Sigmund Johanson Baldvinsen

Sigmund Johanson Baldvinsen (f. 22. apríl 1931, d. 19. maí 2012) var skopmyndateiknari og uppfinningamaður í Vestmannaeyjum. Sigmund fæddist í Noregi og kom til Íslands þriggja ára gamall. Faðir hans var íslenskur og móðir hans var norsk. Sigmund ólst upp á Akureyri en fluttist svo til Vestmannaeyja. Hann var kvæntur Helgu Ólafsdóttur en hún er ættuð úr Vestmannaeyjum.

Skopmyndateiknari

breyta

Fyrstu teikningar Sigmunds í blöðum eru frá árinu 1960 eða 1961 en þá gerði hann forsíður fyrir Vikuna og Fálkann. Sigmund var þekktastur fyrir skopmyndir sínar í Morgunblaðinu. Fyrsta mynd hans í Morgunblaðinu tengdist Surtsey og fyrstu landgöngu þar. Hún birtist í Morgunblaðinu 25. febrúar 1964.

Skopmyndateikningar voru í fyrstu aukavinna Sigmunds með starfi við verkstjórn í frystihúsum í Vestmannaeyjum en í Heimaeyjargosinu árið 1973 varð Sigmund fastráðinn við Morgunblaðið og var skopmyndateiknun aðalstarf hans frá þeim tíma.

Uppfinningamaður

breyta

Sigmund var uppfinningamaður en vélstjóri að mennt. Hann hannaði fiskvinnsluvélar og fann upp sjálfvirkan sleppibúnað fyrir gúmbjörgunarbáta.

Málaferli

breyta

Sigmund lenti í málaferlum út af skopmyndum sínum. Þýskur leynilögreglumaður var fenginn til landsins til að vinna að lausn Geirfinnsmálsins og Sigmund teiknaði skopmynd þar sem sást SS merki á búningi leynilögreglumannsins. Ritstjórar Morgunblaðsins voru dæmdir en Sigmund slapp við dóm því það vantaði eftirnafn hans við skopmyndina.

Íslenska ríkið kaupir skopmyndir

breyta

Þann 15. desember 2004 keypti íslenska ríkið tíu þúsund teikningar eftir Sigmund og hyggst gera þær aðgengilegar á netinu.

Heimild

breyta
  • „Spegilmyndir samtímans“. Sótt 28. febrúar 2006. Grein í Morgunblaðinu 16. desember, 2004