Heimaklettur er hæsti klettur Vestmannaeyja (283 m) og jafnframt einn útvarða Heimaeyjar í norðri. Þaðan er útsýni afbragðsgott, m.a. til allra úteyjanna, Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls en leiðin upp er talsvert brött.

Heimaklettur með blómstrandi lúpínu

Heimaklettur er móbergsstapi sem varð til við eldgos undir jökli fyrir um 13000 árum. Efsti partur fjallsins - kollurinn - er bólstrabergsmyndun, og er hann grasi vaxinn.

Undir klettinum, þar sem nyrðri hafnargarðurinn er nú kallast Hörgaeyri. Þar höfðu Eyjamenn hörga sína í heiðni skv. Ólafs sögu Tryggvasonar og síðar var þar reist fyrsta kristna kirkjan á Íslandi.

Norðan í klettinum er grasi vaxin brekka, sem heitir Dufþekja, eftir einum þræla Hjörleifs. Þar hrapaði þrællinn til bana, þegar menn Ingólfs Arnarssonar eltu hann. Eiðið milli Heimakletts og Klifsins, sem heitir Eiðið í daglegu tali, hét upprunalega Þrælaeiði, því að þrælar Hjörleifs sátu þar að snæðingi, þegar menn Ingólfs komu að þeim.

Austan við Miðklett er Klettsvík, þar sem kví háhyrningsins Keikós var komið fyrir árið 1998. Klettshellir í Ystakletti er skammt þar frá. Hellirinn er vinsæll meðal ferðamanna, og þar er oft komið við í bátsferðum og höfð stutt viðdvöl og jafnvel leikið á hljóðfæri á meðan á dvöl þar stendur, því að hljómburður í hellinum er með ágætum.