírnir 171, 92-110.
- Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson.„Kolefnisaldursgreiningar og íslensk fornleifafræði. Af timarit.is. skoðað þann 21. febrúar 2012“.