Malí
Malí er landlukt ríki í Vestur-Afríku og næststærsta land Vestur-Afríku. Malí á landamæri að Níger til austurs, Búrkína Fasó og Fílabeinsströndinni til suðurs, Gíneu til suðausturs, og Senegal og Máritaníu til vesturs. Í norður teygir landið sig inn í Sahara-eyðimörkina þar sem það mætir suðurlandamærum Alsír. Flestir íbúanna búa í suðurhluta landsins, við Senegal- og Nígerfljót. Í norðurhlutanum er hin goðsagnakennda borg Timbúktú.
Lýðveldið Malí | |
République du Mali | |
Fáni | Skjaldarmerki |
Kjörorð: Un peuple, un but, une foi (franska) Ein þjóð, eitt markmið, ein trú | |
Þjóðsöngur: Le Mali | |
Höfuðborg | Bamakó |
Opinbert tungumál | Franska |
Stjórnarfar | Herforingjastjórn
|
Forseti | Assimi Goïta (starfandi) |
Forsætisráðherra | Choguel Kokalla Maïga |
Sjálfstæði | frá Frakklandi |
• Viðurkennt | 22. september 1960 |
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
23. sæti 1.240.192 km² 1,6 |
Mannfjöldi • Samtals (2020) • Þéttleiki byggðar |
59. sæti 20.250.833 11,7/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2018 |
• Samtals | 44,329 millj. dala (107. sæti) |
• Á mann | 2.271 dalir (166. sæti) |
VÞL (2019) | 0.434 (184. sæti) |
Gjaldmiðill | Vesturafrískur CFA-franki |
Tímabelti | UTC |
Þjóðarlén | .ml |
Landsnúmer | +223 |
Saga
breytaMandéfólk settist að á Sahelsvæðinu við jaðar Sahara á miðöldum og þar urðu til nokkur stórveldi, s.s. Ganaveldið, Malíveldið og Songhæveldið. Lykilþáttur í myndun þessara ríkja var Saharaverslunin með gull, salt og þræla og Timbúktú var lykiláfangastaður á verslunarleiðunum um Vestur-Sahara og miðstöð kóransfræða. Borginni hnignaði með hnignun verslunarinnar, einkum eftir innrás frá Marokkó árið 1591 og á eftir fylgdi röð konungsríkja sem ekkert varð þó jafnstórt og Songhæveldið hafði verið.
Frakkar sóttu inn á þetta svæði upp úr 1880 og lögðu svæðið undir Franska Súdan eftir nokkra andspyrnu árið 1898. Þeir stjórnuðu því (mest óbeint með því að nýta þær valdastofnanir sem fyrir voru) sem hluta af Frönsku Vestur-Afríku.
Við samþykkt nýrrar stjórnarskrár í Frakklandi árið 1958 fékk svæðisþingið völd til að mynda ríkisstjórn með framkvæmdavald í þeim málum sem höfðu heyrt undir þingið árið 1956. Full heimastjórn fékkst svo þann 25. nóvember 1958. 4. apríl 1959 myndaði Franska Súdan Malísambandið ásamt Senegal og fékk fullt sjálfstæði 20. júní 1960. Senegal klauf sig 20. ágúst sama ár út úr sambandinu og 22. september lýsti landið sem áður hét Franska Súdan yfir stofnun Lýðveldisins Malí og sagði sig úr Franska samveldinu.
Stærsti stjórnmálaflokkur Frönsku Súdan var Union Soudanaise du Rassemblement Democratique Africain. Þegar landið fékk sjálfstæði lagaði forsetinn Modibo Keita stjórn landsins að flokksræði, hóf að þjóðnýta lykiliðngreinar í sósíalískum anda og tók upp náin stjórnmálatengsl við Austurblokkina. Efnahagsleg hnignun sem fylgdi í kjölfarið fékk stjórnina til að taka aftur upp CFA-franka og draga úr miðstýringu árið 1967.
Þann 19. nóvember 1968 gerðu herforingjar byltingu og við stjórn landsins tók herforingjaráð undir stjórn Moussa Traoré. Herforingjastjórnin reyndi að koma á efnahagslegum umbótum en tókst illa upp vegna innanlandsátaka og þurrka. Ný stjórnarskrá gekk í gildi 1974 sem kvað á um flokksræði og borgaralega ríkisstjórn en herforingjarnir sátu þó áfram við völd. Þegar forsetakosningar voru haldnar árið 1979 fékk Moussa Traoré 99% atkvæða. Árið1980 braut ríkisstjórnin á bak aftur stúdentamótmæli og þrjár tilraunir til valdaráns.
Árið 1985 kom til stuttrar styrjaldar við Búrkína Fasó út af Agacher-ræmunni. Á 9. áratugnum hóf ríkisstjórnin röð efnahagslegra umbóta í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn en þær aðgerðir ollu óánægju meðal almennings sem þurfti að þola neikvæðar afleiðingar þeirra. Ríkisstjórn Traorés reyndi að bregðast við með því að auka stjórnmálalegt frjálsræði án þess að hverfa frá flokksræði en óánægjan hélt áfram að vaxa og 1990 mynduðust stjórnarandstöðuhreyfingar. Fjölgun Túarega í norðurhlutanum jók enn á spennuna. Ótti við að stuðningur við aðskilnaðarhreyfingu Túarega í norðrinu ykist leiddi til þess að stjórnin barði niður öll merki um andspyrnu í norðrinu. Formlegur friðarsamningur var undirritaður 1991 en átök héldu samt áfram.
Kröfur um aukið lýðræði leiddu til frekari óeirða og eftir fjögurra daga mótmæli, þann 26. mars 1991, handtók hópur herforingja undir stjórn Amadou Toumani Touré Traoré forseta og ógilti stjórnarskrána. Mynduð var borgaraleg nefnd sem skipaði borgaralega ríkisstjórn. Samin voru drög að nýrri stjórnarskrá sem gerðu ráð fyrir fjölflokkakerfi. Í janúar og febrúar 1992 voru haldnar kosningar til þings, forseta og sveitarstjórna. Alpha Oumar Konaré var kjörinn forseti. Í þingkosningum 1997 hlaut flokkur hans 80% þingsæta. Í forsetakosningunum 2002 gat Konaré ekki boðið fram þar sem hann hafði setið tvö kjörtímabil og eftir klofning innan flokks hans vann Touré forsetakosningarnar sem óháður frambjóðandi.
Malíski herinn steypti Touré af stóli árið 2012 vegna óánægju með viðbrögð stjórnar hans við átökunum í Norður-Malí. Bráðabirgðastjórn tók við þar til kosið var um nýjan forseta árið 2013. Ibrahim Boubacar Keïta var þá kjörinn forseti Malí. Keïta vann endurkjör árið 2018 en árið 2020 þvingaði herinn hann til afsagnar vegna óánægju með efnahag landsins og áframhaldandi átök í norðurhluta landsins. Landið er nú undir herstjórn og herforinginn Assimi Goïta gegnir forsetaembættinu til bráðabirgða.
Landafræði
breytaMalí er 24. stærsta land heims. Það er því ámóta stórt og Suður-Afríka og tólf sinnum stærra en Ísland. Það er landlukt og loftslag er heittemprað og þurrt.
Landslag í Malí er að mestu flatt. Norðurhlutinn, sem tilheyrir Saharaeyðimörkinni, er hæðóttur og hulinn sandi. Í suðurhlutanum eru gresjur umhverfis Nígerfljótið. Sandsteinsklettarnir Adrar des Ifoghas eru í norðausturhlutanum. Mestur hluti landsins er í Saharaeyðimörkinni og þaðan blása þurrir og rykmettaðir vindar á þurrkatímanum.
Malí býr yfir þó nokkrum náttúruauðlindum og þar fer fram vinnsla á gulli, úrani, fosfötum, kaólíníti, salti og kalki.
Skipting í stjórnsýsluumdæmi
breytaMalí skiptist í átta héruð (régions) og eitt umdæmi (district), 49 sýslur (cercle) og 288 löggæsluumdæmi (arrondissements).
Héruðin og umdæmið eru:
Stjórnmál
breytaMalí er lýðveldi með fjölflokkakerfi og forsetaræði þar sem forseti Malí er bæði þjóðhöfðingi og leiðtogi ríkisstjórnarinnar. Núverandi stjórnarskrá landsins er frá 1992 og kveður á um að forsetinn, sem kjörinn er til fimm ára í senn, geti eingöngu setið í tvö kjörtímabil samfleytt.
Á þinginu (Assemblée Nationale) sitja 160 fulltrúar sem kjörnir eru til fimm ára í senn, 147 kjörnir í einmenningskjördæmum og 13 fulltrúar kjörnir af malískum ríkisborgurum erlendis. Átta flokkar eiga fulltrúa á þingi. Þeir stærstu eru Alliance pour la Démocratie en Mali-Parti Pan-Africain pour la Liberté, la Solidarité et la Justice með 53 fulltrúa og Rassemblement pour le Mali með 46 fulltrúa. Tveir þeir síðastnefndu eru aðilar að Alþjóðasambandi jafnaðarmanna.
Efnahagslíf
breytaMalí er eitt af fátækustu ríkjum heims. Landið er að nær tveimur þriðju (65%) eyðimörk eða eyðimerkurjaðar og nokkur langvarandi þurrkatímabil hafa gengið þar yfir á 20. öld. Landbúnaður er að mestu bundinn við svæðið umhverfis Nígerfljót. Um 10% þjóðarinnar eru hirðingjar en 80% lifa af landbúnaði og fiskveiðum. Iðnaður byggist að mestu á vinnslu landbúnaðarafurða. Helstu útflutningsvörur landsins eru baðmull og búfjárafurðir en námavinnsla fer ört vaxandi.
Efnahagslíf Malí er afar viðkvæmt fyrir verðsveiflum á baðmullarmörkuðum og landið er mjög háð erlendri fjárhagsaðstoð sem árið 1995 var tæpar 600 milljónir bandaríkjadala. Erlendar skuldir landins árið 1998 voru 3,1 milljarður bandaríkjadala.
Árið 1982 hóf landið röð efnahagsumbóta sem skiluðu miklum árangri í byrjun en síðan hægði á þeim og landið þurfti á mikilli fjárhagsaðstoð að halda 1987 til að koma í veg fyrir hrun. Í kjölfar samninga við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Alþjóðabankann 1988 hefur ríkisstjórn Malí einfaldað rekstrarumhverfi fyrirtækja og aflétt verðstjórnun í nokkrum skrefum. Um leið var hafist handa við einkavæðingu ríkisfyrirtækja.
Menning
breytaUm helmingur íbúa Malí eru Mandéfólk. Túaregar í norðurhlutanum eru um einn tíundi hluti íbúafjöldans. Um 90% íbúanna eru súnnímúslimar. Frönskulæsi er ekki mjög útbreitt og bundið við þéttbýlið. Margir íbúa eru þó læsir á N'Ko sem er stafróf útbreiddasta Afríkumálsins, bambara, eða arabísku.
Margir íbúa Malí hafa numið í kóranskóla á borð við Sankoreháskóla í Timbúktú, sem er einn af elstu háskólum heims.
Tónlistarmaðurinn Salif Keïta og söngkonan Déné Issébéré eru frá Malí.